Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Með hlýrri kveðju.

Ólafsvíkurhöfn

Laugardaginn 15 mars s.l.  var kvaddur hinstu kveðju Þráinn Sigtryggson skipstjóri frá Ólafsvík. Ég gat því miður ekki fylgt honum og því langar mig að setja niður á blað  nokkur orð frá þeim tíma er leiðir okkar lágu saman og þakka um leið fyrir hlýtt viðmót í minn garð.

 

Ég kom til Hellissands 1989 og tók við útibúi Landsbankans og  kynntist ég þar mörgu góðu fólki. Árið 1993 tók ég einnig við útibúinu í Ólafsvík. Í  starfi útibússtjóra lærðist fljótt að lesa persónur. Erindin voru mismunandi. Oftast ráðgjöf , lánabeiðnir eða önnur fyrirgreiðsla. Svo var líka  fólk sem kom til að heilsa upp á útibússtjórann og segja sögur og víst létti það lundina að þurfa ekki alltaf að beita sér í starfinu sem var mjög erfitt og krefjandi á þeim tíma vegna kreppu og niðurskurðar í útlánum bankanna.

 

Á meðal traustustu manna sem ég kynntist í Ólafsvík voru einmitt Þráinn og Haukur bróðir hans. Reyndar kynntist ég Hauki meira og hélt líka mikið uppá hann. Þau voru mjög spaugileg okkar fyrstu kynni og verður ekki farið út í það hér.

Þráinn var afar þægilegur maður og  hafði mjög sérstakt handtak, gott og þétt sem gaf til kynna að þar færi vandaður maður, heilsteyptur og traustur. Þannig virkaði hann alltaf á mig. Einungis einn maður annar hafði svona handtak sem ég þekkti og það var Ari heitinn Guðmundsson fyrrverandi starfsmannastjóri Landsbankans og þessi lýsing á svo sannarlega vel við um hann líka.

Í vetur hitti ég Þráinn aftur, eftir 10 ár og var ekki alveg viss hvort þetta væri hann fyrr en ég heilsaði honum með handabandi. Ég hafði orð á því og þá hló hann að þessu en mundi að ég hefði minnst á þetta áður.

Það gefur mér góða tilfinningu að hugsa til þessara manna.

Megi þeir hvíla í guðs friði.

 

Ég votta aðstandendum Þráins Sigtryggssonar samúð mína.


Skorað á Bubba

Þar kom að því. Nú verður ekki hjá því  komist að hæla Árna Johnsen alþingismanni eftir að hafa lesið Fréttablaðið í gærmorgun. Þar skorar Árni á Bubba Morthens að mæta sér hvort heldur sem er í fjöldasöng, gítarleik eða boxi. Mér finnst það frábært hjá honum að svara Bubba og tek undir allt sem hann segir. Mér finnst Bubbi orðinn svo sjálfhverfur og mikill aðdáandi sjálfs sín að hann telur sig geta dæmt á báða bóga og hent skít í allt og alla. Hann  virtist fíla sig í tætlur í  dómarahlutverkinu í  Ídolþáttunum. Hann er samt ekki að ná sér á strik í þáttunum “Bandið hans Bubba” og vefst alltaf tunga um tönn þegar hann þarf  að tala við fólkið. Síðasti þáttur sem ég sá var svo hryllilega leiðinlegur að ég ætla ekki að eyða tíma í þessa þætti framar. Öll lögin voru ömurlega leiðinleg og ómögulegt að hlusta á þetta sem skemmtiefni. Hvert er svo bandið? Er hann með einhverja hljómsveit fyrir þann einstakling sem vinnur? Mér finnst ekki of mikið að fá 3 milljónir fyrir að vinna en hver borgar?  Bubbi varð vinsæll ekki síst vegna verkamannaslagara sem hann söng hér áður og fyrr en er nú, að mínu mati, útbrunnin markaðsmaskína sem apar eftir amerískri lágmenningu illa haldinn af athyglissýki og hroka. Áfram Árni gott hjá þér.


Fréttabréf Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum.

Grein úr fyrsta tölublaði. 

Jafnréttismál  

Það er margt sem gaman væri að impra á í þessu blaði sem er nýtt af nálinni og vissulega nokkuð óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér. Á mínu uppvaxtarheimili var mikið sungið og einn textinn byrjaði svona... "Er lít ég fram í tímann ég fæ ekki annað séð, en fullt sé allt af lífsins bestu gæðum"  Ég hef alltaf haldið upp á þennan texta og finnst hann eiga vel við í dag . Það er óhætt að segja að í flestu tilliti er framtíðin björt  fyrir mjög marga. Þó er ýmislegt  sem ég vildi hafa öðruvísi og þá er það helst að meira jafnræði sé á milli manna og einnig milli landshluta. Ég tel að verulega hafi hallað á landsbyggðina í langan tíma og verður sá halli æ meiri með hverju árinu sem líður. Annað sem ég vildi sjá færast til betri vegar er breyting á kjörum fatlaðra og að þeim verði gefið tækifæri til að sanna hvað þeir hafa fram að færa til samfélagsins. Það sem er brýnast er að sú þjónusta sem þeir fá verði notendamiðuð en ekki stofnanamiðuð. Að notandi þjónustu ráði hvar hún fer fram og hver þjónustar hann. Fatlaðir hafa verið duglegir að berjast fyrir réttindum sínum og  gott dæmi um það er ung og skelegg kona  sem býr við mikla fötlun. Hún var  tilnefnd kona ársins 2007 . Hún heitir Freyja Haraldsdóttir og gaf út bók núna fyrir jólin. Einnig hefur hún  farið um landið og haldið fyrirlestra um sínar aðstæður og viðhorf fólks til fötlunar. Ég hvet allar konur til að lesa bókina Postulín og fylgjast með baráttu Freyju fyrir bættum kjörum fatlaðra.  Hennar framlag til þessara mála veldur því að ég lít björtum augum fram í tímann...  

kveðja Kolbrún.


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband