Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Hvenær er kona hamingjusöm

IMG_0507_2Það er nú meiri ósköpin sem koma fram í fjölmiðlum seint og snemma. Það er alveg með ólíkindum sem fjallað er um. Nú er fullyrt að kona sé hamingjusömust 28 ára. Ég segi að það sé  bara bull. Mér er meira að segja til efs að margar konur á þessum aldri viti hvað það er að vera hamingjusöm. Mín reynsla er sú að ungar konur geta verið ánægðar með sig ( sjá mynd í frétt) en til að vera hamingjusamur þarf ákveðinn þroska. Sjálf var ég hamingjusöm á meðgöngu fyrri dóttur minnar þá nítján ára og svo aftur þrítug á meðgöngu seinni dóttir minnar. Upp úr 45 ára aldrinum fór hamingjuárum að fjölga og eftir fimmtugt hefur verið stöðug hamingja í gangi. Það væri gaman að heyra álit fleiri kvenna á því hvernig þær fitta við þessa rannsókn. Sjá hér

Það er gott að búa í Kópavogi.

kopavogur_merki_skuggiNú blæs ekki byrlega fyrir okkur Kópavogsbúa. Illindi í brúnni og stjórnsýslan öll upp í loft. Stjórnarmenn ákærðir vegna fjármálamisferla við Lífeyrissjóð starfsmanna. Viðskipti bæjarins hafa verið tekin til skoðunar af endurskoðendum sem ekki gáfu nógu gott komment á viðskiptahættina. Meirihlutinn hefur ekki verið í lagi frekar en aðrir í opinbera geiranum og keyrt allt of hratt í bygginga- og skipulagsmálum. Hann hefur þó beygt sig fyrir íbúalýðveldinu t.d. í Kársnesmálinu, að mestu leyti. Það hafa gengið brot yfir bæjarstjórann okkar Gunnar I. Birgisson en hann virðist ætla að hrista þetta af sér eins og blautur hundur. Hann er sterkur foringi og lætur ekki mikið hrína á sér maðurinn sá. Ég ætla að vona að Sjálfstæðismenn verði áfram í meirihluta. Það væri svo sem allt í lagi að skipta út Framsókn og taka inn fulltrúa VG sem virðist vænsti maður. Ekki sé ég nú neina sérstaka kandídata til að taka við af bæjarstjóranum og því vona ég að hann hangi fram að næstu kosningum. Hver veit nema Frjálslyndir komi þá sterkir inn. Það væri þess virði að reyna það. Þá verður áfram gott að búa í Kópavogi.

Gerræðislegur gjörningur.

Svekkjelsi.Það eru margir sorglegir atburðum að gerast á Íslandi um þessar mundir. Eitt mest áberandi dæmið er þegar skuldari reif hús, sem hann tapaði, til grunna og gróf bílinn frekar en að létta á skuldaklafa sínum. Hann margfaldaði tjón sitt og lagði framtíðina endanlega í rúst vegna tilfinningasemi og reiði. Ekki óskiljanlegt að maðurinn væri sorgmæddur og svekktur en ekki bætir svona framkoma neitt hvorki fyrir honum né þjóðinni. Sama atferli virðist í gangi hjá ríkisstjórninni. Stjórnin og reyndar þjóðin öll virðist vera duglaus og sinnulaus eins og þunglyndissjúklingur. Í kjölfarið fylgja oft rangar ákvarðanir sem grafa viðkomandi aðila enn lengra ofan í holuna. Landsstjórnin virðist staðráðin í að gera sitt til að við, þjóðin, verðum í skuldafangelsi um ókomin ár vegna tilfinningasemi og heimskulegra ranghugmynda. Það sannast á Steingrími fjármálaráðherra máltækið að "auðveldara sé um að tala en í að komast". Hann étur nú ofan í sig stóru bitana sem hann hreytti í Geir Haarde og fyrrverandi stjórnarliða. Ef það á að vera afsökun fyrir næstu kosningar að það hafi verið samningar á bak við þessa gjörninga eins og t.d. að við þyrftum ekki að borga þetta, heldur væri það hluti af inngöngusamningi sem EB myndi yfirtaka, þá er sú afsökun ekki að virka fyrir mig. Þetta eru ekki skuldir ríkisins meðan ekki hefur verið dæmt í málinu fyrir dómstólum. Þjóðin seldi bankana og þetta er þeirra mál. Ég tel að verið sé að fórna íslenskum hagsmunum fyrir evrópska samfélagið því löggjöf EB, sem nær líka yfir EES, var ekki gerð með tilliti til þess að hrun gæti átt sé stað. Íslendingar yrðu síðan notaðir sem pressa á Norðmenn að ganga inn líka, þar sem EES væri þá líklega búið að vera eftir inngöngu okkar í Evrópusambandið. Snúum okkur nú að innlendum verkefnum en förum okkur hægt í þessu baktjaldamakki út af Ice-save reikningnum. Látum Bretana sýna sitt rétta andlit.

19.júní.

ljósm. Ólafur Aron SveinssonÍ dag er 19 júni og það er einn af mínum uppáhaldsdögum. Ekki bara af því það er kvennadagurinn og upphaf af þeirri réttindabaráttu sem þá hófst og stendur enn, heldur af því það eru margir góðir og skemmtilegir atburðir sem tengjast þessari dagsetningu úr mínu lífi. Til dæmis fékk ég uppfylltan langþráðan draum minn um menntun þegar ég útskrifaðist úr rekstrar og viðskiptafræði úr EHI fyrir akkúrat 10 árum síðan. Í því námi eignaðist ég sjö frábæra vini en það var hópur sem fór að læra saman í náminu og hefur haldið saman síðan í gegnum þykkt og þunnt, sorg og gleði. Einn þeirra er nú látinn. Annað sem átti sér stað á þessum degi er að ég flutti inn í núverandi húsnæði mitt á þessum degi og sama var með það sem ég átti áður. Ekki stendur til að endurtaka þann leik oftar enda er ég afar ánægð með mig í mínu koti. Það er meira en yndislegt að búa í Kópavogi og ég tala nú ekki um þegar næturkyrrðin og fegurðin tekur alveg yfir en það gerist oft á sumarkvöldum. Ég vona að sem flestir eigi gott og friðsamt heimili og óska öllum konum til hamingju með daginn þó hann sé að kveldi kominn. Hann er okkar helsti baráttudagur og vonandi verður hann það um ókomna tíð.


Miðið

Varðskip í action eru óvissutímar á Íslandi og enginn virðist vita hvað bíður okkar. Fyrirtæki og heimili geta illa gert áætlanir fram í tímann eins og venja er út af þessari óvissu. Verður fyrirtækið mitt til eftir ár og á ég heimili yfirhöfuð eftir ár? Þetta eru spurningar sem brenna á fólki. Einstaklingarnir eru aftur á móti annað mál að mínu mati. Þeir geta mótiverað sig og aðlagað breyttum aðstæðum með nokkuð auðveldum hætti. Þá skiptir máli að vera jákvæður á allar breytingar og vera tilbúin að taka nýjan pól í hæðina eins og sagt er. Það þarf að taka stefnuna þangað sem maður vill fara og setja sér markmið í samræmi við kringumstæður og tímasetja þau til að hægt sé að átta sig á hvort þau eru í réttum farvegi eða ekki. Þegar þetta er ritað er fullveldisdagur Íslendinga og 65 ára afmæli lýðveldisins. Það vekur upp spurninguna verðum við til sem  fullvalda þjóð eftir ár eða verður búið að framselja okkur til ESB í krafti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þvingunaraðgerða stærstu ríkja innan þess, svo sem Breta og Hollendinga. Mér finnst augljóst að stjórnvöld sem haldið hafa um  stýrið síðan í október séu algerlega stefnuvillt og í versta falli stefnulaus þegar kemur að þessum málum. Eina markmið Samfylkingarinnar virðist vera að komast inn í ESB án þess að skilgreina þann ávinning sem ætti að vera því samfara miðað við áhuga á að tilheyra þeirri grúbbu enn frekar en nú er. Það er sorglegt að sjá að Framsóknarflokkurinn virðist vera eina aflið á Alþingi sem heldur uppi andófi við fullveldisafsali þjóðarinnar. Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn og hvernig er með Borgarahreyfinguna? Eru þeir enn sveimhuga í þessum málum og vita ekkert hvert á að miða. 

Gullkistan

6822 báturinn minn1Á strandstað. 

Margir eru nú í þeim sporum að upplifa sig eins og þeir hafi beðið skipbrot sem er ekki fjarri lagi. Þjóðarskútan fékk á sig mikinn hnút í október s.l. og óhætt er að segja að fólk hafa verið hálflemstrað síðan. Sumir hafa þó upplifað skaðann hraðar en aðrir og sínu verr. Fólk bíður, að vonum, óþreyjufullt eftir lausnum og leiðum til að koma skikki á líf sitt á ný. Aðrir hafa siglt áfram án þess að skilja almennilega hvað gerðist og reyna að halda áfram óbreyttu líferni. Þeir eru þó uggandi um sig og sína eins og eðlilegt er.

Skipbrotið.

Frjálslyndi flokkurinn er í sömu stöðu og margar fjölskyldur í íslensku þjóðfélagi í dag. Hann fékk brot á sig í síðustu Alþingiskosningum og þarf því að huga að uppbyggingu og úrlausnum sinna mála. Það var á brattann að sækja allt síðasta þingtímabil og því urðu boðaföllin flokknum erfið. Mörgum varð það talsvert áfall að flokkurinn missti sína menn af þingi eftir tíu ára starf í þágu þjóðarinnar. Ýmis málatilbúnaður hefur orðið að veruleika fyrir umræður og atorku þingmanna Frjálslynda flokksins í baráttu fyrir góðum málum. Þar má nefna baráttu fyrir réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi, bættum kjörum aldraðra og öryrkja, endurbótum í almanna- og sjúkratryggingakerfinu.

Staðan í pólitíkinni

Sumir flokkar tóku hluta af þessum baráttumálum upp á sína arma og hefur það skilað þeim góðum árangri þó þeir hafi ekki verið með eins vel útfærða stefnu og Frjálslyndir. Má þar nefna fyrningarleið Samfylkingar sem gerir nú aðför að útgerðarmönnum án þess að taka tillit til skulda sem sannarlega hafi verið stofnað til vegna eflingar fyrirtækja og aukins kvóta fyrir útgerðina. Vinstri græn hafa eins og Frjálslyndir tekið upp einarða stefnu gegn ESB og slegið skjaldborg um íslenskar auðlindir. Þau flögguðu einnig opnu bókhaldi og óspilltum þingmönnum. Það er þó himinn og haf á milli pólitískra leiða þeirra og Frjálslynda flokksins. Framsóknarflokkurinn kom með nýja framvarðasveit og var rétt eins og þau hefðu dottið af himninum ofan og þekktu ekki sögu flokksins. Þess skondnara er nú að sjá þau sitja sem fastast í húsakynnum flokksins á Alþingi og vísa þá til sögu flokksins og órjúfanlegrar hefðar. Þau buðu upp á plástra og deyfilyf en sumt fólk er alltaf ginnkeypt fyrir því að sjá skyndilausnir. Sjálfstæðisflokkurinn var eins og Frjálslyndir klofinn í herðar niður af innbyrðis ágreiningi og guldu afhroð. Sigurvegarar sem nú þurfa að standa undir merkjum er Borgarahreyfingin. Þau voru ekki að flækja málin og heimtuðu að komast á þing til að laga mál og leiðrétta þingvilluna. Vonandi standast þau prófið því nú verða menn að taka sér tak og hefja uppbyggingu þjóðfélagsins. Margir kostir eru í stöðunni þó ástandið sé erfitt og margir þurfa aðstoð við að fóta sig. Frjálslyndi flokkurinn þarf að líta til framtíðar og nýta reysnluna ef hann ætlar að halda áfram í sömu vegferð og þær fjölskyldur sem hann hefur barist fyrir alla tíð.

Gleðilegan sjómannadag . 

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband