Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Gleðilegt golfsumar

NílarkrókódíllNú líður að árlegri golfferð á krókódílaslóðir í henni Ameríku, Flórída, The Villages nánar tiltekið. Við systur ætlum að skella okkur með okkar sambýlismönnum og spila golf á þessum hættuslóðum. Við höfum leigt okkur hús með tveimur svefnherbergjum, golfbíl, reiðhjólum og öllum mögulegum þægindum. Einhver sagði að þessi staður væri kallaður Disneyworld 60+ og vona ég að það sé ekki ofsagt.

Ég hef mikið spáð í golfið í vetur. Bæði fylgst vel með á Skjágolf þegar mót eru og kennsla. Einnig lært nokkuð af Birgi Leifi Hafþórssyni sem er með kennsluþátt í sjónvarpinu og auk þess tók ég nokkra tíma hjá honum í haust.

Í vetur prufaði ég að fara í "golfjóga" hjá Guðjóni Sveinssyni í Kiwanishúsinu. Það var að mörgu leiti mjög áhugavert og auðvitað gott fyrir líkamann svona í bland við hardcore æfingar í World Class með eldri dótturinni kl 6,30 á morgnanna, þrisvar í viku. Hjá honum komst ég að því hvað stendur í vegi fyrir sigurgöngu minni í golfinu. Nú er bara að kanna hvort það svínvirkar ekki í sumar.

Ég hef sett mér það markmið að komast undir 10 í forgjöf. Það er ekki nýtt markmið, reyndar búið að vera í þrjú sumur núna en nú skal það ganga eftir. Ég hef tekið upp gömlu sveifluna og lengt höggin við það og æft stutta spilið, samkvæmt leiðsögn Birgis Leifs, en það var helsti akkilesarhællinn ásamt púttunum.

Við erum í einkakeppni ég og mási minn sem er með aðeins hærri forgjöf en ég. Hann náði mér fyrir rúmu ári en svo stakk ég hann af í fyrra þegar hann fékk í  bakið. Nú er meiningin að "éta" hann í Flórída.

Allavega ætla ég að "skrúfa á mig hausinn" og nota sálfræðina á sjálfa mig til að sigrast á hindrunum í sumar.   

Gleðilegt sumar ágætu kylfingar og bestu óskir um skemmtilegt spil, árangursríkar keppnir en fyrst og fremst góðar og uppbyggjandi samverustundir á vellinum.


Að eiga réttinn

Nú hefur heldur flísast úr röðum Vinstri grænna á Alþingi. Þrír feitir bitar farnir fyrir lítið og vandræðagangur í prinsippmálum flokksins allsráðandi. Raunamæddir ráðherrar eru að því er virðist á barmi áfalla og það hygg ég að heiftin svelli í brjóstum þeirra. "Farið hefur fé betra" hrópaði einn stjórnarþingmaður úr sæti sínu þegar hinn ungi, stórfríði og hugumstóri baráttumaður, Ásmundur Einar Daðason, lýsti frati á stjórnina sem hann sat sjálfur í. Ekki fannst mér þetta frammíkall sannfærandi né heldur nærri eins skemmtilegt og þegar sami þingmaður, í beinni útsendingu, bað fyrir kveðju til "frænda" einhvers með tilmælum um "að hann hoppaði upp í rassgatið á sér "  Frændinn er líklega einhver sem ekki vill hoppa upp í rassinn á Evrópusambandinu eins og hún sjálf.

Mikill órói virðist vera í kvennasveit VG. Þær hafa verið nokkuð iðnar við að fjölga mannkyninu, eflaust í skjóli þess að þeirra flokkur, sem hefur sett allskyns lög og reglur um réttindi kvenna og jákvæða mismunun, er í stjórn. Ekki einu sinni þau prinsippmál hafa verið í lagi. Líklegt finnst mér að Guðfríður Lilja hinkri með að yfirgefa skútuna þar til ljóst er hver leysir af menntamálaráðherrann en það þarf væntanlega að vera kona.

Þetta affall kjörinna fulltrúa í VG vekur enn og aftur upp hugleiðingu um hver eigi þingmenn. Oft hefur heyrst sú skoðun að ef þingmaður hættir í þingflokki eigi hann að hætta á þingi. Þetta er vel skiljanlegt þar sem sumir eru að kjósa flokk til að tryggja sjálfum sér bitlinga og áhrif í gegnum þingmanninn. Þau áhrif eru komin út í hafsauga þegar viðkomandi afsalar sér áhrifum á þingi.

En hvað sem fólki finnst um þetta þá eru lögin skýr. Viðkomandi persóna er kosin á þing og hefur ekki skyldur við neitt nema samvisku sína. Meðan viðkomandi fylgir þeirri stefnu sem hann boðaði fyrir kosningar og stendur við sín fyrirheit er ekkert við þessu að segja.

Foringjaræðið og flokkstryggðin er augljós í eignakröfum eins og þeirri sem VG á Vestfjörðum setja nú fram um þingsæti fyrir næsta mann á listanum.

Ekki kastar það rýrð á Dalamanninn unga að mínu áliti.


Vantraust

3.des 005Nú er komin upp ný staða í stjórnmálum á Íslandi. Vantrausti er lýst á ríkisstjórnina með formlegum hætti. Allir virðast fagna því, þar með talinn forsætisráðherrann okkar.

Það virðist vera helsti styrkur stjórnarinnar að stjórnarandstaðan geri atlögu að henni og þjappi stjórnarliðum saman. Eins og menn vita hafa þeir ekki allir fetað sömu slóð í þessu verkefni sem landsstjórn er.

Einstaklingshyggja nokkurra þingmanna VG hefur verið vægast sagt truflandi fyrir forsætisráðherra og hefur hún lýst því fyrir þjóðinni með eftirminnilegum hætti.

Eitt er víst að ekki er hún og hennar flokkur öfundsverð um þessar myndir. Þjóðin virðist alfarið á móti öllu því sem þau eru að gera í helstu málum hennar. Það var á henni að skilja nýlega í viðtali að það væri ekkert mál að kúvenda í baráttunni við erlendar þjóðir. Segja já í dag og nei á morgun. Ég er nú ekki alveg sammála þessu og ég er heldur ekki sammála forsetanum sem fer nú í víkingaham um lönd og bregður brandi á loft, ógnandi og bendandi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig menn greiða atkvæði með tillögu Bjarna Benediktssonar þingmanns en mest verð ég hissa ef Hreyfingin er ekki einróma fylgjandi vantrausti og nýjum kosningum eins og þau hafa talað í Icesave-deilunni.

Það er annars merkilegt hvað allar fréttir eru pólitískar nú til dags. Ég man þá tíð þegar ekkert var talað um þingheim og sáralítið um pólitík nema fjórða hvert ár og þótti mörgum það yfirleitt leiðinlegasta áríð. Líka mér.


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband