Leita í fréttum mbl.is

Vikan

Stebba_og_Sj__nu_b__rn_1962Fann þessa mynd af mér á Raufarhafnarvefnum fyrir nokkru og hirti hana því hún hefur vissa þýðingu fyrir mig. Ég er með verðlaunapening um hálsinn og á höfðinu hef ég húfubát sem merktur er Vikan. Tilefnið var að ég fékk verðlaun frá Vikunni sem ég var umboðsmaður fyrir og var söluhæst yfir landið, einhvern tiltekinn tíma. Það var gaman að selja Vikuna því það vildu allir kaupa bæði sjómenn, sem ekki sáu mikið af blöðum, og eins síldarstelpurnar sem létu það eftir sér að kaupa blaðið. Maður var því mjög vinsæll þegar maður birtist klyfjaður af blöðum. Aldrei áður hafði ég fengið verðlaun og þekkti engan sem hafði fengið slíkt. Þá voru ekki keppnir og mót eins og nú tíðkast hvað þá mót þar sem allir fá medalíu fyrir þátttökuna. Þetta hleypti miklu kappi í okkur systurnar en systir mín var auðvitað með í þessu og vinkona hennar. Ég var því snemma komin í það að stjórna liði. Ég rifja þetta upp hér í tilefni af því að ég verð í yfirheyrslu hjá Vikunni í næstu eða þarnæstu viku.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kolbrún, hvaða börn eru með þér á myndinni? Ég er ættuð frá Raufarhöfn og langar að vita hvort ég muni þekkja börnin, en ég veit ekki hver þú ert, því miður.... Veistu hvaða ár þessi mynd er tekin?

Soffía Helgadóttir (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 22:46

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Soffía. Ég held að þessi  mynd sé tekin 1962-3. Með mér á myndinni eru Guðrún systir mín og Magnús bróðir og svo frænka mín úr Hafnarfirði sem heitir Steinunn Benediktsdóttir en hún varð þekkt fyrirsæta og starfaði hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar í mörg ár og reyndar síðast þegar ég vissi. Ertu dóttir Helga Kristjáns eða Helga Páls? Það væri gaman að vita. Þú ert ekki alin þar upp er það? kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 30.3.2009 kl. 23:27

3 identicon

Sæl Kolla, ég er dóttir Helga Páls og Halldóru Hólmgríms. Nei, ég er fædd og uppalin á Húsavík, og bý þar. En var nokkur sumur í Vogi og á Raufarhöfn, hjá ömmu og afa í Ásbyrgi.

Takk fyrir þetta, gaman að þessu

Soffía Helgadóttir (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 00:42

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Frábær mynd af liðinu, Særún hefur þá væntanlega smellt af fyrst hún er ekki á henni. Ekki vissi ég af þessu afreki þínu, skemmtileg saga. 

Ágúst Ásgeirsson, 31.3.2009 kl. 07:06

5 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl verið þið Soffía og Ágúst. Já þetta er ekki stór heimur. Ég þekki auðvitað allt þitt fólk á Raufarhöfn Soffía. Hvernig gengur á Húsavík? Allt á kafi í snjó og ófært um Sléttu  Ég sé ekki að ég komist norður fyrir páskana. Ég er búin að vera í startholunum í þrjár vikur og alltaf leiðindaveður og ófærð.

Ágúst Takk fyrir kommentið. Ég er ekki viss hvar Særún var, sennilega á húsþökum í nágrenningu  eða bara að selja vikuna  Hún var ansi dugleg á þessum árum t.d. datt hún ofan af einum stóra tanknum þegar hún var að príla og komin efst upp. Það varð henni til lífs að verið var að vinna í tanknum og karlmaður skreið út um opið einmitt þegar hún var að lenda á steinkantinum sem var og er utan um tankana. Hún stóð upp og hristi sig og hljóp svo í burtu en pabbi sem var inni í tanknum og fleiri menn stumruðu yfir manninum sem lá hálft sumarið í rúminu. Nei nei Helgi Ólafsson yfirljósmyndari Morgunblaðsins kom spes til að taka myndina. Ég var svo feimin að ég  neitaði nema að fá að girða mig af með krökkunum. Ég man enn hvað mér leið illa yfir þessari myndatöku en var í hina röndina afar montin af árangrinum. kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.3.2009 kl. 22:23

6 identicon

Sæl aftur, jú hér er allt á kafi og ég man ekki eftir svona vetri í mörg, mörg ár. Vonandi verður aldrei svona vetur aftur, og þá meina ég á allan hátt. Ég var að var eitt sumar á Raufarhöfn að vinna í frystihúsinu, 1979, þá 15 ára og þá hefur þú verið að vinna í Landsbankanum þar, sé ég að ferilskránni þinni. En hugurinn var þannig þetta sumar, að ég man lítið eftir sumrinu nema þá rigningunni. Bestu kveðjur - Soffía 

Soffía Helgadóttir (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 11:12

7 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Soffía. Ég tek undir það með þér að vonandi verður ekki annar slíkur vetur hvorki hvað varðar veðurfar fyrir norðan og vestan eða efnahagsmál. Já þú hefur kíkt á ferilskrána mína og þá sérðu að ég átti Brimrúnu mína 1980 og tók mér þá frí í tvö ár til að vera með hana heima. Missti svolítið af því sem var að gerast í bænum eða allavega hjá unga fólkinu. Varst þú þegar áströlsku stelpurnar voru eða komu þær 1980? Það var nú aldeilis búbót fyrir karlpeninginn Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 1.4.2009 kl. 18:18

8 identicon

Sæl Kolla, ég man nú ekki eftir áströlskum stelpum þetta sumar en það getur samt verið að þær hafi verið komnar. Allavega man ég eftir tilveru þeirra á Raufarhöfn þegar ég kom í heimsóknir til Jónasar og Möddu, og fór á ball með þeim í félagsheimilinu. Það ætti að vera fært um Sléttuna í næstu viku skv. veðurspánni Bestu kveðjur - Soffía 

Soffía Helgadóttir (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 19:45

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

fært um Sléttu segirðu en þá er maður alveg týndur í kosningabaráttunni. Var á afar skemmtilegum fundi með félögum í flokknum í kvöld. Hefði getað haldið áfram í alla nótt en ágætt að fara að hvíla sig. Ef við komumst í návígi Soffía endilega hnipptu í mig ef þú þekkir mig í sjón því ég þekki þig ekki en það væri gaman að hitta þig. Bestu kveðjur norður og til þinna ættmenna Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 2.4.2009 kl. 00:05

10 identicon

Sæl, já ég hnippi í þig  Gangi þér vel í kosningabaráttunni. kv. Soffía

Soffía Helgadóttir (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 09:14

11 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Bara smá fréttaauki. Ég var svo hégómleg að ég keypti vikuna þegar viðtalið birtist og hvað haldið þið , var þá ekki heilmikið viðtal og stærðar mynd af Magnúsi bróður mínum forvarnarfulltrúanum á þarnæstu blaðsíðu. Smá breyting á útliti síðan á þessari mynd hjá okkur báðum.

 kveðjur út vikuna Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 2.4.2009 kl. 19:46

12 identicon

Sæl Kolbrún. Getur verið að við höfum verið að keppa í spretthlaupi á héraðmóti í Ásbyrgi fyrir all nokkuð mörgum árum? Ég man allavega eftir stelpu frá Raufarhöfn, sem hér Kolbrún, og hún vann mig á sprettinum! Þetta gæti hafa verið um 1967-68. Ég reyndar hélt mig við hlaupin en var alltaf að bíða eftir þessari spretthörðu stelpu frá Raufarhöfn, sem aldrei kom aftur! Gangi þér vel í baráttunni,sem þú ert í núna.   kveðja úr Garðabæ, Oddný

Oddný Árnadóttir (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband