Leita í fréttum mbl.is

Landsfundur Frjálslynda flokksins

logo FF  

 

Framundan er Landsfundur Frjálslynda flokksins. Ég hlakka mikið til að hitta fólk  úr flokknum og fara í gegnum það sem fyrir liggur á þinginu. Fyrir höndum er mikil málefnavinna og undirbúningur kosningabaráttunnar sem nálgast eins og óð fluga.

Margir góðir kandídatar eru í framboði , þar á meðal ég. Ég vil benda lesendum síðu minnar á að kíkja við á xf.is og sjá hverjir þar eru upptaldir.

Verð þó að geta nýjasta framboðsins sem er Magnús Þór Hafsteinsson sem  bíður sig fram í formannsslaginn. Það eru semsagt þrír í boði til formanns þrír í boði til varaformanns  einn til ritarann og einn til formanns fjármálaráðs.

Þetta er að verða spennandi... sjáumst.

 

 

 


Framboðsmál.

Landið í sinni fegurstu myndÉg hef ákveðið að þiggja boð kjördæmafélags Suðvesturkjördæmis um að leiða lista Frjálslynda flokksins í komandi kosningum. Annað sæti skipar Helgi Helgason stjórnmálafræðingur og kennari, sonur hins fróma skipherra Helga Hallvarðssonar. Í þriðja sæti verður Valdís Steinarsdóttir bókhalds-og skrifstofutæknir og fyrrverandi formaður Sniglanna. Sú virðist mikil dugnaðarkona. Fjórða sætið skipar Björn Birgisson vélsmiður og starfsmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sómamaður út Mosfellsbæ. Í fimmta sæti er Haraldur Bogi Sigþórsson verkamaður. Ég vona að þessi hópur nái vel saman því augljóst er að menn verða að skipta á milli sín verkefnum þar sem tíminn er skammur og í mörg horn að líta. Nú verður farið í að klára listann, skipuleggja kosningabaráttuna og stilla strengina ásamt góðum félögum úr öðrum kjördæmum. Ég hlakka til þingsins um næstu helgi og vona að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Kosningabaráttan.

Grand hotel1Þá má segja að kosningabaráttan sé hafin fyrir komandi Alþingiskosningar. 25. febrúar var haldinn fyrsti fundur í fundaröð um velferðarmál, að frumkvæði ÖBÍ og Þroskahjálpar, að Grand Hótel í Reykjavík. Frummælendur voru Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra og Matthías Halldórsson landlæknir.

Í panel voru fulltrúar allra framboða og notenda. Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar, Helga Sigrún Harðardóttir alþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, Helgi Hjörvar alþingismaður fyrir Samfylkinguna, Sigríður Jóhannsdóttir formaður Samtaka sykursjúkra og síðast ,en ekki síst, undirrituð fyrir Frjálslynda flokkinn.

Þokkaleg mæting var á fundinn og honum stjórnað af festu, en sanngirni , af Þresti Emilssyni, fjölmiðlamanni.

Fundurinn var mjög fróðlegur og var mörgum spurningum beint til panelsins. Fundartími var til kl. 22:00 og þá var fundi slitið, en okkur uppálagt að svara óafgreiðum spurningum síðar í emaili.

Svörin og upptaka af fundinum verður síðar birt á heimasíðu ÖBÍ. 

 Kjósið nú rétt. 

 

 

 


Dómharka.

Gerrard bottomEinn bloggvinur minn var að tjá sig um útlits- og fegurðardýrkun og dóma þar að lútandi. Hann var  nokkuð sammála mér og fleiri kvenrembum um að það ætti ekki að eiga sér stað neitt slíkt. Líta ber á hæfileika og kosti fólks miklu fremur. Flestir eru sammála því hvað er kostur og hvað löstur á fólki. Flestir hafa líka ákveðna hugmynd um hvað sé rétt og hvað rangt. Samt er það pínu teygjanlegt og óljóst hvar línan er akkúrat dregin. Sjálf hef ég orðið vitni að því, nú nýlega, að fólk dæmir kannski eftir einni setningu sem aðili sendir frá sér í rituðu máli. Það var ekki verið að grafast fyrir um það hvað viðkomandi meinti eða var að hugsa akkúrat þá. Þetta er verra en rörsýn að mínu áliti, verra en þröngsýni, verra en dómharka. Ég held að nú þegar pólitískur slagur er framundan og alls kyns prófkjör og metingur í gangi þá ættum við að huga að þessum málum sérstaklega. Ég verð samt að viðurkenna að sumt gleður augað meira en annað....eðlilega.

Frjálslyndar konur.

IMG_0760Það mætti halda þegar hlustað er á fréttaflutning um Frjálslynda flokkinn að allt sé neikvætt og leiðinlegt sem gerist hjá þeim. Það er þó ekki þannig, þó vissulega hafi ekki skort á leiðindin heldur. Á þessu þingi sem staðið hefur í tæp  tvö ár hafa þrjár sómakonur, hver annarri hressari, tekið sæti á Alþingi Íslendinga. Fyrst Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir síðan Hanna Birna Jóhannsdóttir og nú síðast kjarnakonan Ragnheiður Ólafsdóttir. Ragnheiður hefur vissulega vakið athygli með skeleggri framkomu sinni og öryggi í ræðustól. Málefnaleg og jarðtengd veitti hún þingheimi tiltal fyrir óábyrga framkomu í þinginu á örlagatímum þjóðarinnar. Ragnheiður er margreynd í félagsmálum, málefnum öryrkja og gerþekkir málefni sjómanna enda sjómannskona til margra ára. Auk þessa hefur hún líka hæfileika á andlega sviðinu, les til dæmis í áru fólks. Ég óska henni velfarnaðar í vandasömu starfi.

Að vaða.

Í fjöruborðinuÍ dag hringdi í mig íslenskur karlmaður frá Svíþjóð. Hann hafði leitað til Tryggingarstofnunar ríkisins en verið vísað frá. Hann hringdi þá í Sjálfsbjörg lsf og var að falast eftir upplýsingum. Dóttir hans er að skrifa ritgerð sem á að fjalla um mismunandi kjör hreyfihamlaðra í Svíþjóð og á Íslandi. Ég bauðst til að kanna þetta fyrir hann og bað hann að senda mér spurningarnar. Hann las þær fyrir mig og þá komst ég að því að hann var að tala um fólk sem þarf sólarhringsumönnun. Þegar ég sagði honum að í flestum tilfellum væru þeir aðilar vistaðir á stofnunum, stundi hann "ertu ekki að grínast". Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég heyrði hve hissa hann varð og sagði honum að við værum að vinna í því að koma á notendastýrðri persónulegri aðstoð, eins og ég vissi vel að væri í Svíþjóð, Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum og nú nýlega innleidd í Danmörk. "En eruð þið þá fimmtíu árum á eftir eða hvað" sagði hann. Nei við erum tuttugu og fimm árum á eftir Svíþjóð því þeir tóku þetta upp þá en við erum tuttugu árum á eftir því sem gæti talist eðlilegt. Auðvitað á viðkomandi aðili að fá þjónustuna heim til sín. Af hverju skyldi hreyfihamlaður drengur ekki geta farið að vaða með vinum sínum. Getur einhver svarað því?

Ræðan sem aldrei var flutt.

Velferðarveislan. 

Mikið hefur gengið á í þjóðfélaginu undanfarna mánuði eins og allir vita og margir hafa tapað fé bæði einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök sem höfðu fjármuni sína í fjárvörslu hjá bönkunum. Þetta ástand er ólíðandi staða fyrir alla og nú skiptir miklu máli að rétt sé haldið á spilum til að bjarga því sem bjargað verður.  Mín skoðun er sú að baráttusamtök fatlaðra og aldraðra eigi ekki að veita afslátt á réttmætum kröfum sínum þó bissnessmenn hafi lagt fjárhag þjóðarinnar í rúst með stuðningi ráðamanna, bæði beint og óbeint.Það er mjög brýnt að menn sameinist um að styrkja þá hópa sem mest þurfa á stuðningi að halda.Hverjir skyldu það vera?Jú fatlaðir, aldraðir og barnafólk eru þar fremst í flokki.Viðbúið er að áhyggjur af framtíðinni leggjast þungt á þá sem hafa minnsta möguleika á að bjarga sér af eigin rammleik í kreppuástandi. Fatlað og aldrað fólk á erfitt með að sækja vinnu milli staða eða flytjast á milli landa. Hreyfihamlaðir eiga jafnvel erfitt með að fara á milli vinnustaða þar sem aðgengi er oft takmarkað.Að vanrækja þennan hluta samfélagsins, auk þess að vera afar ómannúðlegt, bitnar hart á þjóðfélaginu í heild þegar fram í sækir.Þetta var ekki þeirra veisla.  

Sálrænar afleiðingar kreppu.

Afleiðingar kreppu koma fram á ýmsan hátt en auðvitað er kvíði og þunglyndi algengast og það er alkunna að það er dýrt fyrir þjóðfélagið.Finnar gerðu þau miklu mistök að skera niður í heilbrigðismálum hjá sér þegar þeir fóru í gegnum sína kreppu. Afleiðingar þess niðurskurðar eru gríðarlegur vöxtur í greiðslu sjúkradagpeninga, veikindadaga og vaxandi örorka, vegna geðrænna vandamála og áfengissýki, hefur aukist um 120 % .  Aukningin varð mest hjá ungu fólki. Viljum við þurfa að horfast í augu við þann óbætanlega skaða sem slík vanræksla í heilbrigðismálum leiðir yfir þjóðir? Ég segi nei. Þá er betra að missa þá einstaklinga úr landi, því þeir gætu þá komið heilbrigðir heim síðar, þó það sé einmitt slík staða  sem menn óttast að upp komi ef lausn verður ekki fundin, fyrr en síðar, á atvinnumálum þjóðarinnar. Við verðum að sjá til þess að framfærslutrygging til aldraðra og öryrkja sé nægileg.Við þurfum að gera almannatryggingakerfið einfaldara og opnara þannig að það mismuni ekki fólki. Ég sit í nefnd á vegum Alþingis um þátttökukostnað neytenda í lyfjakostnaði. Það á að færa það flókna mismunandi kerfi í átt að því sem notað er á hinum Norðurlöndum og er verið að skoða kerfin í Danmörk og Svíþjóð. Ég bind vonir við að það verði réttlátt kerfi og létti á þeim sem þurfa að nota mikið lyf og læknaþjónustu en eru á lægstu laununum. Auk þess sem þetta á að leiða til aukinnar hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu með betri kostnaðarvitund og ábyrgð bæði neytenda og heilbrigðisstarfsfólks. 

Húsnæðismál öryrkja og aldraðra.

Við í Frjálslynda flokknum viljum bjóða upp á meira val hjá öldruðum og fötluðum um hvar þeir búa. Ég vil sjá Íbúðalánasjóð koma meira inn í að fjármagna íbúðir fyrir fatlaða t.d. með því að greiða nauðsynlegar endurbætur á íbúðum og  til að gera þær aðgengilegar hreyfihömluðum. Slíkt er gert í Noregi. Þar greiða fatlaðir sama og aðrir en ekki meira eins og hér. Þar er bannað með lögum að mismuna á grundvelli fötlunar.Fjármagnið á að fylgja einstaklingnum. Ef  fatlaður einstaklingur vill búa, í Vestmannaeyjum, Raufarhöfn, eða Húsavík, á sveitarfélagið að fá greitt frá ríkinu til að annast hann eins og hann á rétt á. Það er hinsvegar þannig að fólk þarf að flytja nær stofnunum eða inn á þær ef það fatlast. 

Við viljum sjá notendastýrða þjónustu ná fótfestu hér á landi.

Slíkt kerfi er búið að vera  lengi í Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum, og byggist á því að einstaklingurinn sem þarf þjónustuna ræður því sjálfur hver annast hann og hvenær. Sjálfur ræður hann þjónustuaðilana í vinnu til sín og segir hvað  á að gera og hvernig. Þetta má útfæra með ýmsum hætti. Þessi leið í heilbrigðisþjónustu er mjög mikilvæg upp á sjálfstraust og sjálfsvirðingu þess sem þarf á þjónustunni að halda.

Stofnanahugsunin er að hverfa smátt og smátt.

Auknar kröfur fólks breyta viðhorfum og er stofnanahugsunin víkjandi enda veldur hún þvi að fólk ber óttablanda virðingu fyrir kerfi sem þjónar því eftir sínum ákvörðunum og sinni hentistefnu.Það er vissulega nauðsynlegt að hafa góða heilsugæslu en þær breytingar sem verið er að gera á sjúkrahúsum bæði í Hafnarfirði, Húsavík, Akureyri og sjálfsagt víðar eru ógnvekjandi fyrir þá sem þurfa mikið á læknaþjónustu að halda. Það eru þó margir fletir á þessum málum eins og dæmin sýna. Ekki er langt síðan elliheimili í Hafnarfirði, Sólvangur, komst í fréttir vegna ömurlegs aðbúnaðar fólks sem deildu herbergjum og bjuggu við afar erfiðan aðbúnað. Ekki vil ég gera lítið úr því að hagræðingar í  heilbrigðiskerfinu eru vandasamar og erfitt að meta hvað er best þegar maður hefur ekki allar staðreyndir fyrir framan sig en ég veit að það er nauðsynlegt að nýta tiltekið fjármagn sem allra best í þágu neytenda. Það eru vissulega margar leiðir sem hægt er að fara. Hver er best? Í hverju liggur sparnaðurinn? Maður spyr sig eins og maðurinn sagði. 

Aðgengi fyrir fatlaða og aldraða.

Sjálfsögð krafa í nútíma þjóðfélagi er að allir sitji við sama borð hvað varðar aðgengi. Aðeins brot af þeim sem eru hreyfihamlaðir eru það frá fæðingu. Slys, sjúkdómar og öldrun eru mun algengari ástæður og enginn veit hvort eða hvenær það áfall dynur á. Það á að vera sómi þjóðar sem vill láta taka sig alvarlega að huga að þessum þáttum og hafa þá í forgangi.

Heilsugæsla eins nærri heimabyggð og hægt er. Það er málið.


Golfkreppa-kreppugolf.

fat_golferNú þegar snjór liggur yfir höfuðborgarsvæðinu og stórhríð geisar á Fróðárheiði, fer hugurinn að reika til sumarsins og alls sem því fylgir. Alltof stutt sumar fer að mestu í að spila golf, göngur og garðvinnu. Undanfarin ár hef ég lengt golftímann með því að fara til Florida í tvær vikur og oftast farið yfir páskana til Spánar. Það er kreppa á Íslandi og ekki hægt að láta eins mikið eftir sér og áður. Ferðaskrifstofurnar eru farnar að auglýsa golfferðir og ég verð að segja að það er ekki eins hátt verð og ég átti von á. Á móti kemur að uppihaldið verður miklu dýrara en áður þar sem gengið á krónunni er alveg galið. Spurning hvort maður getur reynt að búa sér til aðstöðu hér heima til að viðhalda sveiflunni eða skellir sér bara á Real de Faula um páskana og sker þá eitthvað annað niður. Ég vona bara að við fáum gott sumar.

Forsetataktar.

Bjarni ÁrmannssonÉg, eins og sjálfsagt flestir, sat límd við skjáinn þegar Bjarni Ármannsson mætti í sjónvarpssal og játaði á sig vissa ábyrg á uppbyggingu þess kerfis sem hefur, illu heilli, leitt til þess að við Íslendingar erum í ótrúlegri krísu. Á köflum var ég ekki viss hvort þetta væri gamanþáttur og einhver að leika Bjarna, en það var ekki tilfellið. Það  sem mér fannst fyndnast var þegar Sigmar fréttamaður spurði Bjarna hvers konar viðskiptamaður hann væri eiginlega. Bjarni svaraði að bragði að sagan myndi dæma um það. Ekki er það vafi í mínum huga að maðurinn er snillingur sem hefur notað hæfileika sína í viðskiptalífinu. Það gerir hann að viðskiptasnillingi. Fréttamaðurinn sem búinn var að klifa á því hvað hann hefði grætt mikið, virtist ekki átta sig á að það var einmitt keppnin, hver myndi græða mest. Bjarni hannaði þetta kerfi með dyggri aðstoð frjálshyggjumanna og hætti þegar verð var hæst á markaði. Ég var aldrei sátt við að Íslandsbanka var afhentur Fiskveiðasjóður sem var með lögbundinn fyrsta veðrétt í skipum og bátum. Þetta gaf bankanum gríðarlegt forskot í samkeppninni og því næsta hlálegt að það var einmitt einn stærsti sægreifi landsins sem leiddi bankann undir fallöxina. Þá hjó sá er hlífa skyldi myndi einhver segja. Ég verð þó að viðurkenna að Bjarni var einkar forsetalegur í auðmýkt sinni og einlægni, en það er einmitt það sem gengur svo vel í okkur núna, þegar hrokinn og græðgin hafa keyrt okkur útaf hægra megin af hinu pólitíska breiðstræti. Það er greinilega leiðinlegt í Noregi og því þarf að kaupa sér innkomu í íslenskt þjóðfélag aftur. Það er líka ljóst að ástandið núna er sem frjósamur, óplægður akur fyrir þá sem eiga peninga til að skapa sér ný tækifæri. Nú ætla ég að láta reyna á getspeki mína og giska á að Bjarni verði kominn í forsetaframboð áður en langt um líður.

Óheilindi.

Eftir að hafa horft á fréttaannál fyrir árið 2008 finn ég fyrir verulegri gremju út í ráðamenn þjóðarinnar. Eftir að Davíð Oddson varaði við erfiðleikum bankanna hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar komið fram, hver af öðrum, að því er virðist til að sannfæra almenning um að allt væri í stakasta lagi gegn betri vitund. Það er leiðinlegt að þurfa að segja það en menntamálaráðherrann okkar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir toppaði allt þegar hún, uppfull af ótrúlegum hroka, svarar athugasemdum erlends bankasérfræðings sem hún sagði sjálf að væri virtur bankamaður og vangaveltum hans og fleiri manna um ástand efnahagsmála á Íslandi. Með kokhreysti sinni sló hún á allar efasemdir almúgans og eftir þetta viðtal voru allar raddir erlendis frá bara " annarleg sjónarmið" . Þetta varð til þess að höggið var stórt þegar forsætisráðherrann komur fram í sjónvarpi 6. október og lýsir yfir að Ísland geti orðið gjaldþrota ef allt fari á versta veg. Versta veg eftir að allt var í himnalagi! Biður svo guð að blessa Ísland!? Ekki íslensku þjóðina. Nei Ísland. Ég hef áður fjallað um skömm mína á þætti forsetans í þessari þjónkun við bankamenn og viðskiptafígúrur en hann hefur nú beðið þjóðina afsökunar, viðurkennt þessi mistök sín og vonandi segir hann af sér í kjölfarið. Þorgerður ætti hinsvegar að biðja þjóðina afsökunar og segja af sér áður en hún verður búin að kljúfa flokkinn sinn tvennt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband