Leita í fréttum mbl.is

Ræðan sem aldrei var flutt.

Velferðarveislan. 

Mikið hefur gengið á í þjóðfélaginu undanfarna mánuði eins og allir vita og margir hafa tapað fé bæði einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök sem höfðu fjármuni sína í fjárvörslu hjá bönkunum. Þetta ástand er ólíðandi staða fyrir alla og nú skiptir miklu máli að rétt sé haldið á spilum til að bjarga því sem bjargað verður.  Mín skoðun er sú að baráttusamtök fatlaðra og aldraðra eigi ekki að veita afslátt á réttmætum kröfum sínum þó bissnessmenn hafi lagt fjárhag þjóðarinnar í rúst með stuðningi ráðamanna, bæði beint og óbeint.Það er mjög brýnt að menn sameinist um að styrkja þá hópa sem mest þurfa á stuðningi að halda.Hverjir skyldu það vera?Jú fatlaðir, aldraðir og barnafólk eru þar fremst í flokki.Viðbúið er að áhyggjur af framtíðinni leggjast þungt á þá sem hafa minnsta möguleika á að bjarga sér af eigin rammleik í kreppuástandi. Fatlað og aldrað fólk á erfitt með að sækja vinnu milli staða eða flytjast á milli landa. Hreyfihamlaðir eiga jafnvel erfitt með að fara á milli vinnustaða þar sem aðgengi er oft takmarkað.Að vanrækja þennan hluta samfélagsins, auk þess að vera afar ómannúðlegt, bitnar hart á þjóðfélaginu í heild þegar fram í sækir.Þetta var ekki þeirra veisla.  

Sálrænar afleiðingar kreppu.

Afleiðingar kreppu koma fram á ýmsan hátt en auðvitað er kvíði og þunglyndi algengast og það er alkunna að það er dýrt fyrir þjóðfélagið.Finnar gerðu þau miklu mistök að skera niður í heilbrigðismálum hjá sér þegar þeir fóru í gegnum sína kreppu. Afleiðingar þess niðurskurðar eru gríðarlegur vöxtur í greiðslu sjúkradagpeninga, veikindadaga og vaxandi örorka, vegna geðrænna vandamála og áfengissýki, hefur aukist um 120 % .  Aukningin varð mest hjá ungu fólki. Viljum við þurfa að horfast í augu við þann óbætanlega skaða sem slík vanræksla í heilbrigðismálum leiðir yfir þjóðir? Ég segi nei. Þá er betra að missa þá einstaklinga úr landi, því þeir gætu þá komið heilbrigðir heim síðar, þó það sé einmitt slík staða  sem menn óttast að upp komi ef lausn verður ekki fundin, fyrr en síðar, á atvinnumálum þjóðarinnar. Við verðum að sjá til þess að framfærslutrygging til aldraðra og öryrkja sé nægileg.Við þurfum að gera almannatryggingakerfið einfaldara og opnara þannig að það mismuni ekki fólki. Ég sit í nefnd á vegum Alþingis um þátttökukostnað neytenda í lyfjakostnaði. Það á að færa það flókna mismunandi kerfi í átt að því sem notað er á hinum Norðurlöndum og er verið að skoða kerfin í Danmörk og Svíþjóð. Ég bind vonir við að það verði réttlátt kerfi og létti á þeim sem þurfa að nota mikið lyf og læknaþjónustu en eru á lægstu laununum. Auk þess sem þetta á að leiða til aukinnar hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu með betri kostnaðarvitund og ábyrgð bæði neytenda og heilbrigðisstarfsfólks. 

Húsnæðismál öryrkja og aldraðra.

Við í Frjálslynda flokknum viljum bjóða upp á meira val hjá öldruðum og fötluðum um hvar þeir búa. Ég vil sjá Íbúðalánasjóð koma meira inn í að fjármagna íbúðir fyrir fatlaða t.d. með því að greiða nauðsynlegar endurbætur á íbúðum og  til að gera þær aðgengilegar hreyfihömluðum. Slíkt er gert í Noregi. Þar greiða fatlaðir sama og aðrir en ekki meira eins og hér. Þar er bannað með lögum að mismuna á grundvelli fötlunar.Fjármagnið á að fylgja einstaklingnum. Ef  fatlaður einstaklingur vill búa, í Vestmannaeyjum, Raufarhöfn, eða Húsavík, á sveitarfélagið að fá greitt frá ríkinu til að annast hann eins og hann á rétt á. Það er hinsvegar þannig að fólk þarf að flytja nær stofnunum eða inn á þær ef það fatlast. 

Við viljum sjá notendastýrða þjónustu ná fótfestu hér á landi.

Slíkt kerfi er búið að vera  lengi í Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum, og byggist á því að einstaklingurinn sem þarf þjónustuna ræður því sjálfur hver annast hann og hvenær. Sjálfur ræður hann þjónustuaðilana í vinnu til sín og segir hvað  á að gera og hvernig. Þetta má útfæra með ýmsum hætti. Þessi leið í heilbrigðisþjónustu er mjög mikilvæg upp á sjálfstraust og sjálfsvirðingu þess sem þarf á þjónustunni að halda.

Stofnanahugsunin er að hverfa smátt og smátt.

Auknar kröfur fólks breyta viðhorfum og er stofnanahugsunin víkjandi enda veldur hún þvi að fólk ber óttablanda virðingu fyrir kerfi sem þjónar því eftir sínum ákvörðunum og sinni hentistefnu.Það er vissulega nauðsynlegt að hafa góða heilsugæslu en þær breytingar sem verið er að gera á sjúkrahúsum bæði í Hafnarfirði, Húsavík, Akureyri og sjálfsagt víðar eru ógnvekjandi fyrir þá sem þurfa mikið á læknaþjónustu að halda. Það eru þó margir fletir á þessum málum eins og dæmin sýna. Ekki er langt síðan elliheimili í Hafnarfirði, Sólvangur, komst í fréttir vegna ömurlegs aðbúnaðar fólks sem deildu herbergjum og bjuggu við afar erfiðan aðbúnað. Ekki vil ég gera lítið úr því að hagræðingar í  heilbrigðiskerfinu eru vandasamar og erfitt að meta hvað er best þegar maður hefur ekki allar staðreyndir fyrir framan sig en ég veit að það er nauðsynlegt að nýta tiltekið fjármagn sem allra best í þágu neytenda. Það eru vissulega margar leiðir sem hægt er að fara. Hver er best? Í hverju liggur sparnaðurinn? Maður spyr sig eins og maðurinn sagði. 

Aðgengi fyrir fatlaða og aldraða.

Sjálfsögð krafa í nútíma þjóðfélagi er að allir sitji við sama borð hvað varðar aðgengi. Aðeins brot af þeim sem eru hreyfihamlaðir eru það frá fæðingu. Slys, sjúkdómar og öldrun eru mun algengari ástæður og enginn veit hvort eða hvenær það áfall dynur á. Það á að vera sómi þjóðar sem vill láta taka sig alvarlega að huga að þessum þáttum og hafa þá í forgangi.

Heilsugæsla eins nærri heimabyggð og hægt er. Það er málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þetta er ágætis ræða og þolir alveg flutning! Þá ertu komin í kosningagírinn, þessu var ég eiginlega að bíða eftir, í framhaldi af öllu  pólitíska gjörningaveðrinu undanfarnar vikur. 

Ágúst Ásgeirsson, 30.1.2009 kl. 12:14

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir þetta komment Ágúst. Ég fór með þingmanni FF til Vestmannaeyja og ætlaði að ræða þessi mál. Síðan voru svo fáir mættir að sá fundur fór bara í spjall um mál um sjávarútveg og nýjustu tíðindi af þinginu sem var svosem ágætt. Þessu gjörningaveðri hefur ekki slotað nema síður sé og nú stefnir í stjórnmálakrísu. Vonandi hefur þú það þokkalegt í Frans. Reyndar var hringt í mig í vinnuna frá París út af einhverri hátíð sem á að halda og það var bara gaman að spjalla við viðkomandi með ofsa frönskum hreimsem ég er mjög hrifin af enda með franskt blóð í æðum.Bestu kveðjur til þín Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 30.1.2009 kl. 16:16

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Takk fyrir útskýringarnar á tilurð ræðunnar. Hér í Frans er kreppa eins og alls staðar annars staðar en öðru vísi en á Íslandi. Það er athyglisvert að Frakkland er líklega eina landið í Evrópu þar sem banki hefur ekki farið á hausinn. Ástæðan eru m.a. stífar reglur um tryggingar í formi pottþétts eigin fjár á móti útlánum. Og sumir stóru bankanna hafa auðvitað tapað vegna húsnæðislánakreppunnar í Bandaríkjunum, misheppnaðra viðskipta með afleiður, og svo sumir síðast á honum Bernard Madoff. Þeir hafa þurft á misjafnlega mikilli fyrirgreiðslu frá ríkinu að halda vegna lausafjárskorts. Þá fyrirgreiðslu hafa þeir fengið gegn skilyrðum, m.a. því að borga ekki arð, fella niður bónusa til stjórnenda, afnám ofurlauna o.s.frv. 

Hvaða hátíð ertu að ræða um, á klakanum eða hér?

Svo er það ekki slæmt að vera með eitthvað af frönsku blóði í æðum. 

Sé á fréttum að það frestast alltaf og frestast að koma nýrri ríkisstjórn á koppinn á klakanum. Nú verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.  Það verða kannski bara komnar kosningar áður en þetta smellur saman? 

Ágúst Ásgeirsson, 30.1.2009 kl. 18:35

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Set þetta á Heimaklett . kv .

Georg Eiður Arnarson, 30.1.2009 kl. 23:25

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl Kolla.

Þetta er fínn pistill.

Staða þjóðarbúsins nú um stundir er hins vegar sú að því miður getum við ekki gert okkur væntingar um aukið fjármagn í nokkurn skapaðan hlut.

Sé að þú sért í nefnd um lyfjakostnað en það hið sama atriði er nú eitt af því sem stjórnmálamenn hafa hummað fram af sér í áraraðir að endurskoða ásamt hinum ýmsu þáttum heilbrigðisþjónustu hér á landi, ásamt almannatryggingakerfi sem er og hefur verið samvaxinn frumskógur reglugerða sem stangast á.

Heilsugæslan er enn í lamasessi á höfuðborgarsvæðinu, meðan ríkið hefur niðurgreitt beint aðgengi til sérfræðinga, það reikningsdæmi er ekki flókið að reikna til þess að finna út hina lélegu notkun grunnþjónustunnar í því efni.

fleira mætti nefna en nóg í bili.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 31.1.2009 kl. 02:00

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Ágúst. Gott hjá Frökkum að hafa stífar reglur um bankamálin. Þar klikkuðum við.  Veistu hvað þeir eru að lána háa % tölu til íbúðakaupa Frakkarnir ? Þessi hátíð er einhverstaðar í Frakklandi. Jú nú er búið að særa Framsókn til að standa við tilboðið um stuðning með hinum og þessum fyrirvaranum. Það verður fróðlegt að sjá hvað þeir gera. Óttast samt göfgana í VG það verð ég að viðurkenna. Trúlega verður þetta tilkynnt eftir helgina. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.1.2009 kl. 22:50

7 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Georg. Fínt ef þú setur þetta inn á síðuna. Mætti vera minna letur en hjá mér. Ég klikkaði á því að minnka þetta niður. Ég ætlaði að hafa flotta mynd af Vestmannaeyjum með þessu en var ekki búin að finna neina. Bestu kveðjur til Vestmannaeyja.

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.1.2009 kl. 22:52

8 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir það GMaría. Það átti að vera lokafundur þessarar nefndar fljótlega en hefur verið frestað vegna stjórnarslita. Ætli þessi nefnd sé ekki búin að kosta 25 milljónir þó við séum ekki launuð sem sitjum í henni þá eru allar upplýsingar og vinna við öflun þeirra svo dýrar. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.1.2009 kl. 22:55

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Alveg ´gætis ræða já mín kæra!

Varðandi þín síðustu orðin að ofan, þá skulum við nú rétt vona, að upplýsingarnar séu þá einhvers virði og munu nýtast vel!?

En þú bara í skutltúr með þingmanni til Eyja já, leitt að fólk mæti ekki allavega þegar svo fróm kona af fasta landinu heiðrar það með nærveru sinni!

Grétar Mar hlýtur að hafa verið þingmaðurinn sem svo fór með þér fyrst sjávarútvegsspjall varð ofan á í umræðunum, Jón og Kristinn H. hugsa miklu frekar um neytenda- og byggðamál er það ekki!?

Svo bara þetta "léttmeti"!

Þótt standi í stöðugu brasi,

í starfi upp á hvern dag.

Er Kolla frjálsleg í fasi

og frönsk í ofanálag!?

Svo er bara spurningin hvort hún sé líkari Bridget Bardot Eða Beatres DAllé?

Gamli millivegalengdahlauparinn ÁA gæti kannski svarað því, ef meyjan sjálf treystir sér ekki til þess!?

Magnús Geir Guðmundsson, 1.2.2009 kl. 00:44

10 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæl vinkona!Loksins komst þessi ræða eða ekki ræða þangað sem henni var ætlaður staður.Meistarinn góður sem endranær.Kært kvödd

Ólafur Ragnarsson, 2.2.2009 kl. 00:24

11 identicon

Það var ákaflega athyglisvert að lesa textann þinn.  Margt er vel gert er snýr að fötluðum einstakligum á Íslandi en alltaf má gera betur.  Ég geri nú ráð fyrir því að "á góðæristímanum" hafi fjármagn aukist mikið í ykkar málaflokkum annað væri nú ekki "eðlilegt".  Ég hefði nú haldið að okkar "ríka" þjóð með "alla visku" núverandi og fyrrverandi ráðamanna hefði komið flestum málum í höfn er varðar "þá er minna mega sín í þessu blessaða þjóðfélagi".  Það  væri nú vert "rannsóknarefni" að átta sig á því hvað stundum ræður för þeirra sem fjármagninu ráða.    Það er kannski með þá "eins og mig" þegar ég rak augun í umræðuna sem tengdist "Frakklandi " og "París" hér ofar þá beindist athygli mín strax að því.  Margir af þessum ráðamönnum hafa sennilega mun meiri áhuga á sendiherrabústöðum og öðrum viðfangsefnum sem eru nægilega spennandi fyrir þeirra "miklu" visku.  Mér hefur alltaf fundist að það sem að fötluðum snýr ætti að vera ofar "pólitísku karpi" og sjálfsagður réttur þeirra að fá sín mál í "sem bestan farveg".   Bróðursonur minn (1/2 Frakki) sem varð fyrir súrefnisskorti (fæddur í Englandi) við fæðingu lætur vel af sér á "vernduðum vinnustað í París".  Bróðir minn dó úr krabbameini fyrir nokkrum árum í París og í þau skipti sem ég heimsótti hann á sjúkrahúsið fann ég fyrir "ákaflega góðri nærveru" starfsfólksins þar.  Ég hef ekkert nema gott að segja af mínum kynnum við þá þjóð.  Hins vegar varð ég dálítið mikið "undrandi" þegar ég fór í íslenska sendiráðið í París, sem er nú ekki á ódýrasta stað að því er mér var sagt.  Ég spurði eftir því hvort hægt væri að lána mér "íslenskan fána" eina dags-stund og sagðist ætla að nota hann við jarðarför bróður míns.  Svarið sem ég fékk var "Nei því miður" þær lánuðu ekki fánann.  Ég óskaði eftir því að fá að ræða við "sendiherrann", en blessunin var ekki við.  Ég vona að Tómas Ingi hafi breytt "svona þjónustu".   Og svona að lokum "París er stórkostleg borg" þangað get ég komið aftur og aftur.   bestu kveðjur og til Parísar líka 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 01:59

12 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sælir og takk fyrir kommentin. Ekki veit ég hvort Gústi treystir sér til að skilgreina hvort ég er þetta eða hitt þó hann viti ýmislegt um mig er margt sem hann veit ekki .Takk fyrir vísuna. Páll gaman að sjá nýja menn á kommentum hjá sér. Vá hugsaði ég þegar ég sá allar gæsalappirnar hjá þér og flott að vitana í frasa sem stjórnmálamenn nota í ræðum og riti á tillidögum. Sjálf er ég í vandræðum með tölvuborðið hjá mér þar sem gæsalappir og fleira er ekki merkt inn á og ekki á sömu stöðum og á venjulegu lyklaborðum. nóg um það. Leitt með bróður þinn og bróðurson. Það er nú þannig að ríki og borg hafa ekki verið að gera neitt að gagni fyrir okkur. Sjálfsbjörg lsf hefur fengið ca 4,5 milljón í fyrra og sama í ár frá ríkinu. Borgin hefur ekki stutt okkur að neinu gagni. Við hinsvegar erum að sinna því sem ríkið og borgin ættu að leggja meiri áherslu á. Því miður er þetta þannig.  Fjárhagur er afar erfiður hjá okkur hvað varðar rekstrarmöguleika. Ótrúlegt þetta með að vilja ekki lána fána. kveðja Kolla.     

Kolbrún Stefánsdóttir, 2.2.2009 kl. 16:32

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæl aftur mín ágæta! Ekkert að þakka, ef þetta brölt getur glatt einhvern smávegis og litað örlítið hversdagsumræðuna, þá er það til einhvers gert!

Þetta átti svo bara að vera smá spaug fyrst franskt blóð kvinnunnar kom fram í dagsljósið, ætlaðist nú ekki til að Ágúst kæmi með "grendarkynningu", en hann hefur kannski haldið það og er því orðlaus út í Frankríinu!?

En svo um hvað varðar fatlaða og þjónustu við þá, hef ég lesið tvennar frásagnir á stuttum tíma um bága stöðu varðandi ferðaþjónustuna þeirra á höfuðborgarsvæðinu og hljómuðu þær eiginlega eins og allt væri nánast í klessu!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.2.2009 kl. 21:10

14 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Já sæll. það er allt í klessu. Ferlega fatlandi að þurfa að búa við svona kerfi þar sem fólk þarf að skipuleggja sig upp á mínútu. Giska þarf á hvenær fundur er búinn og þá annaðhvort bíða og hanga eftir bílnum eða fara af fundi svo eitthvert dæmi sé tekið.

En svo eitthvað jákvætt komi fram þá er frétt um samstarfsverkefni höfuðborga Norðurlandanna komið á heimasíðuna hjá Sjálfsbjörg lsf sem segir að fólk geti fengið sömu þjónustu í hvaða borg sem það er statt hverju sinni ( 4 af 5 reyndar ekki Helsingi) eins og íbúar viðkomandi borgar. Sjá hér kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 2.2.2009 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband