Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Kveðja til Benna

BENEDIKT VALTÝSSON
Benedikt Valtýsson fæddist í Reykjavík 8. október 1957. Hann lést af slysförum 14. janúar 2001 og fór útför hans fram frá Grafarvogskirkju 19. janúar 2001.
...............................................................................................................................................

Þegar sorgar titra tárin,

tregamistur byrgir sýn.

Huggar, græðir hjartasárin

hlý og fögur minning þín.

  

Kær vinur minn og mágur, Benedikt Valtýsson,  kvaddi þetta jarðlíf fyrir tíu árum síðan með sviplegum hætti. Það var gríðarlegt áfall og mikil sorg sem fylgdi, eins og gerist þegar slys og mannskaðar verða. Þetta á ekki síst við þegar mannkostamenn eru  hrifsaðir burt í blóma lífsins.

 

Þegar þetta gerðist fannst mér alveg dagljóst að ég myndi aldrei jafna mig. Það fór þó ekki svo og það sem meira er, að sú reynsla sem fólst í sorginni og sorgarferlinu varð mér mikill lærdómur um lífið. Ég var alveg niðurbrotin í tvö ár. Ég upplifði oft nærveru Benedikts í gegnum árin, eða þar til mig dreymdi draum sem ég hef túlkað sem skilaboð frá honum úr öðru lífi. Eftir þann draum, á einni nóttu, hvarf treginn og góðu minningarnar tóku yfir. Það var eins og allt í einu væri ég tilbúin að leyfa honum að fara og halda áfram í sínu lífi hinu megin við móðuna miklu. Auðvitað kemur enn fyrir að ég græt þennan atburð og harma hann en það er  meira vegna sjálfrar mín og annarra heldur en hans. Ég hef sannfærst um framhaldslíf eftir dauðann úr þessu lífi. Það er ákveðið þroskaferli sem tekur við fyrir handan og enginn ætti að kvíða því.

 

Ég veit að hann er nærri og fylgist með framvindu lífs barna sinna og annarra vandamanna. Ég veit líka að hann er ánægður með það líf sem hann lifir nú.

Þó ég eignist aldrei aftur vin eins og hann, þá eru minningarnar margar og góðar. Þær verða ekki frá mér teknar.

Því segi ég eins og skáldið sem sagði:

 

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margt að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért nú horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.


Fyrsti leikur okkar manna

Óli í stuðiÞá er handboltaveislan að byrja. Mikið er ég búin að hlakka til að fylgjast með henni.  Svíar, mínir menn, unnu sannfærandi í kvöld enda á heimavelli þar sem mótið er haldið í Svíþjóð. Mikil umræða hefur verið í sjónvarpinu, ekki bara allra landsmanna heldur líka Jóns Ásgeirs, um hvað og hvernig þetta muni nú fara. Hver spekingurinn eftir annan hefur verið að útmála skoðanir sínar og visku í blabla þætti Þorsteins J eins og við er að búast. Allir virðast hafa svooooo mikið vit á þessu. Allir þekkja einhvern os.frv.

Ég vona auðvitað að íslensku strákarnir eigi góða leiki og nái að halda sér á jákvæðu nótunum. Þeir virðast hafa náð langt í jákvæðri hugsun og sjá leikinn fyrir sér í huganum. Trúlega einhvers konar dáleiðsla. Það er nú eitthvað fyrir mig að taka til eftirbreytni í golfinu en þar á ég það til að vera full skapmikil og oftar en ekki er hugurinn kominn langt í burtu ef illa gengur. Stundum eins og ég sé bara alls ekki á staðnum. Það er víst kallað að missa einbeitinguna.

Ég, ólíkt mörgum, hef hálfgerða ónotatilfinningu fyrir leiknum á morgun en vona að það sé bara stress í mér. Allavega óska ég strákunum okkar alls hins besta en ég ætlast ekki til þess að þeir vinni sinn fyrsta leik.


Frægir íþróttamenn eða opinberar persónur

Eiður Smári GuðjohnsenNú er í gangi málaferli milli Eiðs Smára Guðjohnsen fótboltastjörnu og Dv-útgáfunnar. Eiður er ósáttur við framkomu þessa miðils í sinn garð þegar þeir birta upplýsingar um fjármál hans. Ef eitthvað er að marka Mbl. þá eru þetta stolnar upplýsingar eða leki úr bankakerfinu.

Ekki kemur það á óvart að Eiður með sínar rosalegu tekjur hafi tekið þátt í að fjárfesta í hlutabréfum og fyrirtækjum eins og flestir aðrir. Hann hefur sjálfsagt efni á því enn í dag. Það er líka alfarið hans mál hvað hann gerir við sitt fé. Hafi hann tekið lán til þess þá var það bankanna að taka viðeigandi tryggingar fyrir þeim lánum.

Í mbl. 8. janúar má lesa um málið og m.a. tilvitnanir í lögmenn viðkomandi aðila. Þar tjáir sig lögmaður blaðamanns, og að ég hygg bróðir hans, en hann virðist ekki þekkja sundur epli og appelsínur. Hann kallar Eið t.d. opinbera persónu. Mín skilgreining á því hugtaki er einhver sem er starfandi hjá hinu opinbera t.d. þingmenn, forsetinn og embættismenn og þeir sem ráða málum almennings með einhverjum hætti. Að heimsfrægur fótboltamaður sé opinber persóna af því að almenningur þekkir hann finnst mér fjarri sanni. Hann er bara fræg persóna.

Frægt fólk býr við bæði öfund og illmælgi en nýtur oft aðdáunar og forréttinda. Það gerir það ekki undanskilið lögum á hvorn veginn sem er. Er t.d. landsþekktur stjörnulögfræðingur, sjálfstætt starfandi, opinber persóna. Hvað með aðrar íþróttahetjur okkar t.d. Ólaf Stefánsson, Birgi Leif Hafsteinsson, Alfreð Gíslason og fleiri og fleiri. 

Fram kom í umræddri grein að lögmaður Inga Freys blaðamanns telur að Eiður hafi ekki amast við því þegar sagt var frá því í DV þegar honum gekk vel og þá eigi hann ekki að amast við slæmum fréttum. Þetta eru ótrúlega barnaleg rök og málinu óviðkomandi. Þetta mál snýst um lögverndaðan rétt einstaklings og brot á bankaleynd ef ég skil þetta rétt og kemur öðrum málum s.s. fréttum af afrekum í fótbolta eða skorti á þeim ekkert við.

Gunnar Ingi,  sem tekur að sér að verja þá feðga Reynir Traustason og Jón Trausta Reynisson, segir að vinni Eiður málið geti margir útrásarvíkingar gert kröfur á fjölmiðla landsins og er helst að skilja að það sé alveg ómögulegt. Eru það rök í málinu og á Eiður að líða fyrir útrásarvíkingana eða æsifréttamennsku sumra blaðamanna? Sjálf myndi ég ekki gráta það þó þessir sneplar færu lóðbeint á hausinn og eigendur þeirra með.

Báðir lögmennirnir bentu þeir á að Eiður hefði ekki sagt að þeir væru að fara með rangt mál. Mér finnst skrýtið ef lögmennirnir átta sig ekki á um hvað málið snýst í réttarsalnum. Það snýst ekki um hvort þetta var rétt eða rangt, það snýst ekki um peninga. Það snýst um það hvort það varðar hag almennings að vita um fjármál Eiðs og hvort þeir höfðu leyfi til að birta fréttirnar sem byggjast á stolnum göngum.    

Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvort við búum við réttarríki eða hvort fjölmiðlavaldið og stjörnulögfræðingarnir ráða enn ríkjum á Íslandi.


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband