Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Allt að smella

Nánast reddýNú er allt að verða klárt fyrir Eyjaferðina á morgun. Ég er búin að vera að snúast í allan dag með hugann við næstu daga.

Ég fór æfingahring á Mýrinni og skaust yfir á Leirdalinn síðustu þrjár holurna þar. Allt gekk vel og vippin góð en púttin ekki alveg að detta.

Kíkti á nýju golfbúðina í Mörkinni sem er smekkfull af æðislegu dóti og forgjafarlækkandi hjálpartækjum.

Nú er ég búin að fjárfesta fyrir rúm fimmtíu þúsund til að vera boðleg í sveitina hjá GKG. Keypti mér flotta golfskó og meira að segja hvíta sem er ekki alveg minn stíll en FootJoy klassi. Daily golfbuxur svartar í Hole in One og nýtt grip á pútterinn sem er í sverara lagi.  

Fékk lánaðan fjarlægðamæli og síma til að vera með allt á hreinu. Síðast en ekki síst fjárfesti ég í eyrnatöppum en þeir eru nauðsynlegir þegar margir sofa í litlu húsi og mega ekki við að missa nætursvefn. Mikið rosalega hlakka ég til.


Haustið

Hjólað á TenerifeSenn líður að hausti. Ég vona þó að september verði góður eins og oft hefur verið. Það fer þó að styttast í golfvertíðinni. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að spila golf á veturna þó margir spili allt árið.

Ég fer því að huga að öðrum áhugamálum. Eitt þeirra er hjólreiðar.

Ég hef gaman af að hjóla en geri allt of lítið af því. Síðastliðinn sunnudag hjólaði ég að heiman úr vesturbæ Kópavogs,  upp í miðjan Mosfellsbæ, alls 36,5 km. Það var mjög gaman því veðrið var gott og auk þess mætti ég mörgum sem ég þekkti. Menn voru ýmist að hjóla, ganga, skokka eða "tansporta" á hjólastólnum sínum. 

Það er mun léttara en menn halda að fara um á hjóli. Lítið um hindranir og allir klárir á reglum um mætingar og þess háttar.

Ég hef ákveðið að hjóla lágmark hálftíma á dag, alla virka daga vikunnar í vetur. Vonandi verður þetta til þess að ég get farið að líta á það sem sjálfsagðan ferðamáta að fara um á hjóli en ég ætla að byrja bara rólega.


Vestmannaeyjar

VestmannaeyjarNú styttist í sveitarkeppni eldri kylfinga sem haldin verður í Vestmannaeyjum og hefst í næstu viku. Það var eitt af mínum markmiðum að ná að spila mig inn í sveit GKG. Það tókst og vonandi næst svo markmiðið að landa gullinu. Við náðum silfrinu í fyrra og bronsinu árið þar áður. Við verðum þó með sterka andstæðinga sem eru Nesklúbburinn og Golfklúbbur Reykjavíkur.

Það er búið að leigja sumarhús fyrir sveitirnar hjá GKG og kaupa fatnað á okkur. Konur í bleiku og karlar í bláu.  Við munum stilla saman strengina í keppni á okkar heimavelli á mánudaginn næsta.

Ég á von á því að þetta verði bara meiriháttar skemmtun og að ég kynnist nýju fólki úr mínum klúbbi og kannski öðrum klúbbum líka. Það á að spila æfingarhring á fimmtudeginum en við förum með Herjólfi kl 10:00 um morguninn og beint á völlinn.

Ég trúi ekki öðru en Vestamannaeyingar tjaldi öllu sínu besta og fegursta þessa helgi. Þessi völlur er mér alltaf erfiður einhverra hluta vegna.

Ég veit að ég get ekki treyst á GPS tækið mitt -GolfBuddy- þar sem ekki er búið að setja inn völlinn. Það finnst mér afar miður og finnst umboðið, Golfbúðin í Hafnarfirði, ekki vera að standa sig í stykkinu.  Það var löngu ljóst að þetta fjölmenna og skemmtilega  mót yrði haldið þarna.  

Þá er bara að nota gamla lagið á þetta og vera djarfur í sókninni.

Góða skemmtun þið sem mætið.


Tíminn líður trúðu mér

NæturhúmiðUndarlegt er þetta með tímann. Oftast hefur það verið þannig með mig að ég hef ekki haft nægan tíma fyrir það sem ég vil gera en samt hef ég komið mörgu í verk. Nú virðist þetta vera að breytast. Mér finnst ég hafa nægan tíma og nóg að gera líka. Þetta er líklega vegna þess að vinnan síðustu áratugina hefur tekið frá mér of mikinn tíma. 

Þegar ég ræði við fólk um framtíðina eru menn yfirleitt á einu máli um að rétt sé að hætta að vinna, sé nokkur kostur og reyna að njóta lífsins. Ég heyri þetta oft þessa dagana. Samt er ég ekki viss. Af hverju vinna menn þá fram í rauðan dauðann? Ekki er allt nauðsynlegt sem við erum að reyna að eignast eða halda í.

Um síðustu helgi spilaði ég golf með manni sem þuldi vísur í gríð og erg og skemmti mér mikið. Eina greip ég strax á lofti en hún er svona:

Tíminn er ennþá að eyðast/ og alltaf er dauðinn jafn hress.

Láttu þér ekki leiðast/ lífið er ekki til þess.

Þetta er sú heimspeki sem ég vil lifa eftir og það er alveg víst að mér mun ekki leiðast í þessu lífi. Jafn víst og að tíminn líður og dauðinn hangir á hinum endanum, því öll eigum við hann vísan.

Eflaust eru margir sem lifa lífinu með eilífan ótta og óvissu um hvað tekur við eftir dauðann. Margar trúarkenningar stýra lífi fólks með óljósum yfirlýsingum um eilífðina og heitt helvíti ef því er að skipta. Ég hinsvegar þykist hafa þetta á hreinu og kvíði ekki þeim kaflaskilum þó ég ætli ekki að sitja og bíða eftir þeim.

Þetta sést vel í gamalli þjóðvísu sem elur á óttanum og endar á tilmælum um barnaofbeldi:

Tíminn líður trúðu mér/ taktu maður vara á þér/

heimurinn er sem hála gler/ hugsaðu hvað á eftir fer.

Síðan koma leiðbeiningar um hvernig á að strýkja börnin, lemja og loka út, stinga þeim í mykju-og kolahauga og hræða þau á að draugurinn Boli komi og éti þau.

Óttalega finnst mér vitlaust að óttast eitthvað.

Sumir leggjast svo lágt að óttast umtal. Hvaðan ætli sú hugsun sé komin?

 


Vannýtt víti

Sorgmædd vinkona mínNú standa yfir meistaramót í flestum golfklúbbum landsins. Þess má sjá merki í veðurfari sem er óvenju rysjótt þessa dagana. Golfarar fara glaðbeittir af stað og takast á við ýmsar aðstæður sem þeir hafa ekki komist í kast við áður. Menn fjasa um hve "dræfin" reyndust óvenju stutt og innáskotin óvenju löng eða skökk og stutt í sandglompur því rennslið á flötum er með mesta móti.

Ég tók þátt í mótinu, keppti í öldungaflokki, og er því búin með minn leik sem voru þrír hringir.  Ég lenti í hremmingum sem ég hef ekki séð áður og hef þó mikla reynslu af lélegu keppnisgolfi. Engu öðru er um að kenna en minni lélegu dómgreind og óþarfa stressi. Ég fékk þó þokkalegt veður og völlurinn minn er ægifagur á að líta um þessar mundir.

Erfitt er líka að upplifa grimmd náttúrunnar í návígi. Endur sem orðnar eru óhræddar við mannfólkið eru nú að missa unga sína í stórum stíl í máfana sem hafa yfirtekið svæðið. Þær koma vappandi að sníkja bita með ungana í eftirdragi en þá er máfurinn  óðara kominn, grimmur og óseðjandi  og ekki þarf að efast um hans yfirburði í þeim hildarleik. Í dag kom vinkona mín ein til mín.

Sumir eru umburðarlyndir og segja að allir eigi sinn tilverurétt. Ég hinsvegar hef ímugust á máfum sem þrífast á ungum annarra fugla og dreifa rusli úr döllum vítt og breitt um völlinn. Svo toppa þeir sig með því að skíta á bílinn manns. Þeir eru Talibanar fuglalífsins og mega, eins og þeir, missa sig mín vegna.  

Einn golfari lenti í því að boltinn hans fór í máf. Fuglinn féll dauður til jarðar og boltinn með honum. Það þurfti að fjarlægja hræið til að hægt væri að slá boltann. Þar sem fuglinn var dauður mátti ekki hreyfa hann og það kostaði eitt högg í víti. Ég vildi að mín víti hefðu verið svona árangursrík en þau voru æði mörg og hefðu líklega dugað til að varghreinsa völlinn.

Ég náði þeim áfanga í þessu móti að fá að aðstoða við mótshaldið sem er ný reynsla. Í gær var ég að ræsa út þá sem voru að  byrja frá klukkan sjö til eitt. Á sunnudaginn var, eftir fyrsta hring hjá mér, var ég að skrá skor á töflu sem hangir uppi um úrslit dagsins. Þarna fékk maður yfirsýn frá hinni hliðinni og það eykur skilning og eflaust þolinmæði líka.

En lífið er yndslegt og gott að taka þátt í því.


Vertu sæll vinur

Arnór PéturssonÍ dag kvaddi ég merkilegan mann hinstu kveðju. Þetta er flottasta útför sem ég hef verið við enda skipulagði hinn látni allt sjálfur. Enginn "rekinn á lappir" drottni til dýrðar og enginn kirkjukór en Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tónbræður, fjórir karlar, sáu um sönginn. Tónlistin eintóm dægurlög, allt frá tónleikaupptökum með Tínu Turner til lags trúbadorsins Harðar Torfasonar, Lítill fugl.

Ég gat ekki annað en brosað þegar " Gullvagninn" við texta Jónasar Friðriks Guðnasonar var tekinn með trukki sem var einkar vel við eigandi á þessari stundu.  Útgöngumarsering var undir "Internationalinn/ Fram þjáðir menn í þúsund löndum o.s. frv" Þá tóku sumir undir sönginn sem sunginn var hástöfum og aðrir brustu í grát.

Flott fánaborg frá ýmsum samtökum sem höfðu notið krafta og baráttuvilja viðkomandi og kistan klædd íslenska þjóðfánanum.

Sjálfsagt fleiri en ég sem hafa fyllst stolti og þjóðerniskennd undir þessum gjörningi enda voru söngtextar allir á sömu nótum.

Í texta við lag undir moldun sagði m.a. " Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð. Þetta var áhrifaríkur texti sérstaklega í Víðistaðakirkju þar sem veggir eru þaktir ógeðslegum hryllingsmyndum af stríðsþjáðu og kvöldu fólki.

Arnór Pétursson fálkaorðuhafi, margverðlaunaður baráttumaður fatlaðra og stuðningsmaður IA um áratugaskeið er farinn á vit nýrra ævintýra. Ég þakka góð kynni og sendi innilegar samúðarkveðjur fjölskyldu hans og vinum.


Gleðistundir á golfvellinum

Golfið 2011 020Mikið finnst mér gott að sumarið sé komið. Nú er hægt að spila golf nánast alla daga án þess að það sé beljandi stormur með tilheyrandi kulda. Nú er ég kominn í þann hóp sem getur farið að spila um miðjan daginn og það geri ég. Ég er semsagt farin að spila með krökkum, eftirlaunaþegum, atvinnulausum og gamla fólkinu. Það er stórkostlegt að geta kynnst nýju fólki nánast á hverjum degi án þess að það sé í gegnum vinnu. Vellirnir mínir sem eru Vífilstaðavellirnir, Leirdalur og Mýrin, skarta sínu fegursta um þessar mundir. Þeir eru þó ekki alveg að sýna sínar bestu hliðar en þá er ég að tala um eðlilegt rennsli á flötunum.

Ég hef stundum vellt því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að Heilbrigðismálaráðuneytið styrkji sérstaklega þá starfsemi sem felst í iðju eldri borgara í golfklúbbum landsins. Það hlýtur að spara mikið i heilsugæslunni að fólk stundi útivist og geðbætandi íþróttir.

Framundan er nú Meistaramót klúbbanna og hjá okkur er það frá 10.-16. júlí. Þá er ég hrædd um að klúbbhúsið okkar verði heldur lítið en þetta er annar stærsti golfklúbbur landsins. Það verður örugglega gaman þá þó ekki sé það alltaf gott fyrir forgjöfina að keppa í marga daga í senn.

Golfið 2011 019


Gamalt fólk

Glöð með gestina sína Ég hef hugsað mikið um það síðustu mánuði hvað gerist í huga gamals fólks sem er með heilabilun og getur ekki tjáð sig. Hvar er hugsunin? Veit viðkomandi hvar og hver hann er þó hann sé nánast eins og ungabarn eða smábarn í hegðun.

Móðir mín fékk heilabilun sem ágerðist smátt og smátt með árunum en svo hrakaði henni nokkuð hratt síðustu tvo mánuðina. 

Þegar hún kom hingað suður, fyrir einu og hálfu ári, þá gerði hún greinamun á okkur, fólkinu sínu, og svo hjúkrunar-og starfsfólki hjúkrunarheimilisins. Hún varð himinlifandi í hvert sinn sem ég kom í heimsókn og lyftist úr stólnum með hlátri og gleði þó hún væri kát alla jafna.

Ég varð vör við að hún var aldrei alveg viss hver ég var. Hún hélt oftast, af því ég var með glens við hana, að ég væri kannski eldri systir hennar sem er löngu látin.

" Nei þú fyrst" sagði hún við mig þegar ég var að ota að henni snafsi af sérrý. Við þrættum smástund en svo varð ég að gefa mig. Hún tók svo sinn sopa. Það var auðfundið að hún ætlaði ekki að láta skamma sig eina ef upp kæmist. Hún hélt örugglega að við værum unglingar heima á stórtemplaraheimilinu hennar í Hafnarfirði. Ég otaði þessu sulli ekki oftar að henni.

Þegar ég kom með barnabörnin, tvo hlaupandi káta stráka tveggja og þriggja ára, varð hún himinlifandi og vissi hún að þeir tilheyrðu henni. Reyndar lifnaði yfir öllum hópnum í borðsalnum þegar þeir komu, og stundum hugsaði ég með mér að sumir hefðu ekki brosað frá því þeir voru í heimsókn síðast.

Hún naut þess greinilega þegar þeir voru með henni. Þeir skiptust á að standa aftan á hjólastólnum og "keyra" en hinn gekk með og leiddi hana eftir göngunum á Sunnuhlíð.  Ekki er ég frá því að hún hafi hreykt sér í huganaum þegar hún var með hópnum sínum og fékk alla athygli á staðnum. Hún hafði afar gaman af að láta taka af sér myndir og skoða þær strax á skjánum. Hún var stundum á því að koma bara með "heim" en sættist alltaf á að hinkra þar til við kæmum næst.

Það er ekki gott að segja hvað fer um hugann hjá gömlu fólki en stundum má lesa í svipbrigði og aðra hegðun. En það er alveg víst að fólk sem er komið í þá stöðu að geta hvorki tjáð sig, gert kröfur um þjónustu, né lýst skoðun sinni er á viðkvæmu stigi í tilverunni. Þá eru heimsóknir aðstandenda það eina sem gefur einhverja gleði í tilveruna.

Móðir mín lést þann 30.apríl 2011 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Þá var ég í Flórída en bróðir minn og systrabörn voru hjá henni þegar hún skildi við. Það var friðsæl stund og tók fljótt af.


Aftökur og annað skemmtilegt

Florida2011 005Nýlega kom ég heim frá Flórída sem er sannkallað gósenland golfarans. Ég dvaldi ásamt vinum í flottu húsi við golfvöll sem heitir Roosevelt. Teigur á fjórðu braut var beint fyrir framan stofugluggann c.a. 10 metra frá lóðarmörkum. Um 100 metrum frá var annar níu holu völlur sem heitir Truman. Báðir ágætir. Ótal vellir eru þarna með skemmtilegum brautum og í fallegu umhverfi.

Þeir láta mikið með forseta sína kanarnir og ekkert er svo sem út á það að setja. Þeir eru þó eflaust misjafnlega hrifnir af Obama, þar sem hann er ekki alveg að enduróma vilja Ísraelsmanna gagnvart Palestínuríki í umræðunni núna. Sjálfri finnst mér þetta bara gott hjá honum. Það sýnir ákveðið sjálfstæði og hugrekki að rísa upp gegn ríkjandi viðhorfum og heilaþvotti eins og mér finnst svo ráðandi þarna vestur frá. 

Mér fannst hinsvegar ekki flott hjá forsetanum að týna líkinu af Osama bin Laden í hafið og hafa ekkert í höndunum um að hafa drepið hann og hans konu. Þetta mikla afrek hersins var lofað margsinnis á dag á hverri einustu sjónvarpsstöð sem náðist í okkar húsi. Ekki bara einn dag heldur marga daga í röð. Ég var bara um það bil að hrífast með.

Ég var í tvær vikur í The Villages rétt utan við Orlando og kunni ágætlega við mig. Hitinn hátt í og yfir 30 ° og sól alla daga sem var heldur mikið. Þetta er auðvitað alger draumur fyrir þá sem eru með gigt og ýmis öldrunarvandamál enda fannst mér ég vera c.a. 10 árum of snemma á ferðinni en hugsa mér gott til glóðarinnar síðar InLove 


Gleðilegt golfsumar

NílarkrókódíllNú líður að árlegri golfferð á krókódílaslóðir í henni Ameríku, Flórída, The Villages nánar tiltekið. Við systur ætlum að skella okkur með okkar sambýlismönnum og spila golf á þessum hættuslóðum. Við höfum leigt okkur hús með tveimur svefnherbergjum, golfbíl, reiðhjólum og öllum mögulegum þægindum. Einhver sagði að þessi staður væri kallaður Disneyworld 60+ og vona ég að það sé ekki ofsagt.

Ég hef mikið spáð í golfið í vetur. Bæði fylgst vel með á Skjágolf þegar mót eru og kennsla. Einnig lært nokkuð af Birgi Leifi Hafþórssyni sem er með kennsluþátt í sjónvarpinu og auk þess tók ég nokkra tíma hjá honum í haust.

Í vetur prufaði ég að fara í "golfjóga" hjá Guðjóni Sveinssyni í Kiwanishúsinu. Það var að mörgu leiti mjög áhugavert og auðvitað gott fyrir líkamann svona í bland við hardcore æfingar í World Class með eldri dótturinni kl 6,30 á morgnanna, þrisvar í viku. Hjá honum komst ég að því hvað stendur í vegi fyrir sigurgöngu minni í golfinu. Nú er bara að kanna hvort það svínvirkar ekki í sumar.

Ég hef sett mér það markmið að komast undir 10 í forgjöf. Það er ekki nýtt markmið, reyndar búið að vera í þrjú sumur núna en nú skal það ganga eftir. Ég hef tekið upp gömlu sveifluna og lengt höggin við það og æft stutta spilið, samkvæmt leiðsögn Birgis Leifs, en það var helsti akkilesarhællinn ásamt púttunum.

Við erum í einkakeppni ég og mási minn sem er með aðeins hærri forgjöf en ég. Hann náði mér fyrir rúmu ári en svo stakk ég hann af í fyrra þegar hann fékk í  bakið. Nú er meiningin að "éta" hann í Flórída.

Allavega ætla ég að "skrúfa á mig hausinn" og nota sálfræðina á sjálfa mig til að sigrast á hindrunum í sumar.   

Gleðilegt sumar ágætu kylfingar og bestu óskir um skemmtilegt spil, árangursríkar keppnir en fyrst og fremst góðar og uppbyggjandi samverustundir á vellinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband