Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.10.2010 | 08:30
Hólmavík
Ég brá undir mig betri fætinum síðastliðna helgi og keyrði vestur á firði í blíðskaparveðri. Það var einkar ánægjulegt að njóta útsýnisins og ferðast um landið sitt. Það var farið inn á flesta staði á leiðinni bæði Búðardal, Krókfjarðarnes og Hólmavík. Eins og vanalega fór ég á bryggjuna og kíkti á bátana en trilluútgerðin er alltaf svolítið nálæg sálinni í mér.
Á Hólmavík eins og víðast hvar á landinu trónir kirkja á hæsta punkti eða þá að þær eru mjög áberandi miðsvæðis. Ég hef sérstakan áhuga á aðgengi að kirkjum fyrir hjólastóla og því var farið að skoða það nánar.
Það var eins og mig grunaði. Þrátt fyrir staðsetningu var kirkjan upphækkuð til að koma fyrir tröppum á fjóra vegu og um leið var hún orðin óaðgengileg fyrir hjólastólafólk.
Á tröppunum sat hinsvegar maður með hækjur. Hann tók vel undir kveðju mína og brosti sæll og glaður. Við tókum tal saman og þá kom í ljós að hann er bóndi úr Bitrufirði og bjó á elliheimilinu. Hann sagðist vera 88 ára, en það held ég að hljóti að hafa verið einhver elliglöp og bar það á hann. Hann hló bara og sagðist hafa verið giftur sömu konunni í 60 ár og þau hefðu aldrei rifist. Þessu trúði ég alveg því hann virkaði afar ljúfur, elskulegur og fallegur maður.
"Nú" sagði hann þegar ég kynnti mig sem framkvæmdastjóra Sjálfsbjargar. "Þá ferðu ekki fyrr en þú ert búin að redda aðgengi niður brekkuna hér í plássinu. Þú verður nú ekki lengi að því ".
Ég fór og kíkti á brekkuna og hún var ekki árennileg fyrir fótafúið fólk og varla aðra heldur. Snæri hafði verið strekkt eftir henni til að styðja sig við en það var bæði sigið og laust og ekki traustvekjandi.
Annan mann hitti ég, ungan og verklegan smið og var hann bæði skrafhreifinn og brosmildur.
Ég held að fólkið sé nokkuð hamingjusamt á Hólmavík, þangað var allavega gaman að koma.
9.9.2010 | 17:50
Aðskilnaður minn og kirkjunnar
Nú hef ég ákveðið að segja skilið við stofnun sem ég hef lengi tilheyrt sem er þjóðkirkjan. Ástæðan er sú að nokkur undanfarin ár hef ég verið meira og minna óánægð með þá stöðu sem kirkjan hefur komið sér í.
Þar hefur margt komið til en þó mest sú æpandi stöðnun sem mér hefur fundist ríkja innan veggja þar. Mér hefur fundist skorta á trúarhita presta og sannfæringu en í staðinn er boðið upp á steingelt messuform fyrir hinn almenna safnaðarmeðlim og sömu sálma síðustu áratugina.
Nýlega tjáði ég mig um fáránlega kirkjusiði sem felast í því að reka fólk á fætur í tíma og ótíma þó ekki sé um að ræða nema klukkustundar athöfn.
Þrátt fyrir endurútgáfu á hinni heilögu bók , ekki fyrir löngu, hefur mér fundist sumir prestar eins og nátttröll sem hafa dagað uppi. Ég veit vel að mikið starf er unnið innan kirkjunnar bæði barna- og unglingastarf auk hjálparstarfs sem flokkast sem nútímalegt og jákvætt. Spurningin er hvort það er helsta hlutverk kirkjunnar.
Það sem mér hefur helst verið þyrnir í auga er ríkisreksturinn á kirkjunni. Mér finnst það vera mismunun milli trúfélaga og úrelt hugmyndafræði. Toppurinn er svo ótrúlegar upphrópanir um ótrúlegar uppáferðir sem hefur nú tröllriðið umræðunni í nánast þrjár vikur samfleytt. Varla er sest niður með fólki án þess að kirkjan og biskupar hennar séu til umræðu. Þessi umræða finnst mér frekar keimlík þeirri fyrri um sama mál. Áður voru það ákærukvendin sem voru úthrópuð og samúðin með hinum kynþokkafulla biskupi en nú er það omvendt. Útslagið gerði líklega klaufaleg viðbrögð núverandi biskups við yfirlýsingum dóttur hins ákærða sem mér finnst koma fram ótrúlega seint. Einnig finnst mér framganga ýmissa presta í málinu í fjölmiðlum afar óskemmtileg.
Prestar hópast nú saman og jesúa sig yfir ósköpunum en mér segir svo hugur að þeir hafi vitað um þetta eða í það minnsta grunað hvernig málum var háttað.
Varð ekki hr. Ólafur biskup, fulltrúi guðs á jörð, æðsta yfirvaldið, boðberi friðar og réttlætis, ímynd siðgæðis kristninnar í æðstu stofnun hennar, þjóðkirkjunni sjálfri, fyrir tilstilli prestanna?
Ég þarf ekki lengur að bíða eftir vísbendingu frá guði :)
25.8.2010 | 20:57
Gott silfur gulli betra
Nú er að baki sveitarkeppni öldunga í golfi 2010. Að þessu sinni var hún haldin á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 20. til 22. ágúst. Ég var búin að hlakka mikið til að dvelja norðan heiða í eina viku í lok ágúst frá því að það var ljóst að ég kæmist með í sveitina fyrir minn klúbb.
Það fór þó þannig að ég var fljót að koma mér suður aftur. Strax að lokinni verðlaunaafhendingu var keyrt af stað. Það var nefnilega þannig að það var skítakuldi og hellirigning í heila þrjá daga.
Maður lifir bara á minningunni um æfingarleikinn sem var aldeilis frábær í sól og sumaryl á fimmtudeginum daginn fyrir keppnina.
Við GKG konur náðum í silfrið að þessu sinni en bronsið í fyrra og komumst þá inn í fyrstu deildina.
Ég var nokkuð fljót að sætta mig við að tapa úrslitaleiknum fyrir Keiliskonunum. Þær hafa nánast haft eignarhald á fyrsta sætinu enda stórkostlega flinkar konur þar á ferð.
Þessi árlegi viðburður í golfheiminum er afar skemmtilegur og gaman að hitta gamla félaga og kynnast nýjum. Þetta er líka ágæt leið til að kynnast sjálfum sér við aðrar aðstæður en maður er venjulega í.
Ég hugleiddi hvort ég ætti að fara til kennara eða hætta í þessu sporti. Niðurstaðan varð að skipta um kennara og fara á dómaranámskeið til að læra þessar ótrúlega erfiðu reglur.
Kannski er reynslan bara besti kennarinn. Allavega læri ég alltaf helling í hverri ferð.
Ég þakka hér með mínum félögum og meðspilurum fyrir þessa golfdaga og góða og drengilega keppni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.8.2010 | 18:12
Þjóðkirkjan á þunnum ís
Flestar útfarir eru nokkuð svipaðar enda siðir og hefðir afar sterkir í þjóðkirkjunni þegar kemur að þessum þætti lífshlaupsins.
Ég hef verið við margar jarðarfarir um ævina, enda hef ég sungið í kirkjukórum í marga áratugi. Sjálf hef ég borið ömmu mína og föður minn síðasta spölinn. Einnig fylgt frænku minni sem bæði var vinkona og samstarfsmaður. Sárast var þó að kveðja besta vin sinn sem lést í blóma lífsins af slysförum.
Ég hef verið að hugsa um þessa serimoníu alla og tilgang hennar. Nauðsynlegt þykir að auglýsa í allavega tveimur dagblöðum bæði andlátið og útförina. Gera þarf útfarardagskrá sem dreift er við útför með mynd, sálmum og nöfnum flytjenda. Síðan þarf að auglýsa að útförin hafi farið fram með þökkum aðstandenda os.frv. Flestum þykir ómögulegt annað en hafa blómakransa, nóg af blómum, sérkór, einsöng og svo auðvitað almennilega erfidrykkju.
Kirkjan hefur líka sína siði í öllum athöfnum og líka við útfarir. Aðstandendur skulu sitja á ákveðnum stað og síðan verður allt að vera slétt og fellt í hreyfingum þeirra sem bera blóm og kistu út úr kirkjunni. Helst má ekki heyrast í nokkrum manni, hvorki grátur, hósti eða stuna, hvað þá talað mál.
Prestar og/eða prófastar hafa ákveðið að söfnuður skuli votta Guði virðingu í hvert sinn er lesið er úr guðspjöllunum með því að menn rísa úr sæti sínu.
Nýlega fór ég á jarðarför til að votta konu virðingu. Sú kona hafði lagt mikið af mörkum til starfsemi hreyfihamlaðra í gegnum árin og var stofnfélagi í stærsta félagi Sjálfsbjargar. Í kirkjunni voru óvenju margir notendur hjólastóla, hækja og fólk sem styður sig við göngugrindur og stafi.
Ekki latti það prestinn til að skipa fólki að standa á fætur. Þrisvar sinnum rak hann söfnuðinn á lappir. Ekkert kraftaverk gerðist. Ekki eins og þegar Jesú sagði við lamaða manninn " Tak sæng þína og gakk". Mér var ekki hlátur í huga við þessar vonlausu tilraunir prestsins og ákvað að næst muni ég sitja sem fastast, mínu fólki til samlætis.
Þessi siður var upphaflega til að sýna virðingu, ýmist orði guðs sem presturinn les eða hinum látna. Það má þó gera með öðrum hætti, óski aðstandendur þess. Það væri hægt að gera t.d. með því að lúta höfði og spenna greipar. Ekki er ég viss um að prestar kynni þetta fyrir aðstandendum. Allavega er ömurlegt að horfa á þá flokkun sem á sér stað við þessar aðstæður. Þessi mismunun er mjög áberandi þegar um stóran hópi er að ræða. Hreyfihamlaðir geta þá ekki "sýnt" virðingu við þessar aðstæður.
Ef ég man biblíusögurnar rétt lét Jesú rjúfa þakið á samkunduhúsinu til að lamaður maður gæti komist þar inn. Mér finnst að þjóðkirkjan mætti fara að minnka það ójafnræði sem hún sýnir með því að flokka fólkið í hefðum og siðum sem eru í raun innihaldslausir og kjánalegir í nútíma þjóðfélagi.
Gaman væri að vita hversu margar kirkjur eru óaðgengilegar fyrir hreyfihamlaða á Íslandi.
4.8.2010 | 22:02
Hjólreiðar í Köben
Nú hef ég tekið mér gott frí og dvalið í Danmörk í eina viku. Ég átti þess kost að búa á einkaheimili þar sem fólk tók mér opnum örmum. Hjón á besta aldri og stálpaðir strákar þeirra 16 og 20 ára voru frábær. Mér fannst þau afar dugleg og hress, fróð og fjölhæf. Öll töluðu þau góða ensku og auðvitað sína dönsku, enda dönsk.
Húsmóðirin er í hestunum og á íslenskan hest. Hún dýrkar íslenska hesta, sem og Ísland. Hún á líka hjól og það fékk ég lánað mér til mikillar ánægju og verð að segja að það er unun alveg að hjóla í Danmörk. Hún átti hinsvegar ekki hjálm og því var ég hjálmlaus.
Að sumu leyti eru Danir til fyrirmyndar. Þeir hjóla mjög mikið og fara langar leiðir á hjólum. Hjólabrautir eru meðfram götum í öllum helstu borgum og svo eiga hjólreiðamenn yfirleitt réttinn. Það vakti því furðu mína hversu fáir voru með hjálm á höfði og etv hafa sumir verið "ligeglad" á hjólinu sínu.
Það mætti segja mér að með sífellt hækkandi bensínverði fari að fjölga þeim sem hjóla hér heima þó varla sé hægt að segja að það sé auðvelt. Bæði er hjólastígum ábótavant og svo veðurfarið oft erfitt. Ég held þó að þetta snúist um að byrja bara og klæða sig eftir veðri.
23.7.2010 | 17:34
FM 106,5
Nýlega var ég í útvarpsviðtali hjá Ö-FM 106,5. Þetta er útvarpsstöð sem ungir og hressir strákar reka sem eru félagar í Ný-ung, ungliðahreyfingu Sjálfsbjargar lsf, í samstarfi við Hitt húsið sem rekið er af Reykjavíkurborg.
"Hitt húsið" er afar jákvætt framlag Reykjavíkurborgar sem hefur það hlutverk að leyfa ungu fólki á aldrinum 16-25 að vinna að eigin hugmyndum, vera miðstöð ungs fólks í leit að sumarstarfi, vettvangur fyrir félagsleg úrræði og ráðgjöf fyrir ungt fólk.
Ný-ung hefur undanfarin ár unnið í samstarfi við Hitt húsið og margt gott og skemmtilegt komið út úr því eins og http://oryrki.is/ og nú þetta frjálslega og skemmtilega útvarp FM 106,5.
Þeir hafa tekið þjóðþekkta Íslendinga í viðtal og má þar nefna Hemma Gunn þann yndislega skemmtikraft og þjóðarkrútt, Ómar Ragnarsson sem nú er pínu peningalaus en alltaf jafn skemmtilegur og Ladda sem varð frægur fyrir að halda upp á sextugsafmælið sitt í 2-3 ár, auk þess að vera þjóðþekktur golfari og skemmtikraftur af guðs náð.
Ég er nú að vona að þeim hafi fundist ég svona skemmtilega þó ég sé ekki þjóðþekkt.
Ég vildi gjarnan verða þjóðarkrútt eins og "Hemmi minn".
Ladda ætla ég að taka til fyrirmyndar og halda upp á afmælið mitt nokkur næstu árin.
Vonast til sleppa við þær þrengingar sem Ómar er að glíma við, en ef ekki vonast ég til að góður þjóðarhugur verði með mér eins og honum.
Annars er ég bara góð
22.7.2010 | 16:22
Dýrðardagar
Það er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi leikið við okkur undanfarna daga og vikur. Sól og blíða, dag eftir dag, og blússandi hiti. Það hefur verið erfitt að sitja inni á sjóðheitri skrifstofunni við þessar aðstæður. Það er samt mesta furða hvað hefur komist í verk, þrátt fyrir að margir séu í fríi.
Ég hef reyndar notið útivistar með því að fara í golf á morgnana áður en ég mæti í vinnuna. Níu holur á Mýrinni taka ekki nema einn og hálfan tíma ef enginn er á undan. Einnig hef ég notið góða veðursins með því að hjóla til og frá vinnu þá daga sem ég fer ekki í golf. Þetta hefur verið frábært og ég hef náð að lækka mig i forgjöf, þó markmiðin séu ekki í höfn. Ég finn líka að ég hef náð meira valdi á hjólinu og jafnvægið, hugrekkið og getan alveg að koma.
Gróðurinn hefur rokið upp í þessu veðurfari og nú er það þannig að varla sést í húskofann minn fyrir úr sér sprottnum gróðrinum. Það er auðvitað indælt en ekki endilega núna þegar ég er loksins búin að láta mála og allt orðið "spik og span". Vantar bara að þeir snillingarnir sem sjá um handriðið klári að setja listana á. Þeir koma eflaust í vikunni.
Nú er frí í eina stóra viku framundan og verður vel þegið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.8.2010 kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2010 | 09:46
Stjörnur í Ólafsvík
Þá er hin stórkostlega HM veisla að baki. Eftir sitja margar góðar stundir sem alltaf er hægt að orna sér við í framtíðinni.
Ég var búin að spá því, strax í upphafi, að Spánn myndi sigra mótið. Hjartað sló þó með Ghana og nú held ég mest upp á Gyan sem var þeirra besti maður.
Einnig var ég búin að spá því að Þjóðverjar myndu sigra Úrúgvæ þó mér hafi fundist þeir síðarnefndu ótrúlega flottir í fagurbláu treyjunum sínum sem minntu mig á Manchester City treyjurnar, en ég hef haldið með þeim lengi.
Nú fer maður að fókusa á íslenska fótboltann sem er ekki auðvelt eftir að vera búinn að glápa á HM. Reyndar hef ég aldrei náð mér á strik í honum en hef þó haldið með Breiðablik vegna þess að þeir sýndu Sjálfsbjörg mikinn velvilja fyrir nokkru síðan. Þá var góðgerðarleikur og þeir ánöfnuðu Sjálfsbjörg þeirra hlut í innkomnum aðgangseyri.
Nú hefur áhuginn glæðst aðeins við að heyra af Víkingum í Ólafsvík sem óvænt skutust upp á "stjörnu"himininn. Þeir eiga vissulega hrós skilið og góðar óskir um velgengin í framtíðinni.
Alltaf frábært þegar svona færi opnast og sýnir best að maður ætti aldrei að telja neitt útilokað fyrirfram. Ég hefði örugglega spáð þeim sigri, afþvíbara
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.8.2010 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2010 | 16:47
Rosalega heppin
Sunnudaginn 11. júlí, á afmælisdegi eldri dóttur minnar, fór ég á bátadaginn í Krika. Kriki er sælureitur sem Sjálfsbjargarfélagið í Reykjavík og nágrenni hefur til umráða við Elliðavatn. Þar koma þeir saman sem unna útivist, vatnasporti, og samvistum við skemmtilegt fólk.
Boðið er upp á kaffi og vöfflur eða pylsu og kók gegn vægu gjaldi. Allir leggjast á eitt að gera daginn eftirminnilegan og góðan. Auðvitað er svo alltaf svokallað Sjálfsbjargarveður í boði almættisins.
Það var fyrir velvild yfirvalda í Kópavogi, í garð hreyfihamlaðra, að Sjálfsbjörg var úthlutað þessum stað á sínum tíma. Því verður haldið á lofti í okkar röðum um ókomin ár og fyrir það erum við afar þakklát.
Bátadagurinn er búinn að vera við líði í nokkur ár í núverandi mynd eða frá því að hinn mikli velunnari Sjálfsbjargar, Kjartan Jakob Hauksson, fór að bjóða upp á þessa íþrótt fyrir nokkrum árum, ásamt fleiri valinkunnum mönnum.
Það yljar manni að vita af mönnum eins og Kjartani. Hann leggur fram mikla vinnu og tíma í að gera þennan dag mögulegan með þessum hætti á hverju ári. Flestum er í fersku minni þegar hann réri hringinn í kringum Ísland á kajak árið 2005 og safnaði áheitum í Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar, sem er sjóður til að styrkja þá sem þurfa hjálparmenn á ferðalögum.
Ef einhver á skilið orðu eða riddarakross fyrir verk sín þá er það Kjartan Jakob Hauksson að mínu áliti.
Ung dama sem kom með pabba sínum á bátadaginn sagði við hann á heimleiðinni. " Rosalega er hún Kolbrún heppin að vinna með þessu jákvæða og skemmtilega fólki" Hún var alveg hjólandi kát eftir að hafa farið á hjólabát, prufað hjólastól og spjallað við fólk í hjólastólum, sem var samt bara venjulegt og skemmtilegt.
Bragð er að þá barnið finnur.
Ég er vissulega heppin. Takk fyrir mig Krikavinir.
29.6.2010 | 00:31
Norðlensk fegurð
Síðastliðinn föstudag fór ég í ferðalag norður í land. Ég fæ alltaf sérstaka tilfinningu í sálina þegar ég keyri yfir Holtavörðuheiðina og við blastir Norðurland. Ég var með rólegra móti og ákvað að sinna því markmiði mínu sem er að ná að spila alla golfvelli landsins. Ég spilaði Vatnahverfisvöll við Blönduós og þá á ég eftir fjóra velli sem ég veit um ,en það er Háagerðisvöllur við Skagaströnd, Geysir við Gullfoss, Hólmavíkurvöllur og völlur sem er nýr við Grenivík. Vatnahverfisvöllur er afar skemmtilegur völlur og ráðlegg ég öllum golfurum að kíkja þarna fyrir hornið og eyða ca. tveimur tímum í að spila hann. Eftir 43 högg og 19 punkta sem er ágætt skor á 9 holur hjá mér var brunað í Reynihlíð. Þar gisti ég í einbýlishúsi upp á 170 m2 sem Landsvirkjun á og leigir út til starfsmanna sinna. Á laugardagsmorgun var ég í letikasti fram að hádegi og hafði bara gott af því eftir mikið annríki að undanförnu.
Eftir hádegið fórum við til Húsavíkur, skoðuðum mannlífið, höfnina, Reðasafnið og Húsavíkurkirkju. Þaðan var stefnt á Katlavöll rétt utan við plássið og spilaðar níu holur. Sá völlur er einstakur að því leyti að ein brautin , sú þriðja, heitir "Kolbrún". Það er par 3 braut en ég fór hana á 7 höggum. Maður er náttúrulega ekki alveg í lagi.
Það er stórkostlega fallegt að horfa yfir völlinn og mér er sagt að yfir berjatímann lengist spilatíminn heilmikið þar sem menn fara að tína upp í sig berin.
Ekki spillir nú fyrir ef maður er í góðum félagskap við þessa yndislegu iðju :)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Apríl 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
Bloggvinir
- solir
- gmaria
- fannarh
- thoragud
- meistarinn
- sigurjonth
- skulablogg
- gudruntora
- svavaralfred
- rheidur
- gudrunmagnea
- helgigunnars
- georg
- marinogn
- kallimatt
- zumann
- gudbjornj
- eirikurgudmundsson
- gretar-petur
- johanneshlatur
- franseis
- altice
- palmig
- lydurarnason
- omarbjarki
- gretarogoskar
- tilveran-i-esb
- paul
- ksh
- thjodarsalin
- framtid
- kop
- jon-o-vilhjalmsson
- sunna2
- neytendatalsmadur
- duna54
- jonsnae
- sjonsson
- duddi9
- olofdebont
- magnusjonasson
- helgatho
- fullvalda
- kokkurinn
- olafiaherborg
- nimbus
- jakobk
- stebbifr
- ranka
- heimssyn
- rs1600
- maggij
- bjarnihardar
- bookiceland
- frjalslyndir
- gauisig
- zeriaph
- gthg
- gustaf
- hannesgi
- diva73
- fun
- johanneliasson
- bassinn
- prakkarinn
- ragnar73
- ziggi
- visur7
- tryggvigislason
- ursula
- valdimarjohannesson
- postdoc
- icekeiko