Leita í fréttum mbl.is

Að eiga réttinn

Nú hefur heldur flísast úr röðum Vinstri grænna á Alþingi. Þrír feitir bitar farnir fyrir lítið og vandræðagangur í prinsippmálum flokksins allsráðandi. Raunamæddir ráðherrar eru að því er virðist á barmi áfalla og það hygg ég að heiftin svelli í brjóstum þeirra. "Farið hefur fé betra" hrópaði einn stjórnarþingmaður úr sæti sínu þegar hinn ungi, stórfríði og hugumstóri baráttumaður, Ásmundur Einar Daðason, lýsti frati á stjórnina sem hann sat sjálfur í. Ekki fannst mér þetta frammíkall sannfærandi né heldur nærri eins skemmtilegt og þegar sami þingmaður, í beinni útsendingu, bað fyrir kveðju til "frænda" einhvers með tilmælum um "að hann hoppaði upp í rassgatið á sér "  Frændinn er líklega einhver sem ekki vill hoppa upp í rassinn á Evrópusambandinu eins og hún sjálf.

Mikill órói virðist vera í kvennasveit VG. Þær hafa verið nokkuð iðnar við að fjölga mannkyninu, eflaust í skjóli þess að þeirra flokkur, sem hefur sett allskyns lög og reglur um réttindi kvenna og jákvæða mismunun, er í stjórn. Ekki einu sinni þau prinsippmál hafa verið í lagi. Líklegt finnst mér að Guðfríður Lilja hinkri með að yfirgefa skútuna þar til ljóst er hver leysir af menntamálaráðherrann en það þarf væntanlega að vera kona.

Þetta affall kjörinna fulltrúa í VG vekur enn og aftur upp hugleiðingu um hver eigi þingmenn. Oft hefur heyrst sú skoðun að ef þingmaður hættir í þingflokki eigi hann að hætta á þingi. Þetta er vel skiljanlegt þar sem sumir eru að kjósa flokk til að tryggja sjálfum sér bitlinga og áhrif í gegnum þingmanninn. Þau áhrif eru komin út í hafsauga þegar viðkomandi afsalar sér áhrifum á þingi.

En hvað sem fólki finnst um þetta þá eru lögin skýr. Viðkomandi persóna er kosin á þing og hefur ekki skyldur við neitt nema samvisku sína. Meðan viðkomandi fylgir þeirri stefnu sem hann boðaði fyrir kosningar og stendur við sín fyrirheit er ekkert við þessu að segja.

Foringjaræðið og flokkstryggðin er augljós í eignakröfum eins og þeirri sem VG á Vestfjörðum setja nú fram um þingsæti fyrir næsta mann á listanum.

Ekki kastar það rýrð á Dalamanninn unga að mínu áliti.


Vantraust

3.des 005Nú er komin upp ný staða í stjórnmálum á Íslandi. Vantrausti er lýst á ríkisstjórnina með formlegum hætti. Allir virðast fagna því, þar með talinn forsætisráðherrann okkar.

Það virðist vera helsti styrkur stjórnarinnar að stjórnarandstaðan geri atlögu að henni og þjappi stjórnarliðum saman. Eins og menn vita hafa þeir ekki allir fetað sömu slóð í þessu verkefni sem landsstjórn er.

Einstaklingshyggja nokkurra þingmanna VG hefur verið vægast sagt truflandi fyrir forsætisráðherra og hefur hún lýst því fyrir þjóðinni með eftirminnilegum hætti.

Eitt er víst að ekki er hún og hennar flokkur öfundsverð um þessar myndir. Þjóðin virðist alfarið á móti öllu því sem þau eru að gera í helstu málum hennar. Það var á henni að skilja nýlega í viðtali að það væri ekkert mál að kúvenda í baráttunni við erlendar þjóðir. Segja já í dag og nei á morgun. Ég er nú ekki alveg sammála þessu og ég er heldur ekki sammála forsetanum sem fer nú í víkingaham um lönd og bregður brandi á loft, ógnandi og bendandi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig menn greiða atkvæði með tillögu Bjarna Benediktssonar þingmanns en mest verð ég hissa ef Hreyfingin er ekki einróma fylgjandi vantrausti og nýjum kosningum eins og þau hafa talað í Icesave-deilunni.

Það er annars merkilegt hvað allar fréttir eru pólitískar nú til dags. Ég man þá tíð þegar ekkert var talað um þingheim og sáralítið um pólitík nema fjórða hvert ár og þótti mörgum það yfirleitt leiðinlegasta áríð. Líka mér.


Stjórnendur

Stjórnandi í loftbelgÉg hef nú verið að grínast með lækna, presta og fleiri starfstéttir þannig að tími er komin til að líta sér nær. Sjálf hef ég verið stjórnandi í rúm þrjátíu ár. Hér kemur því ein stjórnendasaga LoLLoLKissing

Maður í loftbelg sá að hann var að missa hæð. Hann tók eftir konu á jörðinni, lækkaði flugið aðeins meira og kallaði til hennar" Afsakið, geturðu hjálpað mér? Ég lofaði að hitta vin minn fyrir klukkutíma, en veit ekki hvar ég er".

Konan svaraði " Þú ert í loftbelg sem svífur í 10 metra hæð, milli 40. og 41.
Norðlægrar breiddargráðu og milli 59. og 60. Vestlægrar lengdargráðu"

"Þú hlýtur að vinna við tölvur "sagði loftbelgsmaðurinn.

"Það geri ég " svaraði konan. " Hvernig vissirðu það "

"Nú", svaraði maðurinn, " allt sem þú sagðir mér er tæknilega rétt, en ég hef ekki hugmynd um hvaða gagn er af þeim upplýsingum, og reyndar er ég enn villtur. Satt að segja þá hefur ekki verið mikil hjálp frá þér.  Ef eitthvað er þá hefurðu helst tafið ferð mína".

Konan svaraði " Þú hlýtur að vinna við stjórnun".

"Já", sagði maðurinn. "En hvernig vissir þú það?" 

" Jú " svaraði konan "þú vissir hvorki hvar þú ert né hvert þú ert að fara.
Eintómt loft hefur komið þér þangað upp sem þú ert. Þú gafst loforð sem þú hefur ekki hugmynd um hvernig á að efna og þú ætlast til þess að fólk fyrir neðan þig leysi þín vandamál. Reyndar ertu í sömu stöðu og þegar við hittumst, en nú er það einhvern veginn mín sök." Tounge

 


Konur og reglur

flottir vöðvarÍslendingar eru heldur andsnúnir ESB og öllu því regluverki sem fylgir þeim pakka. Þeir eru þó fljótir að aðlagast breytingum og þó sérstaklega við konurnar. Það er einn af kynjabundnum kostum kvenna. 

Hér kemur gott dæmi um það.

Gömul kona kom í verslun og setti 2 dósir af dýrasta kattarmatnum sem til var í körfuna sína. Síðan fór hún að kassanum til að borga og sagði við kassadömuna. "Ekkert nema það besta handa litla kettlingum mínum". Kassadaman sagði þá "Því miður get ég ekki selt þér kattarmat, nema þú getir sannað að þú eigir kettling, það er svo mikið af gömlu fólki sem kaupir kattarmat til að borða sjálft. Út af ESB-reglunum verður verslunarstjórinn að fá sönnun þess að þú eigir kött" Gamla konan fór heim og náði í kettlinginn sinn og sýndi kassadömunni og fékk þá kattarmatinn keyptan.

Næsta dag fer gamla konan aftur í búðina og í þetta skipti setti hún hundakex í körfuna, sem hún ætlaði að gefa hundinum sínum yfir jólin. Kassadaman sagði þá "Því miður get ég ekki selt þér hundakex nema að þú getir sannað það að þú eigir hund, það er svo mikið af gömlu fólki sem kaupir hundkex til að borða sjálft. Út af ESB-reglunum verður verslunarstjórinn að fá sönnun þess að þú eigir hund ". Vonsvikinn og svekkt fór gamla konan heim og náði í hundinn sinn, sýndi hann og fékk þá að kaupa kexið.

Daginn eftir kom gamla konan aftur í búðina og hélt þá á dollu sem var með gati á lokinu. Gamla konan bað kassadömuna um að stinga puttanum í gatið. "Nei, ég geri það ekki, því þú gætir verið með snák í dollunni" Gamla konan fullvissaði hana um að svo væri ekki. Þá stakk kassadaman puttanum í gatið og tók hann svo út og sagði við gömlu konuna " Oj bara, þetta lyktar eins og mannaskítur.

Gamla konan brosti út að eyrum og spurði "vina mín get ég núna fengið að kaupa nokkrar klósettsrúllur"


Tæpitungan er ekki góð

PrestarStundum fæ ég að heyra það að ég sé full hreinskilin. Það er líklega rétt. Sennilega vegna þess að ég kalla hlutina réttum nöfnum og ligg ekki á skoðunum mínum. Ég er oft með dæmisögur máli mínu til stuðnings fyrir þá sem eru ekki að fatta mig, eins og Jesú gerði í den með góðum árangri. Hér kemur ein dæmisaga: 

Gamli kaþólski presturinn var orðin svo þreyttur á framhjáhaldsjátningum sóknarbarna sinna í skriftarstólnum að sunnudag einn hélt hann þrumuræðu yfir þeim og sagði að hann þyldi ekki að heyra orðið "framhjáhald" einu sinni enn, annars myndi hann hætta störfum í sókninni.

En gamli presturinn var vinsæll og fólk vildi fyrir alla muni hafa hann áfram svo sóknarformaðurinn í samráði við gamla prestinn lét það boð út ganga að þeir sem vildu skrifta og játa framhjáhald myndu nota setninguna ,,ég datt á kirkjuveginum” í staðinn.

Allt gekk sinn vanagang þar til gamli presturinn dó.

Nýr prestur var auðvitað ráðinn í hans stað og ekki hafði hann verið lengi við störf þegar hann kom að máli við sóknarformanninn og sagði að eitthvað yrði að laga gangveginn upp að kirkjunni því fólk segðist sífellt vera að detta.

Sóknarformaðurinn fór að flissa, en þá sagði nýi presturinn höstugur:”Þú ættir nú ekki að hlæja að þessu, konan þín hefur dottið þrisvar frá áramótum!”  

 


Hamingjan sanna

Skálholt 2011 005Fyrir stuttu var ég með komment á færslu hjá bloggvini sem hefur verið giftur heila eilífð og virðist afar ánægður með sinn lífsförunaut.

Ég hef mikið hugsað um þessi mál að undanförnu. Ég hef sennilega haft of mikinn tíma til að hugsa eftir að ég hætti að vinna.

Nú er rétt að nefna að ég er mjög hamingjusöm kona og afar þakklát fyrir mína stöðu og vegferð gegnum lífið til þessa. Mér finnst ég hafa þroskast nokkuð vel.

Það skiptir miklu máli að búa þannig í haginn fyrir sig, alla lífsleiðina, að maður sé tilbúinn að taka því sem að höndum ber og gera eins gott úr því og mögulegt er. Ávallt reiðubúinn eins og skátar segja.

Eitt af því sem skiptir miklu máli er hvernig samferðarfólk manns er. Góðir vinir og ættingjar, góð og skemmtileg börn, ástrík og þæg barnabörn er það sem flestir óska sér. Ekki má heldur gleyma að nefna það sem mörgum finnst mikilvægast af þessu öllu og það er elskhuginn, sambúðar- eða eiginmaðurinn sem maður deilir öllu með, sorg og gleði, hughrifum öllum og skynjun á líðandi stundu.

Sumt af þessu skapar maður og mótar með sínu framlagi eins og börn og barnabörn. Ættingja  velur maður ekki en sumir hafa notið þess að eiga stóran og góðan frændgarð.  Maka og vini velur maður.

Það er þó ekki alltaf sem fólk lætur skynsemina ráða og því enda sumir í misgóðum samböndum.

Ég læt hér fylgja ráðleggingu sem ég fékk senda í tölvupósti frá vinkonu minni og fannst ansi góð fyrir þær sem eru enn á lausu.

Veldu þèr mann sem þig elskar og dáir,
mann sem í líf þitt hamingju sáir,
mann sem þèr sýnir hve heitt hann þig þráir,
stendur við hlið þér svo markmiðum náir,
vandaðu val þitt.... þeir eru fáir Wink

 

 


Skálholtsferð

Skálholt 2011 006Um síðustu helgi fór Landsvirkjunarkórinn í söngæfingaferð í Skálholt, ásamt stjórnanda okkar sem er ungversk kona sem heitir Kristzina. Sú er bæði stórskemmtileg og mikill músikant. Kórinn er 20 ára gamall og heldur úti metnaðarfullu starfi. Tónleikar á hverju ári og nú er stefnt út fyrir landsteinana í haust. Til stendur að heimsækja heimaland stjórnandans Ungverjaland og vera þar í eina viku. Nú er æft stíft bæði á íslensku og ungversku og meiningin að bjóða upp á góða og vandaða tónlist .

Við gistum í Skála en fengum morgunmat og hádegismat í Skálholti auk þess sem við skoðuðum kirkjuna. Á föstudagskvöldið eftir æfingu var svo kvöldvaka með gamansögum og bröndurum. Það var mjög skemmtilegt og gott að kynnast félögunum betur á þennan hátt, en ég er nýkomin í kórinn og þekki fáa.

Um þessa helgi var fólk úr safnaðarnefndum á Suðurlandi að funda í Skálholti og notuðum við tækifærið og sungum fyrir þau í hádeginu á laugardeginum.  Við æfðum svo um morguninn og um miðdaginn á laugardag.

Um kaffileytið var tekið strikið í bæinn. Það er svo langt síðan ég hef farið í rútuferðalag að ég söng fyrir minn sessunaut, gamla rútuslagara frá því í gamla daga eða síðan ég var ung, og hafði sjálf afar gaman að því.

Um kvöldið fór ég svo að sjá leikritið "Fjölskyldan" sem mér fannst nú ekki skemmtileg sýning en lýsir vel hvernig eiturfíknin eyðileggur líf fólks og sundrar fjölskyldum. Sýningin var full löng en tvö hlé og góður félagsskapur bætti það upp.


Vangaveltur

Nú um stundir er ég að upplifa nýja reynslu. Það er auðvitað eðlilegt því það er gangur lífsins en samt svolítið skrýtið. Málið er að ég er nú búin að vera atvinnulaus í bráðum sex vikur. Það hefur aldrei gerst áður síðan ég var unglingur heima á Raufarhöfn.

Dagarnir líða nokkuð fljótt, þökk sé sjónvarpi með góðum golfrásum. Nú sit ég og les bækur, þurrka af og þvæ þvotta á milli þess sem ég gjóa á skjáinn. Nú hef ég tíma til að gera það sem ég hef trassað svo lengi svo sem að fá tilsögn í að mála myndir. Eins var planið að sinna barnabörnum og móður minni meira en áður þar sem maður hefur svona mikinn tíma.

Ég hef ekki áhyggjur af því hvort ég fái vinnu. Ef ég fæ ekki vinnu þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af þjóðinni minni sem vill þá frekar borga mér fyrir að sitja heima á launum en nýta starfshæfileika mína sem eru fjölbreyttir.

Ég hef verið að hugsa um hvort tími sé til að setjast í helgan stein. Það fannst lækni mínum, Árna Tómasi Ragnarssyni, alger fjarstæða en hann sagði" það er svo mikið eftir í þér ". Um það efast ég ekki en er ástæða til þess að "klára sig" áður en maður fer að njóta elliáranna og þess sem maður hefur búið í haginn fyrir ævikvöldið? 

Ég hef líka verið að spá í að flytja til Spánar yfir vetrartímann og vera heima á Íslandi á sumrin. Það hefur lengi verið draumur minn og margra annarra enda er fullt af fólki sem býr þannig. Það ætla ég að kíkja á í haust. 

Í morgun hringdu þau frá Garðlist að bjóða garðúðun í vor. Ég hlakka til vorsins og sumarsins. Þá mun ég gleyma mér í golfi auk þess sem ég ætla að setja met í að hjóla um nágrennið. Ég mun halda áfram að dansa, ganga á fjöll með gönguhópnum mínum og svo er ræktin þrisvar í viku.

Það væri samt gaman að heyra frá fólki sem búið er að vera án atvinnu í lengri eða skemmri tíma um hvort og hvernig það venst því að sitja heima daglangt. 


Karlagrobb

skurðlæknarÞrír bæklunarlæknar, íslenskur, franskur og bandarískur hittust á ráðstefnu í Bandaríkjunum og brátt fóru þeir að hælast um af verkum sínum.


"Ég græddi báða fætur á mann" sagði sá bandaríski. "Nú sigrar sá maður í hverju Maraþonhlaupinu  á fætur öðru"


"Þú segir nokkuð" sagði Frakkinn ." Ég græddi báða handleggi upp að öxlum á konu sem lenti i bilslysi og nú er hún konsertpíanóameistari hjá Sinfóníunni i París"


"Já þetta er auðvitað gott og blessað" sagði Íslendingurinn. "Ég hinsvegar græddi haus á mann, kálhaus reyndar, en nú er hann borgarstjóri í Reykjavík"      


Verksvit

Ég tel að konur hafi ótrúlega gott verksvit. Hér er ein gömul saga um eina slíka:

leirpottarGömul kínversk kona átti tvo leirpotta sem hún hengdi á sitthvorn endann á langri stöng sem hún bar á öxlum sínum. Á hverjum degi sótti hún vatn langa leið í uppsprettu fjarri heimilinu.

Annar potturinn var sprunginn eftir endilöngu og var því aðeins hálffullur þegar heim kom. Hinn potturinn var fullkominn og skilaði sér alltaf fullur af vatni eftir þessa löngu leið heim að húsinu. Svona gekk þetta í tvo ár, daglega gekk gamla konan með pottana að uppsprettunni og daglega kom hún heim með aðeins einn og hálfan pott af vatni.

Auðvitað var fullkomni potturinn ánægður með sína frammistöðu en sprungni potturinn skammaðist sín og leið mjög illa þar sem frammistaða hans var aðeins til hálfs við það sem hann var skapaður til að gera.

Eftir tveggja ára vinnu talaði hann til konunnar við uppsprettuna. "Ég skammast mín fyrir frammistöðu mína, vegna sprungunnar á hlið minni lekur helmingurinn af vatninu burt á leiðinni heim. Þú ættir að henda mér og fá þér nýjan pott.,,

Gamla konan brosti, "Hefur þú tekið eftir að þín hlið við götuna er blómum skreytt á meðan engin blóm vaxa hinum megin götunnar? Það er vegna þess að ég hef alltaf vitað af þessum galla þínum og þess vegna sáði ég fræjum á þinni hlið götunnar og á hverjum degi þegar við göngum heim
vökvar þú blómin mín. Ég hef um árabil getað týnt þessi fallegu blóm og skreytt heimili mitt með þeim. Af því að þú ert eins og þú ert þá hef ég fengið að njóta fegurðar blómanna.

******** end of story*********


Sama má segja um okkur manneskjurnar, enginn er gallalaus. En það eru gallarnir og sprungurnar sem gera okkur hvert og eitt sérstök. Þess vegna er svo spennandi að kynnast og eyða ævinni saman. Við þurfum bara að læra að taka hverri manneskju eins og hún er og sjá jákvæðu hliðarnar hvert á öðru.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 121960

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband