15.7.2008 | 22:46
“Sjómannslíf, sjómannslíf draumur hins djarfa manns......”
Grein sem birtist í Sjómanninum. 4 tbl.
Að vera síldarstúlka eða.......
Sumir segja að við mannfólkið mótumst af landslagi og veðurfari. Ísland er þekkt fyrir kalt veðurfar en einnig fyrir eld og hita í jörðu. Íslendingar eru af sumum taldir kaldir í viðmóti en eldheitir í ást sinni og þrám þegar þær brjótast fram undan ísbrynjunni. Þá er talið að umhverfið sem við ölumst upp í og kringumstæður á hverjum stað hafi mikil áhrif. Undir þetta get ég tekið að mörgu leyti. Hvað uppeldið varðar hef ég borið þess merki alla tíð að hafa alist upp í fiskvinnslu og útgerð og sérsktaklega í síldarævintýrinu, eins og það er stundum kallað, það tímabil í sögu okkar Íslendinga, þegar síldarsöltun og bræðsla var að gefa okkur hvað mestar þjóðartekjur.
Jafnrétti kynjanna
Ég ólst upp í umhverfi, þar sem framtak einstaklingsins og dugnaður réði því hvað mikill afli kom á land og hversu vel gekk að gera verðmæti úr honum. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef alltaf reynt að afkasta miklu og ráðist í verkefni sem hafa verið mér erfið og sum langt utan þægindamarka. Ég held að þaðan sé komið það álit mitt að við konur höfum sama rétt og getu til góðra launa og karlar. Ég var oft með mun hærri laun í síldinni sem unglingur en strákarnir sem voru á tímakaupi við að taka tunnur til og frá síldarstúlkunum og færa okkur salt og síld. Eins var það í fiskvinnslunni ef notaður var bónus. Þá var hægt að tvöfalda launin sín ef maður var kappsamur og sæmilega vandvirkur. Strákarnir þurftu í flestum tilfellum að fara á sjóinn til að komast í þá aðstöðu að hafa eitthvað um það að segja, með sínu vinnuframlagi, hverjar tekjurnar yrðu. Þeir þurftu að gera meira en að þrauka í vinnuúthaldi og vöku heilu næturnar. Hjá þeim var umhverfið oft lífshættulegt og sumir svo sjóveikir að þá langaði mest fyrir borð. Við þetta bættist oft erfitt samfélag um borð, auk stríðni til viðbótar við einangrun frá ástvinum og ættingjum.
Draumurinn
Hver var hann þá þessi draumur hins djarfa manns? Var það að vera bjargvættur þjóðarinnar með vinnuframlagi sínu? Var það að vera sjálfstæður og metinn að verðleikum? Var hann kannski bara draumur um síldarstelpu sem hann sæi næst þegar hann landaði síldinni... sitt á hvað ...á Dalvík og Dagvarðareyri.
Það var erfitt að taka þeirri staðreynd að síldin hvarf af Íslandsmiðum og starf síldarstúlkunnar heyrði sögunni til. Menn urðu því að bjarga sér sjálfir með einhverjum hætti og sumir fjárfestu í trillum, ýmist einir eða fleiri saman, jafnvel bátum og skipum. Þá skipti miklu máli að vera agaður og kappsamur. Eflaust voru þær nokkuð margar sjómannskonurnar sem urðu að sæta því að bíltúrinn á kvöldin lá beint niður á bryggju til að kanna hvar menn væru að fáann og hvað þeir voru með margar trossur og allt það. Þær máttu þakka fyrir að nú voru þeir heima á hverjum kvöldi. Ekki voru samskipti eins greið við þá yfir daginn eins og er í dag, á tímum gsm símasambandsins, en mikil umskipti eftir að hafa upplifað margra daga sambandsleysi á síldveiðiúthaldinu.
Kvótinn.
Trillukarlar hafa marga fjöruna sopið í sambandi við stjórnun fiskveiða með öllum þeim reglugerðum og takmörkunum sem settar hafa verið á þá. Á tímabili vissu margir ekki í hvorn fótinn ætti að stíga þegar þeim var gert að velja á milli kerfa, enda mikil óvissa um hvernig kvótakerfið myndi þróast. Má þar nefna dagróðrakerfið og almenna kvótakerfið. Ég hef það á tilfinningunni að margir trillukarlar séu með sömu starfshvatagenin og síldarstúlkurnar. Ég veit allavega um þó nokkra útgerðarmenn sem halda áfram að róa þó þeir hafi auðgast gríðarlega á kvótanum og láta sína skipverja njóta þess í glæsilegum uppgjörum. Ekkert svindl þar. Þeirra menn eru kannski með tvisvar sinnum hærri laun en sambærilegir hluthafar hjá öðrum útgerðum. Þetta eru menn sem elska vinnuna sína og stjórnast ekki af taumlausri peningagræðgi og eru sjálfum sér og stéttinni til sóma. Þetta eru sjómenn sem eru alltaf ofan á sama hvaða fiskveiðikerfi er notað. Nú er spurning hvort starfsheiti trillukarl heldur til framtíðar eða hverfur eins og starf síldarstúlkunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.7.2008 | 13:57
Leggjabrjótur
Á laugardaginn fór ég í gönguferð upp frá Botni í Hvalfirði og kíkti á hæsta foss landsins, Glym. Veðrið var alveg frábært og umhverfið æðislegt. Nokkur fjöldi fólks var á gönguleiðinni bæði að koma og fara og misvel útbúinn fyrir gönguna. Ég var bara á strigaskóm og hafði enga göngustafi en það mun ég ekki láta koma fyrir aftur. Á ákveðnum tímapunkti var ég viss um að nafnið á þessari gönguleið væri dregið af því að menn slyppu ekki óbrotnir frá henni en það gerði ég nú sem betur fer. Eftir gönguna skellti ég mér í sumarbústaðinn til systur minnar í Hvítársíðu og naut góðra veitinga og félagskapar þeirra hjónakornanna. Á leiðinni heim sá ég að bíll hafði velt í einu hringtorginu í Mosfellsbæ og var hann alveg á toppnum. Nú óttast ég að hraðatakmarkanir á hringtorgum verði lækkaðar í framhaldinu.
Það væri bara eftir öðru í umferðinni.
3.7.2008 | 21:59
Í nafni Guðs föður.
26.6.2008 | 23:15
Frábært veður í boði.....Símans.
Í dag spilaði ég golf á Hvaleyrinni í Hafnarfirði. Golfmót í boði Símans hófst kl 11:30 og var tekið vel á móti fólki og boðið upp á frábæra kjúklingasúpu að hætti Brynju sem er vert í Keilisskálanum. Ræst var út kl 13:00 og á öllum teigum samtímis. Það var helst að skilja á starfmönnum Símans að það hafi verið partur af þeirra bænahaldi síðustu 365 daga að veðrið yrði gott í mótinu, eins og í fyrra. Þetta gekk vissulega eftir þannig að ætla má að guð sé til og í þeirra liði. Völlurinn er rosalega þurr og harður og er ég viss um að nú styttist í áhyggjur af veðurfari hjá forsvarsmönnum Keilis. Ég var ekki að taka nóg tillit til ástandsins á vellinum í spilinu og var oft alltof löng í innáskotunum. Á móti kom að félagsskapurinn var góður og gaman að spila á "stuttbuxum og ermalausum bol" eins og maður væri á Spáni. Veitingarnar og verðlaun voru í hæsta gæðaflokki ...
Starfsfólk Símans og Keilis takk fyrir mig...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2008 kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.6.2008 | 19:44
Kyrrðarstund
Venjulega fer ég í göngutúr í hádeginu með vinnufélögunum og er gengið í hálftíma og síðan farið í mat. Stundum fer ég ein og þá er ég að montast við að skokka. Í dag var ég ein og hljóp af stað. Ég var stödd fyrir utan kirkju þegar ég var búin að hlaupa nóg og þá var verið að hringja inn til þjónustu og ég skellti mér inn. Þessi þjónusta kallast kyrrðarstund og voru allt að 15 manns mætt í hana. Einn sálmur var sunginn og síðan tekið til altaris. Fólkið fór upp og þáði syndaaflausn, fyrirgefningu og eilíft líf með inntöku á lífsins brauði þ.e. líkama og blóði Krists. Síðan stóð fólkið í hring og bað fyrir öðrum t.d. að mállaus maður fengi málið aftur og einstæð móðir fengi aðstoð,"you know who, God" og eitthvað mjög persónulegt. Ég fór að hugsa um hvort hægt væri, undir því yfirskyni að verið væri að biðja, að básúna út veikindi og ástand fólks án þess að það vissi. Allavega var kyrrðin ekki mikil og ég var hundsvekkt þegar ég fór. Boðið var upp á veitingar sem fólkið þáði sem greinilega var þarna sóknarbörn en ég flýtti mér út og skokkaði í vinnuna. Þetta er líklega öldrunarstarf kirkjunnar og er alveg ágætt út af fyrir sig.
17.6.2008 | 18:24
Leitt með laglegt kot
Kæru bloggfélagar.
Ég má nú þakka fyrir að vera ekki komin á svarta listann hjá ykkur eins léleg og ég hef verið að blogga undanfarið og kvitta hjá ykkur. Ég hef verið mjög önnum kafin og nú er golfið að detta inn á fullum krafti þannig að kvöldin fara í að spila , æfa sig eða horfa á aðra spila í sjónvarpinu svo og fótboltann. Engin nenna fyrir bloggi. Fékk á mig þessa vísu á dögunum og finnst hún eiga vel við mig, kotið mitt og heimahagann .
Enginn hefur af því not
eða stundar veiði
Það er leitt með laglegt kot
að láta það standa í eyði.
Megi sumarið verða ykkur ljúft og létt og ég lofa bót og betrun. kveðja Kolla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.5.2008 | 12:29
Eigum sjómönnum margt að þakka
Grein úr fréttabréfi Frjálslynda flokksins í Kópavogi.
Nú styttist í sjómannadaginn og vonandi verður hann ánægjulegur fyrir okkur öll. Sú var tíðin að þetta var minn uppáhaldsfrídagur og venjulega mikil stemming í kringum hann. Á Raufarhöfn, þar sem ég ólst upp, var sjómannadagurinn í hávegum hafður og skipaði stóran sess í mínu lífi. Það var eins víst og að jólin kæmu með öllum sínum hátíðleika, aukakóræfingum og jólastressi og að sjómannadagurinn kæmi með þeirri gleði og stolti sem fyllti hjörtu bæði sjómannanna sjálfra og aðstandenda þeirra. Þeir sem færðu björg í bú voru heiðraðir með því að taka þátt í þeirra hátíðarhöldum. Þá voru menn samhentir og lögðu sitt af mörkum til að gera daginn sem skemmtilegastan. Venja var að bjóða upp á siglingu um höfnina og mikið um leiki svo sem reiptog, koddaslag, plankahlaup og margt fleira. Þegar ég bjó á Hellissandi var ég beðin um að halda hátíðarræðuna á sjómannadegi sem ég og gerði. Ég man að dóttir mín þá 13 ára gömul var slegin í sjóinn í koddaslag og varð hálfsjokkeruð við það. Þetta gleymist ekki heldur lifir í minningunni sem hlýja og væntumþykja til þeirra sem voru nærri mér á þeim tíma. Það þarf nú varla að minnast á sjómannadagsböllin sem voru alltaf stórdansleikir sama hvort það var á Raufarhöfn eða Hellissandi. Það er miður að þessi siður skuli hafa dalað undanfarin ár. Við skulum ekki gleyma upprunanum og þakklæti til þeirra sjómanna sem hafa í gegnum árin marga hildi háð við óblíðar aðstæður. Þeim eigum við margt að þakka á vegferð okkar til þeirra lífskjara sem við búum við í dag. Til hamingju með daginn sjómenn og megi ykkur farnast vel.
24.5.2008 | 09:37
Ekki að kaupa þetta.
Endur fyrir löngu í landi langt í burtu rakst falleg, sjálfstæð, og sjálfsörugg prinsessa á frosk þar sem hún sat og velti vöngum yfir vistfræðilegum álitamálum við bakka ómengaðrar tjarnar á fagurgrænu engi nálægt kastala sínum. Froskurinn stökk upp í kjöltu prinsessunnar og sagði.
"Fagra frú, ég var eitt sinn gjörvilegur prins en grimm norn lagði á mig álög. Ef þú smellir á mig einum kossi mun ég aftur verða að þeim snotra prinsi sem ég raunverulega er. Þá getum við ,mín kæra, gifst og stofnað heimili í kastalanum þínum. Þú getur framreitt málsverði fyrir mig, þvegið klæði mín, alið börnin mín og fundið til þakklætis og hamingju um alla eilífð"
Sama kvöld sat prinsessan yfir málsverði sínum-léttsteiktum froskalöppum- og hló lágt með sjálfri sér. " Ég held nú fokking síður"
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2008 kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.5.2008 | 23:01
Sumarið er tíminn.
Sumarið er komið og ég búin að fara fyrsta golfhringinn, það er að segja hér heima. Við fórum í gær vinkonurnar, ég og Lovísa, og áttum saman yndislegan hring á Korpunni. Ég var á regulation, oftast nær, og fékk nokkur pör en púttaði alltof oft. Korpan kemur ágætlega undan vetri og ég trúi því að grínin verði fljótlega slétt og fín. Lovísa er idolið mitt. Ég stefni á að verða eins og hún þegar fram líða stundir. Talandi um idol og íþróttir get ég ekki látið hjá líða að lýsa hamingju minni með einstakan árangur Ólafs Stefánssonar sem talinn er einn af þremur bestu leikmönnum í handboltanum í dag og þá erum við að tala um heiminn en ekki litla Ísland. Það er alveg stórmerkilegt við Ólaf að hann hrífur mann svo með sér, í hverjum leik, að maður sleppir sér alveg, hrópar og klökknar og allur tilfinningaskallinn fer í gang. Það er sama hvort hann er óánægður með leikinn ( tapar ) eða er að gera góða hluti, hjartað slær alltaf með þessum prúða leikmanni. Í mínum huga ber hann höfuð og herðar langt yfir alla okkar íþróttamenn fyrr og nú og þó maður gleðjist yfir að þau Björk, Sigurrós, Eiður, Björgólfur Þór og hvað þau nú öll heita, séu að gera góða hluti úti í heimi er það hjóm miðað við afrek og landkynningu Ólafs Stefánssonar, okkar frábæra íþróttamanns. Hann er vissulega góð ástæða fyrir því að maður fyllist þjóðarstolti.
27.4.2008 | 20:50
Til hvers að fermast
Nú eru öll systkinabörnin í minni litlu fjölskyldu fermd. Síðust til þess varð Vala Rún dóttir Magnúsar bróður míns. Hún ávarpið sjálf veislugestina og pabbi hennar sá um söngskemmtun auk þess sem myndir af henni með fjölskyldunni rúllaði á breiðtjaldi. Sem ég sat í veislunni með fólkinu mínu og naut þess að dást að unga fólkinu, sem öll eru afburðar falleg ( mín tilfinningalitaða skoðun) hvarflaði hugurinn aftur í tímann að mínum fermingardegi sem var 19 apríl 1964. Við vorum 17 sem fermdust þá, ef ég man rétt . Þetta var góður hópur og mikil vinátta ríkti okkar á milli eins og gerist á smástað eins og Raufarhöfn. Ég man vel hvað fermingin var erfið í hitanum í smekkfullri kirkjunni og ætlaði aldrei að taka enda. Ég hafði líka áhyggjur af því að presturinn myndi gleyma að kalla mig upp en slíkt hafði komið fyrir árið á undan. Þá var til siðs að aðstandendur stóðu á fætur þegar nafn fermingarbarns var nefnt og ég fór hjá mér þegar hálf hjörðin stóð upp þegar ég fór til altaris. Í veislunni var næstum liðið yfir mig vegna streitu því ég hafði aldrei fengið þvílíka athygli og gjafir sem ég ruglaði öllum saman og vissi ekkert hvað var frá hverjum. Úr frá mömmu og pabba eins og allflestir á þessum árum. Um kvöldið kyssti ég strák í fyrsta sinn og hann varð síðar maðurinn minn í 26 ár. Ég hugsaði líka um fermingardaga dætra minna sem voru mjög eftirminnilegir fyrir mig. Sú eldri fermdist heima á Raufarhöfn og ég vann persónulegan sigur á sjálfri mér með því að sjá ein um veisluna frá a-ö og enginn mátti hjálpa mér. Ég bakaði 14 tertur og eina sem var upp á 4 hæðir og þurfti að fá lánað form frá Húsavík til að baka hana. Það var vel mætt í veisluna og um kvöldið skáluðum við tvær mæðgurnar í sérrýi , svona til að setja flottan punkt eftir sérstökum degi en hvorug var þó vön því. Hún er enn bindindismanneskja bæði á vín og tóbak. Kvöldið eftir hélt hún veislu fyrir fermingarsystkinin en við foreldrarnir fórum að heiman og þau sáu um sig sjálf. Þetta var vel heppnað. Sú yngri fermdist í Ólafsvík og ég var mjög stressuð því hún valdi sér svo langan texta til að fara með í kirkjunni að ég óttaðist að hún myndi ruglast. Það gerði hún auðvitað ekki og var ég rosalega stolt af henni, en fólk var að grínast með að hún hefði leyst prestinn af á tímabili. Veislan hennar var svo í Reykjavík þannig að segja má að sú ferming hafi verið á landsvísu og var brunað frá Ólafsvík til Reykjavíkur á sæmilegum hraða. Tengdasonurinn var tekinn fyrir of hraðann akstur á þeirri leið en við á leiðinni heim. Mér var slétt sama því ég var svo fegin að þetta var afstaðið. Elsta barnabarnið er búið að fermast en það var borgaraleg ferming og fín veisla með myndasyrpu af fjölskyldunni rúllandi á stórum skjá. Fermingardrengurinn ávarpaði sjálfur gestina. Þetta var einmitt í kosningabaráttunni í fyrra og ég á hlaupum og að fara til Akureyrar á stjórnarfund Sjálfsbjargar og hafði flýtt mér full mikið þannig að ég var í bláum sokkabuxum en ekki svörtum og því eins og hálfgerður pönkari í veislunni. Næsta ferming verður eftir 3 ár og verður fróðlegt að sjá hvernig Viktor uppáhaldskrúttið mitt í 10 ára flokki hefur það, ef hann fermist.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Apríl 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
Bloggvinir
- solir
- gmaria
- fannarh
- thoragud
- meistarinn
- sigurjonth
- skulablogg
- gudruntora
- svavaralfred
- rheidur
- gudrunmagnea
- helgigunnars
- georg
- marinogn
- kallimatt
- zumann
- gudbjornj
- eirikurgudmundsson
- gretar-petur
- johanneshlatur
- franseis
- altice
- palmig
- lydurarnason
- omarbjarki
- gretarogoskar
- tilveran-i-esb
- paul
- ksh
- thjodarsalin
- framtid
- kop
- jon-o-vilhjalmsson
- sunna2
- neytendatalsmadur
- duna54
- jonsnae
- sjonsson
- duddi9
- olofdebont
- magnusjonasson
- helgatho
- fullvalda
- kokkurinn
- olafiaherborg
- nimbus
- jakobk
- stebbifr
- ranka
- heimssyn
- rs1600
- maggij
- bjarnihardar
- bookiceland
- frjalslyndir
- gauisig
- zeriaph
- gthg
- gustaf
- hannesgi
- diva73
- fun
- johanneliasson
- bassinn
- prakkarinn
- ragnar73
- ziggi
- visur7
- tryggvigislason
- ursula
- valdimarjohannesson
- postdoc
- icekeiko