Leita í fréttum mbl.is

Gleymum þeim ekki

Íslenski fáninn

Það er mér í fersku minni þegar kvennafrídagurinn var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 24. október árið 1975. Þá höfðu Sameinuðu þjóðirnar helgað þann dag málefnum kvenna. Íslenskar konur komu saman á fundum um land allt en sá fjölmennasti var á Lækjartorgi í Reykjavík, en þann fund sóttu um 25 þúsund konur. Ég var þar á meðal þó ég byggi á Raufarhöfn þá. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og lamaðist atvinnulífið í landinu að mestu leyti.
Í þá daga átti ég mér tvær uppáhaldsfrænkur.
Önnur söng betur en allir aðrir en hin orti ljóð.
Báðar fannst mér þær svo miklar konur.
Önnur þeirra var föðursystir mín Rannveig Magnúsdóttir, 
fædd 16. júní 1912 í Skinnalóni á Melrakkasléttu 
Hún orti svo í tilefni þessa dags.
Ljóðið birtist í riti um ljóð þingeyskra kvenna.



Undir björtum frelsisfána, 
Freyjur mætum hér í dag, 
ekki skulum blikna, blána
í baráttu um kvennafans, 
ekki láta örbirgð granda, 
ættarmæðrum þessa lands. 

Því er mál að þreytu linni, 
þöglar höfum öld frá öld, 
þrælað bæði úti og inni. 
engin hlotið þakkargjöld, 
engu lengur veldi vægjum, 
vökular nú höldum vörð, 
misréttinu burtu bægjum, 
búum paradís á jörð.

...........................................

Höldum merkjum þessara harðduglegu og vel gerðu kvenna hátt á lofti..
gleymum ekki þeim sem ruddu brautina.
Megi baráttan lifa í brjóstum okkar hinna.  





Rigningasumar.

Golfmynd frá Laugavatni ....Nú virðist þetta sumar ætla að verða hið mesta rigningarsumar.
Það kann að vera að veðurfræðingar séu ekki sammála mér um það enda bara upplifun mín en engin vísindi á bak við það.
Þetta veður hefur haft heldur letjandi áhrif á golfiðkun mína. Þó hef ég farið nokkrum sinnum en þá í morgunsárið því auðvita er allt upptekið eftir vinnutíma, um leið og þeir spá smá uppstyttu. 
Nú er fátt til ráða annað en að orna sér við upprifjun gamalla góðviðrisdaga og golfleiks síðustu ára.
Þær eru óteljandi ánægjustundirnar sem ég hef átt á golfvöllum hér heima og erlendis.
Meira að segja í miðju stússi í pólitíkinni 2007-2009 gafst stund milli stríða til að taka golfhringi með góðum félögum. Þetta rifjast upp þegar maður skoðar gamlar myndir.
Hér er mynd sem tekin var á Laugarvatni 2009 þar sem ég spilaði með Magnúsi Reyni framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins og Guðmundi góða sem var í miðstjórn flokksins. Svo var einn sem ég man ekkert hvað heitir enda þekkti ég hann ekki neitt.
Núna fer ég í Hraunkot og Bása til að æfa mig, svo ég detti ekki úr þjálfun. 
Svo er maður farinn að skoða möguleika á sumri eða sumarauka erlendis Wink  ... hmm aldrei að vita.

Menntamenn og helvíti

Tveir stúdentar

Frá miðvetrarprófum í efnafræði við University of Washington háskólann.

Svar eins nemandans var svo stórkostlegt að prófessorinn ákvað að leyfa öðrum að njóta þess.

Aukaspurning: Gefur helvíti frá sér hita eða tekur helvíti til sín hita.

Flestir nemendur settu niður staðhæfingar og reyndu að sanna niðurstöður sínar með tilvísun í lög Boyles sem segja að gas kólni undir minkandi þrýstingi en hitni undir auknum þrýstingi. En einn nemandi skrifaði eftirfarandi:

Í fyrsta lagi þá þurfum við vita hvernig massi helvítis breytist í tíma. Þess vegna þurfum við að vita tíðni þess að sálir fari inn í helvíti og tíðni þess að sálir fari úr helvíti. Ég tel þó að við getum gengið út frá því að ef sál fer einu sinni inn í helvíti þá kemur hún ekki út aftur og þar með sleppi engar sálir úr helvíti.

Hinsvegar til að áætla hversu margar sálir fara inn í helvíti er rétt að skoða mismunandi trúarbrögð í heiminum í dag. 
Flest þessarar trúarbragða halda því fram að ef þú ert ekki hluti af þeirra trú, þá farir þú til helvítis. 
Þar sem það eru fleiri en ein trúarbrögð í heiminum og þar sem fólk tilheyrir ekki fleiri en einum trúarbrögðum í einu, má ganga útfrá að allar sálir fari til helvítis.

Miðað við tíðni fæðinga og dauða eins og það er í dag má reikna með að sálum í helvíti fjölgi með ógnarhraða. Nú skulum við líta á breytinguna á stærð helvítis, því lög Boyles segja að til þess að hiti og þrýstingur í helvíti haldist sá sami, verður stærð helvítis að stækka í samræmi við fjölda sálna sem bætast við.

Þetta gefur okkur tvo möguleika:

1. Ef helvíti er að stækka með minni hraða en tíðni sálna sem bætast við, þá hlýtur hiti og þrýsingur að hækka þar allt fer til helvítis.

2. Ef helvíti er að stækka hraðar en aukning sálna sem inn í það fer, þá hlýtur hiti og þrýstingur í helvíti að minnka þar til helvíti frýs.

Þannig, hvort er það ?

Ef við skoðum staðhæfingu sem Guðrún bekkjasystir mín setti fram við mig þegar ég var í fyrsta bekk: “Það verður kaldur dagur í helvíti áður en ég sef hjá þér”, og ef tekið er tillit til þeirrar staðreyndar að hún svaf hjá mér í gær þá hlýtur númer 2 að vera svarið. Þannig að ég held því fram að helvíti gefi frá sér hita og sé í reynd þegar frosið.

Hin hliðin á þessari kenningu er að þar sem helvíti er þegar frosið og taki ekki við fleiri sálum, þá er eini valkosturinn sá að allar sálir fari til himna og sanni tilvist eilífrar sæluvistar, og það útskýrir að í gærkvöldi kallaði Guðrún hvað eftir annað “Ó guð, Ó guð”.

Þessi nemandi var sá eini sem fékk A


Særún Stefánsdóttir- minning

 

Særún með gleraugun

Særún Stefánsdóttir frá Raufarhöfn er látin. Útför hennar var gerð frá Bústaðakirkju 16. maí kl 13:00. Særún fæddist á Raufarhöfn 26.6. 1952 og ólst þar upp , en lést þann 26.4. s.l. á Landspítalanum.
Hún lætur eftir sig einn son, Stefán Jan Sverrisson, viðskiptastjóra hjá Símanum. Unnusta hans er Halla María Þorsteinsdóttir. Foreldrar hennar voru Kristjana Ósk Kristinsdóttir fiskverkakona og húsmóðir frá Hafnarfirði f. 03.06.1921 og Stefán Magnússon frá Skinnalóni á Melrakkasléttu f. 17.11.1924. Þau eru bæði látin. Systkini hennar eru: Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar, dætur Birgitta og Brimrún Björgólfsdætur. Guðrún Stefánsdóttir starfsmaður hjá Tekjuvernd, börn Eva og Daníel Benediktsbörn, sambýlismaður er Guðni Walderhaug byggingaverkfræðingur. Magnús Stefánsson, framkvæmdastjóri og fræðslufulltrúi Marita-fræðslunnar á Íslandi og ráðgjafi. Kona hans er Kristín Rúnarsdóttir lífstílsráðgjafi og grunnskólakennari. Dætur Magnúsar og Erlu S. Ragnarsdóttur eru Milla Ósk og Vala Rún.

Það er ómögulegt að minnast Særúnar án þess að hugsa til æsku- og uppvaxtarára okkar á Raufarhöfn.  Hún ólst upp í ærslum og gleði eins og við langflest á Raufarhöfn.  Heilu kvöldin voru krakkar í slagbolta og í ýmsum útileikjum. Einnig voru baráttuleikir milli hverfa stundaðir og farið í kríueggjaleit og til berja.

Við vorum fjögur systkinin. Særún var fjörugur krakki og fór töluvert fyrir henni  er hún komst á legg. Hún var athafnasöm og  voguð. Hún var oft prílandi upp á húsþök í hverfinu og á hættuslóðum í kringum verksmiðjuhúsin og  í mjölhúsinu. 
Hún var prílandi í Höfðanum og hjólandi um allar bryggjur. Frjáls og hláturmild. 
Þá hirti hún lítt um hróp mömmu, boð eða bönn. 
Á okkar æskuheimili var mikið um söng og hún mjög söngelsk. Hún var lengi  í hljómsveit með pabba og seinna með yngri systkinum sínum og frændum. Sú hljómsveitin hét Jenný og var nokkuð vinsæl með þær tvær systur sem söngkonur og starfaði í nokkur ár.

Seinna fluttu þau svo suður til Reykjavíkur, systkini mín og systursonur og var það mikil eftirsjá fyrir mig sem sat eftir vængbrotin að segja má.  Seinna lærðu þær báðar, Guðrún og Særún, söng hjá Margréti Bóasdóttur og voru um hríð í Langholtskórnum. Á þeim árum  vann hún hjá Verkfræðistofu Sigríðar Zoega og undi vel hag sínum.  Seinna  vann hún  hjá Alþýðublaðinu sem setjari í mörg ár.  Hún keypti sér íbúð og bjó sér og syni sínum þar heimili. Hjá henni var alltaf auðsótt gisting og hún var afar umhyggjusöm gagnvart sínum ættingjum.

Síðan liðu árin og Stefán Jan flutti nánast til Raufarhafnar til ömmu sinnar og afa í Brún 14 ára gamall. Særún var áfram fyrir sunnan og fór þá að bera á heilsubresti hjá henni. Hún bar sig ávallt vel en var þó alltaf meira og minna undir læknishendi  og barðist við ýmsa sjúkdóma. Þar kom að hún gat ekki stundað vinnu lengur. 
Hún flutti þá heim til Raufarhafnar. Þá tókust kynni með henni og Róberti Þorlákssyni og bjuggu þau saman í tíu ár. Á þeim árum náðu þær vel saman hún og Angela Ragnarsdóttir sem nú er látin og sungu þær mikið saman. Það gaf Særúnu  mikið og var það því mikið áfall er Angela lést og þá lá leiðin aftur suður á bóginn.


Særún var mjög elsk að móður okkar, sérstaklega  ljúf, blíð og umhyggjusöm og stóð við hlið hennar í blíðu og stríðu. Þegar hún veiktist flutti Særún aftur heim og sá um heimili fyrir pabba eftir að mamma varð að fara á hjúkrunarheimilið á Þórshöfn og heimsótti Særún hana eins oft og hún gat. Hún tók svo við heimili þeirra eftir þeirra dag.

Hún kom að stofnun  Raufarhafnarfélagsins enda alltaf með hugann við þann stað.

Þar sem liggja þínar rætur,
þinn er himinn, land og dröfn.
Alla daga og allar nætur
er yndislegt á Raufarhöfn. 

þessi vísa úr ljóði Aðalsteins Gíslasonar lýsa hennar viðhorfi til staðarins vel.

Hún er nú farinn í enn eitt ferðalagið og nú á vit  alheimsvitundar og almættisins.

Hún er nú umvafin englum. 
   
Sorgar og saknaðarkveðja frá stóru systir 
Kolbrún Stefánsdóttir
 

 

 


Stjórnmálaströgl

Magnús Reynir og auglýsing KS

Nú styttist í Alþingiskosningar og allir ljósvakamiðlar undirlagðir af pólitík. Mjög er það nú misjafnt hversu skemmtilegt það er eða fróðlegt. Sumir þættir eru þó skemmtilegir.
Stundum þarf ég að passa mig að láta meðvirknina/samkenndina ekki taka yfir.
Ég nefni sem dæmi foringjaþáttinn á RÚV með Sturlu Jónssyni og Ylfu Mist Helgadóttur.
Svo eru aðrir sem voru mjög góðir eins og Guðmundur Franklín og Bjarni Benediktsson.
Svo voru sprettir í útvarpinu.
Ég heyrði gesti á Bylgjunni, Sóleyju Tómasdóttur og Gunnar Smára, takast á og það var bráðfyndið. Þar sagði Sóley að fylgishrun VG væri af því að þau hefðu ekki "haldið sér nógu vel saman" .
Sammála því og vona að þau taki nú upp þann ágæta sið í framtíðinni.
Já margt er skrýtið og skemmtilegt.

Það er þó ekki allt fyrirséð þegar fólk fer út í pólitík eins og þessi dæmi sýna:

Guðmundur Franklín stofnaði flokk- Hægri græna. Hann var í framboði en var svo bannað að kjósa.

Sturla Jónsson varð flokkur en bauð ekki fram í sínu kjördæmi og getur því ekki kosið sinn flokk.

Sjálf er ég ekki í framboði núna þar sem flokkurinn minn er dauður og því get ég ekki kosið hann.
 
Vona bara að við fáum nú ábyrga stjórn sem verði til gæfu fyrir land og þjóð.   


Vorið


GolfferðNú styttist í vorið og grænar grundir.

Ég hlakka mikið til sumarsins og vona að mér gangi vel að bæta golfið mitt.

Nú er ég að gera mig klára fyrir Floridaferð og þar á að æfa og bæta fyrir afburða lélega ástundun í vetur hvað varðar golf, en blakið var það sem fékk athyglina í vetur.
Ég fór meira að segja í æfingatíma hjá Þrótti Reykjavík og eins hjá HK þriðju deild, en hef ekki ákveðið hvað ég geri næsta vetur. Ég klára alla vega með Víkingi á Öldungamótinu í vor.

Í sumar ætla ég að hafa annað markmið en undanfarin ár. Ég ætla að hugsa meira um að hafa gaman af leiknum en að vinna. Ég ætla heldur ekki að gleyma mér í pælingum um tæknileg atriði og skýringar á mistökum. Það stelur athygli frá leiknum.

Forgjafarmarkið verður þó óbreytt 10+. 

Það hafa nokkrir aðilar skorað á mig og ég er komin með lista yfir aðila sem ég tek hring með í sumar og það er mjög skemmtileg tilhugsun.

Þar má nefna Arnþór Pálsson, Ágúst Húbertsson, Atla Ágústsson, Hjálmar Jónsson, Tómas Hallgrímsson, Lovísu Sigurðardóttur, Guðrúnu Stefánsdóttur, Stefán Jan, Ingimar Sigurðsson, Guðna Walderhaug og fleiri og fleiri. Ef ég verð heppin þá næ ég kannski að spila hring við golfdrottningarnar í GKG en það kemur bara í ljós.

Vona að fleiri bætist á listann því það er líka gaman að kynnast nýju fólki.  

En Florida kallar og ég er á leiðinni.... Joyful
Sjáumst á vellinum. 

 


Hvaðan koma fordómarnir



Fordómar komnir frá trúnni.Maður sem lyktaði eins og bruggverksmiðja kom inn á Subway og settist við hliðina á presti.
Bindið á manninum var drullugt, andlitið allt út í rauðum varalit.
Hálffull ginflaska stóð út úr vasanum á rifna jakkanum hans.
Hann opnaði dagblað og byrjaði að lesa.
Eftir nokkrar mínútur snýr maðurinn sér að prestinum og spyr "heyrðu faðir, hvað veldur liðagigt" 
?.
"Herra minn, henni veldur of mikið næturlíf, að vera með ódýrum og rugluðum konum, of mikið alkahól og fyrirlitning á náunganum."
"Ég er svo aldeilis hissa" sagði hálffulli maðurinn og hélt síðan áfram að lesa dagbaðið.
Presturinn fór að hugsa um hvað hann hefði sagt við manninn og ákvað að biðjast fyrirgefningar.
"Ég biðst afsökunar, ég ætlaði ekki að vera ruddalegur, hvað hefurðu annars haft liðagigt lengi" spurði presturinn.
"Ég er ekki með liðagigt, ég var að lesa að páfinn hefði hana" svaraðu maðurinn.

Nýr tónn í kirkjunnar mönnum

Nú árið er liðið og allt gott með það. Það er nú gangur lífsins. Mannfólkið samt við sig með sínar hefðir og kreddur og það á þá við mig líka. Það er t.d hefð hjá okkur, dætrum mínum og pabba þeirra, að fara saman í messu á aðfangadagskvöld, þó ekki alltaf í sömu kirkjuna.

Í ár fórum við í Bústaðakirkju. Þar fóru stórfrændur míns fyrrverandi á kostum, þeir séra Pálmi Matthíasson sem messaði og stórtenórinn Kristján Jóhannsson sem söng. Báðir brilleruðu.

Sr.Pálmi lagði einmitt út af hefðum í sínu ávarpi og hve það hefði haldist um aldir, að viðhalda því sem gott er og gagnlegt. Hann talaði líka um að láta ekki minnihlutann ráða með því að sitja sjálfur heima og hafast ekki að eða hafa ekki skoðun. 

 Á Gamlársdag fór ég ein í Bústaðakirkjuna og það var mjög góð messa. Sr. Pálmi gerði grín að stefnu " Besta flokksins " og jafnvel að litlu óháðu framboðunum sem ætluðu að breyta heiminum en breyttu engu. Hann talaði enn um þá óhæfu að láta örfáa einstaklinga með sérskoðanir ráða, t.d. því að annarra manna börn mættu ekki koma í kirkjuna og var þar líklega að vísa til nýlegrar "leikskólakrísu" um kirkjuferðir skólabarnanna. Hann gat þess að Eiríkur Jóhannsson frá Raufarhöfn, nú prestur í Hruna, myndi starfa í sókninni næstu 2 mán. meðan hann færi sjálfur til Ameríku í leyfi.

Sr. Pálmi virðist hafa breyst úr brosandi elskurríkum guðsmanni í harðan og ákveðinn baráttumann fyrir kirkjunni og óyggjandi valdi hennar. Einnig fyrir óbreyttu stjórnmálakerfi fjórflokksins og fastheldni á reglur og siði. Mér kom í hug hvort þetta væri lína nýja biskupsins. 

Í dag, Nýársdag ,mætti ég enn á ný í þessa ágætu kirkju og nú til að hlýða á Óttar Guðmundsson lækni ræða um trúna og tilgang hennar, væri hann nokkur. Hann ræddi t.d. um forfeður okkar og vísaði til breytinga á viðhorfi til þeirra í gegnum tímans rás. Þetta var stórskemmtilegur fyrirlestur og ég sá að séra Eiríkur hló og skemmti sér við altarið eins og við hin í kirkjunni, en hann var svona " starfsmaður í þjálfun" áður en hann tekur við keflinu. Það var yndislegt að sjá hann í þessari fallegu kirkju og óska ég honum velfarnaðar í vandasömu starfi.


Eitt fannst mér þó heldur lakara en ég er vön en það er að engin messuskrá lá frammi. Það hefur viðgengist í  Kópavogskirkju og sjálfsagt víðar, en það er mjög hvetjandi til að fólk taki þátt í söng og messusvörum eins og vera ber. Annars er ég mjög ánægð með andlegt fóður þessi jólin og þakka fyrir mig. 


Endalausar afsakanir

krús og bikarNú er farið yfir eitt og annað sem á dagana dreif á þessu ári sem senn er horfið á braut. Markmið voru sett og svona upp og ofan hvernig gekk að ná þeim.
Golfmarkmiðið fór ótrúlega úr böndunum. Ég náði nú að verja titilinn sem klúbbmeistari eldri kvenna í lægri forgjafarflokki en það var nú bara hundaheppni. Ég var að spila svo illa að ég hækkaði þrjá daga í röð í forgjöf.
En ef ég greini þetta þá var það þannig að þó ég væri að slá betur og beinna en oftast áður þá var það á kostnað lengdarinnar og munaði uþb  30-50 metrum á því sem ég hef verið að gera undanfarin ár. Það sem fór svona bölvanlega með forgjöfina voru púttin. Stutta spilið ágætt svo sem nema púttin. Oftast voru jafnmörg pútt og brautarhögg og stundum fleiri.
Þó ég væri ánægð með mig og mörg frábær högg, þá fór þetta mjög í taugarnar á mér. Ég get alveg viðurkennt , af því þetta er nú uppgjör, að ég fór allan geðvonskuhring golfarans og það nokkrum sinnum. Eins og sjá má á myndinni þá fann ég hann ekki upp heldur er þetta líklega eitthvað sem margir golfarar fara í gegnum af og til. 

Ég var með ýmsar afsakanir eins og að ég þyrfti að :
Fara til kennara og æfa nýja sveiflu.
Fara að stunda nýtt sport. 
Fá mér nýjar kylfur.
Ég væri að nota ónýta bolta. 
Ég ætti bara að hætta og aldrei að spila framar.
En óðara bráði af mér og ég tilbúin í næsta leik. Heart

Það eru ekki vandræði að setja sér markmið fyrir árið 2013 í golfinu. Gömlu markmiðin um 10 í forgjöf standa enn. Pínu vandamál að hafa ekki fastan makker til að spila við, upp á forgjafarskráningu, en það hlýtur að reddast.
Allavega ætla ég að eiga gott golfár, ef heilsan leyfir, en það er víst útilokað að nota hana sem afsökun " so far" . Ég hlakka svo til að byrja aftur.
Góðar stundir og sjáumst á golfvellinum, ágætu golfarar.


Trú

Gleðileg jól ágætu bloggvinir og megi nýja árið færa okkur lausnir og leiki, gleði og gæfu, ást og árangur.

Trú.

Ég trúi á ást og yndi,
en ekki á myrkrið kalt,
ég trúi á leik í lyndi,
á lífið sem sigrar allt.

Ég trúi á okkar æsku,
og öldungsins viskubrunn,
ég trúi á tryggð og gæsku,
á traustan og sterkan grunn.

Ég trúi á mannsins mildi,
þann mátt sem svo fagur er,
ég trúi á göfug gildi,
hið góða sem býr í mér.


Jólin 2011 064
(e.Kristján Hreinsson)


Næsta síða »

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband