Leita í fréttum mbl.is

“Sjómannslíf, sjómannslíf draumur hins djarfa manns......”

Grein sem birtist í Sjómanninum. 4 tbl. 

Síldarstúlkur á Raufarhöfn 1957Að vera síldarstúlka eða.......  

Sumir segja að við mannfólkið mótumst af landslagi og veðurfari. Ísland er þekkt fyrir kalt veðurfar en einnig fyrir eld og hita í jörðu.  Íslendingar eru af sumum taldir kaldir í viðmóti en eldheitir í ást sinni og þrám þegar þær brjótast fram undan ísbrynjunni. Þá er talið að umhverfið sem við ölumst upp í og kringumstæður á hverjum stað hafi mikil áhrif. Undir þetta get ég tekið að mörgu leyti. Hvað uppeldið varðar hef ég borið þess merki alla tíð að hafa alist upp í fiskvinnslu og útgerð og sérsktaklega í síldarævintýrinu, eins og það er stundum kallað, það tímabil í sögu okkar Íslendinga, þegar síldarsöltun og bræðsla var að gefa okkur hvað mestar þjóðartekjur.

Jafnrétti kynjanna

Ég ólst upp í  umhverfi, þar sem framtak einstaklingsins og dugnaður réði því hvað mikill afli kom á land og hversu vel gekk að gera verðmæti úr honum. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef alltaf reynt að afkasta miklu og ráðist í verkefni sem hafa verið mér erfið og sum langt utan þægindamarka. Ég held að þaðan sé komið það álit mitt að við konur höfum sama rétt og getu til góðra launa og karlar. Ég var oft með mun hærri laun í síldinni sem unglingur en strákarnir sem voru á tímakaupi við að taka tunnur til og frá síldarstúlkunum og færa okkur salt og síld. Eins var það í fiskvinnslunni ef notaður var bónus. Þá var hægt að tvöfalda launin sín ef maður var kappsamur og sæmilega vandvirkur. Strákarnir þurftu í flestum tilfellum að fara á sjóinn til að komast í þá aðstöðu að hafa eitthvað um það að segja, með sínu vinnuframlagi, hverjar tekjurnar yrðu. Þeir þurftu að gera meira en að þrauka í vinnuúthaldi og vöku heilu næturnar. Hjá þeim var umhverfið oft lífshættulegt og sumir svo sjóveikir að þá langaði mest fyrir borð. Við þetta bættist oft erfitt samfélag  um borð, auk stríðni til viðbótar við einangrun frá ástvinum og ættingjum.

Draumurinn

Hver var hann þá þessi draumur hins djarfa manns? Var það að vera bjargvættur þjóðarinnar með vinnuframlagi sínu? Var það að vera sjálfstæður og metinn að verðleikum? Var hann kannski bara draumur um síldarstelpu sem hann sæi næst þegar hann “landaði síldinni... sitt á hvað ...á Dalvík og Dagvarðareyri”.    

6822 báturinn minn1....... trillukarl.  

Það var erfitt að taka þeirri staðreynd að síldin hvarf af Íslandsmiðum og starf síldarstúlkunnar heyrði sögunni til. Menn urðu því að bjarga sér sjálfir með einhverjum hætti og sumir fjárfestu í trillum, ýmist einir eða fleiri saman, jafnvel bátum og skipum. Þá skipti miklu máli að vera agaður og kappsamur. Eflaust voru þær nokkuð margar sjómannskonurnar sem urðu að sæta því að bíltúrinn á kvöldin lá beint niður á bryggju til að kanna hvar menn væru að “ fáann” og hvað þeir voru með margar trossur og allt það. Þær máttu þakka fyrir að nú voru þeir heima á hverjum kvöldi. Ekki voru samskipti eins greið við þá yfir daginn eins og er í dag, á tímum gsm símasambandsins, en mikil umskipti eftir að hafa upplifað margra daga sambandsleysi á síldveiðiúthaldinu.

Kvótinn.

Trillukarlar hafa marga fjöruna sopið í sambandi við stjórnun fiskveiða með öllum þeim reglugerðum og takmörkunum sem settar  hafa verið á þá. Á tímabili vissu margir ekki í hvorn fótinn ætti að stíga þegar þeim var gert að velja á milli kerfa, enda mikil óvissa um hvernig kvótakerfið myndi þróast. Má þar nefna dagróðrakerfið og almenna kvótakerfið.  Ég hef það á tilfinningunni að margir trillukarlar séu með sömu “starfshvatagenin” og síldarstúlkurnar. Ég veit allavega um þó nokkra útgerðarmenn sem halda áfram að róa þó þeir hafi auðgast gríðarlega á kvótanum og láta sína skipverja njóta þess í glæsilegum uppgjörum. Ekkert svindl þar. Þeirra menn eru kannski með tvisvar sinnum hærri laun en sambærilegir hluthafar hjá öðrum útgerðum. Þetta eru menn sem elska vinnuna sína og stjórnast ekki af taumlausri peningagræðgi og eru sjálfum sér og stéttinni til sóma. Þetta eru sjómenn sem eru alltaf ofan á sama hvaða fiskveiðikerfi er notað. Nú er spurning hvort starfsheiti trillukarl heldur til framtíðar eða hverfur eins og starf síldarstúlkunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Góður pistill Kolbrún, þú ert skemmtilegur penni.

Við skulum vona að trillukarlarni fái að halda sínu, fyrir því þarf að berjast eins og mörgu öðru á þessum tímum. Stjórnarandstaðan má láta heyra meira í sér en ég hef verið ánægð með tillögur FF í kvótamálum upp á síðkastið

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.7.2008 kl. 01:18

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl Kolla.

Kvótakerfi það nú er við lýði er ónýtt eins og við vitum báðar og það sem verra er það fer illa með lífríki sjávar þar sem menn vita ekkert hvað þeir eru að gera varðandi ráðleggingar um veiðar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.7.2008 kl. 02:37

3 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Kolla, Síldarævintýrið í mínum huga er alltaf sjarmerandi og rómantískt. Ekki veit ég hvaðan ég hef þeá tilfinningu en ég hefði viljað vera í síld. Fæddist bara aðeins of seint.

kveðja

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 16.7.2008 kl. 08:45

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Tek undir með stúlkunum hér að framan, skemmtilega skrifuð grein og ekkert væl; það er dugnaður hvers og eins sem ræður hans gæfu. Það finnst mér vera inntakið og er þér sammála.

En þú mátt ekki gleyma því, að við tunnustrákarnir á síldarplönunum stálumst stundum til að leggja niður fyrir stúlkunar, sérstaklega var vinsælt ef maður tók nokkur neðstu lögin! Verkstjórarnir voru misánægðir með þetta en aldrei hlutust af vandræði, held ég, svo fremi að passað var að hvergi vantaði tóma tunnu.

Ágúst Ásgeirsson, 16.7.2008 kl. 17:50

5 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Mín kæra vinkona.Kvitta fyrir lestur og þakka frábæra færslu,sem mér finnst eiga heima á heimasíðu FF.Upplifði ekki hið virkilega"Síldaræfintýri"var á þeim tímum á svokölluðum síðutogurum.Að 2 sumrum undanskildum.Á hinu fyrra 1956 að mig minnir fengum við 700,já sjöhundruð mál og tunnur.Fleiri árum seinna þegar síldin fékkst aðallega ú af Austurlandi einhver þúsund af sama.En við lestuðum oft síld á togurunum til sölu í Þýskalandi.Sértu ávallt kært kvödd

Ólafur Ragnarsson, 16.7.2008 kl. 17:55

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Kæru bloggvinir. Takk fyrir hlý orð í minn garð. Ég hafði gaman af því þegar ritstjóri Sjómannsins hringdi í mig og bað um grein í blaðið. Hann sagðist vera með í höndunum "tveggja vasaklúta" grein um sjómenn í fréttablaði sem við gáfum út frjálslynd í Kópavogi í tilefni sjómannadagsins. Ég var fljót að segja já. GMaría ég er sammála þér með kvótakerfið en ekki eins viss um að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera. Málið er hvað  og hversvegna? Það er synd að þið skylduð ekki kynnast síldarævintýrinu Guðrún Þóra og Ólafur, veit ekki með þig Guðrún Jóna eflaust líka of ung eins og nafna þín. Það var rosamikill sjarmi yfir síldveiðitímabilinu eins og GÞ segir. Þetta var alveg magnað og gullaldarvestrar minna mig oft á þennan yndislega tíma. Íbúafjöldinn margfaldaðist og allt fór á hvolf sérstaklega í landlegum. Auðvitað ertu sammála mér Ágúst enda hefur þú upplifað þetta og ég meina það, það var mótandi.  Það er skemmtilegt að segja frá því að ég var að koma úr matarboði og þetta barst í tal og ég sagði orðrétt " Auðvitað voru svo strákarnir bæði af planinu og af bátunum oft að leggja niður fyrir okkur sérstaklega í botninn enda var það erfiðast " Ég man það vel, engin spurning með það. Ólafur minn ritstjóri XF ræður því hvort hann notar þetta á heimasíðu flokksins eða ekki.

Knús á línuna Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 16.7.2008 kl. 23:53

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já kærar þakkir fyrir skemmtilega upprifjandi grein Kolbrún.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband