Leita í fréttum mbl.is

Klukkið

 

 

Jæja þá er komið að því að svara þessu klukki sem bæði Georg og Magnús Geir hafa sent á mig.

Ég kann þetta nú ekki almennilega en ætla að reyna.

Störf:Útibússtjóri og bankaritari hjá Landsbanka Íslands , framkvæmdastjóri hjá Starfsafli, fræðslusjóði fyrir ófaglært verkafólk, gjaldkeri hjá Jökli útgerðarfélagi, fiskverkakona, rekstur félagsheimilis, læknaritari, barnaskólakennari, leikskólastarfsmaður, afgreiðslustúlka í búðum og afgreiðslumaður hjá Flugfélagi Íslands. Síldarstúlka og beitningamaður. Núna er ég framkvæmdastjóri hjá Sjálfsbjörg lsf.

Búseta: Raufarhöfn, Hellissandur, Ólafsvík, Reykjavík, Kópavogur.

Bækur: Arabíukonur, Arabíudætur, Flugdrekahlauparinn, 1000 bjartar sólir. Dætur hafsins ( Súsanna Svavars)

Kvikmyndir: Pretty Woman, Mama Mía. Sveitabrúðkaup  og allar með Harrison Ford

Sjónvarpsþættir: Næturvaktin, 24 ,Prison Break, Stelpurnar.

Matur: Lambakjöt, kjúklingur, þoskur, SS pylsur.

Dvalarstaðir í fríum: Svíþjóð, Spánn, Portugal, Túnis, Canary, Flórida, Ítalía Danmörk stefni á Tyrkland í oktober.

Bloggsíður:   Allir bloggvinir en Ólafur Ragnars og Gunnar Rögnvalds uppáhalds.

Elskhugar: hmmmmmmm þetta minni manns ...:)

 

 


Að breiða út boðskapinn

Skemmtileg sending frá elskulegri dóttur minni í dag sem sýnir vel hversu erfitt er að sanna kenningar Biblíunnar.

Hver var hann ?

Þrjár sannanir fyrir því að Jesú var mexíkani.

- Hann hét Jesú

- Hann talaði tvö tungumál

- Hann hafði aldrei frið fyrir yfirvöldum


Sömuleiðis eru líkur á því að Jesú hafi verið svertingi.

- Hann kallaði alla 'bræður sína'

- Hann var hrifinn af gospel

- Hann fékk aldrei sanngjarna málsmeðferð hjá yfirvöldum


En það gæti líka vel verið að hann hafi verið Gyðingur.

- Hann fetaði í fótspor föður síns

- Hann bjó heima þangað til að hann var 33 ára

- Hann notaði ólífuoliu


Þrjár sannanir sem sýna sterklega að Jesú hefði vel getað verið ítalskur.

- Hann baðaði út höndunum þegar hann talaði

- Hann drakk vín með hverri máltíð

- Hann var viss um að mamma sín væri hrein mey og mamma hans var viss um það að hann væri Guð.


Þrír möguleikar sem sýna að hann hefði getað verið frá Kaliforníu.

- Hann lét aldrei klippa sig

- Hann gekk berfættur

- Hann lagði grunn að nýrri trú


En það er þó mjög líklegt að hann hafi verið Íri.

- Hann giftist aldrei

- Hann elskaði að vera úti í náttúrunni

- Hann var sífellt að segja sögur


EN....það líklegasta er að Jesú hafi verið KONA.

- Hann var neyddur til að fæða fjölda manns án fyrirvara, þótt ekki væri nokkur matur til !!!!!!

- Hann reyndi að láta rödd sína heyrast meðal fjölda karla sem ekki föttuðu baun.

- Þrátt fyrir að hann væri dáinn, varð hann að rísa upp aftur því það var meira sem hann átti eftir að gera !!!!!!!!!!


Þess vegna skaltu senda þetta til allra kvenna svo þær skilji að þær eru enn guðdómlegri en þær héldu ....

Geri það hér með ...amen


Biðin langa

WaitingNú færist haustið nær með sína rómantísku birtu og náttúrufegurð. Sumarið farið að undirbúa brottför sína með aðeins kaldari dögum, þó enn sé sólskin og blíða. Eftir sitja minningarnar um góðar stundir á golfvellinum og sú staðreynd blasir við að ekki verður hægt að spila mikið lengur, nema einn og einn dag, hér heima. Hefst nú leit að golfferð á hentugum tíma til að reyna að halda sér í smá þjálfun fram á næsta vor. Þá vandast málið fyrir einhleypa konukind. Lítið varið í að fara ein og vera alltaf afgangs og svo er það miklu dýrara. Ef hverju ertu þá ein gæti einhver spurt. Svarið við því er einfalt. Það kom í ljós í Bandarískri könnun að konur leita sér að manni sem líkist pabba þeirra. Glætan að einhver sé eins og pabbi minn.  

Leiksigur Árna Péturs.

Árni Pétur GuðjónssonÉg er alveg í skýjunum með kvikmyndina Sveitabrúðkaupið. Við fórum mæðgurnar, allar þrjár, í bíó á laugardagskvöldið og skemmtum okkur konunglega. Mér fanns áberandi hvað Árni Pétur Guðjónsson fór á kostum í sínu hlutverki og verður nú gaman að fylgjast með hvort hann fær ekki örugglega íslensku leiklistarverðlaunin fyrir besta leik þetta árið. Ég er ekki gagnrýnandi en ég hef aldrei séð íslenskan leikara leika eins vel það verð ég að segja. Núna skil ég hvað það þýðir í raun að stela senunni. Tær snilld.

Samt góðir.

Ég var að horfa á úrslitaleik Breiðabliks og KR í fótbolta og verð að segja að mér fannst sárt að sjá Breiðablik tapa á vítaspyrnukeppni eftir að hafa átt góðan leik. Ég er auðvitað sérstakur stuðningsmaður Breiðabliks enda Kópavogsbúi og er afar lítið hrifin af KR. Breiðablik styrkti Sjálfsbjörg lsf í fyrra þegar liðin í Landsbankadeildinni ávísuðu innkomu ákveðinna leikja til góðra málefna. Ég hugsa alltaf hlýlega til þeirra og óska þeim velfarnaðar í hverjum leik. 


Morgunstund með strákunum.

Í morgunn mættum við dóttla í Laugum, klukkan rúmlega sex, eftir að hafa velt vöngum yfir því hvort við ættum að vakna og horfa á strákana í handboltanum eða fara í ræktina. Niðurstaðan var að mæta hálftíma fyrr en venjulega og horfa á leikinn í ræktinni. Þetta gerðum við og náðum hlaupabrettum með sjónvarpskjá. Það var alveg magnað að fylgjast með íslenska liðinu. Þeir tóku strax forystu og héldu henni þó tæpt stæði um stund og fyrir vikið varð leikurinn enn meira spennandi. Það var líka frábært að upplifa stemminguna í þessum stóra sal þar sem fólk fagnaði hverju marki í seinni hálfleiknum og í leikslok stoppuðu flest, ef ekki öll, hlaupabrettin samtímis og fólk klappaði ákaft eins og það væri á leiknum.  Það voru greinilega fleiri en við mæðgurnar sem voru lengur á brettinu en venjulega til að fylgjast með þessum frábæra leik.Það er augljóst að ekki er nauðsynlegt að hittast á einhverjum íþróttabar til að ná upp góðri stemmingu. Ólafur Stefánsson uppáhaldið mitt var eins og venjulega ljúfur og góður. Nú er það bara lokaspretturinn. Áfram Ísland.


Meðalfell

IMG_0513Ég gekk á Meðalfell í Kjós síðasta fimmtudag með gönguhópnum mínum. Þetta fjall lætur ekki mikið yfir sér og nafnið bendir ekki til að það sé erfitt. Ég viðurkenni að það var mun erfiðara en ég átti von á en það er ca.350 m hátt  en ekki eins hátt og Keilir sem ég gekk á viku áður. Það var smávegis úði þegar við lögðum upp í ferðina en menn létu það ekki trufla sig og það var greinilega rétt ákvörðun því það var bara fínt veður þegar á leið. Ég var alveg að springa úr hita og mæði en hinir, sem eru vanir, blésu ekki úr nös. Samt er ég í ræktinni þrisvar í viku og hélt að ég hefði gott þrek. Ég var sú eina sem fækkaði fötum á leiðinni upp og fékk tiltal frá fararstjóranum " Ekki úr meiru Kolbrún" Grin En þetta var bæði fróðlegt, fallegt, skemmtilegt og svo var hlíðin svört af berjum....... Aldeilis frábært.


Jeppahroki.

JeppahrokiAlveg er það frábært þegar maður fer í innkaupaleiðangur í Kringluna eða Smáralind og fær ekki bílastæði. Þarna eru bílar út um allt svo langt sem augað eygir. Þá er fróðlegt að fylgjast með tillitsleysi landans. Á síðustu helgi fór ég í Kringluna og þar keyrði ég um í nærri 15 mínútur áður en ég fann loksins stæði. Þá hafði ég keyrt fram hjá þremur "næstumþvístæðum" af því að jeppaeigendur í öllum tilfellum höfðu lagt inn í tvö stæði til að ná sér í nógu mikið pláss. Það er svosem skiljanlegt þegar menn eru komnir á rándýra bíla að þeir óttast mjög að skemma þá og vilji ekki fá hurðarnar á næsta bíl í sinn. En hvað með hina. Ætli þeim sé ekki sárt um sína bíla? Það verði bara allir að treysta á þokkalega umgengi annarra. Það held ég nú bara og finnst þetta jeppahroki af næstverstu sort. Hugsa að ég láti númer flakka með næst þegar ég upplifi þessa frekju.

Sambúðarslit.

gestaparið.Jæja nú er nóg komið. Þessi sambúð gengur ekki lengur hugsaði ég með mér þegar ég kom að útidyrahurðinni hér heima  og við mér blasti stærðar kóngulóarvefur sem var svo snilldarlega gerður að hann teygðist bara þó ég opnaði hurðina. Þessi sambúð hófst fyrir svona þremur árum en þá sá ég að kónguló var búin að vefa uppi í öðru innra horninu á skyggninu yfir útidyrunum. Mér fannst þetta allt í lagi og lét kyrrt liggja. Fljótlega var kominn vefur hinumegin líka og bara búsældarlegt hjá vinkonu minni. Hún hékk oft í vefnum á dagin og ég sá að hún var mjög bústin með deppla á bakinu. Einnig sá ég að hún var búin að gera hnykil með límkenndu efni sem er mjög sterkt. Sennilega birgðir til að vefa úr.  Ári seinna var þetta heldur meira og stundum fann ég að ég hafði gengið á þráð á leið upp tröppurnar. Lét mig hafa það þar sem ég gat ekki hugsað mér að drepa greyin og svo væri það kannski ógæfumerki. Þær hafa síðan verið að sækja á spunadrottningin og hennar lið . Þær voru fljótar að pakka inn sumarblómakörfu sem ég setti á vegginn sem þær hafa haft efri partinn af en ég neðri. Svo var það í fyrrakvöld þegar ég kom heim að ég kom að þeim á mínum helmingi og ekki bara það heldur búnar að leggja undir sig dyrabjölluna og farnar í útrás þaðan. Útrásin Þeim var þá sparkað og þær fótum troðnar í orðsins fyllstu merkingu. Ég mun ekki gefa neina grið í framtíðinni. Þessi hæð rúmar bara eina drottningu. 

GKG

Golf á Spáni Í gær, sunnudag, fór ég og spilaði golf á golfvelli Kópavogs og Garðabæjar. Fór í fyrsta skipti þennan völl eftir að honum var breytt og farið að spila Leirdalinn alveg upp í Salahverfi. Það hefur einhvernvegin verið þannig að þessi völlur hefur verið mér svo fjarlægur og ekki hafa verið mörg mót þar sem hafa heillað mig til þátttöku. Hann hefur líka, satt best að segja, haft frekar neikvætt orð á sér, sagður erfiður og leiðinlegur. Þetta finnst mér alger misskilningur og tel hann bæði skemmtilegan og fjölbreyttan. Mikill hæðarmunur er í honum og flatirnar krefjandi. Ég náði ekki nema 28 punktum á 92 höggum en meðspilarinn var með tvo fugla. Hann vann mig með einu höggi. Sem betur fer ekkert veðmál í gangi og engin minnkun af því að tapa fyrir góðum golfara. Minni völlurinn, Mýrin, er líka góður og ekki síst þeim sem eru að taka sín fyrstu skref í þessari frábæru íþrótt. Ég mun spila þarna aftur fljótlega og er alvarlega að spá í að ganga í þennan klúbb.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband