Leita í fréttum mbl.is

Kópavogurinn

Kolla_11Í dag fór ég í hjólatúr og naut þess að skoða Kópavoginn hér vestanmegin. Það er alltaf gaman að fara um göngustígana meðfram sjónum og fylgjast með fuglalífinu. Sá meira að segja sel hér í Kópavoginum. Höfnin er líka sjarmerandi. Það var bara eins og maður væri komin heim á fornar slóðir. Oftast er það þannig að þegar maður fer af stað er einhver á röltinu sem maður þekkir og þá þarf að stoppa til að spjalla. Sumir þurfa líka að vita hvar maður er og því eins gott að hafa símann með í för :)  Allavega var ég mjög ánægð með að hafa drifið mig af stað á hjóli í þetta skiptið. Við erum sannarlega heppin Íslendingar með veður meðan kyngir niður snjó bæði í Evrópu og Ameríku eins og við höfum séð í fréttum undanfarið.  


Hamingjan verður ekki hertekin Eyjólfur

Kossinn eftir Gustav Klimt. Olía á striga (1907-1908).Nýlega fór ég á frumsýningu hjá Halaleikhópnum. Þar var sýnd tilfinningarík og stórbrotin ástarsaga þeirra Steinunnar og Bjarna á Sjöundá eftir Svartfugli Gunnars Gunnarssonar. Bæði áttu maka þegar þau hittust fyrst er Bjarni og Guðrún flytjast að Sjöundá, sem var kotbær á Barðaströndinni. Það var ást við fyrstu sýn. Ástir þeirra kostuðu bæði þau og maka þeirra miklar hörmungar og voru þau ásökuð fyrir morð á mökum sínum. Börn Bjarna og Guðrúnar fórust á flótta á leið heim að Sjöundá meðan hann sat í varðhaldi. Leikgerðin var afar skemmtileg og sagan sögð á myndrænan hátt. Tónlistin hélt manni föngnum í þessum gamla og ömurlega tíma sem sagan gerist á og sviðsmyndin flottur rammi utan um söguna.

Margir áttu þarna stórleik en í huga mínum sitja tvær senur sem eru þegar Steinunn og Bjarni eiga einkasamtal við Eyjólf kapellán sem Daníel Þórhallsson lék mjög sannfærandi. Sóley Björk, kom hinni sterku og fögru konu, Steinunni, vel til skila og fór á kostum þegar Steinunn bognaði í lokin undan sársaukanum og sektarkenndinni og áttaði sig á að hamingjan yrði ekki höndluð þrátt allt. Þröstur Jónsson sem lék Bjarna var sömuleiðis fanta góður sérstaklega þegar Bjarni opnar sig fyrir prestinum. Þá skein í mikla örvæntingu og sorg. Ekki út af dauða barnanna og yfirvofandi eigin dauðadómi, heldur miklu frekar því hvort fjötrar ömurlegs hjónabands munu líka halda í himnaríki.

Svar kapelláns féll mér vel í geð.

Þessi saga er gott dæmi um það hvað ástin er ofmetin.

Sjáið endilega leikritið. Það er ekki bara tveggja stunda skemmtun heldur eitthvað miklu meira.


Pólitísk samkennd

Samfylkingarkonan Sigrún Elsa SmáradóttirÞað er nú kunnara en frá þurfi að segja að pólitíkin er oft erfið og ósanngjörn, bæði fyrir þá sem í hanni starfa og aðra.

Margir hafa flogið hátt á pólitíska sviðinu og því fallið oft mikið og niðurbrjótandi fyrir viðkomandi. Aðrir hafa haft minni væntingar sjálfum sér til handa og því tekið dómi kjósenda með jafnaðargeði.

Enn er til fólk sem hefur áhuga á að koma að stjórnsýslunni til að hafa áhrif á samfélagið en ekki til að skara eld að eigin köku. 

Ég hef verið að hugsa um það í sambandi við prófkjör flokka hversu og hvort þau séu lýðræðisleg. Af hverju er fólk að gefa kost á sér í ákveðin sæti? Af hverju lendir sá/sú sem fær næstflest atkvæði samanlagt, í sjötta sæti. Hver ákveður hver býður sig í hvaða sæti. Alltaf segja leiðtogarnir að listinn sé góð blanda af fólki með reynslu og nýju fólki með ferskar hugmyndir. Ég gef ekki mikið fyrir það bull og blaður. 

Ekki efa ég það að þessi unga og glæsilega kona hefur átt betra skilið en dömp í sjöunda sæti. Eins og sjá má fær hún afnot af vasaklút fallistans Ingibjargar og það er eflaust einhver huggun af því. Hún má líka fá smá horn af vasaklútnum mínum.


Rosalegt

Óli í stuðiAlveg var magnað að fylgjast með strákunum okkar í dag. Nú var Ólafur í stuði og þeir allir. Þeir virtust ákveðnir í að komast áfram og var full mikið kapp í þeim á stundum. Ólafur á það til að vera með glannalegar sendingar þegar leikgleðin er að ná yfirhöndinni hjá honum. Það finnst mér skemmtilegast. Það er ólýsanlegt hvað það hefur góð áhrif á mann þegar þeim gengur svona vel. Nú er framundan lokahnykkurinn sem ræður því hvort þeir koma með málm heim úr þessari ferð. Sama hvernig það fer allt saman þá er ég þakklát fyrir þessa tilfinningaveislu sem ég hef fengið nú á miðjum þorra. Stolt og gleði voru tilfinningarnar í dag. Ekki sá ég betur en þjálfarinn væri einnig bugaður af tilfinningum þegar hann tileinkaði sigurinn einhverjum manni sem líklega tilheyrir liðinu á einhvern hátt. Hann hefur vissulega hjartað á réttum stað hann Guðmundur og er mikill eldhugi. Móðurtilfinningin var alveg að kæfa mig þegar ég sá hvað hann er mikið krútt. Til hamingju Ísland og til hamingju strákar. 

Bundnir við bryggju

óhappÚtgerðarmenn hafa ákveðið að grípa til ofbeldisaðgerða til að mótmæla fyrirhugaðri  leiðréttingu ríkisstjórnarinnar á kvótanum. Forsprakki LÍÚ, Friðrik Arngrímsson, talaði um ákveðna leið í Kastljósi ekki fyrir lögnu, sem var að sigla í land og binda bátana. Taldi hann þó afar litlar líkur á því að til slíks neyðarúrræðis kæmi.

Ekki biðu þeir boðanna í Vestmannaeyjum og hófu baráttuna fyrir opnum tjöldum með boðun fundar um málið.

Fundur þessi var vel sóttur og kom fram að sjómenn hefðu fjölmennt. Þarna var einnig árlegt meðlag ríkisins til útgerðarinnar, sjómannaafslátturinn, til umræðu. Um þann afslátt sýnist mönnum sitt hvað. Sumir hafa á móti því að sjómenn njóti skattafsláttar en flestir eru á því að þetta séu laun sem útgerðin eigi að borga en ekki almenningur í landi. 

Sjómenn hafa líklega verið uggandi um að það ætti að krukka í kjörin þeirra. Ég held þó að það hafi ráðið meiru, um góða mætinu þeirra, að menn hafi óttast um plássið sitt. Á stöðum þar sem allir þekkja alla eru dulbúnar hótanir afar öflugt stjórntæki. Stórútgerðarmenn eiga þessa staði með öllu meðtöldu, manni og mús.

Það hef ég skynjað á Vestamannaeyingum að þeim finnist enginn hafa vit á útgerð nema þeir. Aðrir séu bara öfundsjúkir landkrabbar. Kann að vera rétt, en ekki er ég sátt við það að þeir sem veiða skötusel við Snæfellsnes, svo dæmi sé tekið, þurfi að senda fúlgur fjár til Vestmannaeyja, kannski 20-25 % aflaverðmætis, fyrir ekki neitt, nema að fá að veiða skötusel. Hvaða réttlæti er í því ?

Ég hef mikla óbeit á svona yfirgangi og vona að ríkisstjórnin standi við stór orð Ólínu Þorvarðardóttur og taki þá bara af þeim leyfið ef þeir eru hættir að nota kvótann.


Hlýir straumar

Nú leika hlýir straumar um íslenska þjóð. Í rauninni er batinn byrjaður að mínu mati. Nú er ríkisstjórnin  aðeins að slaka á taumnum varðandi Icesave-ranglætið og farin að tala við stjórnarandstöðuna. Mér er sama hvað aðferð verður notuð til að afsaka framganginn til þessa. Vinir okkar Írar sýna okkur áhuga af því við getum staðið á móti ofureflinu og eigum mikla möguleika til uppbyggingar efnahagsins. Þeir benda réttilega á að það besta til bjargar sé krónan og sveigjanleikinn í stjórnun þessa litla ríkis. Það mætti til að mynda auka fiskveiðikvótann.

Þó ég sé sárasjaldan pólitískt sammála fyrrverandi bloggvinkonu minni, Ólínu Þorvarðardóttur, sem ég virði þó mikils, þá var ég mjög sammála henni í kastljósinu í kvöld. Talsmaður útgerðarmanna var eins og hálfgerður skúrkur og endaði á að snúa út úr fyrir henni. Öllum hlýtur samt að vera ljóst hvað hún var að segja enda setti hún fram sitt mál með afar einföldum og skýrum hætti. Skrýtið að Sigmar spyrill skyldi ekki spyrja Friðrik að því af hverju útgerðarmenn hefðu verið að kaupa hlutabréf í bönkunum. Eða hvað lánadrottnar segðu ef þeir ætluðu að hætta að veiða. Þau eru kannski ekki ver stödd en það útgerðarfyrirtækin að þau geta bara stoppað reksturinn en samt greitt af lánunum. Þau fá kannski greiðslufrest þangað til að yfirvöld hafa beygt sig. 

Nú er lag að leiðrétta kvótann. 

Björgunarsveitin okkar var fyrst á vettvang hinu megin á hnettinum þegar hörmungar riðu yfir Haíti og það gerir mann stoltan af sínu fólki.

Strákarnir okkar vinna vináttuleiki sína í handboltanum. Hverjum hlýnaði ekki um hjartað þegar ungu mennirnir tóku yfir leikinn við Portúgal og voru ekki síðri en gömlu mennirnir.

Ísland er alltaf best og slær nú öll met í góðu og mildu veðurfari um háveturinn.


Þjóðin mín ráðvillta

Það er ekki ofsagt að íslenska þjóðin er ráðvillt og tvístígandi. Það hefur verið óhugnanlegt að fylgjast með sveiflunum í fréttaflutningi og allri orðræðu. Ótrúleg orka hefur farið í það hjá ýmsum aðilum að blekkja og villa um fyrir þjóðinni í sambandi við þá spurningu sem allt hefur snúist um. Berum við ábyrgð á Icesave skuldinni ? Sumir hafa sett sig í spor sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi og látið eins og við séum að stela þeirra sparifé. Þetta var í gangi hjá sumu fólki löngu eftir að búið var að greiða fólkinu hverja krónu af viðkomandi yfirvöldum.

Einn bloggari fagnaði því að það væri brotist inn á heimili Íslendinga. Við værum búin að brjóta svo mikið á öðrum. Óttin, hræsnin og meðvirknin hafa leikið lausum hala og átt stórleik.

Viðbrögð þjóðarinnar hafa verið ótrúlega léleg og lin þegar kemur að því að standa á móti árásum erlendu viðskiptalandanna. Hvað varð um þrákálfana sem eignuð sér hafsvæðið í kringum landið og færðu það úr 12 mílum í 200?

Hvernig stóð á því að Bretar og Hollendingar könnuðu ekki hvað væri á bak við Icesave og aðra innlánsreikninga "íslensku" bankanna? Vissu þeir ekki að þetta voru einkabankar? Leiddu þeir aldrei hugann að því hvernig þessir einkabankar gátu boðið himinháa innlánsvexti umfram þeirra banka. Var ekki skrýtið að jafnvel fjármálaeftirlitið breska var komið í viðskipti við erlendan einkabanka frá örþjóðarlandi, ásamt ýmsum stórum félagasamtökum og sveitarfélögum. 

Hvernig stóð á því að íslenskir aðilar gátu aldrei gert grein fyrir hvaðan gróðinn kom? Þetta er ekki af íslenska rekstrinum, sögðu bankastjórarnir, heldur af erlendri starfsemi? Var þetta bara hlutabréfagróði reiknaður eins og margir hafa verið að reikna sinn hagnað og tap eftir að allt hrundi. Allt gert til að spila upp gengið og græðgisvæða þjóðina?

Það er ekki mitt geðslag að láta bera mig sökum og svara ekki fyrir mig. Ég segi því nei við lögin sem ganga út á að samþykkja Icesave 2. Ég hef alltaf sagt nei við ábyrgð íslensks almúga á þessu braski.

Ég held að íslenska þjóðin geti endurheimt álit heimsins á einu augnabliki ef hún segir nei, rétt eins og forseti vor þegar hann sagði nei og vísaði ákvörðuninni til þjóðarinnar.  

Það kann að vera að til þess að geta sest niður og fengið samþykkta, af viðsemjendum okkar, sanngjarna lausn byggða á sanngirni, siðferði og lagalegum grunni, þurfi fyrst að dæmi þá 135 aðila sem taldir eru bera ábyrgðina á þessu sem glæpamenn. Skiptir þá engu hvort þeir eru ráðherrar fyrrverandi eða ráðgjafar þeirra, eftirlitsaðilar sem brugðust, braskarar eða viðskiptajöfrar og bankaeigendur eða hvaða flokka þeir studdu áður og fyrr.

Stöndum saman, tryggjum sanngjarna lausn og tökum svo málið af dagskrá. 


Ung í anda

IMG_1376   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Elskuleg fjölskyldan mín mætti á undan mér í hús í fyrrakvöld og kom mér verulega á óvart með ópum og köllum. Uppákoman var í tilefni af sextugsafmæli mínu en ég var í útlöndum þegar það reið yfir. Þau voru með þraut, stafaleik, sem ég átti að ráða. Það vafðist ótrúlega fyrir mér lengi vel. Ung í anda var lausnin og hefði átt að liggja ljóst fyrir svona eftir á að hyggja ;) . Það var auðvitað veisla innifalin í þessu " sörpræsi" matur og drykkur auk afmælistertu. Síðan var farið í að syngja og skemmta sér eins og í gamla daga. Nú hætti ég að telja árin og lita hárin. Næsti áratugur verður tileinkaður heilbrigði og hreysti... eða aukinni sjálfhverfu..eða ....


Nýtt ár og ný tækifæri

Gala kvöld 01012007Nú er nýtt ár að ganga í garð. Það kann að boða breytingar fyrir marga. Það er í mínu eðli að aðlagast breytingum með jákvæðum hætti og syrgja ekki það sem liðið er. Reynslan hefur kennt mér að í öllum breytingum eru tækifæri til að njóta nýrra hluta og aðstæðna. Það er því ekki ástæða til að ríghalda í gamla tímann enda heldur maður sjálfur áfram að eldast, þroskast og batna ef eitthvað er. Ekki veit ég hvort ég á eftir að batna í golfi eða í dansi en það er alveg víst að með aldrinum lærist manni að njóta meira og betur þess sem gefur manni gleði og því stefnir allt í það að ég verði hamingjusamari en nokkru sinni fyrr á næsta ári. Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra og ég óska þess einlæglega að sem allra flestir fái notið hamingjunnar á nýja árinu.  


Stökkbreyttir jólasiðir

sveinki í golfiJólin eru búin að vera æðisleg. Góður matur, gjafir til og frá eins og hefðin mælir fyrir um og hýbýlin hlý, hrein og fín, skreytt út í hörgul. Það er legið í leti, lesið og farið í göngutúra en einhvernvegin er það ekki alveg nóg. Ég hef því ákveðið að taka smárassíu í golfinu þar sem ég hef trassað að æfa mig eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Það þýðir ekkert kæruleysi ef maður ætlar að halda titlum og bæta sig á komandi ári. Það er því stefnt á Spán nánar tiltekið La Sella, Denia norðan við Benedorm. Um er að ræða golfvöll sem hinn frægi M. Olazabal hannaði og er víst mjög vinsæll hjá Spánverjum. Gist verður á Marriott Hótel 5* sem þýðir að það fylgir hárþurrka. Hvert herbergi er með sjálfstæðum hitastilli, sjónvarpi, 3 símum, ekki veit ég til hvers, minibar sem má missa sig mín vegna, stórum fataskápum, skrifborði, bólstruðum stólum í setukrók hahaha, internet-aðgangi sem ég á nú eftir að sannreyna, straujárni og strauborði, baðsloppum og inniskóm. Því er lofað í auglýsingu á ferðinni að manni líði betur þarna en heima hjá sér. Ég stórefast um það en gaman verður að komast í golf og rifja upp gamla takta frá því í sumar. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 122263

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband