Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Jeppahroki.

JeppahrokiAlveg er það frábært þegar maður fer í innkaupaleiðangur í Kringluna eða Smáralind og fær ekki bílastæði. Þarna eru bílar út um allt svo langt sem augað eygir. Þá er fróðlegt að fylgjast með tillitsleysi landans. Á síðustu helgi fór ég í Kringluna og þar keyrði ég um í nærri 15 mínútur áður en ég fann loksins stæði. Þá hafði ég keyrt fram hjá þremur "næstumþvístæðum" af því að jeppaeigendur í öllum tilfellum höfðu lagt inn í tvö stæði til að ná sér í nógu mikið pláss. Það er svosem skiljanlegt þegar menn eru komnir á rándýra bíla að þeir óttast mjög að skemma þá og vilji ekki fá hurðarnar á næsta bíl í sinn. En hvað með hina. Ætli þeim sé ekki sárt um sína bíla? Það verði bara allir að treysta á þokkalega umgengi annarra. Það held ég nú bara og finnst þetta jeppahroki af næstverstu sort. Hugsa að ég láti númer flakka með næst þegar ég upplifi þessa frekju.

Sambúðarslit.

gestaparið.Jæja nú er nóg komið. Þessi sambúð gengur ekki lengur hugsaði ég með mér þegar ég kom að útidyrahurðinni hér heima  og við mér blasti stærðar kóngulóarvefur sem var svo snilldarlega gerður að hann teygðist bara þó ég opnaði hurðina. Þessi sambúð hófst fyrir svona þremur árum en þá sá ég að kónguló var búin að vefa uppi í öðru innra horninu á skyggninu yfir útidyrunum. Mér fannst þetta allt í lagi og lét kyrrt liggja. Fljótlega var kominn vefur hinumegin líka og bara búsældarlegt hjá vinkonu minni. Hún hékk oft í vefnum á dagin og ég sá að hún var mjög bústin með deppla á bakinu. Einnig sá ég að hún var búin að gera hnykil með límkenndu efni sem er mjög sterkt. Sennilega birgðir til að vefa úr.  Ári seinna var þetta heldur meira og stundum fann ég að ég hafði gengið á þráð á leið upp tröppurnar. Lét mig hafa það þar sem ég gat ekki hugsað mér að drepa greyin og svo væri það kannski ógæfumerki. Þær hafa síðan verið að sækja á spunadrottningin og hennar lið . Þær voru fljótar að pakka inn sumarblómakörfu sem ég setti á vegginn sem þær hafa haft efri partinn af en ég neðri. Svo var það í fyrrakvöld þegar ég kom heim að ég kom að þeim á mínum helmingi og ekki bara það heldur búnar að leggja undir sig dyrabjölluna og farnar í útrás þaðan. Útrásin Þeim var þá sparkað og þær fótum troðnar í orðsins fyllstu merkingu. Ég mun ekki gefa neina grið í framtíðinni. Þessi hæð rúmar bara eina drottningu. 

GKG

Golf á Spáni Í gær, sunnudag, fór ég og spilaði golf á golfvelli Kópavogs og Garðabæjar. Fór í fyrsta skipti þennan völl eftir að honum var breytt og farið að spila Leirdalinn alveg upp í Salahverfi. Það hefur einhvernvegin verið þannig að þessi völlur hefur verið mér svo fjarlægur og ekki hafa verið mörg mót þar sem hafa heillað mig til þátttöku. Hann hefur líka, satt best að segja, haft frekar neikvætt orð á sér, sagður erfiður og leiðinlegur. Þetta finnst mér alger misskilningur og tel hann bæði skemmtilegan og fjölbreyttan. Mikill hæðarmunur er í honum og flatirnar krefjandi. Ég náði ekki nema 28 punktum á 92 höggum en meðspilarinn var með tvo fugla. Hann vann mig með einu höggi. Sem betur fer ekkert veðmál í gangi og engin minnkun af því að tapa fyrir góðum golfara. Minni völlurinn, Mýrin, er líka góður og ekki síst þeim sem eru að taka sín fyrstu skref í þessari frábæru íþrótt. Ég mun spila þarna aftur fljótlega og er alvarlega að spá í að ganga í þennan klúbb.  

“Sjómannslíf, sjómannslíf draumur hins djarfa manns......”

Grein sem birtist í Sjómanninum. 4 tbl. 

Síldarstúlkur á Raufarhöfn 1957Að vera síldarstúlka eða.......  

Sumir segja að við mannfólkið mótumst af landslagi og veðurfari. Ísland er þekkt fyrir kalt veðurfar en einnig fyrir eld og hita í jörðu.  Íslendingar eru af sumum taldir kaldir í viðmóti en eldheitir í ást sinni og þrám þegar þær brjótast fram undan ísbrynjunni. Þá er talið að umhverfið sem við ölumst upp í og kringumstæður á hverjum stað hafi mikil áhrif. Undir þetta get ég tekið að mörgu leyti. Hvað uppeldið varðar hef ég borið þess merki alla tíð að hafa alist upp í fiskvinnslu og útgerð og sérsktaklega í síldarævintýrinu, eins og það er stundum kallað, það tímabil í sögu okkar Íslendinga, þegar síldarsöltun og bræðsla var að gefa okkur hvað mestar þjóðartekjur.

Jafnrétti kynjanna

Ég ólst upp í  umhverfi, þar sem framtak einstaklingsins og dugnaður réði því hvað mikill afli kom á land og hversu vel gekk að gera verðmæti úr honum. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef alltaf reynt að afkasta miklu og ráðist í verkefni sem hafa verið mér erfið og sum langt utan þægindamarka. Ég held að þaðan sé komið það álit mitt að við konur höfum sama rétt og getu til góðra launa og karlar. Ég var oft með mun hærri laun í síldinni sem unglingur en strákarnir sem voru á tímakaupi við að taka tunnur til og frá síldarstúlkunum og færa okkur salt og síld. Eins var það í fiskvinnslunni ef notaður var bónus. Þá var hægt að tvöfalda launin sín ef maður var kappsamur og sæmilega vandvirkur. Strákarnir þurftu í flestum tilfellum að fara á sjóinn til að komast í þá aðstöðu að hafa eitthvað um það að segja, með sínu vinnuframlagi, hverjar tekjurnar yrðu. Þeir þurftu að gera meira en að þrauka í vinnuúthaldi og vöku heilu næturnar. Hjá þeim var umhverfið oft lífshættulegt og sumir svo sjóveikir að þá langaði mest fyrir borð. Við þetta bættist oft erfitt samfélag  um borð, auk stríðni til viðbótar við einangrun frá ástvinum og ættingjum.

Draumurinn

Hver var hann þá þessi draumur hins djarfa manns? Var það að vera bjargvættur þjóðarinnar með vinnuframlagi sínu? Var það að vera sjálfstæður og metinn að verðleikum? Var hann kannski bara draumur um síldarstelpu sem hann sæi næst þegar hann “landaði síldinni... sitt á hvað ...á Dalvík og Dagvarðareyri”.    

6822 báturinn minn1....... trillukarl.  

Það var erfitt að taka þeirri staðreynd að síldin hvarf af Íslandsmiðum og starf síldarstúlkunnar heyrði sögunni til. Menn urðu því að bjarga sér sjálfir með einhverjum hætti og sumir fjárfestu í trillum, ýmist einir eða fleiri saman, jafnvel bátum og skipum. Þá skipti miklu máli að vera agaður og kappsamur. Eflaust voru þær nokkuð margar sjómannskonurnar sem urðu að sæta því að bíltúrinn á kvöldin lá beint niður á bryggju til að kanna hvar menn væru að “ fáann” og hvað þeir voru með margar trossur og allt það. Þær máttu þakka fyrir að nú voru þeir heima á hverjum kvöldi. Ekki voru samskipti eins greið við þá yfir daginn eins og er í dag, á tímum gsm símasambandsins, en mikil umskipti eftir að hafa upplifað margra daga sambandsleysi á síldveiðiúthaldinu.

Kvótinn.

Trillukarlar hafa marga fjöruna sopið í sambandi við stjórnun fiskveiða með öllum þeim reglugerðum og takmörkunum sem settar  hafa verið á þá. Á tímabili vissu margir ekki í hvorn fótinn ætti að stíga þegar þeim var gert að velja á milli kerfa, enda mikil óvissa um hvernig kvótakerfið myndi þróast. Má þar nefna dagróðrakerfið og almenna kvótakerfið.  Ég hef það á tilfinningunni að margir trillukarlar séu með sömu “starfshvatagenin” og síldarstúlkurnar. Ég veit allavega um þó nokkra útgerðarmenn sem halda áfram að róa þó þeir hafi auðgast gríðarlega á kvótanum og láta sína skipverja njóta þess í glæsilegum uppgjörum. Ekkert svindl þar. Þeirra menn eru kannski með tvisvar sinnum hærri laun en sambærilegir hluthafar hjá öðrum útgerðum. Þetta eru menn sem elska vinnuna sína og stjórnast ekki af taumlausri peningagræðgi og eru sjálfum sér og stéttinni til sóma. Þetta eru sjómenn sem eru alltaf ofan á sama hvaða fiskveiðikerfi er notað. Nú er spurning hvort starfsheiti trillukarl heldur til framtíðar eða hverfur eins og starf síldarstúlkunnar.


Leggjabrjótur

GlymurÁ laugardaginn fór ég í gönguferð upp frá Botni í Hvalfirði og kíkti á hæsta foss landsins, Glym. Veðrið var alveg frábært og umhverfið æðislegt. Nokkur fjöldi fólks var á gönguleiðinni bæði að koma og fara og misvel útbúinn fyrir gönguna. Ég var bara á strigaskóm og  hafði enga göngustafi en það mun ég ekki láta koma fyrir aftur. Á ákveðnum tímapunkti var ég viss um að nafnið á þessari gönguleið væri dregið af því að menn slyppu ekki óbrotnir frá henni en það gerði ég nú sem betur fer. Eftir gönguna skellti ég mér í sumarbústaðinn til systur minnar í Hvítársíðu og naut góðra veitinga og félagskapar þeirra hjónakornanna.  Á leiðinni heim sá ég að bíll hafði velt í einu hringtorginu í Mosfellsbæ og var hann alveg á toppnum.  Nú óttast ég að hraðatakmarkanir  á hringtorgum verði lækkaðar í framhaldinu.

Það væri bara eftir öðru í umferðinni. Police


Í nafni Guðs föður.

tveir eins á skírnardaginn1Jæja þá er nýjasti meðlimur litlu fjölskyldunnar minnar skírður inn í kristinn söfnuð og nefndur. Hergill Henning er nafnið sem hann á að bera í gegnum lífið. Athöfnin var látlaus og falleg og presturinn sá hinn sami og skírði eldri bróðir hans Björgólf Bersa fyrir rúmum 18 mánuðum síðan. Nú er það von mín að sama verði uppi á teningnum að tveimur árum liðnum eða svo Heart . Þetta eru yndisleg börn og móðirin aldrei fallegri en á og eftir meðgönguna. Ekki vantaði ömmurnar því þær voru sex mættar í kirkjuna og veisluna sem fór vel fram. Þetta gefur lífinu gildi engin spurning.  

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband