Leita í fréttum mbl.is

Frægir íþróttamenn eða opinberar persónur

Eiður Smári GuðjohnsenNú er í gangi málaferli milli Eiðs Smára Guðjohnsen fótboltastjörnu og Dv-útgáfunnar. Eiður er ósáttur við framkomu þessa miðils í sinn garð þegar þeir birta upplýsingar um fjármál hans. Ef eitthvað er að marka Mbl. þá eru þetta stolnar upplýsingar eða leki úr bankakerfinu.

Ekki kemur það á óvart að Eiður með sínar rosalegu tekjur hafi tekið þátt í að fjárfesta í hlutabréfum og fyrirtækjum eins og flestir aðrir. Hann hefur sjálfsagt efni á því enn í dag. Það er líka alfarið hans mál hvað hann gerir við sitt fé. Hafi hann tekið lán til þess þá var það bankanna að taka viðeigandi tryggingar fyrir þeim lánum.

Í mbl. 8. janúar má lesa um málið og m.a. tilvitnanir í lögmenn viðkomandi aðila. Þar tjáir sig lögmaður blaðamanns, og að ég hygg bróðir hans, en hann virðist ekki þekkja sundur epli og appelsínur. Hann kallar Eið t.d. opinbera persónu. Mín skilgreining á því hugtaki er einhver sem er starfandi hjá hinu opinbera t.d. þingmenn, forsetinn og embættismenn og þeir sem ráða málum almennings með einhverjum hætti. Að heimsfrægur fótboltamaður sé opinber persóna af því að almenningur þekkir hann finnst mér fjarri sanni. Hann er bara fræg persóna.

Frægt fólk býr við bæði öfund og illmælgi en nýtur oft aðdáunar og forréttinda. Það gerir það ekki undanskilið lögum á hvorn veginn sem er. Er t.d. landsþekktur stjörnulögfræðingur, sjálfstætt starfandi, opinber persóna. Hvað með aðrar íþróttahetjur okkar t.d. Ólaf Stefánsson, Birgi Leif Hafsteinsson, Alfreð Gíslason og fleiri og fleiri. 

Fram kom í umræddri grein að lögmaður Inga Freys blaðamanns telur að Eiður hafi ekki amast við því þegar sagt var frá því í DV þegar honum gekk vel og þá eigi hann ekki að amast við slæmum fréttum. Þetta eru ótrúlega barnaleg rök og málinu óviðkomandi. Þetta mál snýst um lögverndaðan rétt einstaklings og brot á bankaleynd ef ég skil þetta rétt og kemur öðrum málum s.s. fréttum af afrekum í fótbolta eða skorti á þeim ekkert við.

Gunnar Ingi,  sem tekur að sér að verja þá feðga Reynir Traustason og Jón Trausta Reynisson, segir að vinni Eiður málið geti margir útrásarvíkingar gert kröfur á fjölmiðla landsins og er helst að skilja að það sé alveg ómögulegt. Eru það rök í málinu og á Eiður að líða fyrir útrásarvíkingana eða æsifréttamennsku sumra blaðamanna? Sjálf myndi ég ekki gráta það þó þessir sneplar færu lóðbeint á hausinn og eigendur þeirra með.

Báðir lögmennirnir bentu þeir á að Eiður hefði ekki sagt að þeir væru að fara með rangt mál. Mér finnst skrýtið ef lögmennirnir átta sig ekki á um hvað málið snýst í réttarsalnum. Það snýst ekki um hvort þetta var rétt eða rangt, það snýst ekki um peninga. Það snýst um það hvort það varðar hag almennings að vita um fjármál Eiðs og hvort þeir höfðu leyfi til að birta fréttirnar sem byggjast á stolnum göngum.    

Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvort við búum við réttarríki eða hvort fjölmiðlavaldið og stjörnulögfræðingarnir ráða enn ríkjum á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kolbrún mín! Ég er þér hjartanlega sammála,ég legg sama skilning í hugtakið ,,opinber persóna,, Skilja má á lögmanni Inga Freys að,blaðamaður eigi inni hjá Eiði,fyrir að hafa fjallað réttilega um gott gengi hans og afrek.  Ætli blaðið hafi ekki selst vel út á það. Vona að Eiður vinni málið,það finndist mér réttlátt. Kv. 

Helga Kristjánsdóttir, 9.1.2011 kl. 22:47

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Helga og takk fyrir innlitið. Jú það er næsta víst að það var fjallað um Eið til að selja blaðið en ekki af neinni góðmennsku. Eins var þegar hægt var að rakka hann niður, allt í gróðaskyni eigenda. Ég vona sannarlega að hann vinni málið. kveðja til þín  

Kolbrún Stefánsdóttir, 10.1.2011 kl. 22:20

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta er mjög góður pistill hjá þér og þörf áminning til okkar allra.

Ekki sé ég nokkurn tilgang í því að birta fjármál knattspyrnumanns né nokkurs annars, nema hann gegni þannig stöðu, sé stjórnmálamaður eða eitthvað í þá áttina.

Mig langar ekkert til að vita um peningamál Eiðs eða nokkurs annars, ekki langar mig heldur til að vita um einkalíf fræga fólksins.

Ef ég hef nokkurnvegin mína fjárhagsstöðu á hreinu og er inni í mínum málum, þá er ég nokuð sáttur.

Einnig þarf að muna spekina úr "einræðum Starkaðar"; "aðgát skal höfð í nærveru sálar".

Ég hef nefnilega grun um að fræga fólkið hafi tilfinningar eins og við hin.

Jón Ríkharðsson, 13.1.2011 kl. 10:02

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Þakka þér fyrir kommentið Jón. Ég hef það svona á tilfinningunni að menn séu ragir við að tjá sig um þetta. Menn óttast kannski árásir úr herbúðum þeirra sem hafa hag af því að blaðamenn geti gert nánast hvað sem er. Í gær var einn fulltrúi úr þeirri stétt að skrifa í Moggann (með netfang sem vistað er á @mbl.is) eins og Eiður bæri ábyrgð á hruninu og fannst mér það heldur döpur lesning enda endaði hún á því hve það væri mikilvægt fyrir blaðamenn að Eiður tapaði málinu.

 Jú víst hafa allir tilfinningar en slúður um fræga íþróttamenn er víst einkar safaríkt söluefni. Aumur er öfundarlaus maður. Það máltæki á víst við Eið sem hefur búið við nánast einelti í fréttaflutningi, eftir því sem heimildir herma, í kjölfar niðursveiflu í sportinu.

Það er lítil manngæska í fréttum umræddra blaða. Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 13.1.2011 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband