Leita í fréttum mbl.is

Miðið

Varðskip í action eru óvissutímar á Íslandi og enginn virðist vita hvað bíður okkar. Fyrirtæki og heimili geta illa gert áætlanir fram í tímann eins og venja er út af þessari óvissu. Verður fyrirtækið mitt til eftir ár og á ég heimili yfirhöfuð eftir ár? Þetta eru spurningar sem brenna á fólki. Einstaklingarnir eru aftur á móti annað mál að mínu mati. Þeir geta mótiverað sig og aðlagað breyttum aðstæðum með nokkuð auðveldum hætti. Þá skiptir máli að vera jákvæður á allar breytingar og vera tilbúin að taka nýjan pól í hæðina eins og sagt er. Það þarf að taka stefnuna þangað sem maður vill fara og setja sér markmið í samræmi við kringumstæður og tímasetja þau til að hægt sé að átta sig á hvort þau eru í réttum farvegi eða ekki. Þegar þetta er ritað er fullveldisdagur Íslendinga og 65 ára afmæli lýðveldisins. Það vekur upp spurninguna verðum við til sem  fullvalda þjóð eftir ár eða verður búið að framselja okkur til ESB í krafti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þvingunaraðgerða stærstu ríkja innan þess, svo sem Breta og Hollendinga. Mér finnst augljóst að stjórnvöld sem haldið hafa um  stýrið síðan í október séu algerlega stefnuvillt og í versta falli stefnulaus þegar kemur að þessum málum. Eina markmið Samfylkingarinnar virðist vera að komast inn í ESB án þess að skilgreina þann ávinning sem ætti að vera því samfara miðað við áhuga á að tilheyra þeirri grúbbu enn frekar en nú er. Það er sorglegt að sjá að Framsóknarflokkurinn virðist vera eina aflið á Alþingi sem heldur uppi andófi við fullveldisafsali þjóðarinnar. Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn og hvernig er með Borgarahreyfinguna? Eru þeir enn sveimhuga í þessum málum og vita ekkert hvert á að miða. 

Gullkistan

6822 báturinn minn1Á strandstað. 

Margir eru nú í þeim sporum að upplifa sig eins og þeir hafi beðið skipbrot sem er ekki fjarri lagi. Þjóðarskútan fékk á sig mikinn hnút í október s.l. og óhætt er að segja að fólk hafa verið hálflemstrað síðan. Sumir hafa þó upplifað skaðann hraðar en aðrir og sínu verr. Fólk bíður, að vonum, óþreyjufullt eftir lausnum og leiðum til að koma skikki á líf sitt á ný. Aðrir hafa siglt áfram án þess að skilja almennilega hvað gerðist og reyna að halda áfram óbreyttu líferni. Þeir eru þó uggandi um sig og sína eins og eðlilegt er.

Skipbrotið.

Frjálslyndi flokkurinn er í sömu stöðu og margar fjölskyldur í íslensku þjóðfélagi í dag. Hann fékk brot á sig í síðustu Alþingiskosningum og þarf því að huga að uppbyggingu og úrlausnum sinna mála. Það var á brattann að sækja allt síðasta þingtímabil og því urðu boðaföllin flokknum erfið. Mörgum varð það talsvert áfall að flokkurinn missti sína menn af þingi eftir tíu ára starf í þágu þjóðarinnar. Ýmis málatilbúnaður hefur orðið að veruleika fyrir umræður og atorku þingmanna Frjálslynda flokksins í baráttu fyrir góðum málum. Þar má nefna baráttu fyrir réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi, bættum kjörum aldraðra og öryrkja, endurbótum í almanna- og sjúkratryggingakerfinu.

Staðan í pólitíkinni

Sumir flokkar tóku hluta af þessum baráttumálum upp á sína arma og hefur það skilað þeim góðum árangri þó þeir hafi ekki verið með eins vel útfærða stefnu og Frjálslyndir. Má þar nefna fyrningarleið Samfylkingar sem gerir nú aðför að útgerðarmönnum án þess að taka tillit til skulda sem sannarlega hafi verið stofnað til vegna eflingar fyrirtækja og aukins kvóta fyrir útgerðina. Vinstri græn hafa eins og Frjálslyndir tekið upp einarða stefnu gegn ESB og slegið skjaldborg um íslenskar auðlindir. Þau flögguðu einnig opnu bókhaldi og óspilltum þingmönnum. Það er þó himinn og haf á milli pólitískra leiða þeirra og Frjálslynda flokksins. Framsóknarflokkurinn kom með nýja framvarðasveit og var rétt eins og þau hefðu dottið af himninum ofan og þekktu ekki sögu flokksins. Þess skondnara er nú að sjá þau sitja sem fastast í húsakynnum flokksins á Alþingi og vísa þá til sögu flokksins og órjúfanlegrar hefðar. Þau buðu upp á plástra og deyfilyf en sumt fólk er alltaf ginnkeypt fyrir því að sjá skyndilausnir. Sjálfstæðisflokkurinn var eins og Frjálslyndir klofinn í herðar niður af innbyrðis ágreiningi og guldu afhroð. Sigurvegarar sem nú þurfa að standa undir merkjum er Borgarahreyfingin. Þau voru ekki að flækja málin og heimtuðu að komast á þing til að laga mál og leiðrétta þingvilluna. Vonandi standast þau prófið því nú verða menn að taka sér tak og hefja uppbyggingu þjóðfélagsins. Margir kostir eru í stöðunni þó ástandið sé erfitt og margir þurfa aðstoð við að fóta sig. Frjálslyndi flokkurinn þarf að líta til framtíðar og nýta reysnluna ef hann ætlar að halda áfram í sömu vegferð og þær fjölskyldur sem hann hefur barist fyrir alla tíð.

Gleðilegan sjómannadag . 

Atvinnuleysi

euro-smallÍ fyrsta skipti í mörg ár fór ég í 1. maí gönguna. Ég fór með minni litlu fjölskyldu, án tengdasona,  og áttum við góða stund saman lengi framan af en síðan tók að rigna og við flúðum heim í skjól. Það var ótrúlega leiðinlegt að hlusta á ræður í þessu góða veðri og lítið var til að gefa fólki nýja von eða auka mönnum bjartsýni. Þó tók steininn út þegar forseti ASÍ hélt sína þrumuræðu og var ekki gott að sjá hvort þar fór baráttumaður fyrir verkalýðinn eða frambjóðandi til þings á vegum Samfylkingarinnar. Ekki þarf að orðlengja það að púað var á hann allan ræðutímann. Það fannst mér benda til þess að það séu fleiri en ég sem telja að ASÍ hafi klikkað í hagsmunagæslu verkafólks þegar þeir beittu sér EKKI fyrir frestun á frjálsri för til landsins 2006. Þá var hægt að sækja um frest til ársins 2011-12. Ef það hefði verið gert hefði ekki verið svona ör vöxtur í öllu okkar athafnalífi og því ekki eins auðvelt að þenja út viðskiptalífið. Þá hefði aukin eftirspurn eftir verkafólki orsakað hærra kaup því til handa. Þannig virkar venjulega ferli markaðsaflanna. Í staðinn var flutt inn vinnuafl og farið með það nánast eins og þræla lengi framan af, landi og þjóð til stórskammar. Nú vandast málið þegar vinnuframboð er minna og þetta aumingja fólk í vandræðum ef það er ekki tekið fram fyrir íslenskt verkafólk, þegar losa þarf sig við starfsmenn. Verkalýðsforingjar bentu á þetta á fundi hjá ASI árið 2006.  Nú eru þeir búnir að fá allan stabbann á sig og ég segi bara verði þeim að góðu. Hver er þeirra þáttur í þessari stöðu sem við sitjum uppi með.

Maður spyr sig. 


Kosningar

Magnús Þór og Guðjón að fagna.Að loknum þessum alþingiskosningum er ég heldur döpur yfir niðurstöðunni. Ekki nóg með að við náðum ekki að halda Guðjóni Arnari Kristjánssyni inni á þingi heldur náðum við ekki viðmiðunarprósentunni 2,5 % til að fá fé til að standa við skuldbindingar og uppbyggingu flokksins á ný eftir 10 ára setu á þingi. Ég viðurkenni að ég vonaðist eftir "örlagakassanum" að vestan með öll atkvæðin hans Guðjóns alveg til lokamínútu. Ekki ætla ég að leggja mat á það hvað fór úrskeiðis og hversvegna við nutum ekki meira trausts en raun ber vitni en spái því að rödd sjómanna hafi þagnað fyrir fullt og allt , nú þegar foringinn er fallinn. Ekki vantaði það að við vorum með tillögur í efnahagsmálum sem mér finnst ýtarlegri en hjá flestum öðrum en eins og einhver sagði, við erum kannski ekki nógu mælsk.


Þú getur treyst okkur

logo FFNú er komið að Alþingiskosningum og  hefur þessi kosningabarátta verið í styttra lagi. Hún hefur einkum farið fram í sjónvarpi og á hinu háa Alþingi sem nú er að standa upp frá  karpi um mismerkileg málefni. Þetta kemur sér afar illa fyrir framboð sem ekki hafa fjármagn og þurfa að reka sína kynningu sem fótgönguliðar, maður á mann. Það þurfum við að gera í Frjálslynda flokknum. Margir eru enn að velta því fyrir sér hvað skuli kjósa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur opinberað sig í spillingu við fyrirtæki sem hafa styrkt þá um tugi milljóna, úr innsta hring útrásarvíkinganna, og sofið á vaktinni. Framsókn hefur alltaf flotið á yfirboðum. Nú síðast voru þeir að lofa lækkun áfengiskaupaaldurs í Menntaskólanum í Kópavogi. Allir muna loforð þeirra um 80 % lánshlutfall hjá Íbúðalánssjóði sem orsakaði þá þenslu sem við verðum nú að súpa seiðið af og núna á að afskrifa flatt, á ríka og fátæka, 20% af skuldunum. Samfylkingin vill afsala sjálfstæði þjóðarinnar til Evrópusambandsins þar með yfirráðum yfir  sjávarútvegi, landbúnaði, og olíulindum sem talið er að séu við landið, stærri en þær norsku sem hafa haldið Norðmönnum utan ESB. Þá eru Vinstri grænir eftir en þeir  ætla í stjórn með Samfylkingunni en segjast samt ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Þeir lofa því að hækka skatta og lækka laun þannig að það verður þá lítið í buddunni til að halda samfélaginu gangandi eftir að þeir koma sinni stefnu í framkvæmd. Varla verður það hvatning til að byggja upp atvinnuvegina. Þetta er mín sýn á fjórflokkinn sem hefur haldið um stjórnartaumana undanfarin ár. Frjálslyndi flokkurinn hefur átt fulltrúa á þingi í tíu ár og aldrei komið að stjórn þjóðfélagsins með beinum hætti. Fulltrúar hans hafa verið óþreytandi að benda á óréttlætið í kvótakerfinu og staðið vörð um fjölskyldur, sjómenn, bændur og byggðir landsins.Ég bið um stuðning þinn á kjördag.


Rabb og ræðuhöld

Björgólfur  xfMikið at er nú búið að vera undanfarna daga í þessari svokölluðu kosningabaráttu. Ég er búin að vera í pallborðum og ræðuhöldum út um hvippinn og hvappinn. Við höfum líka verið að heimsækja fyrirtæki í Mosfellsbæ og kíktum við á kosningaskrifstofu okkar í bænum. Bara smekklegt og flott hjá Birni, Valdísi  og félögum.

Ömmukútarni komu í heimsókn á skrifstofu okkar á Nýbýlavegi 18 og Björgólfi fannst mjög merkilegt að það var mynd af ömmu hans utan á húsinu. Hann benti margsinnis á myndina svo á endanum var tekin mynd af honum við þessa iðju.


Eldri borgarar.

borgarar 2Sat afar ánægjulegan fund sem haldinn var af Rauða Krossinum og Eldri borgurum í Salnum í Kópavogi þann 3 apríl. Þar var margt skemmtilegt erindi flutt , söngur Kórs eldri borgara og Þorsteinn frá Hamri las ljóð. Þó verð ég að segja að Herdís Egilsdóttir kennari sló í gegn hjá mér og veltist ég um af hlátri meðan hún hélt sína bráðsnjöllu ræðu. Hún sagði að við ættum að hugsa vel um útlitið og sinna okkur vel því það væri vænlegast til að halda sjálfsvirðingunni. Við skyldum líka passa upp á að vera ekki alltaf að tala um fortíðina og flagga visku okkar og reynslu við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Við ættum að reyna að vera skemmtileg og fyljast með því sem börn okkar og barnabörn væru að gera. Vera til taks og hlú að fólkinu okkar. Margir fleiri lögðu gott til málanna og eitt er víst að ekki kvíði ég því að eldast en ákvað í dag að Herdís þessi yrði Idolið mitt í viðhorfum og viðmóti við mitt fólk. Reyndar hef ég alltaf reynt að vera til taks og taka þátt í skutli og skyndipössunum en er samt oft bundin á fundum og í vinnu. Það breytist þegar ég fer að eldast meira og róast.


Forleiguréttur

Birti hér grein sem ég sendi í Morgunblaðið nýlega um málefni sem mér er mjög hugleikið en það er hvernig og hvers vegna setja þurfi lög um réttinn til að halda heimilis sínu þó að maður missi eignina utan um það.                                                 

  Að halda heimili.

 Ein af frumþörfum fólks er að eiga heimili og geta verið öruggt um að það verði ekki frá því tekið. Eins og staðan er á Íslandi í dag, eftir hrunið mikla í október, getur fólk alls ekki verið öruggt í þessum efnum. Eftir fjárfestingar Íslendinga í góðærinu, þegar bæði tekjur og fasteignaverð var hærra en þekkst hefur, vaknar fólk upp við að ekki er hægt að standa við  skuldbindingarnar sem það tók á sig. Íbúðarhúsnæði fjölda fólks, heimili þess og griðastaður, er ekki lengur sá fasti punktur í tilverunni sem ætlað var. Þessi staða er í flestum tilvikum ofviða venjulegu fólki, það fyllist kvíða og örvæntingu og veit ekki hvað er til ráða. 

Bankaábyrgð.
Bankarnir hafa fram til þessa litla sem enga ábyrgð tekið á því að skilvísir lántakendur lentu í vanskilum og gætu ekki greitt lán sín. Er það eðlilegt? Hverjir tóku ákvörðun um að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs? Hverjir fylgdu í kjölfarið og buðu lán, allt að 100% af matsverði húsnæðis? Hverjir hönnuðu greiðslumatið sem átti að segja til um að viðkomandi skuldari gæti staðið í skilum og hversu vitlegt var það mat?  Framsókn og einkabankarnir stóðu fyrir þessu eins og allir vita. Skuldahvati var mikill og allir áttu rétt á láni hvort sem þeir voru að kaupa húsnæði eða ekki. Nú lifum við á breyttum tímum, fasteignaverð lækkar og verðbólgan hefur aukist með tilheyrandi hækkun á þeim lánum sem á húsnæðinu hvílir. Sú víxlverkun er efni í aðra grein og verður ekki rædd hér. Afleiðingin er eins og fram hefur komið hér að framan að fólk getur ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Nauðungarsala.
Þegar kemur að því að lánveitandi gengur að veðinu vil ég að það verði tryggt að íbúðir sem bankar og lánastofnanir í eigu ríkisins leysa til sín verði áfram til ráðstöfunar fyrir skuldarana svo fólk haldi heimili sínu. Það verður að tryggja forleigurétt þeirra og þá á kjörum sem nýtt og endurbætt greiðslumat segir til um. Lánið yrði svo lengt um þann árafjölda sem til þarf, í samræmi við þær tekjur sem fólki er ætlað að lifa á, mannsæmandi lífi, í nánustu framtíð. Þannig heldur fólk heimili.

Hugsunin er sú að í þeim þrengingum sem þjóðfélagið er að fara í gegn um verði að sjá til þess að heimilin flosni ekki upp með ófyrirséðum afleiðingum. Það verður mörgum sinnum dýrara fyrir samfélagið og skapar óteljandi vandamál sem ekki verða auðleyst um langa framtíð.
 


Vikan

Stebba_og_Sj__nu_b__rn_1962Fann þessa mynd af mér á Raufarhafnarvefnum fyrir nokkru og hirti hana því hún hefur vissa þýðingu fyrir mig. Ég er með verðlaunapening um hálsinn og á höfðinu hef ég húfubát sem merktur er Vikan. Tilefnið var að ég fékk verðlaun frá Vikunni sem ég var umboðsmaður fyrir og var söluhæst yfir landið, einhvern tiltekinn tíma. Það var gaman að selja Vikuna því það vildu allir kaupa bæði sjómenn, sem ekki sáu mikið af blöðum, og eins síldarstelpurnar sem létu það eftir sér að kaupa blaðið. Maður var því mjög vinsæll þegar maður birtist klyfjaður af blöðum. Aldrei áður hafði ég fengið verðlaun og þekkti engan sem hafði fengið slíkt. Þá voru ekki keppnir og mót eins og nú tíðkast hvað þá mót þar sem allir fá medalíu fyrir þátttökuna. Þetta hleypti miklu kappi í okkur systurnar en systir mín var auðvitað með í þessu og vinkona hennar. Ég var því snemma komin í það að stjórna liði. Ég rifja þetta upp hér í tilefni af því að ég verð í yfirheyrslu hjá Vikunni í næstu eða þarnæstu viku.

Kirkjan og krísan

HafnarfjarðarkirkjaÍ gærkvöld var ég  á málþingi um trúmál og siðferði sem Hafnarfjarðarkirkja stóð fyrir með fulltrúum allra framboða til Alþingis í pallborði. Ég frétti af honum tveimur tímum áður en hann hófst.  Ég rétt náði að mæta og þar sem ég var ræðulaus og óundirbúinn tók ég nýja liðsmanninn í Frjálslynda flokknum, sr. Karl Matthíasson, með mér en hann var á sama fundi og ég milli kl:18-19. Þegar til átti að taka varð ég að sitja pallborðið sjálf og varð því að bjarga mér. Miklir ræðuskörungar voru í panel og þar á meðal ráðherra heilbrigðismála Ögmundur Jónasson, prestsonurinn Höskuldur Þórhallsson, ritstjórinn Óli Björn Kárason, en hann kom í stað Þorgerðar Katrínar, sem er kaþólsk að ég best veit, og bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson, Bjarni Harðarson bóksali , trúleysingi, fyrrverandi þingmaður og frambjóðandi ásamt Valgeir Skagfjörð tónlistarmanni sem kom mér mjög en skemmtilega á óvart. Ævar Kjartansson sveitungi minn frá Hólsfjöllum í Norður Þingeyjarsýslu stýrði umræðunni. Ekki var mikil mæting, en góð og voru málefnalegar spurningar úr sal. Það er einhvernvegin þannig að það skilar manni mestu þegar upp er staðið að tala bara spontant út frá hjartanu og láta bara vaða. Ég vona bara að guðsmennirnir, sem stóðu fyrir þessu, hafi ekki móðgast þegar ég sagði að kirkjan væri stöðnuð og nauðsynlegt að fara að poppa hana upp, auk þess sem ég sagðist vilja aðskilnað milli ríkis og kirkju. Ég vil sjá kirkjuna koma sterka fram í hjálparstarfinu núna, meðan hún er ríkisrekin, bæði með andlegan stuðning, fjármálaráðgjöf og nauðþurftir allar. Annars var ég bara spök.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband