Leita í fréttum mbl.is

Forleiguréttur

Birti hér grein sem ég sendi í Morgunblaðið nýlega um málefni sem mér er mjög hugleikið en það er hvernig og hvers vegna setja þurfi lög um réttinn til að halda heimilis sínu þó að maður missi eignina utan um það.                                                 

  Að halda heimili.

 Ein af frumþörfum fólks er að eiga heimili og geta verið öruggt um að það verði ekki frá því tekið. Eins og staðan er á Íslandi í dag, eftir hrunið mikla í október, getur fólk alls ekki verið öruggt í þessum efnum. Eftir fjárfestingar Íslendinga í góðærinu, þegar bæði tekjur og fasteignaverð var hærra en þekkst hefur, vaknar fólk upp við að ekki er hægt að standa við  skuldbindingarnar sem það tók á sig. Íbúðarhúsnæði fjölda fólks, heimili þess og griðastaður, er ekki lengur sá fasti punktur í tilverunni sem ætlað var. Þessi staða er í flestum tilvikum ofviða venjulegu fólki, það fyllist kvíða og örvæntingu og veit ekki hvað er til ráða. 

Bankaábyrgð.
Bankarnir hafa fram til þessa litla sem enga ábyrgð tekið á því að skilvísir lántakendur lentu í vanskilum og gætu ekki greitt lán sín. Er það eðlilegt? Hverjir tóku ákvörðun um að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs? Hverjir fylgdu í kjölfarið og buðu lán, allt að 100% af matsverði húsnæðis? Hverjir hönnuðu greiðslumatið sem átti að segja til um að viðkomandi skuldari gæti staðið í skilum og hversu vitlegt var það mat?  Framsókn og einkabankarnir stóðu fyrir þessu eins og allir vita. Skuldahvati var mikill og allir áttu rétt á láni hvort sem þeir voru að kaupa húsnæði eða ekki. Nú lifum við á breyttum tímum, fasteignaverð lækkar og verðbólgan hefur aukist með tilheyrandi hækkun á þeim lánum sem á húsnæðinu hvílir. Sú víxlverkun er efni í aðra grein og verður ekki rædd hér. Afleiðingin er eins og fram hefur komið hér að framan að fólk getur ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Nauðungarsala.
Þegar kemur að því að lánveitandi gengur að veðinu vil ég að það verði tryggt að íbúðir sem bankar og lánastofnanir í eigu ríkisins leysa til sín verði áfram til ráðstöfunar fyrir skuldarana svo fólk haldi heimili sínu. Það verður að tryggja forleigurétt þeirra og þá á kjörum sem nýtt og endurbætt greiðslumat segir til um. Lánið yrði svo lengt um þann árafjölda sem til þarf, í samræmi við þær tekjur sem fólki er ætlað að lifa á, mannsæmandi lífi, í nánustu framtíð. Þannig heldur fólk heimili.

Hugsunin er sú að í þeim þrengingum sem þjóðfélagið er að fara í gegn um verði að sjá til þess að heimilin flosni ekki upp með ófyrirséðum afleiðingum. Það verður mörgum sinnum dýrara fyrir samfélagið og skapar óteljandi vandamál sem ekki verða auðleyst um langa framtíð.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður texti hjá þér, nauðsynlegt að hamra á vandamálum heimila.  Staðan hjá mörgum fjölskyldum er skuggalega svört.  Ég geri töluvert af því að belgja mig út hér á blogginu í athugasemdum.  Tók uppá því fyrir einhverjum mánuðum eftir að ég flutti úr borginni (des.), í rólegheitin hér fyrir norðan.  Það var gaman að lesa spjall ykkar um Raufarhöfn og Vikudrottninguna.  Á árunum 65 - 68 spilaði ég á nokkrum böllum (Hnitbjörgum) þarna fyrir austan.  Ég man ekki betur en að flogið hafi verið með Tryggva Helga yfir vetrartímann.  Ég var trymbill og söngvari í vinsælli    hljómsveit á þeim árum, hér fyrir norðan.   Það voru oft dálítið "skrautleg" böll á alla kanta en skemmtileg og auðvitað "sá varla vín" á nokkrum manni   Ég man að margar stelpurnar frá Raufarhöfn voru virkilega sætar og þú ert greinilega ein af þeim. 

Annars varð ég dálítið forvitinn um þig og ég fór að kynna mér ferliskrá þína sem þú hefur sett upp.  Þú hefur greinilega haft orku í eitt og annað og flottur ferill.       bestu kveðjur.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 21:40

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir kommentið Páll. Nei ég var nú ekki ein af sætu stelpunum en var kannski pínu öðruvísi af því ég var svo " svört á brún og brá" eins og oft var sagt við mig, en þær voru ekki margar þannig þá. Mikið um blondínur  og sexý stelpur en ég ótrúleg horrengla og seinþroska bæði andlega og líkamlega. Ég var óttalegur strákur í mér og kannski þessvegna aldrei sett karlmenn á sérstakan stall. Ég held að Hnitbjörg hafi verið vígt 67 eða 8 og þá var ég alltaf að vinna  á böllum þannig að ég var ekki skrautleg enda bindindismannerkja fram eftir öllum aldri.Síðan tókum við pabbi við rekstrinum. Eitt sumar var mjög eftirminnilegt en þá var Gamla bíóið í gangi og Ámundi Ámundason rak það og fékk allar helstu hljómsveitir landsins til að koma og það var mikið fjör. Tryggvi Helga ?? hver var það? Varstu í Gautunum? Nú er ég alveg að deyja úr forvitni... þú afsakar það ...ég er bara þannig. Pabbi var með hljómsveit áður en Hnitbjörg kom til sögunnar og Magnús bróðir minn var og er enn trymbill  og þokkalegur söngvari líka. Hann gerði garðinn frægan með Bubba Monthaus ó afsakið Morteins... Síðan voru systur mínar báðar í hljómsveit sem varð þokkalega vinsæl í okkar sveit og kölluðu var Hljómsveitin Jenný.  ... en minn tími mun koma  ég er enn að glamra á gítarinn minn . kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 3.4.2009 kl. 23:58

3 identicon

Sæl Kolbrún, ég var að pikka inn texa til þín skömmu fyrir hádegi, nýbúinn að setja í þvottavél og maturinn mallaði.  Skyndilega sló út öllu rafmagni, sennilega í öllu hverfinu.  Stóð yfir í nokkurn tíma.  Minningar frá mínum yngri árum rifjuðust upp, þegar rafmagnslaust varð, jafnvel í nokkra daga.  Það getur verið að eitthvað "blandist" hjá mér þegar "hippaárin" eru rifjuð upp.    Við spiluðum á einhverjum böllum á Raufarhöfn og Þórshöfn á þessum árum.  Ekki man ég hversu oft.  Tryggvi Helga var með sjúkraflugið hér á árum áður og einnig annað leiguflug.  Norðurflug hét það, ef ég man rétt.  Ég man vel eftir Ámunda á þessum árum enda spiluðum við til hálfs við Hljóma á nokkrum böllum í Glaumbæ og á Hvoli.  Pétur rakari var hann kallaður sem sá um að ráða okkur, annars sá bróðir minn að mestu um þann þátt auk þess sem hann stofnaði hljómsveitina og plataði mig með.  Það voru nokkrir stráklingar, að mestu úr MA.  Virkilega skemmtileg ár, enda gerði maður ekkert annað í 3-4 ár en að spila, fyrir utan skóla.  Maður er nú hálf feiminn (eins og fleiri    ) að rifja þessi ár upp og hvað þá að koma þessu á netið.  Þessi hljómsveit hét Geislar og við spiluðum mikið um allt land og ekki síst í borginni.  Svavar Gests gaf út eina plötu með okkur sem við vildum aldrei setja á markað.  "Pressan" sem unnin var í Noregi var svo gölluð að við þekktum varla "sándið" sjálfir, enda braut ég mína á fyrsta degi, þræl fúll.     Þetta var spurning um peninga hjá Svavari, ég held að hann hafi fengið einhverjar bætur í stað þess að fá nýtt upplag en við sáum aldrei krónu af þeim, né fyrir plötuna.    Mörg ár eru síðan ég komst yfir þá sorg og fyrirgaf Svavari    Það voru til "peningamenn" í þá daga eins og í dag. 

Þú ert greinilega af mikilli músíkfjölskyldu og eins og þú segir, þinn tími kemur. 

Þinn tími er greinilega kominn:  Til hamingju með "varaformanninn",    .....það endar sennilega með því að ég kýs F, en þau skilyrði fylgja að við göngum í ESB.    

bestu kveðjur.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 18:39

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þetta var fyrirséð, með varaformanninn. Og til hamingju. 

Ágúst Ásgeirsson, 4.4.2009 kl. 19:25

5 identicon

Til hamingju Kolla,ég veit að þú átt eftir að láta gott af þér leiða í starfi flokksinns,áfram Xf.Baráttu kveðja að norðan 

Kv Siggi P 

Sigurður Pálsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 22:49

6 identicon

Tek undir með  Ágústi...............

NN (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 23:08

7 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir góðar óskir allir saman. Gaman að þessari færslu hjá þér Páll. Ég man óljóst eftir Tryggva flugmanni frá Akureyri eða umtali um hann. Fór hann ekki vestur á Ísafjörð síðar eða er ég að rugla tveimur köppum saman.  Mér er samt minnisstæðari annar flugmaður á þessum tíma sem var Björn Pálsson sem flaug í öllum veðrum og var frá Grjótnesi á Sléttu. Hann fórst reyndar í flugslysi síðar sem farþegi ef ég man rétt. Ég get heldur aldrei gleymt Aðalsteini "taugalausa" sem var flugmaður lengi hjá Norðurflugi og magalenti á Þórshöfn þegar ég var að fara með 3 unglinga í sjónvarpsþátt í Reykjavík. Ég man eftir Geislum þ.e. nafninu og það er rétt þeir voru vinsælir en kom þessi plata ekki út.? Var Kalli (Gloría )frá Húsavík með í þeirri hljómsveit? Annars er ég óttalega léleg í hljómsveitasögunni ,rétt man í hvaða hljómsveitum bróðir minn hefur verið og kannski ekki þeim öllum. Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 5.4.2009 kl. 11:19

8 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Sæl Kolbrún.

Þessir skrif okkar eru að verða eins og "opið einkabréf"

Ég held að Tryggvi hafi farið aðeins vestar, til hennar Ameríku.  Ég man eftir Birni, hann fór með vél sinni.  Þeir voru margir góðir á þessum árum, flugkapparnir og eru vonandi enn.  Jú, platan kom út, ég var alltaf ósáttur við það.  40 ár síðan og sennileg fá eintök heil.  Ég kannaðist ábyggilega við Kalla frá Húsavík en spilaði ekki með honum.  Ég veit hver bróðir þinn er, en þekki hann ekki persónulega.  Þessir ár voru skemmtileg og ótrúlegt að hægt væri að hald eins mörg sveitaböll og gert var.  Ég gleymi aldrei þessum hippaárum enda ennþá dálitill hippi í mér.  Mikið hár á höfði og inní höfði svífa margar hugmyndir um betri heim.  Sá nafna minn McCartney í París fyrir nokkrum árum og upplifði gömlu árin í huga mér. 

Bestu kveðjur og gangi þér vel í kosningabaráttu vorsins.  Greinilegt að þessi "upphefð" í pólitík breytir ekki persónu þinni, þannig fólk höfum við meiri þörf fyrir á þingi en "hina".  

Páll A. Þorgeirsson, 6.4.2009 kl. 00:04

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Lítið ástarbréf merkt x til þín hahaha  xf kannski. Veistu ég missti alveg af hippatímabilinu því þá, 68-9, hvarf síldin og fólkið og við Raufarhafnarbúar sátum eftir með sárt ennið. Ég man eftir einni aðkomustelpu sem var "ekta hippi" og við smáborgararnir litum á hana sem veika eða ruglaða. Ég man að ég vorkenndi henni einhver ósköp en samt var hún svo falleg að hún var eins og engill. Við vissum að hún reykti einhvern óþokka sem við vissum ekkert hvað var, en eitthvað eitur. Þá var ég sjálf ólétt af eldri stelpunni minni og orðin ráðsett fullorðin kona Magnús bróðir minn vinnur nú við að reyna að bjarga skólakrökkum og reyndar öllum frá því að dópa og drekka og er einkar vinsæll í því jobbi. Nei það er ekkert utanaðkomandi sem breytir minni persónu. Það var alltaf talað um að ég væri ekki "bankastjóraleg" og sama hvað verður um mig í pólitík það breytir engu. Hvort það er svo gott eða slæmt verður hver að dæma fyrir sig. bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.4.2009 kl. 00:33

10 identicon

Þetta er góður pistill, en verst að félagar þínir á þingi lesa bloggið þitt ekki. Allavega virðist þeim, ekki fremur en framsókn, ekki annt um að taka til umræðu frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Það væri betra ef þeir væru ekki að aftaníossast með vinstriflokkunum! Er það misskilningur hjá mér, að x-f sé mið- og hægriflokkur?

p.s. fór þessa hjáleið því ég gat ekki loggað mig inn einhverra hluta vegna!

gústi (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 15:52

11 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir það Gústi. Ég myndi skilgreina flokkinn hægra megin við miðju. Við erum hlynnt einstaklingsframtakinu og blönduðu hagkerfi. Við viljum frelsi til athafna og ábyrgð á eigin lífi. Allt innan þeirra marka sem eðlileg eru þ,e, að markaðsráðandi öfl skekki ekki myndina. Óeðlileg samkeppni við ríkið svo sem ríkisútvarpið og nú eru bankarnir ríkiseign aftur. Mér finnst að fólk sé að misskilja áætlanir okkar um kvótann en það er ekki verið að tala um ríkisrekstur þar. Síðan er ég frekar hlynnt hvata til athafna en reglur og fyrirmæli. Þess vegna á móti ESB. kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 7.4.2009 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband