Leita í fréttum mbl.is

Ljótu hálfvitarnir og góðverkin

Lífið á GjaldeyriÍ fyrrakvöld fór ég í Halaleikhúsið á frumsýningu á leikritinu Góðverkin kalla eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Þetta er gamanleikrit um lífið á Gjaldeyri við Ystunöf í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar og Margrétar Sverrisdóttur sem bæði eru margreynd, bæði sem leikarar og leikstjórnendur.

Mér fannst rennslið í uppfærslunni frábært og hiklaust enda fannst mér ég nýkomin þegar leiksýningu var lokið en samt búin að skemmta mér í langan tíma. Leikmyndin flott og passandi efninu. Þetta efni hentar sérstaklega vel fyrir þá sem búið hafa í sjávarþorpum og á minni stöðum úti á landi en annars bara öllum sem hafa minnsta vott af kímnigáfu.

Ég er farin að halda mikið upp á suma leikara Halaleikhópsins. Í þessu verki fannst mér Árni Salómonsson fara á kostum enda hlutverkið vítt og bauð upp á góða möguleika fyrir hæfileikaríkan leikara. Ég verð þó að hæla líka Sóley Björk sem lék drykkfelda þorpskerlingu ótrúlega sannfærandi og Daníel Þórhallssyni sem lék frekar sauðskan lögfræðing en auk leiktúlkunar hefur hann afar góða framsögn. Gunnar Gunnarsson sem lék Jónas (allra Jónasa) er bara alltaf góður sama hvaða hlutverk hann fær. Þetta var frábær skemmtun. Allir léku af innlifun og gáfu mikið af sér enda leikstjórnin greinilega góð. Hlátrasköll annarra gesta voru til marks um að ég var ekki ein um að skemmta mér.

Í fyrra sýndi Halaleikhópurinn stórleik í dramatísku verki, Sjöundá( Ágústa Skúladóttir lstj), eftir Svartfugli Gunnars Gunnarssonar og fór á kostum. Þar áður var það Gaukshreiðrið ( Guðjón Sigvaldason lstj ) en sú sýning var kosin athyglisverðasta áhugaleiksýningin 2007-8 og þá fengu þau Kærleikskúluna sem eru hvatningarverðlaun frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.

Sjáið endilega þessa sýningu. Hún er ótrúlega fyndin. Það mun enginn sjá eftir því enda efnið og andinn lýsandi dæmi um "kostuleg vinnubrögð Ljótu hálfvitanna". 


Kveðja til Benna

BENEDIKT VALTÝSSON
Benedikt Valtýsson fæddist í Reykjavík 8. október 1957. Hann lést af slysförum 14. janúar 2001 og fór útför hans fram frá Grafarvogskirkju 19. janúar 2001.
...............................................................................................................................................

Þegar sorgar titra tárin,

tregamistur byrgir sýn.

Huggar, græðir hjartasárin

hlý og fögur minning þín.

  

Kær vinur minn og mágur, Benedikt Valtýsson,  kvaddi þetta jarðlíf fyrir tíu árum síðan með sviplegum hætti. Það var gríðarlegt áfall og mikil sorg sem fylgdi, eins og gerist þegar slys og mannskaðar verða. Þetta á ekki síst við þegar mannkostamenn eru  hrifsaðir burt í blóma lífsins.

 

Þegar þetta gerðist fannst mér alveg dagljóst að ég myndi aldrei jafna mig. Það fór þó ekki svo og það sem meira er, að sú reynsla sem fólst í sorginni og sorgarferlinu varð mér mikill lærdómur um lífið. Ég var alveg niðurbrotin í tvö ár. Ég upplifði oft nærveru Benedikts í gegnum árin, eða þar til mig dreymdi draum sem ég hef túlkað sem skilaboð frá honum úr öðru lífi. Eftir þann draum, á einni nóttu, hvarf treginn og góðu minningarnar tóku yfir. Það var eins og allt í einu væri ég tilbúin að leyfa honum að fara og halda áfram í sínu lífi hinu megin við móðuna miklu. Auðvitað kemur enn fyrir að ég græt þennan atburð og harma hann en það er  meira vegna sjálfrar mín og annarra heldur en hans. Ég hef sannfærst um framhaldslíf eftir dauðann úr þessu lífi. Það er ákveðið þroskaferli sem tekur við fyrir handan og enginn ætti að kvíða því.

 

Ég veit að hann er nærri og fylgist með framvindu lífs barna sinna og annarra vandamanna. Ég veit líka að hann er ánægður með það líf sem hann lifir nú.

Þó ég eignist aldrei aftur vin eins og hann, þá eru minningarnar margar og góðar. Þær verða ekki frá mér teknar.

Því segi ég eins og skáldið sem sagði:

 

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margt að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért nú horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.


Fyrsti leikur okkar manna

Óli í stuðiÞá er handboltaveislan að byrja. Mikið er ég búin að hlakka til að fylgjast með henni.  Svíar, mínir menn, unnu sannfærandi í kvöld enda á heimavelli þar sem mótið er haldið í Svíþjóð. Mikil umræða hefur verið í sjónvarpinu, ekki bara allra landsmanna heldur líka Jóns Ásgeirs, um hvað og hvernig þetta muni nú fara. Hver spekingurinn eftir annan hefur verið að útmála skoðanir sínar og visku í blabla þætti Þorsteins J eins og við er að búast. Allir virðast hafa svooooo mikið vit á þessu. Allir þekkja einhvern os.frv.

Ég vona auðvitað að íslensku strákarnir eigi góða leiki og nái að halda sér á jákvæðu nótunum. Þeir virðast hafa náð langt í jákvæðri hugsun og sjá leikinn fyrir sér í huganum. Trúlega einhvers konar dáleiðsla. Það er nú eitthvað fyrir mig að taka til eftirbreytni í golfinu en þar á ég það til að vera full skapmikil og oftar en ekki er hugurinn kominn langt í burtu ef illa gengur. Stundum eins og ég sé bara alls ekki á staðnum. Það er víst kallað að missa einbeitinguna.

Ég, ólíkt mörgum, hef hálfgerða ónotatilfinningu fyrir leiknum á morgun en vona að það sé bara stress í mér. Allavega óska ég strákunum okkar alls hins besta en ég ætlast ekki til þess að þeir vinni sinn fyrsta leik.


Frægir íþróttamenn eða opinberar persónur

Eiður Smári GuðjohnsenNú er í gangi málaferli milli Eiðs Smára Guðjohnsen fótboltastjörnu og Dv-útgáfunnar. Eiður er ósáttur við framkomu þessa miðils í sinn garð þegar þeir birta upplýsingar um fjármál hans. Ef eitthvað er að marka Mbl. þá eru þetta stolnar upplýsingar eða leki úr bankakerfinu.

Ekki kemur það á óvart að Eiður með sínar rosalegu tekjur hafi tekið þátt í að fjárfesta í hlutabréfum og fyrirtækjum eins og flestir aðrir. Hann hefur sjálfsagt efni á því enn í dag. Það er líka alfarið hans mál hvað hann gerir við sitt fé. Hafi hann tekið lán til þess þá var það bankanna að taka viðeigandi tryggingar fyrir þeim lánum.

Í mbl. 8. janúar má lesa um málið og m.a. tilvitnanir í lögmenn viðkomandi aðila. Þar tjáir sig lögmaður blaðamanns, og að ég hygg bróðir hans, en hann virðist ekki þekkja sundur epli og appelsínur. Hann kallar Eið t.d. opinbera persónu. Mín skilgreining á því hugtaki er einhver sem er starfandi hjá hinu opinbera t.d. þingmenn, forsetinn og embættismenn og þeir sem ráða málum almennings með einhverjum hætti. Að heimsfrægur fótboltamaður sé opinber persóna af því að almenningur þekkir hann finnst mér fjarri sanni. Hann er bara fræg persóna.

Frægt fólk býr við bæði öfund og illmælgi en nýtur oft aðdáunar og forréttinda. Það gerir það ekki undanskilið lögum á hvorn veginn sem er. Er t.d. landsþekktur stjörnulögfræðingur, sjálfstætt starfandi, opinber persóna. Hvað með aðrar íþróttahetjur okkar t.d. Ólaf Stefánsson, Birgi Leif Hafsteinsson, Alfreð Gíslason og fleiri og fleiri. 

Fram kom í umræddri grein að lögmaður Inga Freys blaðamanns telur að Eiður hafi ekki amast við því þegar sagt var frá því í DV þegar honum gekk vel og þá eigi hann ekki að amast við slæmum fréttum. Þetta eru ótrúlega barnaleg rök og málinu óviðkomandi. Þetta mál snýst um lögverndaðan rétt einstaklings og brot á bankaleynd ef ég skil þetta rétt og kemur öðrum málum s.s. fréttum af afrekum í fótbolta eða skorti á þeim ekkert við.

Gunnar Ingi,  sem tekur að sér að verja þá feðga Reynir Traustason og Jón Trausta Reynisson, segir að vinni Eiður málið geti margir útrásarvíkingar gert kröfur á fjölmiðla landsins og er helst að skilja að það sé alveg ómögulegt. Eru það rök í málinu og á Eiður að líða fyrir útrásarvíkingana eða æsifréttamennsku sumra blaðamanna? Sjálf myndi ég ekki gráta það þó þessir sneplar færu lóðbeint á hausinn og eigendur þeirra með.

Báðir lögmennirnir bentu þeir á að Eiður hefði ekki sagt að þeir væru að fara með rangt mál. Mér finnst skrýtið ef lögmennirnir átta sig ekki á um hvað málið snýst í réttarsalnum. Það snýst ekki um hvort þetta var rétt eða rangt, það snýst ekki um peninga. Það snýst um það hvort það varðar hag almennings að vita um fjármál Eiðs og hvort þeir höfðu leyfi til að birta fréttirnar sem byggjast á stolnum göngum.    

Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvort við búum við réttarríki eða hvort fjölmiðlavaldið og stjörnulögfræðingarnir ráða enn ríkjum á Íslandi.


Árið 2010

Saudarkrokur2010 015Nú líður að áramótum. Eins og aðrir er ég farin að rifja upp og skilgreina árið sem er að líða. Var það gott eða slæmt? Hvað var gott og hvað slæmt? Stundum munum við betur eftir því slæma og mér hefur fundist það einkenna mannfólkið yfirleitt, að það á erfitt með að skilja við slæmu hlutina en hinir renna hjá eins og það sé sjálfgefið að allt sé gott og blessað.

Fyrir mér var árið mikið og stórt. Margt gerðist sem er ekki venjulegt hjá mér. Þetta var ekki beint erfitt ár en yfirhlaðið var það. Ný framkvæmdastjórn tók við hjá Sjálfsbjörg lsf og þar með nýr yfirmaður og nýjar áherslur. Meiri vinna í erlendu verkefnunum þremur sem við erum í en nokkru sinni fyrr. Ég hef fengið mikla reynslu í að ferðast á eigin vegum og við misjafnar aðstæður. Ég hef líka æfst í að standa fyrir stórum fundum og ráðstefnum með úrvals fyrirlesurum, en það virðist vera mikið framboð af þeim á Íslandi. Hálft sumarfríið er ótekið, en ég fór samt fimm stuttar ferðir til útlanda. Það voru helgarferðir til Helsingi og Þórshafnar í Færeyjum, en þangað hafði ég ekki komið áður, Köben sem er líka nýtt fyrir mér og einnig tvær vikuferðir til Spánar að spila golf bæði um páska og í haust.

Þrátt fyrir þetta rótleysi náði Amor að koma á mig voðaskoti. Nýr maður birtist í mínu lífi og hefur það verið ný reynsla að kynnast honum og hans afkomendum. Það verður svo bara að sjá til hvernig til tekst með það samband. Auðvitað er alltaf gott að vera í góðu sambandi. Árið var gott fyrir allt mitt fólk og mamma enn á lífi. Þegar ég sótti hana til Þórshafnar fyrir rúmu ári þá var það ávísun á allt illt og óðs manns æði að flytja hana langan veg. Hún er samt glöð og kát unir sér vel og er sannarlega gleðigjafi í mínu lífi og margra annarra.

Ágætur gangur var í golfinu hjá mér þrátt fyrir að missa af úrtökumótunum fyrir landslið LEK vegna helgarvinnu þegar mótin voru haldin. Ég náði þó að lækka mig úr 13,5 í 11,5 í forgjöfinni en náði ekki markmiðinu sem er 10. Tók líka þátt í að landa silfrinu í sveitakeppni öldunga fyrir minn klúbb, GKG, sem er bæting frá fyrra ári og ágætt þó við næðum ekki gullinu.

Það sem var mér erfiðast var að verða 60 ára og vera " að heiman" á þeim degi. Það tók mig 5 mánuði að finna dag til að halda veislu með vinum og vandamönnum, en það var líka herleg veisla og verður lengi í minnum höfð. Ég vil þakka perluvini mínum Tómasi Hallgrímssyni fyrir að leggja mínu fólki lið við að halda uppi stórkostlegri skemmtun fyrir mig og mína gesti. Sérstakar þakkir fær svo barnabarnið Viktor sem söng einsöng til ömmu sinnar. Ég þakka góðar gjafir og glæsilegar og hugsa með hlýhug til gefendanna. Besta gjöfin var auðvitað að eyða í mig undurfögru laugardagskvöldi í maí.

Einnig er ég afar þakklát þeim sem voru þátttakendur í Evrópuverkefnunum sem ég er í og ferðuðust með mér langan veg til að sinna þeim. Það eru góðar og skemmtilegar minningar sem maður safnaði bæði heima og heiman. Svo er það auðvitað kostur að mynda góð tengsl við samtök, félög og einstaklinga sem eru að vinna að sömu málum og við í Sjálfsbjörg. Vonandi nýtist það bæði okkur og þeim þó síðar verði.

Jú þetta var æðislegt ár :) takk fyrir það.


Gullkistan -jólakveðja

HeimaSenn koma jólin og allt sem þeim fylgir og fylgja ber. Það hefur truflað mig undanfarin ár, á jólaföstunni, sú vitneskja að margir hafa mikla mæðu af jólahátíðinni og þeim kröfum sem henni fylgja. Síauknar kröfur um jólatilstand og gjafir kalla á taumlausa kaupmennsku, í frelsarans nafni, sem ekki hefur farið vel í alla. Það eru því misskemmtilega upplifanir sem fylgja jólum. Nú óttast ég að það hafi fjölgað í þessum hópi út af þeirri kreppu sem þjóðin er í.  

Myrkur og kuldi er oftast fylgifiskar þessarar árstíðar og hefur auðvitað ekkert með jólin að gera. Jólin eru hinsvegar tilefni til að tendra meiri ljós en venjulega og margir  skreyta heimili sín út í flest horn með fallegum og mildum ljósum. Vonandi virkar það upplífgandi á sálarlíf sem flestra.

Nú er viðbúið að enn lengist í matarbiðröðum hjálparstofnana þar sem fólk þarf að nota aurana í annað. Þessar matarbiðraðir eru til stórskammar fyrir vestrænt nútíma þjóðfélag. Ég óttast að fólk aðlagist þessu sem er alls ekki gott mál. Margar fínar lausnir eru til að tryggja að fólk fái í sig og á án þess að standa i biðröð. Það er hinsvegar stjórnvalda að breyta þessu og sjá til þess að enginn búi við fátækt á Íslandi.

Ekki er ástandið í þjóðfélaginu upplífgandi fyrir þjáðar sálir og reyndar ekki fyrir neinn. Ótrúlegar fréttir berast daglega um ákærur og umvandanir ýmiss konar. Sumar fréttir svo óraunverulegar að maður veit ekki hvernig á að bregðast við.

Getuleysi stjórnarandstöðunnar er trúlega í sögulegu hámarki um þessar mundir ef marka má skoðanakönnun Gallup um aukinn stuðning við ríkisstjórn sem fæstir skilja hvað er að gera, ef hún er þá að gera  nokkuð.

Í árslok 2010 er loks í augsýn það samkomulag um aðgerðir í málefnum heimilanna sem ríkisstjórnin býður upp á. Í síðustu kosningum 2009, fyrir einu og hálfu ári, vorum við í Frjálslynda flokknum með ákveðnar tillögur um lágmarksvarnir fyrir heimilin sem fólust í leiguréttindum til þeirra sem voru að missa heimili sín og um leiðréttingarhugmyndir skulda heimilanna, um að miða endurgreiðslu lána við greiðslugetu og færa höfuðstól lána í það sem hann var fyrir hrun. Þær tillögur gengu mun lengra og voru réttlátari en þær sem nú eru í boði. Fólk hefur þurft að bíða milli vonar og ótta um að missa heimili sitt allan þennan tíma meðan verið er að afskrifa og hagræða fyrir stórskuldara og sægreifa.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem nú eru á borðinu eru rýrar í roðinu og flestir sammála um að þær séu nánast sjónarspil sem bæði mismuna fólki og gangast lítið. Í kjölfar þeirra aðgerða biður svo Samfylkingin, sem er ráðandi flokkur í ríkisstjórn, þjóðina afsökunar á að hafa staðið að hruninu, ásamt fleirum að vísu, og klúðrað málum stórkostlega. Um það geta flestir verið sammála.

Kannski þjóðin fyrirgefi og gleymi en mér hefði þótt við hæfi að þeir ráðherrar sem störfuðu í ríkisstjórninni 2008 og tóku ekki til varna fyrir þjóðina segðu nú af sér til að hægt sé að taka mark á þessari afsökunarbeiðni.

Ég óska lesendum Gullkistunnar gleðilegra jóla og þjóðinni allri friðar og farsældar á nýju ári.

 


Skýjum prýddur Skagafjörður

Saudarkrokur2010 007                                         

 

 

 

 

 

 

Ég átti erindi á Sauðárkrók og ekki var um annan dag að ræða en fyrsta dag desembermánaðar. Ég varð að keyra þar sem ekki er flogið þangað alla daga. Ekki finnst mér nú leiðinlegt að keyra um þjóðvegi landsins og hef gert mikið af því síðustu 20 árin. Mér fannst samt frekar verra að nú spáði hálku á heiðum og snjó fyrir norðan. Ég er ein af þeim sem hef tröllatrú á nagladekkjum en nota þau ekki. Það var því með smá óhug sem ég hélt af stað í birtingu.

Brátt léttist lundin og söng ég hressilega með norskri danshljómsveit á leiðinni norður. Ég setti mér það að vera á löglegum hraða eða því sem næst og setti "krúsinn" á. Stoppaði á Blönduósi í pylsu og kók.

Nú var komið að því að fara leið sem ég hafði ekki keyrt áður en þetta var í annað skipti sem ég heimsæki Sauðárkrók. Hitt skiptið var fyrir 25 árum þegar ég fór með eldri dótturina í framhaldskóla þar, en við bjuggum þá á Raufarhöfn. Nú keyrði ég að sunnan og því fór ég niður í átt að Skagaströnd og yfir Þverárfjall og þannig á Krókinn. 

Ég var alveg heilluð af fegurð náttúrunnar þó hún væri hulin snjó. Hvítt og frítt skartaði landið mikilli fegurð. Þá var skýjafar afar sérstakt og heillandi og það svo mjög að ég var alltaf að stoppa til að taka myndir á nýju vélina mína. Ég hélt á tímabili að ég væri að upplifa heimsókn geimvera því ský voru eins og fljúgandi furðuhlutir. Glitskýin voru einstök og mikið um græna og fjólubláa liti. Þetta hafði ég ekki séð áður hvorki hér heima né annars staðar.

Á Sauðárkróki var ísing á götum og mér þótti menn keyra fullhratt um strætin. Það var mikið skreytt og jólaljós í flestum gluggum. Alger jólabær. Að loknu erindi keyrði ég svo til baka en var hálf draugahrædd á fjallinu. Heim komst ég án þess að verða vör við löggu hvað þá meira.  


GKG flottur klúbbur

Golfmyndir júlí 002Ég reyni venjulega að mæta á aðalfund í þeim klúbbum sem ég er í hverju sinni. Ég fór því á aðalfund GKG sem haldinn var í gærkvöld, ein og með hálfgerðan hundshaus.

Ég hafði eytt deginum í að koma mér til Íslands eftir stutta dvöl í Danmörku. Þrátt fyrir mesta veðurfarsóskunda í flugsögu Dana í 22 ár komst ég heim fyrir rest og náði á umræddan fund.

Það kom mér ekki á óvart að fáar konur voru mættar. Einhverra hluta vegna eru þær mun lélegri í að mæta og sýna þessum þætti félagsstarfsins áhuga. Mér finnst það undarlegt og get ekki vorkennt konum þó þær séu ekki hátt skrifaðar í þessari íþrótt, þegar þær nenna ekki að láta sig málefni klúbbsins varða og mæta á aðalfund einu sinni á ári.

Hagnaður var á starfsemi klúbbsins 2010 upp á 23 milljónir. Í ljósi þess hafði stjórnin ákveðið að hækka ekki árgjöld en nú verða tekin upp, að hluta til, innritunargjöld fyrir nýja félagsmenn á aldrinum 20-67 ára. Þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fjölgun hefur orðið í klúbbnum og fjöldi manns á biðlista. Þetta er nú annar stærsti klúbbur landsins með 1730 meðlimi. Ákveðið  var að halda félagafjölgun í skefjum. Það hefur verið einn helsti kostur þessa klúbbs að það er yfirleitt hægt að komast að með stuttum fyrirvara, ef ekki á Leirdalinn þá allavega Mýrina. Leirdalurinn er auðvitað meira spennandi þar sem hann er 18 holu völlur en Mýrin bara 9 holur. Báðir vellirnir eru þó krefjandi og skemmtilegir.

Barna- og unglingastarfið  í klúbbnum er til fyrirmyndar sem og annað og allt svo yfirgengilega flott , stórkostlegt og frábært að menn misstu sig alveg og voru farnir að mæra hver annan í hástert, vitnandi í að þeir væru frábærir skólabræður, mjög vel giftir, fyrirmyndar nemendur, stórkostlegir lærimeistarar og svo framvegis. Það er óhætt að fullyrða að karlarnir áttu sviðið og notuðu það óspart.

Ég verð alltaf ánægðari með þá ákvörðun mína að ganga í þennan vaxandi klúbb sem skartar einkar fallegum völlum og einn af örfáum sem markað hafa sér umhverfisstefnu sem einnig er til fyrirmyndar.

Ég fékk alveg ótrúlega löngun til að fara að spila golf bara við að hugsa um þessi mál. Ég er ákveðin í að bæta mig verulega næsta sumar og læt ekki deigan síga þó markmiðið hafi ekki náðst í ár.

Nú er bara að æfa sveifluna í vetur og sjá hvað gerist næsta sumar.


Helsinki -snöggsteikt hreindýr

Helsinki 002Stutt helgarferð til Helsingi er eitthvað sem maður er ekki að hugsa um daglega dags. Það var því óvænt ánægja þegar mér gafst tilefni til að segja af eða á hvort ég hefði áhuga á að vera með í ferð þangað. Ég sló til og fór þangað með hópi starfsmanna hjá Landsvirkjun og mökum þeirra. 

Við gistum á Radisson Blu Royal sem er staðsett á besta stað í miðborginni, rétt við brautarstöðina. Fimmtán mínútur tekur að koma sér gangandi í stærsta mollið sem heitir Stockman og er farið fram hjá mörgum verslunum á leiðinni. 

Ég hafði meiri áhuga á að kynnast borginni en búðunum og varð ekki fyrir vonbrigðum með þá leiðsögn Friðriks Ottesen sem við fengum á sunnudeginum.

Farinn var stór hringur um borgina og okkur bent á helstu kirkjur og byggingar sem voru sérstakar hvað varðar arkitektúr eða áttu sér einhverja sögu. Við fórum inn í kirkju sem byggð var af Rússum til minningar um dauða Mariu meyjar. Eins og í flestum kirkjum var þar mikið safn listmuna og yfirdrifið skraut og skartgull um alla veggi. Flestar kirkjur þarna eru óaðgengilegar hjólastólafólki.

Mér finnst með ólíkindum hvað klerkar hafa verið sniðugir að yfirtaka öll þessi listaverk bæði máluð og meitluð í málma. Það viðheldur athyglinni á trúnni og ósjálfrátt tengja menn í huganum trúna við gæði út af þessu.

Eina kirkju skoðuðum við svo sem er mjög ólík öðrum vegna þess að hún er byggð inn í klettahring og skartar glerþaki að mestum hluta. Helsta skraut hennar er náttúran sjálf í mikilfengleik sínum. Hún er næstum neðanjarðar miðað við aðrar kirkjur sem tróna á hæstu toppum hverrar byggðar og á stærri stöðum eru það kirkjurnar sem skaga uppúr þegar litið er yfir borgirnar. Klettakirkjan, sem er með fullt aðgengi fyrir alla, var í 10 mínútna gönguleið frá hótelinu og er sú magnaðasta sem ég hef séð og hef þó heimsótt Péturskirkjuna í Róm og margar fleiri stórkanónur.

Leiðsögumaðurinn skýrði fyrir okkur stöðu þjóðfélagsins í Finnlandi. Finnar eru um 6 milljónir og þar af 300 þúsund sem eru sænskumælandi. Þessi minnihluti hefur alltaf haft ákveðinn status í finnsku samfélagi frá því landið tilheyrði Svíþjóð. 

Nú eru uppi í samfélaginu mikil átök um sænskuna og stöðu sænskumælandi hópa. Margir Finnar eru farnir að vera með hótanir í þeirra garð og neita að læra og tala sænsku. Þetta virtist valda þessum ágæta leiðsögumanni áhyggjum enda giftur sænskumælandi finnskri konu. 

Atvinnuleysi er um 10 % og svo er að skilja að Evrópusambandsstyrkir séu búnir að rústa samkeppnisstöðu málmiðnaðar í Finnlandi og því fer atvinnuleysi þar vaxandi. Hann talaði um það sem Finnar hefðu gert rangt í kreppunni 1990-1992, sem var vegna þess að Rússneskt efnahagslíf hrundi, og Finnar, eins og við nú, voru með mikið af erlendum lánum, bæði fyrirtæki og einstaklingar. Nú er að vaxa upp kynslóð sem hefur alltaf verið atvinnulaus.

Finnar voru alltaf á varðbergi fyrir útlendingum og því lítið um innflytjendavandamál þar miðað við önnur norðurlönd.

Í borgarastyrjöld í kjölfar Vetrarstríðsins 1919 voru það tvö öfl sem börðust í Helsingi. Rauðliðar sem vildu sameinast Rússum voru yfirbugaðir af Mannerheim og hans mönnum sem vildu fullt sjálfstæði Finnlands og kölluðust Hvítliðar. Rauðliðar voru síðan vistaðir, eftir mikið mannfall úr þeirra röðum, í eyjum rétt við Helsinki (Helsingfors þá) sem heita nú einu nafni Sveaborg. Sveaborg var áður varnarvirki fyrir landið gegn Rússum með miklum fallbyssum og virkjum. Þangað eru nú ferjuferðir oft á dag og tekur um 15 mínútur að sigla þangað. Þessar minjar eru nú á minjaskrá Sameinuðu Þjóðanna og friðaðar. Ég mæli með að menn geri sér ferð þangað þegar komið er til Helsingi.

Frelsishetja  Finna ,Mannerheim, var hershöfðingi sem hafði lært í Rússlandi. Þegar Rússar hugðust leggja landið undir sig 1939-1940 var hann kallaður til og leiddi þá Finna til baráttu fyrir sjálfstæði sínu til sigurs á Rússum.

Finnar fengu sjálfstæði frá Rússum 1917 og gengu í SÞ 1955 , OECD 1969 og Evrópusambandið í kjölfar kreppunnar 1995 og hafa ekki borið sitt barr síðan. Þá var Mannerheim, sjálfstæðissinninn og frelsishetja Finna illu heilli fallin frá en hann lést 1951.   

 


Vestfirðir

sumarfrí 058Það er ekki ofsögum sagt að fegurð Íslands er mikil og óvíða eins mikil og á Vestfjörðum þegar náttúran er eins og unaðslegt málverk og kyrrðin eins og andakt alheimsins. Þá er eins og sálin sé úthverf í manni og hamingjan ætlar bókstaflega að brjóta sér leið út úr líkamanum. Brosið fast á manni og allt í einu er maður orðin eins og barn sem er að uppgötva heiminn. Sjáðu, sjáðu þetta, vá, þvílík fegurð.

Ég fór um Ísafjörð, Bolungavík, sem nú er bara rétt við bæjardyrnar hjá Ísfirðingum, og Þingeyri þar sem ég spilaði einn versta golfhring minn í sumar. Það var ekki hægt að einbeita sér að vellinum þegar útsýnið er eins og þar þennan dag. Mín uppáhaldsbraut er einmitt þar og er númer 7. Par 3 braut um 100 metrar. Já náttúran í sínum haustlitum er ótrúleg á þessum fjallakjálka.

Á heimleiðinni fór ég vesturleiðina þ.e. yfir Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, Tröllaháls og hvað það nú heitir og kom niður í Flókalundi. Þessi leið er ótrúlega flott og hrikaleg. Vegurinn fer upp í 500 m hæð yfir sjávarmáli á hæstu köflunum.  Heimamenn á Ísafirði sögðust margir vera hættir að fara þessa leið en nota malbikið í staðinn og fara norður fyrir og niður um Bröttubrekku í Borgarfjörð. Mér finnst að ferðamenn, erlendir og innlendir, ættu endilega að fara vesturleiðina og mér finnst hún megi alls ekki leggjast af. Það var ægifagurt að sjá svo eftir Breiðafirðinum í Snæfellsjökul. Þá var náttúran allt í einu í pastellitunum, bleik, ljósblá og ljósgrá.

Þessi yndislega reisa mín endaði svo með ótrúlega fögrum stjörnuhimni með stjörnuslæðu og norðurljósum þegar komið var í Borgarfjörðinn enda komið niðamyrkur og greinilega kuldi í háloftunum þó þessi dagur hafi verið hlýr og góður.  

Ég elska Ísland og mest á haustin ;)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 122011

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband