Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Laugardagsgangan

íslensk fegurðEnn er kominn laugardagur. Einhvernvegin finnst mér vikan svo fljót að líða að það vekur mig til umhugsunar í hvað ég hef verið að verja tíma mínum.

Ljóst er að tíminn hefur dreifst á vinnu, verkefni og áhugamál. Vinnan er fjölbreitt og skemmtileg í góðu andrúmslofti og náungakærleika. Það fann ég vel þegar ég þurfti að leita á gamlar slóðir í gær. Þó við séum ekki alltaf sammála eru þó heilindi í hávegum höfð og komið jafnt fram við alla og af réttsýni.

Verkefni mín eru fjölbreitt en um þessar mundir er ég að vinna að endurbótum á heimili mínu bæði utan húss og innan. Ekkert viðhaldið síðan 2000 þegar ég flutti inn og kominn tími á flesta hluti. Mörg heimilistæki eru að syngja sitt síðasta og ýmislegt sem þarf að lagafæra. Mér finnst ekki skemmtilegt að leita til íslenskra iðnaðarmanna, satt best að segja.

Annað verkefni er að grisja fataskápinn, flokka, henda og endurnýja.  Það er rosalega erfitt því mér finnst svo leiðinlegt að kaupa mér föt. Gömlu fötin eru líka hlaðin minningum og ég tími varla að henda þeim þó þau passi ekki lengur og muni aldrei gera.  

Þriðja verkefnið, sem jafnframt er áhugamál, er svo að njóta samvista við dætur og barnabörn og byggja upp náið samband við fólkið sitt. Það er verkefni sem ég er til í að eyða meiri tíma í en hef verið að setja allt of mikið í aðra hluti. Það mun breytast á næstunni.

Önnur áhugamál eru líka æðisleg og má þar nefna dans, golf og svo gönguferðir sem ég stunda með hópnum mínum á laugardögum. Við höfum farið á marga ægifagra staði og notið fegurðar íslenskrar náttúru og samvistanna hvert við annað.

Allavega óhætt að segja að þessari konu leiðist ekki lífið ;) .


Ný staða

go_sta_a.jpgÞað er óhætt að segja að það sé ný staða sem blasir við okkur frjálslynda fólkinu. Nú stendur til að halda landsþing Frjálslynda flokksins þrátt fyrir að það sé ekki samkvæmt ritualinu. Núverandi stjórn er búin að sitja í u.þ.b. eitt ár. Miðstjórn mat það svo, nú nýverið, að það væri bráðnauðsynlegt að kjósa nýja forystu og það sem allra fyrst. Ég játa að mitt pólitíska nef náði ekki að átta sig á þessari brýnu þörf nú. Margir höfðu þá skoðun fyrir síðustu kosningar að tímabært væri að skipta um forystu. Það var vissulega gert þótt formaður héldi sínu sæti. Á landsþinginu í Stykkishólmi var Guðjón Arnar kosinn formaður með nokkrum yfirburðum en Magnús Þór Hafsteinsson hlaut þó nokkur atkvæði. Nýr varaformaður, Ásgerður Jóna Flosadóttir, var kjörin og Hanna Birna Jóhannsdóttir kosin ritari. Ásgerður gekk úr vistinni eftir eina viku eða svo sem er líklega heimsmet. Undirrituð var af miðstjórn, samkvæmt lögum flokksins, sett sem varaformaður í staðinn. Hanna Birna gaf svo sínu embætti líf á síðasta miðstjórnarfundi af persónulegum ástæðum. Afar ólíklegt er að Guðjón Arnar gefi kost á sér í formanninn, þó hann muni eflaust starfa í flokknum áfram. Engir starfsmenn eru nú á launaskrá hjá flokknum.  Það má því segja að það er farinn að þynnast ísinn undir forystunni. Nýverið varð ljóst að Reykjavíkurborg muni greiða "styrkinn til  flokkanna" til Frjálslynda flokksins sem framkvæmdastjórn hefur látlaust reynt að innheimta. Það þýðir að flokkurinn fer ekki í gjaldþrot og getur haldið áfram starfsemi sinni.

Allt bendir til þessa að nýr maður verði í brúnni eftir landsþingið sem verður 19.  og 20. mars og gera má ráð fyrir að margir verði nú til kallaðir.


Góð staða

islensk_mynt_960773.jpgÞað er óhætt að segja að það er breytt staða hjá okkur Frjálslyndum í dag. Þar er ég að skírskota til þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar, sem sagt var frá í fréttum, að taka mark á ályktun ráðherra sveitarstjórnarmála og hans ráðuneytis, um rétt Frjálslynda flokksins á því fé sem borgin greiðir til þeirra framboða sem koma manni inn í borgarstjórn.

Mér finnst með ólíkindum hvernig borgarstjórn gat velkst með þessa ákvörðun í marga mánuði og jafnvel ár.

Ekki vafðist það fyrir Alþingi að greiða styrkinn til Borgarahreyfingarinnar þó þingmenn hefðu allir hlaupið frá borði. Auðvitað er það eðli laga að þau má túlka á ýmsan hátt en í þessum lögum segir að þeir sem bjóða fram listann eigi að fá framlagið.

Það kom fram í svari Borgarinnar, við athugasemdum stjórnar flokksins,  að Frjálslyndi flokkurinn hafði boðið fram F-listann, lista frjálslyndra og óháðra, á því lék ekki vafi. Þetta er búið að vera mikið átakamál og mikil orka farið í það að berja það í gegn og halda lánadrottnum góðum.

Ekki lá málið lengi í ráðuneyti Möllersins og vil ég hér með lýsa þakklæti mínu fyrir það.

En nú er kátt í höllinni og við sem höfum verið í framkvæmdastjórn getum gengið keik frá borði án þess að hafa skuldaklafa á bakinu og gert upp við þá sem treystu okkur í viðskiptum fyrir síðustu kosningar.


Golfkveðja

golfpilsiðEins og sjá má á meðfylgjandi mynd og þessu kvæði sem ég fékk sent í dag frá góðum vini, sem er hörkugolfari, gerist margt skemmtilegt og óvænt í golfi. Allavega er ég farin að hlakka til golfferðarinnar sem framundan er, en það er hin hefðbundna æfingarferð eldri kylfinga til Flórída. Í síðustu ferð var ég vöruð við kreppunni og sagt hvernig ég ætti að forðast hana. Ég hef stundum sagt að þetta sé sambúðaræfing, því það er enginn leikur fyrir þá sem búa einir að vera allt í einu komnir í sambúð með átta manns í húsi og það í hálfan mánuð. Þetta hefur þó gengið slysalaust til þessa og bara verið gaman að kynnast fólkinu. Ekki hefur verið verra að golfvellirnir sem við spilum eru alveg frábærir, ólíkir en allir flottir. Veðrið hefur verið frábært en það er spurning hvernig þetta veltist núna þegar veðurfarið er allt úr lagi gengið. Nú frýs í  helvíti en hiti á Íslandi. Auðvitað vonar maður bara það besta. 

Hér kemur bragurinn frá Tomma

Á völlinn við golfarar skundum

Við höggin og púttin við dundum

En erfið er þrautin

Og vandhitt er brautin

Við sveifluna vonir við bundum.

Á teignum teinrétt við stöndum

þar tengjumst við vináttuböndum

en undir niðri

í sveiflunni miðri

við týnumst í draumanna löndum.

Kolbrún hún kúluna lemur

Kraftinn og mýktina hemur

Þó útaf hann fari

Hún endar á pari

Er kát hún af flötinni kemur. 


Kópavogurinn

Kolla_11Í dag fór ég í hjólatúr og naut þess að skoða Kópavoginn hér vestanmegin. Það er alltaf gaman að fara um göngustígana meðfram sjónum og fylgjast með fuglalífinu. Sá meira að segja sel hér í Kópavoginum. Höfnin er líka sjarmerandi. Það var bara eins og maður væri komin heim á fornar slóðir. Oftast er það þannig að þegar maður fer af stað er einhver á röltinu sem maður þekkir og þá þarf að stoppa til að spjalla. Sumir þurfa líka að vita hvar maður er og því eins gott að hafa símann með í för :)  Allavega var ég mjög ánægð með að hafa drifið mig af stað á hjóli í þetta skiptið. Við erum sannarlega heppin Íslendingar með veður meðan kyngir niður snjó bæði í Evrópu og Ameríku eins og við höfum séð í fréttum undanfarið.  


Hamingjan verður ekki hertekin Eyjólfur

Kossinn eftir Gustav Klimt. Olía á striga (1907-1908).Nýlega fór ég á frumsýningu hjá Halaleikhópnum. Þar var sýnd tilfinningarík og stórbrotin ástarsaga þeirra Steinunnar og Bjarna á Sjöundá eftir Svartfugli Gunnars Gunnarssonar. Bæði áttu maka þegar þau hittust fyrst er Bjarni og Guðrún flytjast að Sjöundá, sem var kotbær á Barðaströndinni. Það var ást við fyrstu sýn. Ástir þeirra kostuðu bæði þau og maka þeirra miklar hörmungar og voru þau ásökuð fyrir morð á mökum sínum. Börn Bjarna og Guðrúnar fórust á flótta á leið heim að Sjöundá meðan hann sat í varðhaldi. Leikgerðin var afar skemmtileg og sagan sögð á myndrænan hátt. Tónlistin hélt manni föngnum í þessum gamla og ömurlega tíma sem sagan gerist á og sviðsmyndin flottur rammi utan um söguna.

Margir áttu þarna stórleik en í huga mínum sitja tvær senur sem eru þegar Steinunn og Bjarni eiga einkasamtal við Eyjólf kapellán sem Daníel Þórhallsson lék mjög sannfærandi. Sóley Björk, kom hinni sterku og fögru konu, Steinunni, vel til skila og fór á kostum þegar Steinunn bognaði í lokin undan sársaukanum og sektarkenndinni og áttaði sig á að hamingjan yrði ekki höndluð þrátt allt. Þröstur Jónsson sem lék Bjarna var sömuleiðis fanta góður sérstaklega þegar Bjarni opnar sig fyrir prestinum. Þá skein í mikla örvæntingu og sorg. Ekki út af dauða barnanna og yfirvofandi eigin dauðadómi, heldur miklu frekar því hvort fjötrar ömurlegs hjónabands munu líka halda í himnaríki.

Svar kapelláns féll mér vel í geð.

Þessi saga er gott dæmi um það hvað ástin er ofmetin.

Sjáið endilega leikritið. Það er ekki bara tveggja stunda skemmtun heldur eitthvað miklu meira.


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband