Leita í fréttum mbl.is

Nýr tónn í kirkjunnar mönnum

Nú árið er liðið og allt gott með það. Það er nú gangur lífsins. Mannfólkið samt við sig með sínar hefðir og kreddur og það á þá við mig líka. Það er t.d hefð hjá okkur, dætrum mínum og pabba þeirra, að fara saman í messu á aðfangadagskvöld, þó ekki alltaf í sömu kirkjuna.

Í ár fórum við í Bústaðakirkju. Þar fóru stórfrændur míns fyrrverandi á kostum, þeir séra Pálmi Matthíasson sem messaði og stórtenórinn Kristján Jóhannsson sem söng. Báðir brilleruðu.

Sr.Pálmi lagði einmitt út af hefðum í sínu ávarpi og hve það hefði haldist um aldir, að viðhalda því sem gott er og gagnlegt. Hann talaði líka um að láta ekki minnihlutann ráða með því að sitja sjálfur heima og hafast ekki að eða hafa ekki skoðun. 

 Á Gamlársdag fór ég ein í Bústaðakirkjuna og það var mjög góð messa. Sr. Pálmi gerði grín að stefnu " Besta flokksins " og jafnvel að litlu óháðu framboðunum sem ætluðu að breyta heiminum en breyttu engu. Hann talaði enn um þá óhæfu að láta örfáa einstaklinga með sérskoðanir ráða, t.d. því að annarra manna börn mættu ekki koma í kirkjuna og var þar líklega að vísa til nýlegrar "leikskólakrísu" um kirkjuferðir skólabarnanna. Hann gat þess að Eiríkur Jóhannsson frá Raufarhöfn, nú prestur í Hruna, myndi starfa í sókninni næstu 2 mán. meðan hann færi sjálfur til Ameríku í leyfi.

Sr. Pálmi virðist hafa breyst úr brosandi elskurríkum guðsmanni í harðan og ákveðinn baráttumann fyrir kirkjunni og óyggjandi valdi hennar. Einnig fyrir óbreyttu stjórnmálakerfi fjórflokksins og fastheldni á reglur og siði. Mér kom í hug hvort þetta væri lína nýja biskupsins. 

Í dag, Nýársdag ,mætti ég enn á ný í þessa ágætu kirkju og nú til að hlýða á Óttar Guðmundsson lækni ræða um trúna og tilgang hennar, væri hann nokkur. Hann ræddi t.d. um forfeður okkar og vísaði til breytinga á viðhorfi til þeirra í gegnum tímans rás. Þetta var stórskemmtilegur fyrirlestur og ég sá að séra Eiríkur hló og skemmti sér við altarið eins og við hin í kirkjunni, en hann var svona " starfsmaður í þjálfun" áður en hann tekur við keflinu. Það var yndislegt að sjá hann í þessari fallegu kirkju og óska ég honum velfarnaðar í vandasömu starfi.


Eitt fannst mér þó heldur lakara en ég er vön en það er að engin messuskrá lá frammi. Það hefur viðgengist í  Kópavogskirkju og sjálfsagt víðar, en það er mjög hvetjandi til að fólk taki þátt í söng og messusvörum eins og vera ber. Annars er ég mjög ánægð með andlegt fóður þessi jólin og þakka fyrir mig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæl Kolbrún! Langt er síðan að ég fór árlega í Bústaðakirkju og hlýddi á messu.Móðir mín bjó þarna og fórum við systkyn með henni á svokalluðum kaffidegi Dýrfirðingafélagsins. .Eftir messu var gengið að kaffiborði hlöðnu kökum sem meðlimir félagsins bökuðu. Séra Pálmi frændi minn messað mörg seinustu árin sem mamma lifði. Já ömmur okkar sr.Pálma og einnig Kristjáns stórsöngvara voru/eru systur,ólust upp á Végeirsstöðum í Fnjóskadal,vonandi man ég það rétt. Hef sótt fundi upp í Lindakirkju í vetur,alveg stórkostlega góðar,fræðandi og skemmtilegar stundir. Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 2.1.2013 kl. 14:20

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Helga. Já veistu ég var einmitt að hugsa um það í messunum um helgina að það væri synd hve messuformið er stíft. Ég held að flestir prestar séu afburða fróðir og mikið pælandi menn en það sést svo lítið í messunni sjálfri nema helst í stólræðunni og þá er misjafnt hverju hægt er að koma frá sér á þeim knappa tíma..Þú ert þá líklega skyld mínum fyrrverandi en mamma hans er systir mömmu Kristjáns og er frá Hlöðum á Grenivík... passar það ekki ? kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 2.1.2013 kl. 21:59

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hæ! Smellpassar, Fanney Oddgeirs og raunar er Jóhann skyldur okkur líka. Fjölskylda mín fór einhverju sinni í Grenivik á ættarmót,en ég komst ekki í það sinni. Skólasystir mín Lára er gift einum bróður Fanneyjar,Björgvini,dóttir þeirra Sigurbjörg (Sibba) er gift bróðursyni mannsins míns heitins Sævari að nafni. Það var glatt á hjalla í afmæli drengsins líklega 40.tugum hitti þá skemmtilegu frændur hennar Sibbu t.d. söngvarann sem var lengi í Danaveldi, Magnús. Læt það nægja núna,maður rétt að jafna sig eftir jammið,þegar boðið er upp á margrétta,þetta er ekki hægt að stilla sig ekki,en nú fer maður í létta fæðið. Bestu kveðju til frænda,og/eða frænku.

Helga Kristjánsdóttir, 3.1.2013 kl. 00:45

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Skemmtilegt er þetta Helga... Fanney og Hlaðgerður tengda mín fyrrverandi eru systur og ég var eitt sinn á ættarmóti á Grenivík, rosalega gaman en mörg ár síðan það var... Allt saman skínandi fínt fólk held ég bara... bestu kveðjur, og ég kem kveðjunni til skila ,Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.1.2013 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kolbrún Stefánsdóttir
Kolbrún Stefánsdóttir
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálum og stjórnun fyrirtækja.  Ég bý í Kópavogi. Áhugamál mín eru golf, dans, göngur, ferðalög, blak auk ýmissa boltaíþrótta. Hjartansmálin eru svo dæturnar tvær og ömmudrengirnir fjórir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 121926

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband