Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Að ná markmiðum sínum

kolla golfi1Í vor gekk ég í golfklúbbinn GKG -Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar-og ákvað að vera dugleg að spila þetta sumarið. Ég setti mér markmið um áramótin og það var að komast undir 13 í forgjöf en þá var ég með 13,8. Ég var reyndar að vona að ég kæmist í öldungasveitina hjá þeim því þar er ekki eins mikil aðsókn og keppni og í gamla klúbbnum mínum GR-Golfklúbbi Reykjavíkur. Ég ákvað líka að eyða peningum í kennara og breyta sveiflunni. Það er gaman að segja frá því að ég notaði meistaramótið til að æfa nýju sveifluna og varð öldungameistari kvenna í GKG. Síðan hef ég spilað mikið og náð markmiðinu í forgjöf, komin í 12,3. Síðast og ekki síst þá tók ég þátt í sveitakeppni öldunga á Flúðum og þar unnu kellurnar út GKG sig upp í A-riðil og náðu svo bronsinu fyrir þriðja sætið í dag. Það var frábært að spila á Flúðum við konur sem eru hoknar af reynslu og mörgum sinnum betri í golfi en maður sjálfur. Afar þroskandi og lærdómsríkt. Það voru því kátar og þreyttar konur sem ég kvaddi á Flúðum í dag. 

Föðurmissir

Pabbi minnÉg keyrði norður á Húsavík sl. laugardag ásamt bróður mínum og systursyni. Erindið var að hitta föður sinn og afa á lífi í hinsta sinn. Hann hafði verið fluttur á sjúkrahús daginn áður, gamli maðurinn, í andnauð. Hann fékk öndunaraðstoð en í raun var líkaminn búinn að fá nóg. Ein systir mín kom frá Raufarhöfn en hin er í útlöndum. Hann lést tveimur klukkustundum eftir að við komum til hans. Þetta er önnur ferðin mín til hans á nokkrum dögum en ég var hjá honum 7. til 11. ágúst. Við áttum góðan tíma saman og ræddum um ýmis mál sem við höfum ekki rætt lengi. Hann sagði mér drauma sína um föður sinn og aðra látna ættingja. Hann sagði mér líka upplifun sína af því að missa réttindi til að keyra bíl vegna daprandi sjónar og hvað það hreppti hann í mikla fjötra en hélt í vonina um að það mætti laga. Við ræddum dauðann og þá trú sem ég hef varðandi hann og framhaldslífið. Það var auðheyrt að það var eitthvað sem honum hugnaðist vel og er ég að vona að það hafi tekið frá honum óttann sem ég held að flestir upplifi þegar kallið kemur. Eftir erfiða stund á sjúkrahúsinu keyrðum við heim á  Raufarhöfn um kvöldið og gistum í Brún. Á sunnudagsmorgun fórum við til Þórshafnar til að flytja móður okkar þessi sorgartíðindi. Eftir nokkra tíma með henni var keyrt í bæinn. Framundan er flókið ferli til að komast í gegnum útför með öllum þeim serimoníum sem því fylgja bæði hvað varðar trúarþáttinn og lagaþáttinn. Maður gengur alveg á vegg hvað þekkingu varðar í þeim efnum. Mér kom í hug hvort það fari ekki að koma upp sú staða í þjóðfélaginu að fólk hafi ekki ráð á því að grafa sína nánustu. Ég vil nota tækifærið og þakka sjúkraflutningamönnum og starfsfólki sjúkrahússins á Húsavík fyrir skjóta og góða þjónustu við pabba minn  og okkur aðstandendur.  

Á æskuslóðum

Lalli_Kaj_og_Kolla_StebbaEkki fer nú hjá því þegar maður hverfur til æskustöðva sinna á miðju sumri ,um hátind golfvertíðar, að maður leiði hugann eins langt aftur og verða má. Amma mín hefði orðið 115 ára í ár og hún er sú kona sem ég hef mest litið upp til um ævina. Systkini pabba eru mér hugleikin líka og þá sérstaklega Hörður. Hann var alla tíð barnlaus en sá ljúfasti maður sem ég hef kynnst og barngóður eftir því. Hann var stöðugt með okkur í bílnum hjá sér en hann var vörubílstjóri og keyrði mikið innan staðarins. Hann tók t.d. Lalla Kaj nánast að sér en hann var sonur Jonnu konu Munda, þriðja bróðursins. Ég var líka í uppáhaldi hjá honum og vorum við alltaf mestu mátar meðan hann lifði. Nú eru þau öll látin en ég við bestu heilsu og vona að þau vaki yfir mér sem og öðrum afkomendum. 

Sléttuganga

IMG_1060Fór norður föstudaginn 7. ágúst og ákvað á leiðinni að taka þátt í Sléttugöngu sem var farin laugardaginn 8.8. kl 8:00.  Átján manns voru með í þetta sinn. Gengið var frá túnfæti í Hóli, upp í Grashól sem löngu er kominn í eyði og þaðan þvert yfir Melrakkasléttu milli Leirhafnarfjalla og komið niður við spennistöðina ofan við Kópasker. Þetta eru 31 km og gengið nánast á jafnsléttu allan tímann. Við vorum komin í bíla á Kópaskeri kl 17:00 Það kemur sjálfsagt engum á óvart að þetta var heldur litlaus ganga og ekki margt sem fangaði augað. Ég var afar fegin þegar þetta var búið en jafnframt ánægð að hafa drifið mig. Fótafúin og þreytt fór ég í rúmið þetta kvöld og hugsaði til ömmu minnar sem hefði orðið 115 ára þennan dag. Það veit ég fyrir víst að  henni hefði þótt þetta heldur undarleg hegðun þar sem ég átti ekkert sérstakt erindi.

Vísuskot

kálfar 1Um daginn, í góða veðrinu, var ég að spóka mig í kjól og hælaskóm. Ég hitti af tilviljun fyrrum sambýlismann sem góndi svoleiðis á kálfana á mér að ég fór öll hjá mér. Þeir eru með sverasta móti núna og ég ekki ánægð með það. Ég er búin að þvælast á fjöll, arka um golfvelli, hamast í ræktinni og þetta hefur orðið til þess að kálfavöðvarnir eru alveg hroðalega stórir. Nema hvað að hann starir þar til ég segi höstug " Djö..ertu að glápa maður, það er ekki eins og þú þekkir ekki á mér bífurnar" og strunsa framhjá og inn í golfskála. Þegar ég kom til baka stóð hann glottandi á sama stað og sagði " mér datt bara í hug vísa" nú? já svona: 

Augun hvarfla upp að hné

hærra er ei hægt að vona

en hvernig ætli kýrin sé

fyrst kálfarnir eru svona.

InLove

Já sumir eru bara skemmtilegri en aðrir LoL.


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 121875

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband