Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Tíminn líður trúðu mér

NæturhúmiðUndarlegt er þetta með tímann. Oftast hefur það verið þannig með mig að ég hef ekki haft nægan tíma fyrir það sem ég vil gera en samt hef ég komið mörgu í verk. Nú virðist þetta vera að breytast. Mér finnst ég hafa nægan tíma og nóg að gera líka. Þetta er líklega vegna þess að vinnan síðustu áratugina hefur tekið frá mér of mikinn tíma. 

Þegar ég ræði við fólk um framtíðina eru menn yfirleitt á einu máli um að rétt sé að hætta að vinna, sé nokkur kostur og reyna að njóta lífsins. Ég heyri þetta oft þessa dagana. Samt er ég ekki viss. Af hverju vinna menn þá fram í rauðan dauðann? Ekki er allt nauðsynlegt sem við erum að reyna að eignast eða halda í.

Um síðustu helgi spilaði ég golf með manni sem þuldi vísur í gríð og erg og skemmti mér mikið. Eina greip ég strax á lofti en hún er svona:

Tíminn er ennþá að eyðast/ og alltaf er dauðinn jafn hress.

Láttu þér ekki leiðast/ lífið er ekki til þess.

Þetta er sú heimspeki sem ég vil lifa eftir og það er alveg víst að mér mun ekki leiðast í þessu lífi. Jafn víst og að tíminn líður og dauðinn hangir á hinum endanum, því öll eigum við hann vísan.

Eflaust eru margir sem lifa lífinu með eilífan ótta og óvissu um hvað tekur við eftir dauðann. Margar trúarkenningar stýra lífi fólks með óljósum yfirlýsingum um eilífðina og heitt helvíti ef því er að skipta. Ég hinsvegar þykist hafa þetta á hreinu og kvíði ekki þeim kaflaskilum þó ég ætli ekki að sitja og bíða eftir þeim.

Þetta sést vel í gamalli þjóðvísu sem elur á óttanum og endar á tilmælum um barnaofbeldi:

Tíminn líður trúðu mér/ taktu maður vara á þér/

heimurinn er sem hála gler/ hugsaðu hvað á eftir fer.

Síðan koma leiðbeiningar um hvernig á að strýkja börnin, lemja og loka út, stinga þeim í mykju-og kolahauga og hræða þau á að draugurinn Boli komi og éti þau.

Óttalega finnst mér vitlaust að óttast eitthvað.

Sumir leggjast svo lágt að óttast umtal. Hvaðan ætli sú hugsun sé komin?

 


Vannýtt víti

Sorgmædd vinkona mínNú standa yfir meistaramót í flestum golfklúbbum landsins. Þess má sjá merki í veðurfari sem er óvenju rysjótt þessa dagana. Golfarar fara glaðbeittir af stað og takast á við ýmsar aðstæður sem þeir hafa ekki komist í kast við áður. Menn fjasa um hve "dræfin" reyndust óvenju stutt og innáskotin óvenju löng eða skökk og stutt í sandglompur því rennslið á flötum er með mesta móti.

Ég tók þátt í mótinu, keppti í öldungaflokki, og er því búin með minn leik sem voru þrír hringir.  Ég lenti í hremmingum sem ég hef ekki séð áður og hef þó mikla reynslu af lélegu keppnisgolfi. Engu öðru er um að kenna en minni lélegu dómgreind og óþarfa stressi. Ég fékk þó þokkalegt veður og völlurinn minn er ægifagur á að líta um þessar mundir.

Erfitt er líka að upplifa grimmd náttúrunnar í návígi. Endur sem orðnar eru óhræddar við mannfólkið eru nú að missa unga sína í stórum stíl í máfana sem hafa yfirtekið svæðið. Þær koma vappandi að sníkja bita með ungana í eftirdragi en þá er máfurinn  óðara kominn, grimmur og óseðjandi  og ekki þarf að efast um hans yfirburði í þeim hildarleik. Í dag kom vinkona mín ein til mín.

Sumir eru umburðarlyndir og segja að allir eigi sinn tilverurétt. Ég hinsvegar hef ímugust á máfum sem þrífast á ungum annarra fugla og dreifa rusli úr döllum vítt og breitt um völlinn. Svo toppa þeir sig með því að skíta á bílinn manns. Þeir eru Talibanar fuglalífsins og mega, eins og þeir, missa sig mín vegna.  

Einn golfari lenti í því að boltinn hans fór í máf. Fuglinn féll dauður til jarðar og boltinn með honum. Það þurfti að fjarlægja hræið til að hægt væri að slá boltann. Þar sem fuglinn var dauður mátti ekki hreyfa hann og það kostaði eitt högg í víti. Ég vildi að mín víti hefðu verið svona árangursrík en þau voru æði mörg og hefðu líklega dugað til að varghreinsa völlinn.

Ég náði þeim áfanga í þessu móti að fá að aðstoða við mótshaldið sem er ný reynsla. Í gær var ég að ræsa út þá sem voru að  byrja frá klukkan sjö til eitt. Á sunnudaginn var, eftir fyrsta hring hjá mér, var ég að skrá skor á töflu sem hangir uppi um úrslit dagsins. Þarna fékk maður yfirsýn frá hinni hliðinni og það eykur skilning og eflaust þolinmæði líka.

En lífið er yndslegt og gott að taka þátt í því.


Vertu sæll vinur

Arnór PéturssonÍ dag kvaddi ég merkilegan mann hinstu kveðju. Þetta er flottasta útför sem ég hef verið við enda skipulagði hinn látni allt sjálfur. Enginn "rekinn á lappir" drottni til dýrðar og enginn kirkjukór en Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tónbræður, fjórir karlar, sáu um sönginn. Tónlistin eintóm dægurlög, allt frá tónleikaupptökum með Tínu Turner til lags trúbadorsins Harðar Torfasonar, Lítill fugl.

Ég gat ekki annað en brosað þegar " Gullvagninn" við texta Jónasar Friðriks Guðnasonar var tekinn með trukki sem var einkar vel við eigandi á þessari stundu.  Útgöngumarsering var undir "Internationalinn/ Fram þjáðir menn í þúsund löndum o.s. frv" Þá tóku sumir undir sönginn sem sunginn var hástöfum og aðrir brustu í grát.

Flott fánaborg frá ýmsum samtökum sem höfðu notið krafta og baráttuvilja viðkomandi og kistan klædd íslenska þjóðfánanum.

Sjálfsagt fleiri en ég sem hafa fyllst stolti og þjóðerniskennd undir þessum gjörningi enda voru söngtextar allir á sömu nótum.

Í texta við lag undir moldun sagði m.a. " Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð. Þetta var áhrifaríkur texti sérstaklega í Víðistaðakirkju þar sem veggir eru þaktir ógeðslegum hryllingsmyndum af stríðsþjáðu og kvöldu fólki.

Arnór Pétursson fálkaorðuhafi, margverðlaunaður baráttumaður fatlaðra og stuðningsmaður IA um áratugaskeið er farinn á vit nýrra ævintýra. Ég þakka góð kynni og sendi innilegar samúðarkveðjur fjölskyldu hans og vinum.


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 121875

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband