Leita í fréttum mbl.is

Gamalt fólk

Glöð með gestina sína Ég hef hugsað mikið um það síðustu mánuði hvað gerist í huga gamals fólks sem er með heilabilun og getur ekki tjáð sig. Hvar er hugsunin? Veit viðkomandi hvar og hver hann er þó hann sé nánast eins og ungabarn eða smábarn í hegðun.

Móðir mín fékk heilabilun sem ágerðist smátt og smátt með árunum en svo hrakaði henni nokkuð hratt síðustu tvo mánuðina. 

Þegar hún kom hingað suður, fyrir einu og hálfu ári, þá gerði hún greinamun á okkur, fólkinu sínu, og svo hjúkrunar-og starfsfólki hjúkrunarheimilisins. Hún varð himinlifandi í hvert sinn sem ég kom í heimsókn og lyftist úr stólnum með hlátri og gleði þó hún væri kát alla jafna.

Ég varð vör við að hún var aldrei alveg viss hver ég var. Hún hélt oftast, af því ég var með glens við hana, að ég væri kannski eldri systir hennar sem er löngu látin.

" Nei þú fyrst" sagði hún við mig þegar ég var að ota að henni snafsi af sérrý. Við þrættum smástund en svo varð ég að gefa mig. Hún tók svo sinn sopa. Það var auðfundið að hún ætlaði ekki að láta skamma sig eina ef upp kæmist. Hún hélt örugglega að við værum unglingar heima á stórtemplaraheimilinu hennar í Hafnarfirði. Ég otaði þessu sulli ekki oftar að henni.

Þegar ég kom með barnabörnin, tvo hlaupandi káta stráka tveggja og þriggja ára, varð hún himinlifandi og vissi hún að þeir tilheyrðu henni. Reyndar lifnaði yfir öllum hópnum í borðsalnum þegar þeir komu, og stundum hugsaði ég með mér að sumir hefðu ekki brosað frá því þeir voru í heimsókn síðast.

Hún naut þess greinilega þegar þeir voru með henni. Þeir skiptust á að standa aftan á hjólastólnum og "keyra" en hinn gekk með og leiddi hana eftir göngunum á Sunnuhlíð.  Ekki er ég frá því að hún hafi hreykt sér í huganaum þegar hún var með hópnum sínum og fékk alla athygli á staðnum. Hún hafði afar gaman af að láta taka af sér myndir og skoða þær strax á skjánum. Hún var stundum á því að koma bara með "heim" en sættist alltaf á að hinkra þar til við kæmum næst.

Það er ekki gott að segja hvað fer um hugann hjá gömlu fólki en stundum má lesa í svipbrigði og aðra hegðun. En það er alveg víst að fólk sem er komið í þá stöðu að geta hvorki tjáð sig, gert kröfur um þjónustu, né lýst skoðun sinni er á viðkvæmu stigi í tilverunni. Þá eru heimsóknir aðstandenda það eina sem gefur einhverja gleði í tilveruna.

Móðir mín lést þann 30.apríl 2011 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Þá var ég í Flórída en bróðir minn og systrabörn voru hjá henni þegar hún skildi við. Það var friðsæl stund og tók fljótt af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæl, datt þetta stundum í hug,maður minn var heilabilaður.Seinasta árið var hann á Sunnuhlíð. Hrörnunin gerist hægt,þegar maður umgengst þann veika hvern einasta dag. Mér fannst ekki að hann þyrfti neina dagvist,en síðan týndist hann  tvisvar,þá varð ég að láta mig. Í daglegum heimsóknum á Sunnuhlíð.sá maður hve vistmenn voru misjafnir,persónu einkenni þeirra hafa lengst verið merkjanleg. Þannig var herbergisfélagi mannsins míns sífellt syngjandi,þá helst gömul sjómannalög.  Minn maður var hættur að tala um þetta leiti,bíltúrar virtust enga gleði vekja,dúndrandi jazzlög ekki heldur,augun fjarræn,þangað til yfir lauk.Læknar glíma við þennan sjúkdóm,einn góðan veðurdag uppgötva þeir lækningu. Á meðan tek ég mínar Brokkolípillur frá Natures.is,í þeim er Sulforaphane,sem nærir frumur heilans og líkamans alls. Mb.kv.

Helga Kristjánsdóttir, 30.5.2011 kl. 22:15

2 identicon

Kolbrún,ég votta þér mína innilegustu samúð vegna fráfalls móður þinnar. Ég missti móður mína 1998,og sakna hennar ætíð ég var soddan Mömmustrákur. Allar Mömmur eru Yndislegar.

NN (IP-tala skráð) 31.5.2011 kl. 00:10

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Helga... það er tilvinnandi að finna þessar töflur sem þú hefur trú á ef þær vinna gegn þessari meinsemd. Þú hefur kynnst þessu af eigin raun og þekkir þetta eins og ég. Það er gott starf unnið á Sunnuhlíð og starfsfólk elskulegt við bæði dvalarfólk og gesti. Það er útilokað að hafa svona veikt fólk heima og sinna því af nokkru viti. Það er erfitt að horfa upp á fólk fjara frá vitsmunaveröldinni en lifa samt. Bestu kveðjur og takk fyrir ábendinguna með bætiefnin. Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.5.2011 kl. 14:48

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll NN. Gott að sjá þig hér aftur, loksins,. Þakka þér fyrir hlýja kveðju og ég er sammála því að mömmur eru besta fólk. Mín móðir var hvunndagshetja og hennar eini galli var hógværð. Ég vinn í því að verða ekki þannig  eins og fólk hefur væntanlega tekið eftir. Söknuður er eitthvað sem maður upplifir sterkt við svona aðstæður þó þetta sé best fyrir alla. Þetta er eitthvað svo endanlegt og í mínu tilfelli þá er ég oft að því komin að beygja niður að Sunnuhlíð af gömlum vana þegar ég keyri þar um.  Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.5.2011 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 121920

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband