Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Draumur

Síðastliðna nótt dreymdi mig tvo drauma sem ég man. Annar situr rosalega í mér því hann var  svo raunverulegur að mér fannst þetta hafa gerst. Mér fannst ég koma inn á veitingahús sem ég taldi að væri svona af fínni gerðinni og fannst ég ætla að hitta einhvern þar inni. Á veggjarbút var fatahengi og ég ætlaði að fara að hengja yfirhöfn mína þar, en þá sé ég að það er heilmikill kóngulóavefur þar fyrir svo ég hætti við. Ég var að hugsa með mér hvort það væri ekki þrifið nægilega vel en mundi þá að kóngulær sem ég hef haft kynni af eru ótrúlega snöggar að vefa þannig að ég settist bara og lagði kápuna á stólbakið. Ég ákvað samt að vekja athygli afgreiðslustúlku á þessu og fer til að  benda henni á þetta. Þá sé ég að það er risastór kóngulóavefur sem liggur samsíða stórum vegg en þó svona 30 cm frá veggnum og er ábyggilega svona 8-10 fermetrar. Hann var algert snilldarverk. Ótal leggir og lykkjur sem lágu svo saman í miðjunni og svo margar miðjur eða hringir allan hringinn í kringum miðjuna.  Eins og listaverk heklað úr silki , silfurgrár, næstum hvítur eftir hvernig horft var eftir honum.  Engar flugur , engar kóngulær, enginn óhreinindi bara þessi listasmíð. Hann blakti aðeins eins og hann hreyfðist pínulítið undan stærð sinni og ég var algerlega heilluð.  Hvað skyldi þetta nú merkja? Það væri nú gaman að fá ráðningu.

Frænkukvöld

Lauga jóðlar_1Ekki var ég fyrr komin heim úr síðbúnu sumarfríi en ég hellti mér út í samkvæmislífið. Nú var það frænkukvöld og var óvenju langt síðan við hittumst síðast eða nánast tvö ár. Því miður voru fáar utan af landi enda kreppa að skella á en við vorum þó 15 samankomnar. Það var byrjað á Cafe Milanó en síðan var farið með hópinn í magadans og þar lærðum við tvo dansa. Við vorum nú misjafnlega þokkafullar með pallíettutuskur um lendarnar en allar reyndu sitt besta. Síðan var farið í mat þar sem boðið var upp á humarsúpu sem var frábær og grillaðar lambalundir með öllu tilheyrandi. Kiddi tengdasonur sá um þá hlið málsins. Eftirrétturinn var ís og kaffi. Þá var spjallað , spilað og sungið. Rúsínan í pylsuendanum var þegar Lauga, sem reyndist aldursforsetinn í þetta skiptið, tók gítarinn og jóðlaði af sinni alkunnu snilld. Við Arna Péturs vorum kosnar í næstu nefnd og verður nú erfitt að toppa frábæra frammistöðu þeirra Brimrúnar og Guðlaugar sem stýrðu þessu kvöldi.  Þær voru  frábærar þessar elskur. Kæru frænkur takk fyrir skemmtunina.

Gráðugar húsflugur.

Miðjarðarhafið heillarÞá er ég komin heim frá Tyrklandi þar sem ég spilaði golf í 8 daga, í sól og sumaryl, á dásamlegum stað sem gengur mjög nærri hugmyndum mínum um himnaríkisvist. Þrír ólíkir golfvellir og hótel upp á 5 stjörnur með leikhúsi þar sem stórsýningar voru á hverju kvöldi, barir þar sem meðal annars var boðið upp á karokee, verslunum þar sem allt var svo brjálæðislega dýrt eftir fall krónunnar að enginn keypti neitt, matsölustöðum með vestrænum mat, sundlaug og einkaströnd. Eina sem mér fannst ekki gott var að þarna voru venjulegar húsflugur (í útliti allavega ) sem bitu illilega en skildu ekki eftir neitt eitur þannig að það var bara sárt meðan þær voru að stinga mann. Þetta er ferð sem Úrval-Útsýn selur og toppar allt sem ég hef prófað hjá þeim. Ekki skemmdi nú fyrir að félagsskapurinn var góður og auk þess keppt í strandblaki með tilheyrandi stemmingu og hlátri. Við Lovísa Sigurðardóttir, vinkona mín og idol, vorum í góðum feeling og tókum hlaupasprettinn í fjöruborðinu á blautum sandinum og syntum smávegis í sjónum. Ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki sem ég náði ekki að kveðja í ferðalok þar sem verslun í fríhöfninni tók lengri tíma hjá mér en öllum öðrum en þakka þeim hér með fyrir samveruna ef einhver þeirra skyldi villast inn á bloggið mitt.

Gamalt viðtal-Kópavogsblaðið

Ég rakst á þetta viðtal við mig á Google og ákvað að eiga það á blogginu mínu eins og önnur viðtöl. Það athugist að það var tekið í apríl í fyrra fyrir kosningar og kreppu.

Viðtal við Kolbrúnu Stefánsdóttir oddvita F-listans í "Kraganum" - nánar

Hér á eftir fer viðtal við Kolbrúnu Stefánsdóttur ritara Frjálslynda flokksins og oddvita lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

 

Viðtalið birtist í blaðinu KÓPAVOGSBLAÐIÐ.

 

Þar segir Kolbrún frá sjálfri sér og sínum áherslumálum, og hefur frá mörgu að segja.

Málefni fatlaðra og aldraðra eru mér hugleiknust - segir Kolbrún Stefánsdóttir, sem leiðir lista Frjálslyndra í Suðvesturkjördæmi.

 

Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar og ritari Frjálslynda flokksins leiðir lista flokksins í Suðvesturkjördæmi við Alþingiskosningarnar 12. maí nk. Hún er Kópavogsbúi, býr á Huldubrautinni, er fráskilin tveggja barna móðir og á þrjá dóttursyni.

 

Hún er fædd og uppalin á Raufarhöfn, tók gagnfræðapróf í Lundi í Öxarfirði og hefur á lífsleiðinni bætt við sig í menntun og setið námskeið, m.a. starfsnám frá Verslunarskólanum, einkaflugmannspróf, ensku- og viðskiptanám í Englandi, rekstrar- og viðskiptafræðinám við Endurmenntunardeild HÍ auk náms í starfsmannastjórnun.

 

Starfsreynsla hennar er mikil, þar má nefna að Kolbrún er fyrsta konan sem varð útibússtjóri hjá Landsbanka Íslands og starfaði sem útibússtjóri í 25 ár.Auk þess hefur hún unnið sem forstöðumaður fræðslusjóðs, rekið félagsheimili, unnið við verslun, fiskvinnslu, síldarsöltun, leikskólastjórn, barnaskólakennslu, sem læknaritari og gjaldkeri frystihúss.

 

Kolbrún hefur átt mýmörg áhugamál, og gefur sér tíma til að sinna þeim. Hún spilar golf og situr í stjórn Landssambands eldri kylfinga; sat í sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps í 7 ár; hefur verið í kirkjukórum í fjöldamörg ár; félagi í Soroptimistahreyfingunni; hefur áhuga á dansi, blaki og boltaíþróttum .

 

En fyrst og síðast haft það að leiðarljósi að maður er manns gaman.

 

Bankastörfin hófust 1984 þegar Kolbrún tekur að sér starf forstöðumanns Landsbankans á Raufarhöfn en 1989 tók hún við útibúinu á Hellissandi. Þar starfaði hún í 3 ár og gerði miklar breytingar á rekstri og stjórnun. Árið 1992 bætir hún við sig útibúinu í Ólafsvík og rak þessi tvö útibú samhliða. Kolbrún segir að þarna hafi verið mikil samkeppni við Sparisjóð Ólafsvíkur og Búnaðarbankann í Grundarfirði og jafnvel við fjármálastofnanir í Reykjavík.

 

Mikill samdráttur í sjávarútvegi og kreppa í þjóðfélaginu hafi komið hart niður á Snæfellsbæ þar sem helstu atvinnuvegirnir eru trilluútgerð, fiskmarkaðir auk fisk- og rækjuvinnslu. Nánast hafi verið bannað að lána út á fiskverkunarhús og trillur en Kolbrún segist hafa gætt þess að gera ekki mannamun og afgreiða alla með sama hætti, en auðvitað hafi ekki allir verið sáttir við að fara bónleiðir til búðar.

 

Árið 1996 flyst Kolbrún til Reykjavíkur og tekur við starfi útbússtjóra Landsbankans að Suðurlandsbraut 18 og árið 1999 við starfi útibússtjóra á Höfðabakka.

 

Árið 2005 ákvað hún að hætta bankastörfum og tók að sér starf forstöðumanns Starfsafls, starfsmenntasjóðs Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins. Hún tók þátt í Evrópuverkefnum á vegum sjóðsins og ferðast til nokkurra landa til að taka þátt í mótun fræðslumála og verkefnavinnu.

 

Árið 2006 tók hún svo við núverandi starfi sem framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, og segir hún það vera fjölbreytt og vandasamt starf þar sem bæði þurfi að huga að fjármálum og félagslegum þætti þessa málaflokks en þar er yfirleitt um láglaunafólk að ræða.

 

Kolbrún segir að það hafi verið meira tilviljun en einlægur ásetningur hennar að hún hafi verið kosin ritari Frjálslynda flokksins. Pólitískur áhugi hafi alltaf verið til staðar en ekki talið það henta meðfram starfinu hjá Landsbankanum. Hún gekk í Frjálslynda flokkinn skömmu fyrir landsfundinn en hún hefur alltaf talið sig vera frjálslyndan jafnaðarmann og fylgjandi því að samfélagsþjónusta við borgarana væri fullnægjandi auk þess að allir eigi að njóta ávaxtanna af dugnaði sínum, en taumlaus græðgi eigi ekki upp á pallborðið.

 

Bara gaman að mæta þekktum andstæðingum

 

“Ég hef lengi verið sammála Frjálslynda flokknum í sjávarútvegsmálum og m.a. ósammála því að veðsetja megi kvóta. Það þarf að bjóða upp á nýliðun í greininni og gefa einyrkjum tækifæri til að gera út trillur í sjávarbyggðunum, annað býður aðeins upp á samþjöppun í greininni.

 

Mér fannst að nú hafi ég góðan tíma til að sinna stjórnmálum, og ákvað að slá til. Ég var búinn að ákveða að gefa kost á mér í fjármálaráð flokksins en þegar til þings kom voru fjórar konur búnar að gefa kost á sér til ritara, svo ég ákvað að slá til og gefa einnig kost á mér. Þarna tókust á tvær fylkingar og stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur voru búnir að velja þá konu sem þau vildu styðja, en ég kom á mínum eigin forsendum og varð eiginlega vonsvikin þegar ég heyrði Margréti styðja ákveðinn frambjóðanda í framboðsræðu sinni ekki síst þar sem ég kom inn í flokkinn gegnum hana.

 

Ég ætlaði ekki á þessum tímapunkti að fara í framboð en það fór ákveðið ferli í gang, eins konar spuni, sem endaði með því að mér var boðið að leiða listann, sem ég ákvað að þiggja, og þar með hella mér út í pólitísku baráttunna af krafti. Þetta er ný reynsla fyrir mig, og ég mun auðvita mæta pólitískum andstæðingum þótt þeir séu þekktir stjórnmálamenn og tveir þeirra eru ráðherrar.

 

Ég er að sjálfsögðu að fara í þetta framboð til að ná kjöri sem Alþingismaður og geri mér vonir um að við fáum tvo þingmenn í þessu kjördæmi. Ég vona að ég fái tækifæri til að sanna mig. Í öðru sæti er þingmaðurinn Valdimar Leó Friðriksson sem á fullt erindi á þing fyrir Frjálslynda og mér finnst það mun vænlegra en að Framsóknarflokkurinn fái tvo menn kjörna í þessu kjördæmi segir Kolbrún og hlær.

 

Í hvaða málaflokkum muntu helst beita þér ef þú nærð kjöri?

 

“Fyrst og fremst málefni fatlaðra og aldraðra og velferðarmál almennt. Einnig vil ég bæta hag kvenna sem eru ófaglærðar og komnar á minn aldur. Ég þekki ágætlega til málefna aldraðra þar sem ég á aldraða foreldra sem ekki geta eytt ævikvöldinu á sama stað eftir meira en 50 ára sambúð. Pabbi býr á Raufarhöfn en mamma á dvalarheimili á Þórshöfn. Hann fæst ekki til að fara á öldrunarheimili enda mjög sjálfstæður maður. Hann þarf hinsvegar heimilishjálp og heimahjúkrun en hún er af skornum skammti.

 

Þetta er algjörlega óþolandi staða sem er komin upp í málefnum aldraðra í þessu ríka þjóðfélagi. Það hefur sáralítið gerst í málefnum aldraðra síðustu 12 árin. Aldraðir á Íslandi sem hafa fært okkur þetta velferðarþjóðfélag sem við búum í eru undir meðaltali OECD-ríkja hvað varðar velferð. Ég set mér það markmið að koma öldruðum upp í 5. til 6. sæti á lista OECD-ríkjanna.

 

Í dag vinn ég hjá Sjálfsbjörg, svo málefni fatlaðra eru mér hugstæð. Það þarf að auka hjúkrunarrými um allt land og ég vil sjá í framtíðinni að aldraðir og fatlaðir geti valið þá þjónustu sem þeir þurfa og eiga rétt á og fengið hana heim til sín. Þeir sem geta búið heima eiga ekki að vera á stofnun nema þeir óski þess sjálfir eða heilsa þeirra krefjist þess. Ég vil líka sinna mun betur málefnum innflytjenda, en þau eru okkur Íslendingum ekki til mikils sóma í dag.”

 

Samgöngumálin í ólestri

 

Er ekki kvíðvænlegt að setjast á þing ef aðeins 29% landsmanna bera virðingu fyrir Alþingi samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup?

 

“Sumir hafa sagt við mig, hvernig dettur þér þetta í hug, þú býður bara upp á slæmt umtal um þig, verður í skotlínunni. En það er ögrun að vera í framboði, að taka þetta ekki inn á sig, láta sér ekki standa á sama um þjóðfélagið og reyna að láta gott af sér leiða.

 

Mér hefur ekki þótt það skynsamlegt af stjórnmálamönnum að rífa fyrst og fremst andstæðinginn niður í stað þess að tíunda eigið ágæti og segja kjósendum hvað þeir vilji gera í ákveðnum málaflokkum. Það er kannski þetta sem dregur úr virðingu Alþingis.”

 

En mál sem snerta þetta kjördæmi?

 

“Það sem mér finnst brýnast er að koma samgöngumálunum í Suðvesturkjördæmi í mannsæmandi ástand. Það er óþolandi hvað það tekur langan tíma að komast leiðar sinnar á álagstímum og það er eins og samgöngumál séu stundum eitthvað einkamál landsbyggðarinnar, en því fer fjarri,” segir Kolbrún Stefánsdóttir. 

sæl Kolbrún, gott lesefni hér fyrir ofan
- 18.4.2007 17:21:23 Mjög fróðleg og gott málefni sem þér styðjið og er ég ynnilega sammála með samgöngmálin í kringum höfuborgarsvæðisins, en það svæði var í svelti all lengi meðan verið var að gera þjóðveg 1 með endalega slitlag í hringin í kringum landið, og skilst mér að höfuborgarsvæðið hafi fengið á þessum árum um 15-17% vegamála peningapakkann frá Ríkistjórninni... Og ég veitað "það er allt gott sem kemur að norðan " :)))))
tgee
Sæl Kolbrún.
Eins og ég hef áður sagt þér hef ég verið afar hrifinn af hugmyndum flokks ykkar um frjálsar handfæraveiðar. Því miður hafa menn gengið á lagið og því eyðilagt afkomumöguleika annarra með gengdarlausum og óheftum sóknarleyfum. Þær veiðar hafa snúist upp í andhverfu sína með kvótaleyfisbraski þeirra er þær veiðar stunduðu.
gt Helgi BJARNASON


 


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband