Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Til hvers að fermast

Nú eru öll systkinabörnin í minni litlu fjölskyldu fermd. Síðust til þess varð Vala Rún dóttir Magnúsar bróður míns. Hún ávarpið sjálf veislugestina og  pabbi hennar sá um söngskemmtun auk þess sem myndir af henni með fjölskyldunni rúllaði á breiðtjaldi. Sem ég sat í veislunni með fólkinu mínu og naut þess að dást að unga fólkinu, sem öll eru afburðar falleg ( mín tilfinningalitaða skoðun) hvarflaði hugurinn aftur í tímann að mínum fermingardegi sem var 19 apríl 1964. Við vorum 17 sem fermdust þá, ef ég man rétt . Þetta var góður hópur og mikil vinátta ríkti okkar á milli eins og gerist á smástað eins og Raufarhöfn. Ég man vel hvað fermingin var erfið í hitanum í smekkfullri kirkjunni og ætlaði aldrei að taka enda. Ég hafði líka áhyggjur af því að presturinn myndi gleyma að kalla mig upp en slíkt hafði komið fyrir árið á undan. Þá var til siðs að aðstandendur stóðu á fætur þegar  nafn fermingarbarns var nefnt og ég fór hjá mér þegar hálf hjörðin stóð upp þegar ég fór til altaris. Í veislunni  var næstum liðið yfir mig vegna streitu því ég hafði aldrei fengið þvílíka athygli og gjafir sem ég ruglaði öllum saman og vissi ekkert hvað var frá hverjum. Úr frá mömmu og pabba eins og allflestir á þessum árum. Um kvöldið kyssti ég strák í fyrsta sinn og hann varð síðar maðurinn minn í 26 ár. Ég hugsaði líka um fermingardaga dætra minna sem voru mjög eftirminnilegir fyrir mig. Sú eldri fermdist heima á Raufarhöfn og ég vann persónulegan sigur á sjálfri mér með því að sjá ein um veisluna  frá a-ö og enginn mátti hjálpa mér. Ég bakaði 14 tertur og eina sem var upp á 4 hæðir og þurfti að fá lánað form frá Húsavík til að baka hanaTounge. Það var vel mætt í veisluna og um kvöldið skáluðum við tvær mæðgurnar í sérrýi , svona til að setja flottan punkt eftir sérstökum degi en hvorug var þó vön því. Hún er enn bindindismanneskja bæði á vín og tóbakHalo. Kvöldið eftir hélt hún veislu fyrir fermingarsystkinin en við foreldrarnir fórum að heiman og þau sáu um sig sjálf. Þetta var vel heppnað. Sú yngri fermdist í Ólafsvík og ég var mjög stressuð því hún valdi sér svo langan texta til að fara með í kirkjunni  að ég óttaðist að hún myndi ruglast. Það gerði hún auðvitað ekki og var ég rosalega stolt af henni, en fólk var að grínast með að hún hefði leyst prestinn af á tímabili.InLove Veislan hennar var svo í Reykjavík þannig að segja má að sú ferming hafi verið á landsvísu og var brunað frá Ólafsvík til Reykjavíkur á sæmilegum hraða. Tengdasonurinn var tekinn fyrir of hraðann akstur á þeirri leið en við á leiðinni heimPolice. Mér var slétt sama því ég var svo fegin að þetta var afstaðið. Elsta  barnabarnið  er búið að fermast en það var borgaraleg ferming og fín veisla með myndasyrpu af fjölskyldunni rúllandi á stórum skjá. Fermingardrengurinn ávarpaði sjálfur gestina. Þetta var einmitt í kosningabaráttunni í fyrra og ég á hlaupum og að fara til Akureyrar á stjórnarfund Sjálfsbjargar og hafði flýtt mér full mikið þannig að ég var í bláum sokkabuxum en ekki svörtum og því eins og hálfgerður pönkari í veislunniBlush. Næsta ferming verður eftir 3 ár og verður fróðlegt að sjá hvernig Viktor uppáhaldskrúttið mitt í 10 ára flokki hefur það, ef hann fermist.


Síðasta vika.

    

IMG_0090Síðasta vika var afar skemmtileg og mjög pökkuð svo ekki sé meira sagt. Á mánudagsmorgun kl 6.3o sprautaðist ég fram úr rúminu og eftir hefðbundinn morgunverð sótti ég systur mína og kom henni á Landspítalann kl 7.30.  Síðan beint í vinnuna og vann til kl 17.00 en þá var  söngæfing fyrir hæfileikakeppni sem Ný-ung stóð fyrir . Þegar hún var afstaðin fór ég á spítalann til Sæku. Kom heim kl 22.00 og kíkti þá á bloggið.

Þriðjudagur var strembinn í vinnunni en þá var formaður mættur á staðinn og við unnum saman við að skipuleggja Þing Sjálfsbjargar sem haldið verður í maí. Ég skrapp þó til háls-nef og eyrnalæknisins Einars Thoroddsen sem mér finnst afar skemmtilegur maður enda búin að bíða eftir tíma hjá honum lengi. Viðtalið tók hálftíma. Eftir vinnu var aftur söngæfing og síðan fór ég og hitti foringjann í Frjálslynda flokknum og þingmenn í afar yndislegu vorverði og útistemmingu við Austurvöll. Hélt að vorið væri komið en Guðjón kom vitinu fyrir mig og sagði mér sögu af Vestfirðingi sem var stundum að fagna vorinu of snemma og var svo hundskammaður þegar fór að snjóa strax á eftir. Um kvöldið fór ég á ræðunámskeið sem haldið er hjá Sjálfsbjörg þessa dagana . Það var mjög skemmtilegt og mikið hlegið.

Miðvikudagurinn var svipaður nema snjór yfir öllu. Ég borðaði með endurskoðandanum mínum í hádeginu. Hann var nú hálf þreyttur en þegar hann var búinn að  næra sig þá fór nú að lyftast á honum  brúnin. Hann hefur gaman af því að þykjast vera karlremba en honum hefur ekki enn tekist að ná mér upp út á það, heldur hef ég alltaf sýnt mikið umburðalyndi eins og þetta sé bara venjuleg fötlun hjá honum og ekkert við henni að gera. Hann var allavega hlæjandi þegar ég kvaddi hann og þá er allt gott. Eftir vinnu kl 17.30 var fundur hjá málefnanefnd um heilbrigðismál á vegum Frjálslynda flokksins en við leiðum það starf ég og Guðrún María Óskarsdóttir aðstoðarmaður Grétars Mar Jónssonar. Við fengum einn félaga okkar lækninn Gunnar Skúla til að koma á fundinn og þetta var afar fróðlegt fyrir mig sem hef lítið haft af heilbrigðismálum að segja (utan að vera læknaritari á heilsugæslustöð en skildi nú  lítið í latínunni sem þeir notuðu læknarnir í sjúkrafælunum). Ég verð því að draga mína ályktanir af reynslusögum annarra. Ég sit líka í nefnd um þátttöku neytenda í lyfjakostnaði sem er pólitísk nefnd á vegum Alþingis og þar koma fram mjög magnaðar upplýsingar um neyslu lyfja og kostnaðarþátttöku hins opinbera í samanburði við önnur lönd. Eftir fundinn sem stóð til 19.00 fór ég á spítalann og var þar til  22.00

Fimmtudagur annasamur en góður samt . Eftir vinnu var æft í hálftíma með Einari Andréssyni sem spilaði undir á hljómborð og síðan kíkt inn á fund hjá FUF , félag um fötlunarrannsóknir, vegna undirbúnings fyrir ráðstefnu sem haldin verður 18 apríl n.k. Þá var vinkona mín komin svo við drifum okkur í búð til að velja á hana ný golfföt því nú er hún loksins að hefja sinn golfferil og byrjar með stæl í flottum fötum úr Nevada bob og hjá besta golfkennara sem hún getur fengið Ragnhildi Sigurðardóttur vinkonu minni í golfferð á Spáni. Fórum þaðan á Ruby Tuesday á Höfðabakkanum og ég gleypti í mig salat og brunaði síðan, með kálið í hálsinum, á sænskunámskeið sem nota bene var afar skemmtilegt, mikið hlegið bæði á íslensku og sænsku. Það var búið um 21.30 og þá var  ég orðin hálf þreytt en dreif mig samt í dansinn í Drafnarfellinu í smá tíma. Það er mjög góð leið til að hreinsa út þreytu og streitu að dansa við fjörug lög við flinka dansara.

Föstudagurinn var tekinn snemma og reynt að reka endahnúta á nokkur mál sem hafa verið að gerjast á skrifborðinu. Fundur með bókara, skrifstofustjóra og endurskoðenda og starfsmanni hjá honum og reynt að finna tíma fyrir fund til að kynna ársreikningana og gera áætlun um vinnu við þá. Þá tók við smá æfing fyrir keppnina sem auðvitað var ekki keppni heldur bara uppistand og stuðningur við þessa hugmynd unga fólksins. Á leiðinni heim til að gera sig klára fyrir matarboð hjá dótturinni kl 19.00 -hringdi hin dóttirin og bað mig að koma með sér á Borgarspítalann til að láta kíkja í eyrun á syni hennar og yndinu mínu , Björgólfi litla,  sem er 15 mánaða og fór í nefkirtlatöku á miðvikudaginn. Hann var svo æðislegur og sætur að það jafnast ekkert á við hann nema ef vera skildi synir hinnar dótturinnar sem eru 10 og 15 ára. Ég náði samt að komast í matinn , grillaðar lambalundir, en varð að stökkva af stað kl 19.50 til að koma á réttum tíma á skemmtikvöldið því ég var fyrst á dagskránni.  Ég flutti lag og texta sem ég samdi fyrir  tveimur árum og annað lag við texta sem ég samdi fyrir tuttugu árum. Þetta gekk ágætlega og ég tók meira að segja þátt í Carokee seinna um kvöldið . Það var bara auðvelt þar sem textinn rúllar á sjónvarpsskjá og undirleikur af hljómdiski. Komin heim hress og kát kl 24.00

Laugardagsmorgunn tekin eins og vanalega í að lesa blöðin og horfa á eina mynd á bíórásinni og væla smá yfir henni. ( alltaf einhverjar konumyndir á laugadögum þar) Kíkti síðan til Biggu dóttur minnar því ég vissi að hún var að passa Björgólf litla um nóttina .Þaðan beint á fund hjá Frjálslyndum í Kraganum í húsnæði flokksins í Skúlatúni 4 kl. 11.00 . Eftir hann var kvennahreyfing FF með opinn súpufund með fyrirlesara af bestu sort Guðmund Ólafsson hagfræðing. Hann var fasmikill og sjálfsöruggur eins og sá sem allt veit en fór allt of snemma. Ég var ekki hrifin af hans málflutningi að þessu sinni. Eftir þann ágæta fund fór ég beint á  langþráð námskeið í Swingi.. Laugardagskvöldið var rólegt og var ég bara að kíkja á blogg og hlusta á söngvakeppni framhaldsskólanna. Sunnudagurinn var góður. Fór og heimsótti Biggu dóttur mína sem enn var með Björgólf þannig að ég hitti öll barnabörnin í einu en það finnst mér auðvitað langskemmtilegast. Við hlustuðum saman á vinsælasta bloggara landsins Jónu Ágústu Gísladóttur í viðtali við hina vinsælu útvarpskonu Valdísi Gunnarsdóttur. Jóna þessi reyndist vera frænka okkar og við klökknuðum yfir örlögum hennar en ég þekkti móður hennar ágætlega og man vel þetta hörmulega slys. Kl 13,00 fór ég á seinni hluta námskeiðsins í swingi og þá voru fleiri mættir í dansinn og það var bara æðislegt. Hópurinn fór svo saman á mitt uppáhaldskaffihús, Milano, eftir námskeiðið. Þaðan fór ég heim og horfði á US Master í golfi. Datt útaf áður en leik lauk. Já það er gaman að lifa.        


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband