Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Nýtt ár og ný tækifæri

Gala kvöld 01012007Nú er nýtt ár að ganga í garð. Það kann að boða breytingar fyrir marga. Það er í mínu eðli að aðlagast breytingum með jákvæðum hætti og syrgja ekki það sem liðið er. Reynslan hefur kennt mér að í öllum breytingum eru tækifæri til að njóta nýrra hluta og aðstæðna. Það er því ekki ástæða til að ríghalda í gamla tímann enda heldur maður sjálfur áfram að eldast, þroskast og batna ef eitthvað er. Ekki veit ég hvort ég á eftir að batna í golfi eða í dansi en það er alveg víst að með aldrinum lærist manni að njóta meira og betur þess sem gefur manni gleði og því stefnir allt í það að ég verði hamingjusamari en nokkru sinni fyrr á næsta ári. Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra og ég óska þess einlæglega að sem allra flestir fái notið hamingjunnar á nýja árinu.  


Stökkbreyttir jólasiðir

sveinki í golfiJólin eru búin að vera æðisleg. Góður matur, gjafir til og frá eins og hefðin mælir fyrir um og hýbýlin hlý, hrein og fín, skreytt út í hörgul. Það er legið í leti, lesið og farið í göngutúra en einhvernvegin er það ekki alveg nóg. Ég hef því ákveðið að taka smárassíu í golfinu þar sem ég hef trassað að æfa mig eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Það þýðir ekkert kæruleysi ef maður ætlar að halda titlum og bæta sig á komandi ári. Það er því stefnt á Spán nánar tiltekið La Sella, Denia norðan við Benedorm. Um er að ræða golfvöll sem hinn frægi M. Olazabal hannaði og er víst mjög vinsæll hjá Spánverjum. Gist verður á Marriott Hótel 5* sem þýðir að það fylgir hárþurrka. Hvert herbergi er með sjálfstæðum hitastilli, sjónvarpi, 3 símum, ekki veit ég til hvers, minibar sem má missa sig mín vegna, stórum fataskápum, skrifborði, bólstruðum stólum í setukrók hahaha, internet-aðgangi sem ég á nú eftir að sannreyna, straujárni og strauborði, baðsloppum og inniskóm. Því er lofað í auglýsingu á ferðinni að manni líði betur þarna en heima hjá sér. Ég stórefast um það en gaman verður að komast í golf og rifja upp gamla takta frá því í sumar. 

Allir eins klæddir

Kópavogskirkja.Ég fór í jólamessuna með litlu fjölskyldunni minni í gær, aðfangadag. Við fórum í Kópavogskirkju að þessu sinni þar sem hún er mitt á milli heimila dætra minna. Ég var send á undan til að taka frá sæti og mætti kl 17,30 og reyndi að verja bekkinn með kjafti og klóm, sálmabókum og veski, með sjálfa mig fyrir miðju. Rétt fyrir kl. 18:00, þegar hátíðin var að detta á, birtist mín fríða fjölskylda í gættinni, allir skælbrosandi, vitandi það að ég væri u.þ.b. að sleppa mér úr stressi. Þeir voru allir eins klæddir strákarnir bæði sá 17 ára , 12 ára,  3ja ára og 1,5 árs. Svört jakkaföt, hvít skyrta og svart bindi. Ég brosti á móti og var afar ánægð að þau skyldu ná í tæka tíð. Við kyrjuðum messusvör og sálma með kórnum en presturinn var ekki að slá í gegn hjá mér allavega. Á eftir var farið í jólarjúpur hjá eldri dótturinni en seinna um kvöldið í kaffiboð og heimalagaðan ís hjá þeirri yngri. Það er alltaf fullt út úr dyrum hjá yngra fólkinu enda vilja allar ömmur og afar sjá kútana sína í gjafahamnum. Þeir voru enn á fullu spani þegar ég fór kl. 23:00 um kvöldið. En þetta er hátíð barnanna þannig að það er vonandi að þau njóti þess sem best. Þetta er í fyrsta sinn í 40 ár sem ekki er eldaður matur á aðfangadag á mínu heimili. Svona breytist allt hjá manni, líka jólahefðirnar. Ekki að ég sakni þess að elda mat. Veit margt skemmtilegra en tilhugsunin svolítið spes.


Pósturinn

jólaboðskapur verslunarinnarÞá er kominn tími til að keyra út jólapakkana. Þetta er eini siðurinn sem ég held uppá í jólahaldinu. Það var alltaf þannig í mínu ungdæmi og öll mín hjónabandsár að farið var í að keyra út pakka og kort á aðfangadag, stundum í vitlausu veðri, snjó og skafrenningi. Stundum þurftu menn að hjálpast að við að ýta bílum sem voru fastir og það var meiriháttar gaman. Þá myndaðist þessi skemmtilega gleði og nánd sem jólaboðskapurinn byggir á að því mér skilst. Reyndar er ég alveg hætt að senda jólakort og það var mjög gott að losna frá því. Ég átti það til að verða óskaplega væmin og hjartanleg þegar ég var að skrifa kort. Pakkarnir hanga inni ennþá og það er svo sem allt í lagi. Allavega meðan ég fæ pakka sjálf ;) :)

Gleðileg jól kæru bloggfélagar og aðrir lesendur.


Meyfæðing, matur og gjafir

tommi21Nú er allt að verða tilbúið fyrir jólin. Ég er búin að vera á útopnu, eins og hálf þjóðin, við að uppfylla þessar hefðir sem búið er að innræta okkur í gegnum árin. Hver ætli hafi fundið upp á þessu? Af hverju þurfti endilega að hafa jólin á dimmasta og kaldasta tíma ársins? Tókum við kannski þessa trú af því það var svo hentugt að brjóta upp skammdegisdrungann með ljósum og gjöfum? Það er stórundarlegt að við skulum gagnrýnilaust taka þátt í þessari verslunarhátíð ár eftir ár. Sama má segja um það að við skulum hlusta klökk á  "jólaguðspjallið" ár eftir ár eins og meyfæðingin sé það sem mestu máli skiptir í trúnni. Mér finnst ekkert sérstakt við þá sögu hvorki áður né nú. Það held ég að konur á slóðum Jesú séu enn að fæða börn í útihúsum og hreysum. Ekki er óalgengt að þeim sé mörgum úthýst af hótelum og gistihúsum vegna peningaleysis. Algengt er að þær þurfi að taka saman við eldri menn til að sjá sér farborða. Ekki skrýtið að þær vilji ekki gefa upp barnsföður sinn og vita kannski ekki hver hann er. Furðulegt að Guð skuli ekki leggja meiri blessun yfir sögustaði Biblíunnar.Hvað ætli hann sé að pæla. Ég stóla á að hann fyrirgefi mér þessar pælingar þar sem hann er sagður bæði vitur, góður og fyrirgefandi. Ég er samt ekki ein um þessar hugleiðingar svo mikið er víst og ekki allir heilaþvegnir þó þeir sinni trúmálum.


Hringekja tímans

Jólin í Lille í FransEnn eru jólin að koma. Það er alveg að verða með ólíkindum hversu fljótt árið er að líða. Mér finnst eins og síðustu jól séu nýbúin. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna ég upplifi tímann svona einkennilega. Þegar ég var ung var sagt að svona upplifun væri bara meðan menn skulduðu. Það kom til af því að þá var óðaverðbólga og menn gerðu sinn bissness þannig að greitt var með nokkrum afborgunum, kannski mánaðalega. Manni þótti því stutt á milli gjalddaga því það varð að vinna fyrir afborguninni og það gat verið svo stressandi að ná því. Nú er það ástand ekki fyrir hendi hjá mér en þetta bara versnar. Reyndar er ég mjög aktív og búin að setja mér fyrir verkefni langt fram í tímann og það kann að valda þessu. Allavega eru jólin orðin svona nokkuð hefðbundið kaos en hefur alltaf minna og minna stressandi áhrif á mig þó ég nái ekki að klára alla hefðbundna hluti. Ég verð líka rómantískari eftir því sem árin færast yfir og nýt jólaföstunnar miklu betur en jólanna sjálfra út af birtu og ljósadýrð sem eykst frá degi til dags og nær hátindi sínum á aðfangadag jóla. Annars á ég bara eftir jólagjafirnar þannig að þetta reddast. Vona að þú lesandi minn hafir ekki of þungar áhyggjur af jólastandinu.


Leiðarljós

Skipsflak og leiðaviti nærri GrindavíkUndanfarið hefur mér fundist dagskrá íslenska sjónvarpsins hálfleiðinleg. Það er æ oftar sem ég skelli mér á sænsku TV-stöðina og fylgist með vinum mínum, Svíunum, skemmta sér í söng- og gamanþáttum.  Það eru þó undantekningar á öllu og í kvöld var afar gaman að fylgjast með Kiljunni á Rúv. Mér fannst Kolbrún, nafna mín, sæt og krúttleg, Páll skemmtilegur og Bragi bóksali er alltaf góður með sitt ógeðslega neftóbak. Það sem hrærði við mér var viðtal Egils hárfagra við eðalhjón úr Grindavík. Ég tók eftir því að bæði nefndu, sem fyrsta kost við makann, að hann væri afar skemmtilegur en síðan komu aðrir kostir í upptalningunni. Þetta finnst mér styðja þá kenningu mína að góður húmor sé sá kostur sem skiptir mestu máli fyrir góð sambönd. Kostur sem eflir ástina og gefur fólki kraft. Kraft til að líta fram hjá erfiðleikunum, kraft til að sigra veikleika sína og kraft til þess að lifa lífinu lifandi.


Nú er skrattanum skemmt.

Tiger Wood

Var að hlusta á fréttir á BBC World news um að Tiger Woods sé nú að taka sér frí frá golfi til að sinna konu og börnum, vegna fréttafárs af heimiliserjum þeirra hjóna. Mér finnst það taka út yfir allan þjófabálk hvernig fjölmiðlar hafa blásið út hans einkamál. 

Það er umhugsunarefni hvernig stendur á því að konur skuli gefa sig fram með yfirlýsingar hver af annarri um að hafa verið ástkonur hans. Þetta er svo sem ekkert nýtt. Eins og menn vita þá hefur það verið þannig þegar frægir menn eða prestar sem ásakaðir hafa verið um kvennafar, kynferðislega áreitni eða framhjáhald eiga í hlut. Ég man ekki eftir að karlmenn hafi hagað sér svona. Mér er ómögulegt að trúa þessum konum þegar þær koma fram í hópum eða hver af annarri í kjölfar frétta en ekki þegar viðkomandi atburður átti sér stað. 

Það toppar svo vitleysuna að John Daly golfari og lífslúser kemur fram og er með ráðleggingar til hans á BBC-world news. Dæmigerður alki sem er stútfullur af ráðum til annarra þó hann geti þess í leiðinni að Tiger vilji ekkert við hann tala. Allt gert til að komast í sviðsljósið sjálfur. 

Auðvitað er þetta mikið markaðs- og peningamál bæði fyrir aðra golfara í toppbaráttunni og eins fyrir sportvörufyrirtækin. Ekki finnst mér spurning að þessir aðilar hafa áhrif á fréttaelítuna og kynda ofninn.

Ég vona bara að þetta gangi fljótt yfir hjá Tiger, hann komi heill til baka og veiti okkur golfurum þá unun sem fylgir því að horfa á þennan snilling spila golf.  

    

Lífsins lystisemdir

ÍslandÞað er að verða þannig með mig að ég verð æ næmari á fegurð eftir því sem árin færast yfir mig. Mér finnst ég sjá meira og meira af fallegum hlutum og fólki. Falleg börn og unglingar eða fagurt landsvæði hrífa mig og fylla mig mikilli gleði. Gleðinni fylgir aukin þörf fyrir að gera eitthvað fyrir aðra. Kannski bara sýna öðrum það sem ég dáist að, í það og það skiptið. Börnin langar mig að knúsa og leika við. Gaman væri líka að ræða við unglingana og benda þeim á rétta braut og vara við villustigum. Þetta er nú varla eðlilegt ástand. Ætli þetta séu einhverskonar kreppuviðbrögð. Kannski bara merki um að ég sé áhyggjulaus og aflöppuð manneskja sem gef mér tíma til að skynja umhverfi mitt á annan hátt en áður. Hvað sem það er þá líður mér rosalega vel með það.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband