Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Gamalt fólk

Glöð með gestina sína Ég hef hugsað mikið um það síðustu mánuði hvað gerist í huga gamals fólks sem er með heilabilun og getur ekki tjáð sig. Hvar er hugsunin? Veit viðkomandi hvar og hver hann er þó hann sé nánast eins og ungabarn eða smábarn í hegðun.

Móðir mín fékk heilabilun sem ágerðist smátt og smátt með árunum en svo hrakaði henni nokkuð hratt síðustu tvo mánuðina. 

Þegar hún kom hingað suður, fyrir einu og hálfu ári, þá gerði hún greinamun á okkur, fólkinu sínu, og svo hjúkrunar-og starfsfólki hjúkrunarheimilisins. Hún varð himinlifandi í hvert sinn sem ég kom í heimsókn og lyftist úr stólnum með hlátri og gleði þó hún væri kát alla jafna.

Ég varð vör við að hún var aldrei alveg viss hver ég var. Hún hélt oftast, af því ég var með glens við hana, að ég væri kannski eldri systir hennar sem er löngu látin.

" Nei þú fyrst" sagði hún við mig þegar ég var að ota að henni snafsi af sérrý. Við þrættum smástund en svo varð ég að gefa mig. Hún tók svo sinn sopa. Það var auðfundið að hún ætlaði ekki að láta skamma sig eina ef upp kæmist. Hún hélt örugglega að við værum unglingar heima á stórtemplaraheimilinu hennar í Hafnarfirði. Ég otaði þessu sulli ekki oftar að henni.

Þegar ég kom með barnabörnin, tvo hlaupandi káta stráka tveggja og þriggja ára, varð hún himinlifandi og vissi hún að þeir tilheyrðu henni. Reyndar lifnaði yfir öllum hópnum í borðsalnum þegar þeir komu, og stundum hugsaði ég með mér að sumir hefðu ekki brosað frá því þeir voru í heimsókn síðast.

Hún naut þess greinilega þegar þeir voru með henni. Þeir skiptust á að standa aftan á hjólastólnum og "keyra" en hinn gekk með og leiddi hana eftir göngunum á Sunnuhlíð.  Ekki er ég frá því að hún hafi hreykt sér í huganaum þegar hún var með hópnum sínum og fékk alla athygli á staðnum. Hún hafði afar gaman af að láta taka af sér myndir og skoða þær strax á skjánum. Hún var stundum á því að koma bara með "heim" en sættist alltaf á að hinkra þar til við kæmum næst.

Það er ekki gott að segja hvað fer um hugann hjá gömlu fólki en stundum má lesa í svipbrigði og aðra hegðun. En það er alveg víst að fólk sem er komið í þá stöðu að geta hvorki tjáð sig, gert kröfur um þjónustu, né lýst skoðun sinni er á viðkvæmu stigi í tilverunni. Þá eru heimsóknir aðstandenda það eina sem gefur einhverja gleði í tilveruna.

Móðir mín lést þann 30.apríl 2011 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Þá var ég í Flórída en bróðir minn og systrabörn voru hjá henni þegar hún skildi við. Það var friðsæl stund og tók fljótt af.


Aftökur og annað skemmtilegt

Florida2011 005Nýlega kom ég heim frá Flórída sem er sannkallað gósenland golfarans. Ég dvaldi ásamt vinum í flottu húsi við golfvöll sem heitir Roosevelt. Teigur á fjórðu braut var beint fyrir framan stofugluggann c.a. 10 metra frá lóðarmörkum. Um 100 metrum frá var annar níu holu völlur sem heitir Truman. Báðir ágætir. Ótal vellir eru þarna með skemmtilegum brautum og í fallegu umhverfi.

Þeir láta mikið með forseta sína kanarnir og ekkert er svo sem út á það að setja. Þeir eru þó eflaust misjafnlega hrifnir af Obama, þar sem hann er ekki alveg að enduróma vilja Ísraelsmanna gagnvart Palestínuríki í umræðunni núna. Sjálfri finnst mér þetta bara gott hjá honum. Það sýnir ákveðið sjálfstæði og hugrekki að rísa upp gegn ríkjandi viðhorfum og heilaþvotti eins og mér finnst svo ráðandi þarna vestur frá. 

Mér fannst hinsvegar ekki flott hjá forsetanum að týna líkinu af Osama bin Laden í hafið og hafa ekkert í höndunum um að hafa drepið hann og hans konu. Þetta mikla afrek hersins var lofað margsinnis á dag á hverri einustu sjónvarpsstöð sem náðist í okkar húsi. Ekki bara einn dag heldur marga daga í röð. Ég var bara um það bil að hrífast með.

Ég var í tvær vikur í The Villages rétt utan við Orlando og kunni ágætlega við mig. Hitinn hátt í og yfir 30 ° og sól alla daga sem var heldur mikið. Þetta er auðvitað alger draumur fyrir þá sem eru með gigt og ýmis öldrunarvandamál enda fannst mér ég vera c.a. 10 árum of snemma á ferðinni en hugsa mér gott til glóðarinnar síðar InLove 


Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband