Leita í fréttum mbl.is

Nýja útrásin

Nú virðist viðskiptaráðherra vera lagstur í víking til að vinna landinu velvildar og nýrra tækifæra. Allir vita að brýna þörf ber til að bæta ímynd okkar Íslendinga erlendis og hver er nú bestur til þess nema sá sem hefur með viðskiptamálin að gera. Gylfi Magnússon hæstvirtur viðskiptaráðherra hefur nú lýst því yfir í heimspressunni að eftir nána skoðun á bankamönnum heimsins þá séu þeir íslensku allra verstir.

Væntanlega mun þetta auka tiltrú lánastofnana erlendis og opna þær lánalínur sem hafa verið lokaðar.

http://www.dv.is/frettir/2009/10/25/gylfi-islenskir-bankamenn-their-verstu-i-heimi/

Ef þetta, einhverra hluta vegna, virkar ekki alveg þá getum við  væntanlega gengið í ESB


Máttlaus stjórnarandstaða

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra. Ef einhvertíma er lag fyrir þann flokk að ná árangri þá er þetta tímapunkturinn. Nú er allt á suðupunkti út af afleitri frammistöðu stjórnarinnar og allt logar í illindum í Vinstri grænum. Þjóðin hefur misst trú á ríkisstjórninni og æ fleiri átta sig á þvingunum sem hún  beitir til að koma þjóðinni í ESB.

Það kom því á óvart að Sjálfstæðismenn skyldu flagga holdgervingi bankakrísunnar, varaformanni sínum, sem er eins og fleinn í holdi flokksins. Hún stóð sig vel að vanda en þó auðmjúk væri þá var það engan vegin nóg til að leiða hugann frá ímynd hennar og ábyrgð flokksins á krísunni. 

Verra var að Ragnheiður Elín sem hefur oft átt góða spretti var alveg afleit. Afgerandi úr takti við tilveruna mætti hún með ræðu sem hefði getað gengið 2006 og lét eins og hún hefði ekki heyrt um kreppuna hvað þá breytt hugarfar hjá þjóðinni í kjölfar hennar. Ekki hafði hún mikið fram að færa utan fréttar eða kannski frekar skilaboða frá sægreifa í Þorlákshöfn sem vildi halda áfram að eiga kvótann sinn og önnur skilaboð frá vinkonu á Suðurnesjum sem vildi að þingmenn héldu áfram að sofa á verðinum og þvældust ekki fyrir hugmyndaríkum eiginhagsmunafrömuðum sem ætla að byggja upp samfélagið. 

Ég get ekki túlkað það öðruvísi en að þessi unga og menntaða kona vilji að þingmenn haldi sig við Austurvöll sem götuskraut og að allt verði óbreitt frá því fyrir kreppu. Þessi frammistaða dregur vissulega athygli frá drambi Þorgerðar og e.t.v. til þess gert að aflétta ímyndarvandamálinu af varaformanni. Sif æfði sína ræðu fram að flutningi og var framúrskarandi góð ,gagnrýnin og málefnaleg. Birgitta ýfði upp í mér viðkvæmnina fyrir því fagra í lífinu en óþarfi að hafa þingmann til þess.

Allt eru þetta mætar konur en mér finnst nú meira þurfa til að réttlæta lögbindingu kynjakvóta en svona frammistöðu.


Teikn og fyrirboðar

Á þessum undarlegu tímum sem við lifum í dag er algengt að fólk láti samsæriskenningar ná tökum á sér. Menn sjá teikn á lofti, ýmist sem fyrirboða eða afleiðingar einhverra annarra atvika. Stórbrunar eru gjarnan tengdir við stórviðburði. Til dæmis brann til grunna hið sögufræga hús, Valhöll á Þingvöllum, þar sem hinn sögufrægi koss Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átti sér stað. Við myndun þeirrar ríkisstjórnar er óhætt er að segja að ástareldurinn hafi verið mikill og jafnframt að menn hafi gleymt að setja öryggið á oddinn og því er þjóðin nú varnalaus í þeirri vá sem nú brennur á henni.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, barðist við eldinn, berum höndum, til að bjarga Höfða, hinu sögufræga húsi í Reykjavík, undan eldtungunum daginn eftir að Davíð Oddson tók við ritstjórn Moggans. Vonandi táknar það að hún og hennar fólk muni, með handafli ef þarf,  viðhalda því velferðarkerfi sem þó hefur verið til staðar í borginni. Vonandi áttar fólk sig á því að verðmæti eru ekki bara í húsum, listmunum og málverkum. Gott kerfi sem heldur utan um fólk sem ekki er fært um að bjarga sér, er verðmæti sem allir verða að leggjast í að bjarga. Þjóðin sendi Gresnásdeild Landspítalans hlýjar kveðjur á föstudaginn var. Vonandi er það tákn um að fólk skilji að það þarf að vinna vel í velferðargeiranum og ætti að vera hafið yfir pólitískt argaþras. 

Ríkisstjórnin hefur ekki verið að slökkva elda þrátt fyrir það sem sagt var fyrir kosningar. Þráhyggjan um að þvinga þjóðina inn í ESB, með Icesave reikninginn í kokinu, gerir ekki annað en að tefja endurbætur og uppbyggingu samfélagsins. Vonandi verða ritstjóraskipti á Morgunblaðinu til þess að opna augu og eyru fólks fyrir því að margar aðrar leiðir eru færar til að byggja upp okkar ágæta samfélag á ný. Ég held að nú fari fólki að iðrast þess að hafa viljað kanna hvað væri í boði í ESB. Nú vita menn líklega að það sem er í boði er Icesave skuldin, sem menn nenna ekki lengur að tala um frekar en fiskikvótann, okurvextir, sem haldið er uppi af Seðlabanka sem ríkisstjórnin stýrir og atvinnuleysi að evrópskum hætti. Ég brenn í skinninu eftir því að ríkisstjórnin fari að taka til kostanna, dragi umsókn um aðild til baka um óákveðinn tíma og semji við aðra um fyrirgreiðslu og samvinnu. 

 


Ömmudrengur

Hvað ætli sé í þessuÞað er einhver takki þarna

 

Merkilegt hvað strákar eru skrýtnir. Alltaf að skoða og kanna alla hluti. Ég fór með krúttið mitt í göngutúr og það var gaman að sjá hvað hann þurfti að skoða það sem fyrir augu bar. Ég taldi mig heppna að ná honum af brunahananum áður en hann færi í gang með tilheyrandi vatnsgusum en það slapp með því að vekja athygli hans á næsta fyrirbæri. Hann er svo mikill fjörkálfur að þessi mikla athyglisgáfa kom mér á óvart. Ég sagði honum " að það væri ekkert að sjá, allt jafn augljóst og kjörin í ESB.

Áfram Íslands -ekkert ESB

Sýnum ábyrgð

Oft er talað um að fólk eigi að axla ábyrgð í opinberum störfum. Yfirleitt er þá til þess ætlast að viðkomandi taki pokann sinn. Minna hefur verið talað um að fólk eigi að taka ábyrgð á sínu daglega lífi. Margir vilja treysta á að eitthvað eða einhver komi þeim til bjargar þegar þeir hafa sjálfir klúðrað sínu lífi. Sumir eru líka þannig að þeir vilja alls ekki taka ákvörðun og leggja því allt sitt traust á ráðgjafa eða einhverja guðstrú.

Flestir geta lent í að gera ranga hluti og telja þá oft að einhver eða einhverjir hefðu átt að benda á að þeir væru komnir á ranga eða hættulega braut. Aðrir festast í ásökunum um að uppeldið hafi ekki verið nógu gott, hjónabandið misheppnað eða í versta falli bankinn þeirra eða ríkisstjórnin verið ómöguleg. Svo er til fólk sem er þannig stemmt í pólitík að það vill reglur um alla hluti. Boð og bönn út um allt. Sjálfri finnst mér að forræðishyggjan sé óþolandi, ali á aumingjaskap og dragi alla döngun úr fólki. Það var mikið vegna þessarar skoðunar minnar að ég gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn. Mér finnst fólk eigi að bera meiri ábyrgð á eigin lífi og nota dómgreind sína sjálfum sér og sínum til farsældar, annars sitji menn uppi með afleiðingarnar sjálfir. Til þess að þetta gangi verður að ríkja traust og réttlæti í umgjörðinni sem við lifum í, samfélaginu sjálfu og réttarkerfinu. 

Ég er á móti því að viljaleysi fólks verði til þess að aðrir verði að búa við ofríki frá hinu opinbera. Mér finnst við vera á góðri leið með að verða reglugerðarríki, eins og sagt er að sé í Svíþjóð og ef við förum inn í ESB þá verður staðall um alla hluti. Það mun væntanlega drepa niður þá framtakssemi og þann heilbrigða metnað sem hefur komið þjóðinni til þess sjálfstæðis sem hún hefur í dag. Þjóðin býr við erfiðleika um þessar mundir eftir nokkuð langt góðæristímabil. Það er þannig í lífinu að það skiptast á skin og skúrir og ég tel að við, ef við sýnum ábyrgð, munum komast í gegnum þetta tímabil mun fljótar og betur ef við höfnum aðild að ESB.


Að ná markmiðum sínum

kolla golfi1Í vor gekk ég í golfklúbbinn GKG -Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar-og ákvað að vera dugleg að spila þetta sumarið. Ég setti mér markmið um áramótin og það var að komast undir 13 í forgjöf en þá var ég með 13,8. Ég var reyndar að vona að ég kæmist í öldungasveitina hjá þeim því þar er ekki eins mikil aðsókn og keppni og í gamla klúbbnum mínum GR-Golfklúbbi Reykjavíkur. Ég ákvað líka að eyða peningum í kennara og breyta sveiflunni. Það er gaman að segja frá því að ég notaði meistaramótið til að æfa nýju sveifluna og varð öldungameistari kvenna í GKG. Síðan hef ég spilað mikið og náð markmiðinu í forgjöf, komin í 12,3. Síðast og ekki síst þá tók ég þátt í sveitakeppni öldunga á Flúðum og þar unnu kellurnar út GKG sig upp í A-riðil og náðu svo bronsinu fyrir þriðja sætið í dag. Það var frábært að spila á Flúðum við konur sem eru hoknar af reynslu og mörgum sinnum betri í golfi en maður sjálfur. Afar þroskandi og lærdómsríkt. Það voru því kátar og þreyttar konur sem ég kvaddi á Flúðum í dag. 

Föðurmissir

Pabbi minnÉg keyrði norður á Húsavík sl. laugardag ásamt bróður mínum og systursyni. Erindið var að hitta föður sinn og afa á lífi í hinsta sinn. Hann hafði verið fluttur á sjúkrahús daginn áður, gamli maðurinn, í andnauð. Hann fékk öndunaraðstoð en í raun var líkaminn búinn að fá nóg. Ein systir mín kom frá Raufarhöfn en hin er í útlöndum. Hann lést tveimur klukkustundum eftir að við komum til hans. Þetta er önnur ferðin mín til hans á nokkrum dögum en ég var hjá honum 7. til 11. ágúst. Við áttum góðan tíma saman og ræddum um ýmis mál sem við höfum ekki rætt lengi. Hann sagði mér drauma sína um föður sinn og aðra látna ættingja. Hann sagði mér líka upplifun sína af því að missa réttindi til að keyra bíl vegna daprandi sjónar og hvað það hreppti hann í mikla fjötra en hélt í vonina um að það mætti laga. Við ræddum dauðann og þá trú sem ég hef varðandi hann og framhaldslífið. Það var auðheyrt að það var eitthvað sem honum hugnaðist vel og er ég að vona að það hafi tekið frá honum óttann sem ég held að flestir upplifi þegar kallið kemur. Eftir erfiða stund á sjúkrahúsinu keyrðum við heim á  Raufarhöfn um kvöldið og gistum í Brún. Á sunnudagsmorgun fórum við til Þórshafnar til að flytja móður okkar þessi sorgartíðindi. Eftir nokkra tíma með henni var keyrt í bæinn. Framundan er flókið ferli til að komast í gegnum útför með öllum þeim serimoníum sem því fylgja bæði hvað varðar trúarþáttinn og lagaþáttinn. Maður gengur alveg á vegg hvað þekkingu varðar í þeim efnum. Mér kom í hug hvort það fari ekki að koma upp sú staða í þjóðfélaginu að fólk hafi ekki ráð á því að grafa sína nánustu. Ég vil nota tækifærið og þakka sjúkraflutningamönnum og starfsfólki sjúkrahússins á Húsavík fyrir skjóta og góða þjónustu við pabba minn  og okkur aðstandendur.  

Á æskuslóðum

Lalli_Kaj_og_Kolla_StebbaEkki fer nú hjá því þegar maður hverfur til æskustöðva sinna á miðju sumri ,um hátind golfvertíðar, að maður leiði hugann eins langt aftur og verða má. Amma mín hefði orðið 115 ára í ár og hún er sú kona sem ég hef mest litið upp til um ævina. Systkini pabba eru mér hugleikin líka og þá sérstaklega Hörður. Hann var alla tíð barnlaus en sá ljúfasti maður sem ég hef kynnst og barngóður eftir því. Hann var stöðugt með okkur í bílnum hjá sér en hann var vörubílstjóri og keyrði mikið innan staðarins. Hann tók t.d. Lalla Kaj nánast að sér en hann var sonur Jonnu konu Munda, þriðja bróðursins. Ég var líka í uppáhaldi hjá honum og vorum við alltaf mestu mátar meðan hann lifði. Nú eru þau öll látin en ég við bestu heilsu og vona að þau vaki yfir mér sem og öðrum afkomendum. 

Sléttuganga

IMG_1060Fór norður föstudaginn 7. ágúst og ákvað á leiðinni að taka þátt í Sléttugöngu sem var farin laugardaginn 8.8. kl 8:00.  Átján manns voru með í þetta sinn. Gengið var frá túnfæti í Hóli, upp í Grashól sem löngu er kominn í eyði og þaðan þvert yfir Melrakkasléttu milli Leirhafnarfjalla og komið niður við spennistöðina ofan við Kópasker. Þetta eru 31 km og gengið nánast á jafnsléttu allan tímann. Við vorum komin í bíla á Kópaskeri kl 17:00 Það kemur sjálfsagt engum á óvart að þetta var heldur litlaus ganga og ekki margt sem fangaði augað. Ég var afar fegin þegar þetta var búið en jafnframt ánægð að hafa drifið mig. Fótafúin og þreytt fór ég í rúmið þetta kvöld og hugsaði til ömmu minnar sem hefði orðið 115 ára þennan dag. Það veit ég fyrir víst að  henni hefði þótt þetta heldur undarleg hegðun þar sem ég átti ekkert sérstakt erindi.

Vísuskot

kálfar 1Um daginn, í góða veðrinu, var ég að spóka mig í kjól og hælaskóm. Ég hitti af tilviljun fyrrum sambýlismann sem góndi svoleiðis á kálfana á mér að ég fór öll hjá mér. Þeir eru með sverasta móti núna og ég ekki ánægð með það. Ég er búin að þvælast á fjöll, arka um golfvelli, hamast í ræktinni og þetta hefur orðið til þess að kálfavöðvarnir eru alveg hroðalega stórir. Nema hvað að hann starir þar til ég segi höstug " Djö..ertu að glápa maður, það er ekki eins og þú þekkir ekki á mér bífurnar" og strunsa framhjá og inn í golfskála. Þegar ég kom til baka stóð hann glottandi á sama stað og sagði " mér datt bara í hug vísa" nú? já svona: 

Augun hvarfla upp að hné

hærra er ei hægt að vona

en hvernig ætli kýrin sé

fyrst kálfarnir eru svona.

InLove

Já sumir eru bara skemmtilegri en aðrir LoL.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 122264

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband