Leita í fréttum mbl.is

Síðasta vika.

    

IMG_0090Síðasta vika var afar skemmtileg og mjög pökkuð svo ekki sé meira sagt. Á mánudagsmorgun kl 6.3o sprautaðist ég fram úr rúminu og eftir hefðbundinn morgunverð sótti ég systur mína og kom henni á Landspítalann kl 7.30.  Síðan beint í vinnuna og vann til kl 17.00 en þá var  söngæfing fyrir hæfileikakeppni sem Ný-ung stóð fyrir . Þegar hún var afstaðin fór ég á spítalann til Sæku. Kom heim kl 22.00 og kíkti þá á bloggið.

Þriðjudagur var strembinn í vinnunni en þá var formaður mættur á staðinn og við unnum saman við að skipuleggja Þing Sjálfsbjargar sem haldið verður í maí. Ég skrapp þó til háls-nef og eyrnalæknisins Einars Thoroddsen sem mér finnst afar skemmtilegur maður enda búin að bíða eftir tíma hjá honum lengi. Viðtalið tók hálftíma. Eftir vinnu var aftur söngæfing og síðan fór ég og hitti foringjann í Frjálslynda flokknum og þingmenn í afar yndislegu vorverði og útistemmingu við Austurvöll. Hélt að vorið væri komið en Guðjón kom vitinu fyrir mig og sagði mér sögu af Vestfirðingi sem var stundum að fagna vorinu of snemma og var svo hundskammaður þegar fór að snjóa strax á eftir. Um kvöldið fór ég á ræðunámskeið sem haldið er hjá Sjálfsbjörg þessa dagana . Það var mjög skemmtilegt og mikið hlegið.

Miðvikudagurinn var svipaður nema snjór yfir öllu. Ég borðaði með endurskoðandanum mínum í hádeginu. Hann var nú hálf þreyttur en þegar hann var búinn að  næra sig þá fór nú að lyftast á honum  brúnin. Hann hefur gaman af því að þykjast vera karlremba en honum hefur ekki enn tekist að ná mér upp út á það, heldur hef ég alltaf sýnt mikið umburðalyndi eins og þetta sé bara venjuleg fötlun hjá honum og ekkert við henni að gera. Hann var allavega hlæjandi þegar ég kvaddi hann og þá er allt gott. Eftir vinnu kl 17.30 var fundur hjá málefnanefnd um heilbrigðismál á vegum Frjálslynda flokksins en við leiðum það starf ég og Guðrún María Óskarsdóttir aðstoðarmaður Grétars Mar Jónssonar. Við fengum einn félaga okkar lækninn Gunnar Skúla til að koma á fundinn og þetta var afar fróðlegt fyrir mig sem hef lítið haft af heilbrigðismálum að segja (utan að vera læknaritari á heilsugæslustöð en skildi nú  lítið í latínunni sem þeir notuðu læknarnir í sjúkrafælunum). Ég verð því að draga mína ályktanir af reynslusögum annarra. Ég sit líka í nefnd um þátttöku neytenda í lyfjakostnaði sem er pólitísk nefnd á vegum Alþingis og þar koma fram mjög magnaðar upplýsingar um neyslu lyfja og kostnaðarþátttöku hins opinbera í samanburði við önnur lönd. Eftir fundinn sem stóð til 19.00 fór ég á spítalann og var þar til  22.00

Fimmtudagur annasamur en góður samt . Eftir vinnu var æft í hálftíma með Einari Andréssyni sem spilaði undir á hljómborð og síðan kíkt inn á fund hjá FUF , félag um fötlunarrannsóknir, vegna undirbúnings fyrir ráðstefnu sem haldin verður 18 apríl n.k. Þá var vinkona mín komin svo við drifum okkur í búð til að velja á hana ný golfföt því nú er hún loksins að hefja sinn golfferil og byrjar með stæl í flottum fötum úr Nevada bob og hjá besta golfkennara sem hún getur fengið Ragnhildi Sigurðardóttur vinkonu minni í golfferð á Spáni. Fórum þaðan á Ruby Tuesday á Höfðabakkanum og ég gleypti í mig salat og brunaði síðan, með kálið í hálsinum, á sænskunámskeið sem nota bene var afar skemmtilegt, mikið hlegið bæði á íslensku og sænsku. Það var búið um 21.30 og þá var  ég orðin hálf þreytt en dreif mig samt í dansinn í Drafnarfellinu í smá tíma. Það er mjög góð leið til að hreinsa út þreytu og streitu að dansa við fjörug lög við flinka dansara.

Föstudagurinn var tekinn snemma og reynt að reka endahnúta á nokkur mál sem hafa verið að gerjast á skrifborðinu. Fundur með bókara, skrifstofustjóra og endurskoðenda og starfsmanni hjá honum og reynt að finna tíma fyrir fund til að kynna ársreikningana og gera áætlun um vinnu við þá. Þá tók við smá æfing fyrir keppnina sem auðvitað var ekki keppni heldur bara uppistand og stuðningur við þessa hugmynd unga fólksins. Á leiðinni heim til að gera sig klára fyrir matarboð hjá dótturinni kl 19.00 -hringdi hin dóttirin og bað mig að koma með sér á Borgarspítalann til að láta kíkja í eyrun á syni hennar og yndinu mínu , Björgólfi litla,  sem er 15 mánaða og fór í nefkirtlatöku á miðvikudaginn. Hann var svo æðislegur og sætur að það jafnast ekkert á við hann nema ef vera skildi synir hinnar dótturinnar sem eru 10 og 15 ára. Ég náði samt að komast í matinn , grillaðar lambalundir, en varð að stökkva af stað kl 19.50 til að koma á réttum tíma á skemmtikvöldið því ég var fyrst á dagskránni.  Ég flutti lag og texta sem ég samdi fyrir  tveimur árum og annað lag við texta sem ég samdi fyrir tuttugu árum. Þetta gekk ágætlega og ég tók meira að segja þátt í Carokee seinna um kvöldið . Það var bara auðvelt þar sem textinn rúllar á sjónvarpsskjá og undirleikur af hljómdiski. Komin heim hress og kát kl 24.00

Laugardagsmorgunn tekin eins og vanalega í að lesa blöðin og horfa á eina mynd á bíórásinni og væla smá yfir henni. ( alltaf einhverjar konumyndir á laugadögum þar) Kíkti síðan til Biggu dóttur minnar því ég vissi að hún var að passa Björgólf litla um nóttina .Þaðan beint á fund hjá Frjálslyndum í Kraganum í húsnæði flokksins í Skúlatúni 4 kl. 11.00 . Eftir hann var kvennahreyfing FF með opinn súpufund með fyrirlesara af bestu sort Guðmund Ólafsson hagfræðing. Hann var fasmikill og sjálfsöruggur eins og sá sem allt veit en fór allt of snemma. Ég var ekki hrifin af hans málflutningi að þessu sinni. Eftir þann ágæta fund fór ég beint á  langþráð námskeið í Swingi.. Laugardagskvöldið var rólegt og var ég bara að kíkja á blogg og hlusta á söngvakeppni framhaldsskólanna. Sunnudagurinn var góður. Fór og heimsótti Biggu dóttur mína sem enn var með Björgólf þannig að ég hitti öll barnabörnin í einu en það finnst mér auðvitað langskemmtilegast. Við hlustuðum saman á vinsælasta bloggara landsins Jónu Ágústu Gísladóttur í viðtali við hina vinsælu útvarpskonu Valdísi Gunnarsdóttur. Jóna þessi reyndist vera frænka okkar og við klökknuðum yfir örlögum hennar en ég þekkti móður hennar ágætlega og man vel þetta hörmulega slys. Kl 13,00 fór ég á seinni hluta námskeiðsins í swingi og þá voru fleiri mættir í dansinn og það var bara æðislegt. Hópurinn fór svo saman á mitt uppáhaldskaffihús, Milano, eftir námskeiðið. Þaðan fór ég heim og horfði á US Master í golfi. Datt útaf áður en leik lauk. Já það er gaman að lifa.        


Með hlýrri kveðju.

Ólafsvíkurhöfn

Laugardaginn 15 mars s.l.  var kvaddur hinstu kveðju Þráinn Sigtryggson skipstjóri frá Ólafsvík. Ég gat því miður ekki fylgt honum og því langar mig að setja niður á blað  nokkur orð frá þeim tíma er leiðir okkar lágu saman og þakka um leið fyrir hlýtt viðmót í minn garð.

 

Ég kom til Hellissands 1989 og tók við útibúi Landsbankans og  kynntist ég þar mörgu góðu fólki. Árið 1993 tók ég einnig við útibúinu í Ólafsvík. Í  starfi útibússtjóra lærðist fljótt að lesa persónur. Erindin voru mismunandi. Oftast ráðgjöf , lánabeiðnir eða önnur fyrirgreiðsla. Svo var líka  fólk sem kom til að heilsa upp á útibússtjórann og segja sögur og víst létti það lundina að þurfa ekki alltaf að beita sér í starfinu sem var mjög erfitt og krefjandi á þeim tíma vegna kreppu og niðurskurðar í útlánum bankanna.

 

Á meðal traustustu manna sem ég kynntist í Ólafsvík voru einmitt Þráinn og Haukur bróðir hans. Reyndar kynntist ég Hauki meira og hélt líka mikið uppá hann. Þau voru mjög spaugileg okkar fyrstu kynni og verður ekki farið út í það hér.

Þráinn var afar þægilegur maður og  hafði mjög sérstakt handtak, gott og þétt sem gaf til kynna að þar færi vandaður maður, heilsteyptur og traustur. Þannig virkaði hann alltaf á mig. Einungis einn maður annar hafði svona handtak sem ég þekkti og það var Ari heitinn Guðmundsson fyrrverandi starfsmannastjóri Landsbankans og þessi lýsing á svo sannarlega vel við um hann líka.

Í vetur hitti ég Þráinn aftur, eftir 10 ár og var ekki alveg viss hvort þetta væri hann fyrr en ég heilsaði honum með handabandi. Ég hafði orð á því og þá hló hann að þessu en mundi að ég hefði minnst á þetta áður.

Það gefur mér góða tilfinningu að hugsa til þessara manna.

Megi þeir hvíla í guðs friði.

 

Ég votta aðstandendum Þráins Sigtryggssonar samúð mína.


Skorað á Bubba

Þar kom að því. Nú verður ekki hjá því  komist að hæla Árna Johnsen alþingismanni eftir að hafa lesið Fréttablaðið í gærmorgun. Þar skorar Árni á Bubba Morthens að mæta sér hvort heldur sem er í fjöldasöng, gítarleik eða boxi. Mér finnst það frábært hjá honum að svara Bubba og tek undir allt sem hann segir. Mér finnst Bubbi orðinn svo sjálfhverfur og mikill aðdáandi sjálfs sín að hann telur sig geta dæmt á báða bóga og hent skít í allt og alla. Hann  virtist fíla sig í tætlur í  dómarahlutverkinu í  Ídolþáttunum. Hann er samt ekki að ná sér á strik í þáttunum “Bandið hans Bubba” og vefst alltaf tunga um tönn þegar hann þarf  að tala við fólkið. Síðasti þáttur sem ég sá var svo hryllilega leiðinlegur að ég ætla ekki að eyða tíma í þessa þætti framar. Öll lögin voru ömurlega leiðinleg og ómögulegt að hlusta á þetta sem skemmtiefni. Hvert er svo bandið? Er hann með einhverja hljómsveit fyrir þann einstakling sem vinnur? Mér finnst ekki of mikið að fá 3 milljónir fyrir að vinna en hver borgar?  Bubbi varð vinsæll ekki síst vegna verkamannaslagara sem hann söng hér áður og fyrr en er nú, að mínu mati, útbrunnin markaðsmaskína sem apar eftir amerískri lágmenningu illa haldinn af athyglissýki og hroka. Áfram Árni gott hjá þér.


Fréttabréf Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum.

Grein úr fyrsta tölublaði. 

Jafnréttismál  

Það er margt sem gaman væri að impra á í þessu blaði sem er nýtt af nálinni og vissulega nokkuð óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér. Á mínu uppvaxtarheimili var mikið sungið og einn textinn byrjaði svona... "Er lít ég fram í tímann ég fæ ekki annað séð, en fullt sé allt af lífsins bestu gæðum"  Ég hef alltaf haldið upp á þennan texta og finnst hann eiga vel við í dag . Það er óhætt að segja að í flestu tilliti er framtíðin björt  fyrir mjög marga. Þó er ýmislegt  sem ég vildi hafa öðruvísi og þá er það helst að meira jafnræði sé á milli manna og einnig milli landshluta. Ég tel að verulega hafi hallað á landsbyggðina í langan tíma og verður sá halli æ meiri með hverju árinu sem líður. Annað sem ég vildi sjá færast til betri vegar er breyting á kjörum fatlaðra og að þeim verði gefið tækifæri til að sanna hvað þeir hafa fram að færa til samfélagsins. Það sem er brýnast er að sú þjónusta sem þeir fá verði notendamiðuð en ekki stofnanamiðuð. Að notandi þjónustu ráði hvar hún fer fram og hver þjónustar hann. Fatlaðir hafa verið duglegir að berjast fyrir réttindum sínum og  gott dæmi um það er ung og skelegg kona  sem býr við mikla fötlun. Hún var  tilnefnd kona ársins 2007 . Hún heitir Freyja Haraldsdóttir og gaf út bók núna fyrir jólin. Einnig hefur hún  farið um landið og haldið fyrirlestra um sínar aðstæður og viðhorf fólks til fötlunar. Ég hvet allar konur til að lesa bókina Postulín og fylgjast með baráttu Freyju fyrir bættum kjörum fatlaðra.  Hennar framlag til þessara mála veldur því að ég lít björtum augum fram í tímann...  

kveðja Kolbrún.


Kringlan tók vel á móti okkur.

Já ég vinn hérna  Birti hér grein úr jólablaði Sjálfsbjargar lsf.

  

Ágæti lesandi Klifurs. Ég hef nú starfað í rúmt ár sem framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra og hef lært mikið og notið þess að kynnast nýjum verkefnum og nýju fólki. Það er óhætt að segja að verkefnin hafa verið margvísleg.. Ég hef kynnst norrænu samstarfi á vegum Nordisk Handicap Forbund en í því bandalagi fatlaðra á Norðurlöndum er venja að hittast tvisvar á ári og ræða sín mál og standa fyrir málþingum. Sjálfsbjörg lsf. var gestgjafinn í haust og komu hingað 32 erlendir gestir. Þá hef ég verið í Evrópuverkefni um fræðslumál fyrir ófaglært fólk sem heitir Love language sem unnið er í samvinnu við Leonardo da Vinci stofnunina á vegum Evrópusambandsins. Einnig hef ég fengið að taka þátt í stefnumótun fyrir Brynju hússjóð Öryrkjabandalagsins og vera fundarritari á aðalfundum Öryrkjabandalagsins og margt fleira skemmtilegt. Eitt verkefni er þó sem stendur upp úr en það er 3.des verkefnið sem fór í gang í október s.l.undir forystu varaformanns Sjálfsbjargar lsf, Kolbrúnar Daggar Kristjánsdóttur og Andra Valgeirssonar formanns Ný-ungar, til að vekja athygli á alþjóðadegi fatlaðra. Verkefnið kallaðist “Já ég vinn hérna” og átti að vekja athygli á þema Sameinuðu þjóðanna á þessum degi en það var “Atvinna við hæfi fyrir einstaklinga með fötlun”.Verkefnið var keyrt á helginni 24. og 25. nóvember. Ég fékk það verkefni að að semja við verslunareigendur í Kringlunni um að taka þátt í þessum leik með okkur. Það var ekki erfitt og alveg ótrúlegt hvað verslunarmenn tóku okkur vel og voru jákvæðir í garð verkefnisins þrátt fyrir miklar annir. Níu stórfyrirtæki tóku þátt og fjölmargir félagsmenn Sjálfsbjargar lsf. Verkefnið byggðist á því að fatlaður einstaklingur lét eins og hann væri að vinna í viðkomandi verslun og tók á móti viðskiptavinum sem slíkur. Einnig var settur upp sölubás á neðri hæðinni í Kringlunni til að selja ýmsan varning en einkum til að hitta fólk og vera sýnileg. Þá var í gangi getraun sem vakti mikla athygli. Fleiri verslunareigendur hafa sýnt okkur velvilja t.d. Nettó sem styrkti okkur mjög myndarlega og tók að sér að dreifa upplýsingum um Sjálfsbjörg lsf í 36 verslunum sínum víðsvegar um  landið 3 des. Krónan  í Mosfellsbæ og á Granda hafa haft í forgangi aðgengismál fyrir alla og tekið fullt tillit til fatlaðra við byggingu glæsilegra húsakynna sinna.Þessar verslanir hlutu  aðgengisverðlaun Sjálfsbjargar lsf að þessu sinni og voru þau afhent 3. des. Ég vil  hvetja  alla og sérstaklega hreyfihamlaðra til að heimsækja þessar verslanir. Að lokum  vil ég  nota þetta tækifæri og lýsa ánægju minni með Íslenska verslunarmenn og þakka kærlega fyrir okkur.

Hanna Birna mætt til leiks

 Velkomin Hanna1

Hanna Birna Jóhannsdóttir varaþingmaður hefur nú sest á þing í fjarveru Grétars Mar Jónssonar. Hanna Birna er stuðningsfulltrúi og búsett í Vestmannaeyjum. Hún er önnur konan sem kemur inn á þing á þessu kjörtímabili fyrir Frjálslynda flokkinn og vonandi fá fleiri konur tækifæri til að spreyta sig í þessu starfi og máta sig við sali Alþingis. Ég óska henni góðs gengis og vona að henni eigi eftir að líða vel á þessum vettvangi, en það var á henni að  heyra í gær að henni hafi verið vel tekið af þingmönnum.  Ég er afar stolt af þessari glæsilegu konu og finnst hún flottur fulltrúi okkar frjálslyndra bæði innan og utan þingheims.


Ég sem elska sjómenn : )

 2007 252                                                    

 Sæll Hjörtur. Ég var með komment inn á síðuna þína um daginn og sé að menn hafa tekið vel undir með okkur og komið með sínar skoðanir. Ég hinsvegar frétti ekki af þessu fyrr en núna áðan og ætlaði auðvitað að svara en þá er allt lokað hjá þér og því skelli ég þessu bara á mína síðu. Mig langar til að það komi fram að ég lít ekki niður á sjómenn og er ekki snobbuð. En allt ill annað má svo sem um mig segja. Ég held að fáir standi eins nærri sjómannastéttinni og ég fyrir utan þá sem eru sjómenn og hreinlega með saltið í blóðinu. Ég naut þess heiðurs að flytja hátíðarræðu á sjómannadegi á Hellissandi þegar ég var búsett þar. Ég var gift trillusjómanni  í 26 ár sem er harðduglegur, fiskinn og  af miklu sjómannakyni frá Grenivík. Ég þekki líka "Hlöllana" frá Grenivík ágætlega og veit að það eru miklir aflamenn og góðir sjómenn. Allflesta  útgerðarmenn og sjómenn á Hellissandi og Ólafsvík kannast ég vel við og þó víðar væri leitað. En ég veit líka hvernig það var hjá karlinum mínum að fá vinnu þegar búið var að sverfa svo að trillukörlum að þeir máttu róa örfáa daga á ári og því ekkert að gera nema hætta til sjós. Ég veit um nokkra vel menntaða sjómenn sem vinna t.d. við netasölu eða á bensínstöðvum og þá er það allt annað kaup en þeir voru vanir og óttalegt hangs, " varla vinna"  segja þeir stundum. Mjög margir sjómenn sem ég þekki byrjuðu ungir á sjónum og hafa átt erfitt með að breyta til og fá störf við hæfi í landi. Bæði vegna þess að þar eru launin allt önnur en þeir hafa haft hjá góðum og fengsælum skipstjórum og útgerðum og eins er ekki allsstaðar atvinna í boði. Hvað er t.d. fyrir sjómenn að gera í landi á Raufarhöfn þar sem ég er uppalin, nánast á bryggjusporðinum frá unga aldri. Hvað er fyrir þá að gera í Ólafsvík og Rifi þar sem ég hef lifað og hrærst meðal sjómanna í 7 ár. Þegar ég  var útibússtjóri hjá Landsbankanum bæði fyrir vestan í 7 ár og eins hér í Reykjavík í 10 ár þá komu oft til mín sjómenn sem sögðu þetta sjálfir og meira að segja skipstjórar."Ég hef alltaf verið á sjónum og kann ekkert annað og get ekki fengið vinnu í landi".Mér sýnist að menn hafi tekið orð mín þannig að ég haldi þessa menn duglausa og þess vegna ekki getað neitt annað en það er öðru nær enda vita það allir að vinna til sjós er ekki fyrir hvern sem er og varla kvenmannsverk. Ég held að ég gæti ekki starfað við það þó ég hafi verið að grínast með það sem háð í blogginu. Ég er ekki hissa þó sumir komi ekki fram undir nafni í kommentunum og svara þeim aðilum ekki öðruvísi en þannig að flestir sjómenn sem ég hef umgengis hafa góðan húmor bæði fyrir sjálfum sér og öðrum en það hefur "Sigurður " greinilega ekki. Það er vitað að ungir menn gera sér grein fyrir því þegar þeir huga að námi að það er betra að fara í vélstjórann en stýrimanninn upp á atvinnumöguleika  þegar þeir vilja koma í land. Að lokum er víst réttast að taka það fram að ég er á eigin vegum á þessu bloggi og tel það mín mannréttindi að hafa skoðanir , byggðar á eigin reynslu, þó þeir sem annars tilheyra Frjálslynda flokknum skammist sín kannski fyrir þær og þó ég sé mjög jafnréttissinnuð þá er ég ekki femínisti. Svo legg ég til að þú lengir hjá þér athugasemdatímann Hjörtur því það eru ekki allir alltaf á vaktinni. En það var gaman af þessari uppákomu þó vitlaus sé :) . Kveðja Kolla. 


Ævintýri Dolomitanna

Italía -skíðiItalía -kennsla

Ég brá mér með annarri dóttur minni og hennar fjölskyldu á skíði til Ítalíu á dögunum.

Þetta var alveg frábært og  ný reynsla fyrir mig.

Ég kann ekkert á skíði og því var ákveðið að ég myndi bara læra það á nokkrum dögum. Farið var í það á fysta degi að leigja skíði ásamt tilheyrandi og koma sér fyrir á hótelherberginu. Það gekk mjög vel og með tilhlökkun fór ég í háttinn ásamt tveimur dóttursonum en við deildum herbergi. Daginn eftir var farið af stað og ég komst að því að það er alveg hryllilegt að ganga á skíðaklossum og var því  bara fegin þegar ég komst í að setja skíðin undir og merkilegt nokk  ég gat alveg staðið á þeim.

Ekki fann ég kennarana fyrsta daginn þannig að þá var bara að æfa sig og því fór ég með fólkinu upp í brekkur til að reyna mig. Eftir ferðalag í kláf sem tók 100 manns og fór lengst upp í fjallið var lagt af stað niður og fór þá að fara um mig. Snarbratt var fram af brúninni og eitthvað um að fólk kútveltist þar enda mun færið hafa verið alveg ómögulegt í rauninni þó ég vissi svo sem ekki mikið um það. Það þarf ekki að orðlengja það að þessi niðurferð var afar erfið og til þess fallin að ég leitaði með opnum augum að kennara næsta morgun. Ég var síðan i kennslu það sem eftir var og fannst mjög gaman bæði að kynnast fólkinu sem var með mér í hóp og að bæta stöðugt  skíðafærnina. Toppurinn var svo að stíma niður á fullri ferð og enda við lyftuganginn og fara beint upp aftur. Hótelið okkar, Hótel Armin, var fínt og bæði góður matur og þjónusta í fyrsta flokki. Einnig var þar  gufa og spa sem var vel nýtt eftir að brekkurnar tæmdust á daginn, um 5 leytið. Ítalir voru alveg frábærir eins og alltaf  :) :) :) 

Eina sem var til ama voru fjandans þjóðverjarnir sem heimtuðu að við værum  nakin í gufunni, sem við harðneituðum, en þeir eru nú allsstaðar til leiðinda bæði frekir og yfirgangssamir. Það þekkja þeir sem hafa verið í sólarferðum og vaknað á hverjum morgni við að þjóðverjar eru búnir að taka frá allan garðinn með sínum handklæðum. Ég er samt búin að fá nóg af snjó í bili og bíð eftir að það hláni og taki upp hér heima. J

Fer örugglega aftur í skíðaferð J  Italía -spa 


Guð og Mammon góðir saman.

 2007 271

 Í Barcelona á Spáni.

 

Í gær, aðfangadag jóla, fór ég til guðsþjónustu í Fríkirkjunni í Reykjavík með minni litlu fjölskyldu. Það er í fyrsta skipti sem við förum þangað. Ég var afar glöð og stolt þar sem ég sat þarna með dætrunum tveimur, tengdasonum og þremur barnabörnum ásamt fyrrverandi tengdamóður og mágkonu. Um kvöldið hlustaði ég á Biskup Íslands Hr. Karl Sigurbjörnsson flytja jólaboðskapinn í sjónvarpinu og kl 23,30 fór ég svo í aftansöng í minni sókn, Kópavogskirkju. Allir voru þeir nú ágætir  prestarnir í sínum hugvekjum en bara í Fríkirkjunni fann ég eldinn sem hitar sálina og eflir viljann til að verða betri manneskja. Þar fór lítillæti og ást á meðbræðrum sínum eins og rauður þráður í gegnum alla messugjörðina. ,,Finnurðu það " ? spurði presturinn þegar hann hafði talað um ljósið í brjóstinu og það gerði ég vissulega.  Hjá hinum tveim fannst mér vera mikil varnarleikur í sambandi við umræður undanfarið um trúmál og þörf fyrir trú í alsnægtunum. Það er ekki að mínu skapi að kirkjan sé að kljást við Mammon og reyna að berjast fyrir tilveru sinni. Hún á ekki að þurfa að réttlæta sig. Annaðhvort vill fólk trúfélög eða ekki. Yfirleitt fylgir trúariðkun í kjölfar hörmunga og því er varla til að dreifa í okkar samfélagi ,ætti allavega ekki að vera það,en er þó alltaf í ákveðnum tilfellum eins og  verða í einkalífi fólks.  Ég bið ykkur öllum guðsblessunar á jólum kveðja Kolbrún.


Þórunn komin á þing

Okkar kona á Alþingi.

Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir, tók nýverið sæti sem varaþingmaður Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi. Þórunn skipaði 3. sæti á lista Frjálslynda flokksins í kjördæminu við Alþingiskosningar s.l.vor. Hún tekur nú sæti fyrir Guðjón Arnar Kristjánsson formann Frjálslynda flokksins sem er í leyfi í tvær vikur. Þórunn Kolbeins er menntunarfræðingur og ráðgjafi. Hún hefur starfað sem sjúkraliði, við skrifstofustörf og kennslu, og lokið háskólanámi í menntunarfræðum. Þórunn hefur starfað sem ráðgjafi Vinnumálastofnunar á Vesturlandi á Akranesi, frá vorinu 2000.

 Þórunn Kolbeins Matthísasdóttir

Ég er afar stolt af því að okkar flokkur sem hefur haft orð á sér fyrir að vera “karlaflokkur” eigi nú glæsilega konu í sínu þingmannaliði. Ég óska Þórunni góðs gengis og vona að henni líði sem allra best í þingsölum. Mér er sagt, eftir ábendingu, að hún sé ekki fyrsta heldur þriðja konan sem situr fyrir flokkinn á þingi en áður hafa setið þar Steinunn Kristín Pétursdóttir og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sem var varamaður Gunnars Örlygssonar. Hún sat einnig sem varamaður hans eftir að hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Ég man vel eftir því. En áfram Þórunn....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband