Leita í fréttum mbl.is

Sýnum ábyrgð

Oft er talað um að fólk eigi að axla ábyrgð í opinberum störfum. Yfirleitt er þá til þess ætlast að viðkomandi taki pokann sinn. Minna hefur verið talað um að fólk eigi að taka ábyrgð á sínu daglega lífi. Margir vilja treysta á að eitthvað eða einhver komi þeim til bjargar þegar þeir hafa sjálfir klúðrað sínu lífi. Sumir eru líka þannig að þeir vilja alls ekki taka ákvörðun og leggja því allt sitt traust á ráðgjafa eða einhverja guðstrú.

Flestir geta lent í að gera ranga hluti og telja þá oft að einhver eða einhverjir hefðu átt að benda á að þeir væru komnir á ranga eða hættulega braut. Aðrir festast í ásökunum um að uppeldið hafi ekki verið nógu gott, hjónabandið misheppnað eða í versta falli bankinn þeirra eða ríkisstjórnin verið ómöguleg. Svo er til fólk sem er þannig stemmt í pólitík að það vill reglur um alla hluti. Boð og bönn út um allt. Sjálfri finnst mér að forræðishyggjan sé óþolandi, ali á aumingjaskap og dragi alla döngun úr fólki. Það var mikið vegna þessarar skoðunar minnar að ég gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn. Mér finnst fólk eigi að bera meiri ábyrgð á eigin lífi og nota dómgreind sína sjálfum sér og sínum til farsældar, annars sitji menn uppi með afleiðingarnar sjálfir. Til þess að þetta gangi verður að ríkja traust og réttlæti í umgjörðinni sem við lifum í, samfélaginu sjálfu og réttarkerfinu. 

Ég er á móti því að viljaleysi fólks verði til þess að aðrir verði að búa við ofríki frá hinu opinbera. Mér finnst við vera á góðri leið með að verða reglugerðarríki, eins og sagt er að sé í Svíþjóð og ef við förum inn í ESB þá verður staðall um alla hluti. Það mun væntanlega drepa niður þá framtakssemi og þann heilbrigða metnað sem hefur komið þjóðinni til þess sjálfstæðis sem hún hefur í dag. Þjóðin býr við erfiðleika um þessar mundir eftir nokkuð langt góðæristímabil. Það er þannig í lífinu að það skiptast á skin og skúrir og ég tel að við, ef við sýnum ábyrgð, munum komast í gegnum þetta tímabil mun fljótar og betur ef við höfnum aðild að ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Kolla

 Ekki í fyrsta skipti sem ég er ánægður með þig. Þú hefðir orðið góður þingmaður... eða kannski verður góður þingmaður.  

Sigurður Þorsteinsson, 14.9.2009 kl. 23:32

2 identicon

Þar er ég sammála þér þú ábyrga Kolbrún,að inní Evrópusambandið höfum við ekkert að gera.

NN (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 23:36

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þetta er ágætis pistill hjá þér Kolbrún.

Var að sjá þú hefur misst föður þinn og vil hér með votta samúð mína í því efni.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.9.2009 kl. 00:18

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ekki get ég skilið hvernig þessi hugmyndafræði þín og yfirlýst fullkomin fáfræði um velferðaríkið Svíþjóð geti sæmræmst því starfi að vera „framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar“. - Ég held í ljósi yfirlýsinga þinna hér að þú verðir að byrja á því að fá þér starf utan þess sviðs að okkar minnstu bræður og systur þurfi að treysta á stuðning þinn og baráttu fyrir velferð þeirra of því velferðarkerfi sem þeir þarfnast.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.9.2009 kl. 02:10

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Starfar þú í anda félgsmálasáttmála Evrópu eða veistu kannski ekkert hvað það er?

Helgi Jóhann Hauksson, 15.9.2009 kl. 02:12

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sigurður og GMaría. Þakka ykkur fyrir hlýjar athugasemdir og samúðarkveðjur. Það er víst partur af því að fullorðnast og þroskast tilfinningalega að horfa á eftir foreldrum sínum yfir móðuna miklu og hugga sig við minningarnar sem í mínu tilfelli er mikill sjóður af góðum og gleðiríkum stundum, þó ekki hafi fjölskyldan farið varhluta af áföllum og þröngum kosti í gegnum árin. Gangi ykkur allt í haginn Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.9.2009 kl. 20:25

7 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Heilbrigð skynsemi í flestum setningum. Læt ESB þó liggja milli hluta því ég veit eiginlega ekki í hvorn fótinn ég á að stíga gagnvart því. Hef þó búið í ESB-landi um árabil.

Svo þú færð hér atvinnuráðgjöf. Við það rifjast upp fyrir mér að mér óviðkomandi hafa verið með álíka manóveringar gagnvart mér.

Halldór Laxness ráðlagði mér eitt sinn að finna mér starf í Danmörku, hann var að gagnrýna grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið og taldi mig vera skrifa dönsku. Þetta var haustið 1978 og grein Laxness í Mogganum birtist síðan óbreytt í næstu jólabók hans. Synd mín var sú að hafa lagt skelfdum og hröktum bandarískum belgförum dönsku í munn. Þeir hröpuðu í sjóinn suður af landinu í tilraun til að verða fyrstir yfir Atlantshaf í loftbelg. Ég fékk ég nokkur komment frá þeim er þyrla kom með þá til Reykjavíkur kalda og hrakta að kvöldi dags. Þeir hétu því í samtali okkar að þeir myndu aldrei leggja aftur í belgflug sem þetta. Og lögðu mikla áherslu á það. „Svo sannarlega ekki“ hafði ég eftir þeim. Það sagði Laxness vera dönsku og hún ætti ekki að sjást í Morgunblaðinu.

Það er ekki alvitlaust hjá honum, en mál þróast á ýmsa vegu. Hef velt því fyrir mér hvort það hafi verið vitleysa að fara ekki að ráðum hans. „Þú skalt ekki taka þetta alvarlega, Gústi,“ sagði Matthías Johannessen ritstjóri er hann hafði lesið fyrir mig bréfið. Og þar við sat!

Ágúst Ásgeirsson, 15.9.2009 kl. 20:43

8 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll NN. Ég lenti í því að geta ekki svarað athugasemdum frá þér þar sem tíminn rennur út bæði á höfund bloggs og gesti. Ég vil nota tækifærið og svara þér hér. Það er alveg óþarfi af ríkisvaldinu að neyða mig til að aka á 90 km hraða af því það er hagkvæmt og heppilegt fyrir þá sem eru lélegri bílstjórar en ég. Ég hef keyrt bíl í bráðum fjörutíu ár og mikið á þjóðvegum landsins og ALDREI lent í óhappi. Það er af því ég er meðvitaður og gætinn bílstjóri sem legg hvorki mig né aðra í óþarfa hættu. ( ábyrg  ) Mín skoðun er sú að þeir sem ekki geta keyrt bíl með öruggum hætti á 100 km hraða á góðum bíl, á góðum vegi, ættu ekki að vera í umferðinni. Það er þó ekki þar með sagt að þeir þurfi að gera það. Það er ekki verið að tala um lágmarks- heldur hámarkshraða. Innan borgarmarkanna fylgir maður hraða umferðarinnar og hann er oft um 100 km og reyndar niður í 30 km. Að geta ekki ekið  um t.d. Keflavíkurveginn, Kinnina, yfir Tjörnes og um Kelduhverfi á 95 -100 km, einbíla, á steyptum vegi og ekki einu sinni sauðkind svo langt sem augað eygir, er bara ekki nógu gott og til þess eins að gera fólk að lögbrjótum. Það sá ég á þessum þremur ferðum mínum norður í sumar. Nei það var ekki verið að æða milli golfmóta NN heldur fyrst til að heimsækja föður minn háaldraðan, síðan til að kveðja hann á dánarbeði og síðast til að fylgja honum til grafar. Þó ég starfi hjá hreyfihömluðum þá er það ekki mín skoðun að það sé þessi hraði sem valdi slysum en þegar komið er yfir það þá aukast líkur verulega á slysum. Ég held að langflest landsbyggðafólk sé sammála þessu en það skiptir ekki máli. Ég mun crúsa á 93 km og skoða landið og ábyrgist ekki að ég sé hættuminni í umferðinni þannig. Það er bara af því ég tími ekki að greiða fúlgur fjár fyrir þessa fimm eða tíu kílómetra sem munar og vill ekki brjóta lögin. Ég verð áfram "fyrir" hinum sem keyra ekki eftir lagabókstafnum. Ætli það verði ekki næsta vers að ESB reglugerðin segi hvað þú mátt ferðast langt á tilteknum tíma. Ekki aukast valkostirnir allavega við aðild að þeim ágætu samtökum. Kveðja til þín bjöllusauður  kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.9.2009 kl. 21:02

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Ekki get ég skilið hvernig þessi hugmyndafræði þín og yfirlýst fullkomin fáfræði um velferðaríkið Svíþjóð geti sæmræmst því starfi að vera „framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar“.

Ég tel ekki nauðsynlegt að þú skiljir þetta Helgi. Ég sinni mínu starfi af eins mikilli ábyrgð og ég get og held að ég hafi náð þokkalegum árangri á þessum þremur árum. Ekki hafa okkar "minnstu bræður og systur" kvartað undan mér þó ekki hafi alltaf verið fullur skilningur okkar á milli enda er ég ekki fullkomin. Ég lít nú ekki á okkur sem minnstu neitt. Það sem einkennir starf Sjálfsbjargar lsf er kraftur, kjarkur og barátta fyrir sjálfstæði og virðingu. Við berjumst fyrir því að bræður okkar og systur hafi sama rétt og aðrir, sömu tækifæri og sömu skyldur. Við viljum bera ábyrgð á okkur sjálf en eins og ég sagði, til þess þarf umgjörðin í samfélaginu að vera sanngjörn og réttlát. Annars er ég að læra sænsku og það mun eflaust hjálpa  eitthvað. Þekking mín á Svíþjóð getur alveg verið fáfræði því ég hef ekki búið þar, en ég tók það sem dæmi um reglugerðarþjóðfélag því það veit hvaða "sérfræðingur" sem er að þar eru reglur um alla hluti og hafa alltaf verið jafnvel fyrir inngöngu í ESB. Hef það beint eftir þeim sjálfum. Ekki veit ég hvar þú vinnur Helgi en það er þannig hjá okkur að við virðum sjónarmið annarra og ég tek þessa yfirlýsingu þína þannig að þú teljir að til þess að stýra samtökum í velferðargeiranum verði maður að vera Samfylkingarmaður eða hvað? 

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.9.2009 kl. 21:26

10 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Helgi Hvort ég þekki félagsmálasáttmála Evrópusambandsins þá veit ég ýmislegt um hann en ekki sérfræðingur í honum frekar en þú. Er þetta eitthvað sem þér hugnast Helgi sérfróði ?. Flexicurity Takk fyrir innlitið og alltaf gott þegar menn koma hreint fram og segja sitt álit þó mér finnist fullmikið yfirlæti í orðum þínum í garð hreyfihamlaðra. Vonandi erum við þó sammála í baráttu fyrir betri kjörum og meira réttlæti í garð fatlaðra. kveðja Kolbrún.

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.9.2009 kl. 21:33

11 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Gústi.  Þú hefur orðið svona frægur að vekja athygli þjóðskáldsins, það er ekkert annað. Reyndar fannst mér hann sjálfur varla talandi og illa skrifandi en góður rithöfundur var hann vissulega. Ég get sagt þér að það er mjög mikil og góð málvitund hjá þeim Sjálfsbjargarfélögum sem ég hef kynnst og það er vissulega aðdáunarvert. Sérstaklega er það áberandi með ritað mál. Ég aftur á móti hef lagt meiri áherslu á að skilningur sé réttur á milli fólks. Mér finnst við verða að halda í við málþróun til að brúa kynslóðabilið en auðvitað þarf líka að reyna að hafa áhrif á unga fólkið. Varðandi ESB þá er ég hlynnt allri samvinnu og hef beitt mér fyrir aukningu á henni í mínu starfi en tel að við séum að afsala okkur of miklu með því að ganga alla leið. Við höfum aðgang að öllu því besta sem samstarfið hefur upp á að bjóða en megum ekki greiða of mikið fyrir það að lúta yfirstjórninni. Sérstaklega ef Lissabonsamningurinn verður samþykktur, þá vigtum við of lítið þar inni. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.9.2009 kl. 21:49

12 identicon

Kæra Kolbrún,þú þurftir nú ekkert að vera að gefa mér´´ skýrslu ,,um það hversvegna þú varst á fartinni um landið.Er sammála þér um að varkárni í umferðinni skipti öllu máli.Sem betur fer hefir ekkert komið fyrir þig á þessum´´blússferðum,,þínum um landið. Kærar kveðjur frá honum NN ´´bjöllusauði,,(svona húmor líkar mér) ps:NN er búin að hafa próf í svipað langan tíma og þú Kolbrún og sem betur fer get ég sagt sömu sögu og þú, að ekkert hefir hent mig á flakki mínu um þjóðvegi landsins.Svona í lok pistils:Hvar er Magnús vísnasmiður og snillingur.?Alltaf gaman að lesa skotin hans.

NN (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 21:51

13 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Til að vinna að velferð þarf maður einflaldega að styðja velferð Kolbrún. Það kemur Samfylkingu ekkert við.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.9.2009 kl. 22:43

14 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

NN. Nei auðvitað þurftir þú ekki skýrslu. Það hefði verið nóg að segja að þegar maður fer á golfmót keyrir maður hægar en venjulega til að halda "blóðinu köldu" og vera ekki stressaður þegar maður mætir á teig en þú spurðir. Æ ég veit ekki hvað er með Magnús stórskáld og snilla. Hann getur verið beittur og hnitmiðaður strákurinn þó oftar sé nú galsi í honum, eins og mér. Gott að þér líkar húmorinn, hann er stundum alveg á grensunni og hefur stundum komið mér í klandur satt að segja .

Helgi. Ef ég styð ekki velferð þá gerir enginn það . Meðvirkni er kannsi það sem þú ert að ætlast til af mér og stofnanaveldi. Ég vil númer eitt hafa valkosti fyrir allatil að stjórna sínu lífi og bera ábyrgð á því sjálfur. Þú hefur kannski heyrt talað um notendastýrða persónulega aðstoð. Það snýst um það að sá sem þarf þjónustu úr velferðarkerfinu stjórni því sjálfur, samkvæmt fyrirliggjandi mati, hvernig hún fer fram og hvenær en það sé ekki ákveðið af þjónustuapparatinu sjálfu. Það er akkúrat það sem ég aðhyllist fyrir þá sem það geta og sérstaklega hreyfihamlaða. Fyrir þessu vil ég berjast og að því vil ég vinna. Ég kenndi þig við Samfylkinguna þar sem þú talaðir þannig. Velferð hefur ekkert með ESB að gera. Velferð fer mest eftir stjórnvöldum í viðkomandi landi en auðvitað er góð vinna sem fer fram hjá Evrópusambandinu, mikil ósköp. Við í Sjálfsbjörg lsf horfum mest til Noregs í þessum málum og ekki eru Norðmenn í ESB. Kveðja til ykkar beggja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 16.9.2009 kl. 00:21

15 identicon

"Mér finnst við vera á góðri leið með að verða reglugerðarríki, eins og sagt er að sé í Svíþjóð og ef við förum inn í ESB þá verður staðall um alla hluti." Bíddu hvaða "regluverk" tökum við ekki upp gegnum EES sem er sameiginlegt á evrópska markaðssvæðinu? Reglur og glóðaperur, kannski? Kynna sér málin, skrifa svo.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 17:55

16 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Gísli. Þú ert auðvitað sérfróður um þetta en vilt samt sækja yfirráðin til Brussel. Skrýtið. Þetta er kannski meira spurning um undirlægjuhátt við erlend yfirvöld. Ég held að enginn hafi haldið því fram að það muni ekki bætast við reglugerðir, lög og ákveðin skerðing í stjórnsýslunni við að ganga alla leið inn í ESB. Þeir hafa hinsvegar haldið því fram að við fengjum "eitthvað" í staðinn sem réttlætti það. Ertu enn að halda að þessi 20% sem uppá vantar kosti okkur ekkert. Við munum missa fullveldið. Eins og þú veist þá er ég á móti því að kanna málin frekar þar sem það kostar milljarða og við eigum ekki mikið af þeim aukalega, þar sem ég get ekki upphugsað hvað við bærum úr býtum, get bara alls ekki séð það. Allar reglugerðir sem við höfum tekið upp í gegn um EES hljóta að duga okkur og finnst nú mörgum nóg um þær. Einhverjar reglugerðir um gúrkur og glóðarperur er ekki það versta og bara útúrsnúningur hjá þér. Léleg rök hjá manni sem hefur kynnt sér málið svona vel. Regluverkið sem ég óttast er úthlutun kvóta í öllum okkar atvinnumálum til Evrópuríkjanna. Yfirráðin yfir auðlindunum og atvinnuvegunum er það sem skiptir máli. Reglugerðarfarganið er bara auka leiðindi og það er nóg af þeim. Ég er ánægð með það samstarf sem við fáum í gegnum EES en á móti ESB nema tryggt sé að við fáum full yfirráð yfir sjávarútvegi orkunni og olíunni sem við ætlum að sækja á mínar heimaslóðir. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 20.9.2009 kl. 21:42

17 identicon

Alveg er ég hissa á hvað hann nafni minn virðist vera æstur út af þessum pistli. Grunar mig þó að hann hafi farið af límingunum út af andstöðunni við ESB og slagorðinu gegn ESB neðst á síðunni hjá þér í öðrum pistli. En þú hittir einmitt naglann á höfuðið þegar þú talar um Samfylkinguna. Það er nefnilega þannig að Samfylkingarfólkið gerir allt sem það getur til að beita skoðanakúgun eða jafnvel hótunum við þá sem eru á móti ESB-glæpasamtökunum sbr. að hann blandar starfi þínu í málið sem þó gengur út á það að hjálpa fólki til þess að hjálpa sér sjálft. Hjartanlega sammála þér - Áfram Ísland,ÍSLAND EKKI Í ESB.

Helgi (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 19:34

18 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Helgi hinn. Já hann var svolítið hvass nafni þinn og eins og stundum þá eru allir haugvitlausir og opinberlega fávísir sem ekki aðhyllast  ESB, sænska kerfið og Samfylkinguna. Reyndar held ég að það sé ágætt að búa í Svíþjóð , allavega eru þeir áratugum á undan Íslendingum í sambandi við málefni fatlaðra. Það er Noregur líka og ekki eru þeir í ESB. Ég veit svosem ekki hvað fór svona í manninn og læt mér í léttu rúmi liggja. Takk fyrir kommentið kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 23.9.2009 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband